Morgunblaðið - 14.12.2018, Síða 36
36 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 14. DESEMBER 2018
Valgerður Þ. Jónsdóttir
vjon@mbl.is
„Tíminn er grunnþemað í myndinni,
sem byrjar í draumi næturinnar og
endar á því að Matthías lýkur við
ljóð undir miðnættið. Í lokin brjót-
umst við út úr
hringtíma dags-
ins og til ársins
2012; teygjum
okkur út úr þess-
um tímaramma
sem við vorum
stödd í – þessum
eina degi um
aldamótin síð-
ustu,“ segir Er-
lendur Sveinsson
kvikmyndagerð-
armaður, annar tveggja framleið-
enda heimildamyndarinnar Þvert á
tímann, sem fjallar um skáldið og
ritstjórann Matthías Johannessen.
Myndin verður frumsýnd kl. 13.30
sunnudaginn 16. desember í Há-
skólabíói og er það eina sýning
hennar í kvikmyndahúsi.
Þótt ekki hefði þurft að kynna
Matthías fyrir Íslendingum réðst
Erlendur ásamt Sigurði Sverri
Pálssyni kvikmyndatökumanni í
gerð myndarinnar aldamótaárið
2000. Í lok þess árs lét Matthías af
störfum sem ritstjóri Morgunblaðs-
ins eftir 41 ár. Í ritstjórastóli gat
hann sér orð fyrir að standa dyggan
vörð um íslenska menningu og
tungu og bera hag bókmennta og
lista fyrir brjósti. Á sama tíma sendi
hann frá sér fjölda ljóðabóka, þá
fyrstu, Borgin hló, árið 1958, skáld-
sögur, leikrit, ritgerðir, ævisögur og
samtalsbækur. Og hann er enn að,
ljóðabókin Enn logar jökull, er ný-
komin út. Matthías er 88 ára.
Einn dagur
Kvikmyndin hverfist um heim rit-
stjórans og heim skáldsins. „Við fé-
lagarnir förum ákveðna leið í gerð
heimildamynda, ekki þessa venju-
legu, sem allir búast við í slíkum
myndum. Til dæmis eru engir við-
mælendur í myndinni um Matthías,
ekki einu sinni hann sjálfur. Hlut-
verk okkar kvikmyndagerðarfólks
er að reyna að finna myndrænar
lausnir til að segja sögur þar sem
áhorfendur geta sett sig í spor þess
sem um er fjallað og fengið innsýn í
líf hans og störf.“
Þótt myndin lýsi bara einum degi,
er hún tekin upp á mörgum dögum.
Kúnstin felst í frásagnartækni kvik-
myndagerðarmannanna sem er á
mærum leikinna mynda og heim-
ildamynda. Þeir Erlendur og Sig-
urður Sverrir eru engir nýgræð-
ingar.
Erlendur, sem er forstöðumaður
Kvikmyndasafns Íslands, á yfir-
gripsmiklar heimildamyndir að baki
og hafa þeir Sigurður Sverrir unnið
saman að þeim öllum. Af þeim má
nefna myndaflokkinn Verstöðina Ís-
land og Ísland þúsund ár. Árið 2001
gerði hann kvikmyndina Málarinn
og sálmurinn hans um litinn, sem
fjallar um föður hans, Svein heitinn
Björnsson listmálara. Myndin er
hvorki ævisöguleg né listfræðileg.
Ekki frekar en myndin um Matt-
hías, Þvert á tímann.
Tvær systurmyndir
„Þegar við vorum að vinna að
myndinni um föður minn, fengum
við áhuga á að gera mynd um Matt-
hías. Þeir voru góðir vinir og ég hef
alltaf litið á þessar tvær myndir
sem nokkurs konar systurmyndir,
enda aðferðafræðin á svipuðum nót-
um.“
Að sögn Erlends tók Matthías vel
í að þeir Sigurður Sverrir gerðu um
hann kvikmynd. „Ég fann strax að
hann treysti okkur. Hann hafði séð
hvernig við unnum í Málaranum og
svo höfðum við báðir skrifað um
kvikmyndir í Morgunblaðið. Hann
virti fyrri verk okkar og var aldrei
með afskiptasemi. „Erlendur, þetta
er þín mynd,“ sagði hann ævinlega
þegar verkið bar á góma. Markmið
okkar var að búa til mynd sem lýsti
Matthíasi eins og hann kom okkur
fyrir sjónir á þeim tíma sem myndin
er gerð. Og hugmyndin að Matthías
fengi að vera eins mikið hann sjálf-
ur og hægt væri – ritstjórinn og
skáldið.“
Vegna erfiðleika í fjármögnun
seinkaði myndatökunni árið 2000
frá vori til hausts, sem var þó ekki
viðlíka seinkun og á endanlegum
frágangi myndarinnar til sýningar.
Sautján ár eru liðin frá því þeir fé-
lagar tóku upp skáldahlutinn. En
það er önnur saga. Í millitíðinni, eða
árið 2009, varð mikil breyting á lífi
Matthíasar þegar eiginkona hans,
Hanna Ingólfsdóttir Johannessen,
lést. Þau hjónin höfðu verið svo náin
og samrýnd að þeim Erlendi og Sig-
urði Sverri þótti nauðsynlegt að
bregðast við.
Eins og fluga á vegg
„Árið 2012, sama ár og Matthías
sendi frá sér ljóðabókina Söknuð,
tókum við því upp viðbótarefni, sem
við tvinnuðum síðan inn í myndina.
Með þessu brjótumst við út úr
spennitreyju eins dags, þar sem rit-
stjórinn og skáldið slást um tímann
og bætum við nýjum efnisþætti þar
sem skáldið eitt ræður ríkjum.“
Margir sem enn vinna á Morg-
unblaðinu muna þegar Sigurður
Sverrir elti Matthías á röndum með
upptökuvélina, var eins og fluga á
vegg á fundum og reyndi aug-
ljóslega að láta alls staðar lítið fyrir
sér fara. „Sverrir vann að mestu
einn að þessum upptökum og sá
bæði um hljóðupptöku og lýsingu.
Eftir nokkra daga voru starfsmenn
farnir að venjast þessum þögla,
langa manni, sem sniglaðist um og
varð fljótlega hluti af þeirra daglega
vinnuumhverfi.“
Heimur ritstjórans og skáldsins
fléttast saman myndina út í gegn.
Upphaflega stóð til að draga upp
eins skörp skil og hægt væri á milli
þessara tveggja heima, bæði mynd-
rænt og efnislega, og nota tvenns
konar tækni í því skyni.
„Við ætluðum að taka skáldahlut-
ann upp á super 16 mm filmu en rit-
stjórahlutann með stafrænni tækni.
Þar sem okkur tókst ekki að fjár-
magna myndina almennilega urðum
við að taka hana alla stafrænt. Þetta
var í árdaga stafrænnar kvikmynda-
gerðar og því vorum við ekki með
öll þau tæki sem núna þykja ómiss-
andi. En útkoman er alveg prýðileg.
Til þess að gera skilin milli heim-
anna tveggja sýnileg, tókum við
skáldahlutann upp með sama hætti
og við værum að taka á filmu; spar-
lega og alla myndina nákvæmlega
eftir handriti. Ennfremur skiptum
við stjórn myndarinnar á milli okk-
ar, ég stjórnaði skáldahlutanum og
Sigurður Sverrir ritstjórahlutanum.
Og til að undirstrika muninn á rit-
stjóranum og skáldinu enn frekar,
er ritstjórinn í svarthvítu og skáldið
í lit.“
Sýsl við raunveruleikann
Spurður hvort Matthías og þeir
sem sjást í bakgrunni ritstjórahluta
myndarinnar hafi verið meðvitaðir
um að verið væri að kvikmynda þá,
segir Erlendur að svo hafi ekki ver-
ið nema kannski í blábyrjun. Matt-
hías hafi til dæmis leikið sjálfan sig
afar vel og þeir Sigurður Sverrir
verið afskaplega ánægðir með
frammistöðu hans.
Í ljósi þess sem Erlendur áður
sagði um að Matthías hefði fengið
að vera sem mest hann sjálfur er
hann spurður hvort ekki séu öf-
ugmæli að tala um „leik“.
„Í myndum af svipaðri gerð, sem
stundum hafa verið kallaðar stýrðar
heimildamyndir, leikur fólkið sjálft
sig, en lýtur um leið stjórn kvik-
myndagerðarmannsins og gerir það
sem það er beðið um að gera. Kvik-
myndagerðarmenn eru að sýsla með
raunveruleikann, nema þeir ákveði
að vera eins og hlutlausir áhorf-
endur. Það finnst mér ekki
skemmtilegt. Kvikmyndin er galdur
þegar áhorfendur sogast inn í þann
heim sem hún speglar og trúa á
hann. Ef sá heimur er ekta fyrir þá
finnst mér björninn unninn – að
galdurinn hafi orðið til,“ útskýrir
Erlendur og bætir við að vitaskuld
séu þeir Sigurður Sverrir alltaf bún-
ir að rannsaka viðfangsefnið áður.
„Við erum ekki að búa til eitt-
hvað óekta. Auk þess erum við í
myndinni Þvert á tímann að gefa
innsýn í veröld sem var. Þar sem
Morgunblaðið var áður í Kringl-
unni eru öll ummerki þess horfin.
Matthías hefur fyrir löngu staðið
upp úr ritstjórastólnum, en skáldið
lifir enn, frjótt og hugmyndaríkt
sem aldrei fyrr. “
Skáldið Matthías stóð upp úr ritstjórastólnum fyrir mörgum árum, en hefur fjarri því sagt skilið við skáldskapinn.
Ritstjórinn Matthías á ritstjórnarfundi á Morgunblaðinu. Frá vinstri: Björn
Vignir Sigurpálsson, Guðrún Hálfdánardóttir og Karl Blöndal.
Tveggja heima maður
Þvert á tímann er kvikmynd eftir Erlend Sveinsson um skáldið og ritstjórann Matthías
Johannessen Myndin verður frumsýnd kl. 13.30 sunnudaginn 16. desember í Háskólabíói
Erlendur
Sveinsson
SÉRBLAÐ
–– Meira fyrir lesendur
NÁNARI UPPLÝSINGAR:
Katrín Theódórsdóttir
Sími: 569 1105 kata@mbl.is
Í blaðinu verður
kynnt fullt af þeim
möguleikum sem í
boði eru fyrir þá sem
stefna á heilsuátak
og bættan lífsstíl.
PÖNTUN AUGLÝSINGA:
Fyrir fimmtudaginn 20. desember
fylgir Morgunblaðinu
miðvikudaginn 2. janúar 2019
Heilsa& lífsstíll