Morgunblaðið - 14.12.2018, Síða 38
38 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 14. DESEMBER 2018
Sindragata 12c | Ísafirði | Sími 456 1300 | smidjan@velsmidjan.is
FYRIR BÍLINN
FJARLÆGIR
MENGUN
ÁHRIF
AUKA SKILVIRKNI HEMLUNAR
KREFST EKKI
AÐ TAKA Í SUNDUR
BREMSU
HREINSIEFNI
FYRIR BÍLA
Töfraborðið
Þarna stendur hann á sínum stað í
stofunni, þrífættur og glansandi völ-
undarsmíð, þögull vinur. Hann er
svartur og svo gljáfægður að það má
spegla sig í honum. Þar er ekkert spé
að finna. Okkar kynni má rekja til árs-
ins 1989, bræður hans höfðu þjónað
mér, einn af öðrum árin mörg á und-
an, allir svartir. Mér finnst að þeir eigi
að vera svartir. Það er magnað að
hugsa til þess hvað
þessi tiltölulega
einfaldi kassi hefur
mikið aðdráttarafl,
er mér ómót-
stæðilegur.
Hvað er svona
merkilegt við
hann? kynni ein-
hver að spyrja.
Mitt svar gæti
verið: Hann hefur að geyma næstum
öll lög heimsins og getur verið ígildi
heillar hljómsveitar. Tónn hans er í
eðli sínu hlutlaus, en hann getur
brugðið sér í ýmis gervi. Hljómborðið
er einskonar töfraborð og kassinn
sjálfur fullur af gersemum. Það virðist
sem aðeins þurfi að kunna „lykilorðin“
og hafa lag á að laða til sín dýrðina,
lokka tónana út og láta þá óma.
Fyrir mér er fátt meira ögrandi en
opinn, góður nýstilltur flygill og það
skemmir ekki að hann standi í fallegu
vel ómandi rými.
Við eigum daglega náin samskipti
þegar ég er heima og oftar en ekki
þegar ég fer af bæ, fer ég til að bera
okkar samlífi vitni. Hann tekur þessu
af hógværð og ótrúlegu umburð-
arlyndi sem lýsir sér í því að hann er
alltaf jafn tilbúinn að taka í hönd mína
og takast á við ný verkefni stór og
smá.
Maður notar ekki afl eða líkamlega
burði í glímunni við tóninn í píanóinu,
heldur lag. Það er gott að vera lag-
hentur, en það eitt er ekki nóg. Að
auki þarf ákveðna snerpu, snögg við-
brögð og rétta vigt af öllu tagi í hönd-
um, öxlum, örmum og baki til að fá
ríkan blæ og réttan styrk í spilið.
Tónninn í píanóinu myndast við högg
hamars á streng þegar nóta á hljóm-
borðinu er slegin. Tónmyndunin er
ekki ósvipuð því að gefa kristalsglasi
selbita, létt og fjaðrandi. Því sneggra
sem slegið er þeim mun sterkari er
tónninn.
Hér er athyglinni aðeins beint að
því hvernig tónninn í hljóðfærinu er
vakinn. Síðan hefst látlaus vinna við
mótun hans. Það er mikil sköp-
unarvinna og hún er síný og endalaus.
Að ganga í lið með hömrunum er lítil
kúnst þó því sé ekki að leyna að sum
viðfangefni krefjast þess. En að fá pí-
anóið til að syngja og fá jafna og fal-
lega áferð á spilið reynist mörgum erf-
itt, jafnvel þótt þeir sitji við ævilangt.
Það nægir að líta á sköpulag hand-
anna til að sjá hve misjafnt er gefið og
slæmt þykir að hafa þumal á hverjum
fingri. Slíkar hendur nýtast illa í pí-
anóleik. Það þarf fulla einbeitni og
skapandi kröfuharða hlustun, mikla al-
úð og að því er virðist endalausa
vinnusemi, svo hugur og hönd nái að
fullu þeirri auðsveipni og þroska sem
þarf. Hljóðfærið er harður húsbóndi,
en verður trúr vinur sé rétt að farið og
ræktarsemi sýnd.
Reynslan hefur sýnt að það er hægt
að hafa mjúkan, harðan, silkimjúkan,
kolharðan, syngjandi, daufan, bjartan,
dökkan, fallegan, ljótan tón. Valmögu-
leikarnir eru takmarkalausir og það
undarlega er að það er not fyrir þá
alla.
Eins og áður sagði myndast tónninn
við högg hamars á streng og svo er eðli
hans að hann er sterkastur fyrst en
dvínar fljótt þannig að til þess að spila
samfellda lifandi sönglínu verða tón-
arnir að vera í rökréttum hlutföllum
og í fullkominni sátt hver við annan.
Síðan bætist við galdur sem ekki verð-
ur útskýrður í orðum en gefur línunni
inntak. Línan verður að vera lifuð,
sungin innra með spilaranum, lituð
frásögn og hann þarf að sigla beitivind
við hamrana og gildir þá einu hvort
leikið er bundið, legato, eða aðgreint,
staccato, sterkt, forte, eða veikt, piano.
Ekki er farsælt ef línan er stöllótt, þá
hljómar hún eins og tungubrjótur.
Jafna þarf viðbrögð fingranna og
hlusta grannt. Eyrað er ávallt hinn
strangi dómari. Það nægir ekki að
heyra eða hlusta á tóninn, það verður
að „hlusta tóninn!“ Hlusta verður jafn-
vel áður en tónn er vakinn því þá er
maður strax ögn nær markmiðinu.
Þýðingamikill hluti píanósins er
pedallinn. Er hugsanlegt að þar sé
mikilvægan part af sálinni í hljóðfær-
inu að finna? Það er mikill lærdómur
að umgangast hann og nota rétt.
Notkun pedalans fyllir tóninn, gefur
honum flug og fleytir honum. Óná-
kvæm pedalnotkun getur drekkt öllu
spilinu. Hann þarf að umgangast af
nákvæmni, rétt eins og aðra hluta
hljóðfærisins.
Harpan í hljóðfærinu er heilsteypt
grind úr málmi. Það er nauðsynlegt
svo spennan á strengjunum, sem
nemur tugum tonna, nái ekki að
bjaga hana. Það yrði hvellur ef þeir
slitnuðu allir í senn! Hljómbotninn er
úr sérvöldum viði og má segja höggv-
inn úti í skógi af öfum þeirra sem nú
smíða. Viðurinn þarf alveg sérstaka
meðhöndlun sem tekur langan tíma.
Góðir hlutir gerast hægt. Hljómbotn-
inn er hugsanlega viðkvæmasti hluti
hljóðfærisins, hann gegnir mjög mik-
ilvægu hlutverki, ekki að öllu leyti
ólíkt þind söngvarans að störfum. Pí-
anóið er viðkvæmur gripur sem getur
auðveldlega farið í fýlu – jafnvel
bestu hljóðfæri. Hljóðfærinu verður
að líka spilarinn. Hann má ekki vera
grófur eða harðhentur. Það tekur
ekki langan tíma „að berja tóninn úr
hljóðfærinu“ sé vilja beitt. Að hafa
mikinn tón hefur ekkert með krafta
að gera, heldur lag og umfram allt
stranga hlustun. Píanóið þarf að stilla
reglulega, strengina og spilverkið en
einnig „inntónera“ sem kallað er, það
er að jafna mýkt eða hörku hamranna
svo hljóðfærinu líði vel.
Aðspurður einhvern tímann í
blaðagrein, hvort það hafi ekki verið
ótrúleg bjartsýni að leggja fyrir sig
píanóleik sem ævistarf, svaraði ég: „Í
mínu tilfelli var það ekki nein sérstök
bjartsýni, heldur ákveðið afbrigði af
heimsku. Ég vissi ekki hvað píanisti
var annað en maður sem spilar á pí-
anó og satt að segja vakti það enga
sérstaka athygli eða aðdáun hjá
mér.“
Ég var söngvið barn og hafði yndi
af tónlist. Píanóið var tilviljun. Ég
hafði ekki snert það þegar ég var
fjórtán ára, varla séð píanó.
Kynni mín og hljóðfærisins voru
hefðbundin. Léttar æfingar og nótna-
lestur. Ekki rekur mig minni til þess
að lesturinn hafi nokkurn tíma verið
mér fjötur, hann er það mörgum. Það
er einna líkast því að nemendur verði
stjarfir eða frjósi og erfiðið við að lesa
og leika samtímis hefur að ósekju
komið óorði á það að „þurfa“ að
kunna nóturnar.
Píanóið var mér stundum afundið.
Hvernig átti annað að vera, ég orðinn
stífur og klaufi sökum aldurs og fyrri
starfa í sumarvinnu við sveitastörf,
fiskvinnslu og meira að segja sjó-
mennsku. Píanóið mildaðist og gerði
sér dælt við mig smám saman en það
kostaði vinnu, maður minn! Fræði-
lega séð átti ekki að vera mögulegt að
ástir tækjust með okkur, hvað þá að
nokkur von væri til þess að sambýlið
bæri ávöxt.
[…]
Píanóið hefur gefið mér tækifæri
til að eignast gríðarlega stóran hóp
samstarfsvina. Stærsti hópurinn þar
eru söngvararnir blessaðir sem eru
orðnir býsna margir á löngum tíma,
en einnig píanóleikarar, blásarar og
strengjaleikarar og nýir höfundar,
ungir og gamlir.
Söngvararnir eru mér sérstaklega
kærir. Það er mjög nærandi fyrir pí-
anóleikara að vinna út frá söngnum.
Það verður aldrei meira áberandi ef
hljóðfærið syngur ekki en þegar spil-
að er með söng. Maður kynnist
söngvurunum innan frá ef svo má
segja því þeir geyma hljóðfæri sitt
innra með sér. Þeir hafa aldrei séð
það, en verða að gefa sig því á vald
hver og einn. Við hljóðfæraleik-
ararnir þurfum hjálp hinna ýmsu
hljóðfæra til að gera okkur sönginn
mögulegan. Sönginn okkar, því við
erum alltaf að reyna að syngja með
okkar hætti eða ættum að vera það.
Söngurinn er kjarni málsins.
Píanistar verða að velja raddir með
áslættinum einum og leggja við hlust-
ir. Organistar þurfa líka að leggja
eyrað við en þeirra er að velja raddir
og blæ áður en hafist er handa með
því að „registrera“ sem kallað er, eft-
ir því sem við á. Þetta er ekki sagt
orgelinu til hnjóðs heldur aðeins til að
benda á hve eðli hljóðfæranna er af-
skaplega ólíkt. Snertingin, áslátt-
urinn er líka gjörólíkur.
Góðir píanistar spila fimm radda
fúgu með þremur mismunandi stefj-
um samtímis, þannig að hver rödd
syngur sitt stef og lifir sínu lífi með
fullu tilliti til hinna. Þetta er mjög
flókið en verður að vera átakalaust,
með ríkulegt inntak í góðum flutn-
ingi. Flutningurinn breytist nánast í
helgistund fyrir flytjanda og hlust-
anda, sé leikið í réttum anda. Spilið
þarf að virka eins og að ekkert sé
sjálfsagðara og áferðin eins og að
fimm einstaklingar eigi í hlut, hver
með sitt stef, allir í senn. Þetta syngja
góðir menn með höndum sínum, eyra
og hjarta þótt ótrúlegt sé.
Hver höfundur hefur í verkum sín-
um sinn tón og sitt músíkalska ferli.
Píanistinn þarf að vera fær um að
skipta um blæ, skipta um hanska ef
svo má segja, út í það óendanlega til
að vera fær um að nálgast verk meist-
aranna, stíl þeirra, blæ og anda
hverju sinni. Gefa sig síðan hljóðfær-
inu á vald, eigi honum að takast að ná
sambandi við höfundinn. Hver höf-
undur er heimur út af fyrir sig og svo
er ekki síður um verk þeirra. Sérhver
sónata Beethovens er sjálfstætt lista-
verk sem gerir sínar kröfur, lifir sínu
lífi, ber sín skilaboð.
Píanóið
var tilviljun
Jónas Ingimundarson á að baki langt og farsælt
starf sem píanóleikari, kennari og kórstjóri.
Í bókinni Þankar við slaghörpuna fjallar Jónas
um tónlist frá ýmsum sjónarhornum.
Morgunblaðið/Ómar
Samskipti Jónas Ingimundarson var söngvið barn og hafði yndi af tónlist, en fjórtán ára hafði hann varla séð píanó.
Hin árlegu bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana
voru afhent fyrr í vikunni í 19. sinn.
Íslensk skáldverk
1. Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur
2. Kláði eftir Fríðu Ísberg
3. Þorpið eftir Ragnar Jónasson
Ljóðabækur
1. Sálumessa eftir Gerði Kristnýju
2. Smáa letrið eftir Lindu Vilhjálmsdóttur
3. Því miður eftir Dag Hjartarson
Íslenskar ungmennabækur
1. Ljónið eftir Hildi Knútsdóttur
2. Rotturnar eftir Ragnheiði Eiríksdóttur
3. Sölvasaga Daníelssonar eftir Arnar Má Arngrímsson
Íslenskar barnabækur
1. Ljóðpundari eftir Þórarin Eldjárn
2. Sagan um Skarphéðin Dungal eftir Hjörleif Hjartarson
og Rán Flygenring
3. Þitt eigið tímaferðalag eftir Ævar Þór Benediktsson
Handbækur
1. Flóra Íslands eftir Hörð Kristinsson, Jón Baldur Hlíð-
berg og Þóru Ellen Þórhallsdóttur
2. Stund klámsins eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur
3. Gleðin að neðan eftir Ninu Brochman og Ellen Stökken
Dahl
Ævisögur
1. Hasim eftir Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur
2. Hornauga eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur
3. Skúli fógeti eftir Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur
3. Hundakæti eftir Þorstein Vilhjálmsson
Þýdd skáldverk
1. Allt sundrast eftir Chinua Achebe
2. Smásögur heimsins Asía og Eyjaálfa eftir ýmsa höfunda
3. Homo sapína eftir Niviaq Korneliussen
3. Etýður í snjó eftir Yoko Tawada
Þýddar barnabækur
1. Múmínálfarnir – stórbók eftir Tove Janson
2. Miðnæturgengið eftir David Walliams
3. Handbók fyrir ofurhetjur eftir Elias og Agnes Vahlund
Auður Ava Hildur Knútsdóttir Gerður Kristný
Ungfrú Ísland besta skáldsagan