Morgunblaðið - 14.12.2018, Blaðsíða 10
10 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 14. DESEMBER 2018
Skúli Halldórsson
sh@mbl.is
Í
samtali við 200 mílur segir Guð-
björg ánægjulegt að sjá að
sjávarútvegur hér á landi skapi
sífellt meiri verðmæti, þrátt
fyrir stöðugan afla.
Hún segist fyrst hafa kynnst Ís-
lenskum sjávarútvegi með almenni-
legum hætti þegar hún hóf störf við
vöruþróun fiskvinnslubúnaðar hjá
Marel.
„Ég fór að skilja betur hvað hann
er verðmætur fyrir okkur sem þjóð-
félag,“ segir Guðbjörg, en spurð
hvort hún verði þess vör að sam-
félagið meti ekki sjávarútveg og
tengdar greinar sem skyldi, miðað
við þau verðmæti sem þar eru á
ferð, nefnir hún dæmi um könnun
sem Marel hefur látið gera um við-
horf hérlendis gagnvart fyrirtæk-
inu.
„Í 98% tilvika er fólk jákvætt eða
mjög jákvætt gagnvart Marel. En
svo þegar spurt er hvers vegna, þá
er viðkvæðið oft „fiskur“ eða „hug-
búnaður“. Svarið verður einhvern
veginn miklu óljósara. Fólk veit því
greinilega að þetta skiptir máli en
ég hugsa að það sé ekki endilega að
kafa mikið dýpra,“ segir hún.
„Á sama tíma er ferðaþjónustan
mjög áberandi og um leið áhrifin af
vexti þeirrar greinar á samfélagið.
Ég hugsa því að fólk sé almennt já-
kvætt gagnvart grósku í sjávar-
útvegi en hafi ekki endilega dýpri
þekkingu en sem því nemur. Það er
heldur ekki endilega auðvelt að tala
um tækni og nýsköpun ýmiss konar.
Það er ekki beinlínis umræða sem
fólk stekkur inn í, enda er hún ef til
vill ekki oft á nógu miklu manna-
máli.“
Í fararbroddi í hvítfiskvinnslu
Guðbjörg segist finna að erlendur
sjávarútvegur horfi til Íslands þegar
kemur að tæknivæðingu í veiðum og
vinnslu. „Hvítfiskvinnslan er til að
mynda lengst komin hér á landi,
miðað við vinnslur í öðrum löndum.
Sú reynsla og þekking sem byggst
hefur upp í hvítfiskinum nýtist síðan
þegar litið er til vinnslu á annars
konar sjávarafurðum,“ segir Guð-
björg. Þannig séu Íslendingar í far-
arbroddi í vinnslu á hvítfiski.
„Ég hugsa að það fari fáir í heim-
inum að vinna hvítfisk að ráði án
þess að frétta hvað er að gerast á Ís-
landi. Sjávarútvegurinn hefur alltaf
verið mjög mikilvægur fyrir þjóð-
arhag Íslands, og hann stendur
ennþá undir 40% af vöruútflutningi
frá landinu.“
Verðmæti í tækni og þekkingu
Hluti af starfsemi Marels byggist á
sjálfvirknivæðingu fiskvinnslu og
bendir Guðbjörg á að víða sé þeirri
tækni jafnan sýndur mikill áhugi,
sérstaklega þar sem launakostnaður
er hár.
Aðspurð segir hún að nýsköp-
unarumhverfið á Íslandi sé heil-
brigt, og að svo virðist sem stjórn-
völd séu sífellt meðvitaðari um
mikilvægi nýsköpunar í heild. Marel
finni fyrir miklum meðbyr og sam-
talið um nýsköpun hér á landi sé
nokkuð jákvætt.
Þá finnist henni skemmtilegt að
sjá, á sama tíma og útlit sé fyrir að
aflamagn við Íslandsstrendur muni
ekki endilega aukast á komandi ár-
um, að sjávarútvegur hérlendis sé
samt sem áður að skapa sífellt meiri
verðmæti. Annars vegar með betri
nýtingu afurða, með hjálp tækninn-
ar, og hins vegar með útflutningi á
sjálfri tækninni og þeirri þekkingu
sem þar býr að baki.
„Og við eigum svo mikið inni.
Þekkingin verður alltaf meira og
meira virði. Það er svo ótrúlega víða
sem sjálfvirknivæðingin á í raun enn
eftir að eiga sér stað. Þannig er
staðan í mörgum löndum í kringum
okkur. Það bíður okkar því fjöldi
tækifæra þar sem við lítum svo á að
við eigum mikið fram að færa.“
Beingarður skorinn með vatni
Guðbjörg segir FleXicut-lausnina,
sem hún leiddi fyrir nokkrum árum,
vera æðislegt dæmi um sjálfvirkni-
væðingu.
„Í margar aldir hafa menn skorið
beingarð úr fiskflaki með höndum.
Og nú er það gert með vatni. Fram-
leiðendur ná fram miklu betri nýt-
ingu og það er miklu meira magn
sem getur farið í gegnum vinnsluna.
Þú þarft ekki að þjálfa starfsfólk í
störf sem eru ekki eftirsótt. FleX-
icut er ótrúlega gott dæmi um hvað
sjálfvirknivæðing getur haft mikið
að segja.“ Spurð hvaða byltingu
Marel muni næst leiða fram á sjón-
arsviðið bendir hún á nýjungar hjá
fyrirtækinu á borð við að nota mikið
magn miðlægra gagna til að spá um
viðhald og varahlutaþörf tækja sem
búið er að selja notendum.
„Hér áður fyrr gastu ef til vill
fengið skýrslu frá hverju tæki fyrir
sig að degi loknum, þegar gögnin
voru búin að hlaðast upp. En núna,
með hjálp 4G-nettækninnar og síðar
5G, þá geta allar upplýsingar flætt í
rauntíma inn á skrifstofuna, þar sem
vinna má með þær um leið. Þarna er
Marel – með stærsta hugbún-
aðarhús landsins – með ótrúleg
tækifæri í höndunum.“
Framfarir í sjóntækni eru þá
einnig í deiglunni, segir Guðbjörg.
„Ef þú ætlar að sjálfvirknivæða, þá
þarftu að sjá. Vélin getur ekki tekið
ákvörðun um eitthvað upp úr þurru,
hún þarf að geta séð hvað hún er að
vinna með. Hérna er til dæmis hægt
að nota gervigreind til að vinna úr
upplýsingum sem koma frá mynda-
vél, sem getur þannig tekið betri
ákvarðanir í vinnslunni og með meiri
áreiðanleika.“
Hanna fiskvinnslu framtíðar
Guðbjörg bendir loks á að í ár séu
fjörutíu ár liðin síðan fyrsta raf-
eindavogin sem hönnuð var af stofn-
endum Marels leit dagsins ljós.
„Það er í raun ótrúlegt hvað þeir
voru framsýnir og nútímalegir í
hugsun, þar sem vogin safnaði einn-
ig gögnum sem síðan voru notuð til
að bæta vinnsluna, minnka sóun og
auka virðið. Við höfum frá fyrsta
degi horft á gögn sem uppsprettu
virðisaukningar. Enn í dag byggjum
við á þessum grunni, auk þess sem
við erum að taka helstu tækninýj-
ungar samtímans og færa þær í vél-
ar fyrirtækisins,“ segir hún.
„Verkefnið er ærið og verðugt.
Við erum að tryggja að matvæli séu
framleidd á hagkvæman og sjálf-
bæran máta. Aðeins þannig getum
við tryggt að nóg verði til þegar
mannkynið verður tíu milljarðar ár-
ið 2025. Það er verkefnið fyrir fisk-
vinnslu framtíðarinnar og hana er-
um við að búa til í Marel, í samstarfi
við viðskiptavini okkar.“
Stofnendurnir ótrúlega framsýnir
Í sjávarútvegi erlendis er
horft til Íslands þegar
kemur að tæknivæðingu
í veiðum og vinnslu.
Þetta segir Guðbjörg
Heiða Guðmundsdóttir,
sem tók við stöðu fram-
kvæmdastjóra Marels í
september.
Morgunblaðið/Eggert
Framkvæmdastjóri „Við höfum frá fyrsta degi horft á gögn sem uppsprettu virðisaukningar. Enn í dag byggjum við á þessum grunni,“ segir Guðbjörg Heiða.
Hvítfiskvinnsla Frá sýningu Marels í Kaupmannahöfn, sem haldin er árlega.
Guðbjörg hefur starfað hjá Marel
frá árinu 2011 og er með meist-
aragráðu í iðnaðarverkfræði auk
prófs í verðbréfaviðskiptum. Hún
hefur víðtæka reynslu af stjórn-
un, vöruþróun og nýsköpun en
áður en hún tók við starfi fram-
kvæmdastjóra stýrði hún
vöruþróunarstarfsemi félagsins á
Íslandi og Bretlandi í tvö ár.
Einnig starfaði Guðbjörg í
vöruþróun fiskvinnslubúnaðar
þar sem hún var verkefnastjóri
eins stærsta vöruþróunarverk-
efnis Marels undanfarin ár,
FleXicut-vatnsskurðar-
lausnarinnar, sem sögð er munu
umbylta hvítfiskvinnslu á heims-
vísu.
Muni umbylta
fiskvinnslu