Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Síða 33

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Síða 33
33Ljósmæðrablaðið - júlí 2017 að taka þátt í hópmeðgönguvernd samhliða áhættumæðraverndinni. (Andersson o.fl., 2013; C. Klima o.fl., 2009; Rising, 1998; Rising o.fl., 2004; Teate o.fl., 2011). Fræðsla og umræður eru aðallega í höndum ljósmæðra, en að auki geta aðrir fagaðilar komið að fræðslu til hópsins, svo sem næringarfræðingar, félagsráðgjafar eða fjölskylduráðgjafar (Rising, 1998). Umræðuefnin eru fjölbreytt, t.d. eðlilegur fósturþroski, breytingar á líkama konunnar á meðgöngu en einnig sálfélagslegir þættir svo sem andleg líðan, samskipti og heimilisofbeldi (Andersson o.fl., 2013; Rising, 1998). Upphaf hópmeðgönguverndar Hópmeðgönguvernd kom fyrst fram á áttunda áratugi síðustu aldar og á rætur sínar að rekja til Minnesota í Bandaríkjunum. Hópur ljósmæðra og barnahjúkrunarfræðinga hóf þá að bjóða konum upp á slíka þjónustu til að bregðast við auknum kröfum kvenna um virka þátttöku í heilsuvernd, aukna fræðslu og samfellda þjónustu (Manant og Dodgson, 2011; Rising, 1998). Upphaflega var um að ræða hópmeðgönguvernd fyrir pör á síðasta þriðjungi meðgöngu og fyrstu þrjá til fjóra mánuðina eftir fæðingu. Ríkti mikil ánægja með þetta fyrirkomulag meðal skjólstæðinga og fagfólks. Ein þeirra ljósmæðra sem hafði starfað í þessari hópmeðgönguvernd, Sharon S. Rising, kom í kjölfarið á fót þjónustu sem náði til allrar meðgöngunnar og kallaði hún fyrirkomulagið síðar CenteringPregnancy. Hópmeðgönguvernd hefur síðan verið í stöðugri þróun um allan heim, bæði í upphaflegri mynd sem og með breyttum aðstæðubundnum áherslum að frumkvæði þeirra ljósmæðra sem sinna meðgönguvernd á hverjum stað. Hópmeðgönguvernd hefur ekki verið tekin upp á Íslandi en fyrirkomulagið fellur vel að þeim gildum sem íslenskar ljósmæður starfa eftir í meðgönguvernd þar sem lögð er áhersla á samfellda þjónustu, heilsufarsmat, fræðslu og stuðning. Fyrirhugað er að prófa slíkt fyrirkomulag sem hluta af doktorsverkefni í ljósmóðurfræði haustið 2017 og taka fjórar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu þátt í forprófuninni. Sú forprófun mun leiða í ljós hvernig þetta fyrirkomulag hentar við íslenskar aðstæður. Líklegt þykir að hópmeðgönguvernd henti íslenskum konum þar sem þær eru duglegar að nota bumbuhópa á samfélagsmiðlum og sækja skipulagða fræðslu utan hefðbundinnar meðgönguverndar (Helga Gottfreðsdóttir 2011). Í rannsókn sem unnin var í samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var skoðað hvert notagildi skipulagðar foreldrafræðslu er frá sjónarhorni foreldara sem höfðu tekið þátt í slíkum námskeiðum. Flestir nýbakaðir foreldrar sem tóku þátt í rannsókninni telja að fæðingarfræðsla eigi að fara fram á hópnámskeiði eða 88,29% feðra og 90,68% mæðra en rúm 70% karla og kvenna telja að sú fæðingarfræðsla sem nýttist þeim best í fæðingunni hafi verið fræðslan á hópnámskeiðinu. Í sömu rannsókn telja 51,35% mæðra og 66,95% feðra að fæðingarfræðsla eigi að fara fram hjá ljósmóður í meðgönguvernd en 36,0% feðra en aðeins 27,1% mæðra telja að sú fræðsla sem nýttist þeim best í fæðingu hafi komið frá ljósmóður í meðgönguvernd. (Helga Gottfreðsdóttir 2011). Í meistararannsókn Emblu Ýrar Guðmundsdóttur frá árinu 2014 kemur fram að einungis 35% verðandi foreldra sæki skipulagt foreldrafræðslunámskeið utan meðgönguverndar. Í verkefninu var unnið með gögn úr rannsókninni Barneign og Heilsa en upplýsingum var safnað frá konum um allt land. Almennt fannst frumbyrjum í rannsókninni þær hafa gagn af þátttöku á skipulögðum foreldrafræðslunámskeiðum á meðgöngu en hins vegar var enginn munur á líðan og upplifun þeirra af fæðingu eftir því hvort þær sóttu skipulagt foreldrafræðslunámskeið á meðgöngu eða ekki (Embla Ýr Guðmundsdóttir, 2014). Hópmeðgönguvernd gæti verið vettvangur til að veita konum öruggan vettvang til að kynnast öðrum konum sem eiga von á barni á svipuðum tíma þar sem þær geta notið stuðnings hver frá annarri og frá þeim ljósmæðrum sem hópnum sinna. Þar gefst meira svigrúm til fræðslu en í hefðbundinni meðgönguvernd, konurnar geta rætt hugðarefni sín og þegið fræðslu og ábendingar um gagnlegar upplýsingar, en jafnframt gefur þessi vettvangur öllum konum sem sækja meðgönguverndina jafna möguleika á upplýsingum sem nýtast þeim í fæðingu er varðar ákvarðanir um verkjameðferðir, leiðir til að draga úr kvíða og áhyggjum o.fl. Kenningagrunnur Kenningagrunnur hópmeðgönguverndar er feminismi, hugmyndafræði ljósmóðurfræðinnar og hugrænar félagsnámskenningar (e. social cognitive theory). Feminismi í hópmeðgönguvernd birtist í áherslum á sjálfræði og sjálfsstyrkingu kvenna þar sem konurnar eru hvattar til að taka ábyrgð á eigin heilsuvernd og líðan og styðja aðrar konur í hópnum til hins sama. Umræður í hópnum mótast eftir þörfum þeirra kvenna sem í honum eru og fræðsla frá ljósmóður er veitt með umræðum frekar en beinni fræðslu. Þetta er mikilvægur þáttur sem greinir hópmeðgönguvernd frá hefðbundnum námskeiðum. Með virkri þátttöku í meðgönguvernd eykst sjálfsöryggi kvenna og trú á eigin hæfni til að ganga með, fæða og annast barn og fjölskylduna í heild. Samkvæmt hugmyndafræði ljósmóðurfræðinnar er meðganga og fæðing eðlilegt ferli og hlutverk ljósmóðurinnar í hópmeðgönguvernd er að skapa heppilegt umhverfi til umræðna. Ljósmóðirin kemur með sinn faglega bakgrunn, en það eru þarfir þeirra kvenna sem eru í hópnum í hvert sinn sem liggja að baki umræðum og sú sameiginlega reynsla og þekking sem myndast í hópnum getur orðið valdeflandi fyrir alla þátttakendur - barnshafandi konur, stuðningsaðila og ljósmæður. Að lokum samræmist það hugrænum félagsnámskenningum að hópurinn veiti hverri konu þann félagslega stuðning sem hún þarfnast og að konan finni að hún tilheyri hópnum og sé mikilvægur hluti af honum. Rannsóknir sýna að konur sem fá góðan félagslegan stuðning eru líklegri til að hafa meira sjálfstraust og ganga betur bæði á meðgöngu og í fæðingu (Rising o.fl., 2004). Virk þátttaka í heilsufarsmælingum á meðgöngu Vísbendingar eru um að þegar barnshafandi kona annast sjálf heilsufarsmælingar í samvinnu við ljósmóður þá dregur það úr áhættuhugsun og styrkir þá hugmyndafræði að meðgangan sé eðlilegt ferli (Rising, 1998). Þá er valdefling kvenna ekki síður mikilvægur ávinningur sem felst í aukinni þekkingu á meðgöngutengdum áhættuþáttum og vakningu til ábyrgðar á eigin heilsufari (Ickovics o.fl., 2007; C. S. Klima, 2003; Novick o.fl., 2011; Rising o.fl., 2004; Robertson, Aycock og Darnell, 2009; Teate o.fl., 2011). Slík valdefling er mikilvægur þáttur í heilbrigði mæðra og fjölskyldunnar sem heild þar sem konan er betur í stakk búin til að annast heilsueflingu barna sinna líkt og sína eigin (C. S. Klima, 2003). Þegar konur sjá sjálfar um hluta heilsufarsmælinga gefst meiri tími til umræðna með ljósmóður og öðrum konum í hópnum (Baldwin, 2006; Teate o.fl., 2011). Rannsóknir sýna að konum þykir jákvætt að gera heilsufarsmælingar sjálfar og einnig að mælingar séu gerðar innan hópsins. Konurnar öðlast aukinn skilning á tilgangi áhættumats í meðgönguvernd, axla aukna ábyrgð á eigin heilsu, finna fyrir auknu valdi yfir eigin meðferð og fylgjast betur með breytingum á líðan sinni. Konunum þykir lærdómsríkt og hughreystandi að sjá og heyra hvað mælingar eru misjafnar á milli kvenna, en þó allar innan eðlilegra marka. Algengt er að konur fái til dæmis athugasemdir frá samferðafólki sínu um það hvernig þær beri börn sín, að mikið eða lítið sjáist á þeim og að barnið hljóti að vera lítið eða stórt. Að hafa fylgst með skoðunum í hópi kvenna og séð að þetta getur verið afar mismunandi en samt eðlilegt, getur reynst konum hjálplegt við að takast á við slíkar athugasemdir (Novick o.fl., 2011; Rising, 1998). Aukin fræðsla og stuðningur í meðgönguvernd Hópmeðgönguvernd er kjörin leið til að auka tíma fyrir fræðslu og umræður en skortur á tíma til fræðslu og umræðna er eitt helsta umkvörtunarefni kvenna í hefðbundinni meðgönguvernd (Hildingsson og Radestad, 2005). Nýleg íslensk rannsókn rennir frekari stoðum undir það að barnshafandi konur á Íslandi telja að ekki sé nægum tíma varið í að veita upplýsingar og undirbúning fyrir fæðingu í meðgönguvernd. Í rannsókninni höfðu um 87% barnshafandi kvenna væntingar um að fá upplýsingar um fæðinguna í meðgönguvernd, en

x

Ljósmæðrablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.