Morgunblaðið - 14.12.2018, Page 22
22 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 14. DESEMBER 2018
Eltak sérhæfir sig í sölu
og þjónustu á vogum
Bjóðum MESTA úrval
á Íslandi af smáum
og stórum vogum
V
ottun alþjóðlegu stofn-
unarinnar MSC, Marine
Stewardship Council, um
sjálfbærar grásleppuveið-
ar Íslendinga, var felld
niður í janúar á þessu ári. Hafði
hún þá verið í gildi frá árinu 2014
en var bundin skilyrðum sem upp-
fylla þurfti á fimm ára tímaramma.
Í samtali við 200 mílur segir Ax-
el að það sem fellt hafi vottunina
hafi verið uppreiknaður meðafli á
landsel, útsel og teistu, sem farið
hafi yfir varúðarmörk að mati vott-
unarstofunnar Túns.
„Það er mat hennar að miðað við
fyrirliggjandi gögn fari stofnstærð
þessara tegunda minnkandi og ekki
sé hægt að útiloka að grá-
sleppuveiðar eigi þar hlut að máli.
Að vísu má bæta því við að skarfur
fær einnig þannig einkunn að vott-
unin myndi verða felld eftir fimmta
árið,“ segir Axel.
Tíu selir verða að 620 selum
Við mat á meðafla er notast við
upplýsingar úr meðaflaskýrslum
fuglafriðunarsamtakanna Birdlife
International og Hafrannsókna-
stofnunar, en gögn stofnunarinnar
byggjast á gögnum úr veiðieftirlits-
ferðum Fiskistofu þar sem meðafli
úr 57 veiðieftirlitsferðum árið 2016
er lagður til grundvallar.
„Aðferðafræðin er sú að þessum
veiðieftirlitsferðum er deilt í fjölda
landana það árið, sem voru rúm-
lega 3.500, og þannig fæst stuðull-
inn 62 sem notaður er til að upp-
reikna allan afla úr umræddum
veiðieftirlitsferðum,“ segir Axel.
Árið 2016 veiddust tíu landselir
sem meðafli í eftirlitsferðum Haf-
rannsóknastofnunar, og voru þeir
reiknaðir upp í fjöldann 620 á
landsvísu. Talið er að stofninn telji
rúmlega 7.600 dýr og því veiddust
þetta ár átta prósent af stofninum
sem meðafli, samkvæmt útreikn-
ingum Hafrannsóknastofnunar.
„Algjörlega útilokað“
Alls veiddust á sama tíma 46 útsel-
ir, þar af nánast allir í þremur eft-
irlitsferðum við Vestfirði og í inn-
anverðum Breiðafirði, og voru þeir
reiknaðir upp í fjöldann 2.870 á
landsvísu. Axel segir þá niðurstöðu
afar merkilega, enda hafi stærð
stofnsins síðast verið metin í kring-
um 4.200 seli, árið 2012. Samkvæmt
þessum útreikningum ættu því 68%
stofnsins að veiðast á hverju ári
sem meðafli.
„Nú er komið nýtt stofnmat sem
hljóðar upp á 6.000 seli og er því
um að ræða 50% fjölgun á sex ár-
um. Það vekur upp spurningar um
áreiðanleika þessara talna sem ver-
ið er að vinna með.
Þetta stenst enga skoðun. Ef
þetta væri rétt gerðu menn vart
annað en að draga sel um borð,“
segir Axel.
„Í Hafró-skýrslunni segir að vísu
að tölurnar séu svo háar að þetta
sé næstum ómögulegt. En setja
þau setja tölurnar samt sem áður
fram.“
Hann bendir einnig á að á árum
áður, þegar selveiðar voru taldar til
hlunninda, hafi margoft komið fram
að selastofnarnir þyldu vel um tíu
prósenta veiðiálag ef að mestu
væru veiddir kópar eða vetrungar.
Fjórfaldur munur á gögnum
Sextán teistur veiddust í þeim eft-
irlitsferðum sem Hafrannsókna-
stofnun uppreiknar, og voru þær
reiknaðar sem 998 teistur í heildina
eða tvö prósent af stofninum. At-
huganir Birdlife skiluðu hins vegar
35 teistum og þar af 29 í inn-
anverðum Breiðafirði. Þær reiknast
sem 4.244 teistur, eða um 9% af
efri mörkum stofnstærðar.
„Þarna er um að ræða rúmlega
fjórfaldan mun, miðað við skýrslu
Hafró,“ segir Axel og bendir á að
vegna varúðarreglu virðist sem
vottunarstofan notist ávallt við
hæstu mögulegu tölur sem gefist,
hvort sem þær komi frá fuglafrið-
unarsamtökum eða Hafrann-
sóknastofnun. Axel segist einnig
hafa furðað sig á forsendum upp-
reikningsins. Sannað sé að teista
veiðist ekki á meira dýpi en sem
nemur 15 metrum og að með-
aldýpið sem hún veiðist á sé í
kringum sjö til átta metrar.
„Árið 2016 eru dýpisskráningar
úr afladagbókum 3.587 talsins, allt
frá fjórum metrum og niður á 157
metra. Aðeins 697 af þessum
skráningum voru á minna dýpi en
fimmtán metrar. Hinar 2.890 ferð-
irnar, eða áttatíu prósent af öllum
veiðiferðum, hefðu því átt að vera
útilokaðar við uppreikning á teistu
sem meðafla. Það var ekki gert og
það finnst okkur óskiljanlegt,“ seg-
ir Axel.
Hefðu ekki átt að teljast með
„Við fáum þau svör að ekki séu til
betri gögn. Þetta er mjög bagalegt
og ber vott um lélega vísinda-
mennsku. Þau hafa ef til vill ekki
betri gögn, en þau hefðu getað
unnið öðruvísi úr gögnunum,“ segir
Axel. „Það er hægt að skipta gögn-
unum upp eftir tíma, tegundasvæð-
um, dýpi og hvaðeina. En við von-
umst til að þær veiðieftirlitsferðir
sem farnar voru síðastliðið sumar
skili niðurstöðum sem auðveldara
verður að nota, með tilliti til at-
hugasemda sem við höfum gert við
uppreikning meðaflans.“
Bendir hann á að víða erlendis
þekkist það, þegar meðafli sé upp-
reiknaður, að undanskilin séu þau
svæði þar sem viðkomandi tegund
haldi sig ekki.
„Það sem við mótmælum sér-
staklega er að svæðin fyrir norðan
og austan, sem hafa ekki teistuna,
skarfinn og útselinn í sama magni,
séu ekki undanskilin. Samanlagður
veiðileyfafjöldi á þessum svæðum
er 53% af heildinni á landinu. Það
hefði varla neitt átt að uppreiknast
á þessi svæði.“
Varúðarmörk ekki skilgreind
Augljóst sé af þessu, segir Axel, að
uppreikningur á meðafla úr eft-
irlitsferðum sé afar vandmeðfarinn.
Ef notast eigi eingöngu við eft-
irlitsferðir Fiskistofu þurfi þekja
þeirra, sem nú er 1,7% af veiðiferð-
um, að aukast.
„Veiðieftirlitið miðast við
áhættumat út frá þorskmeðafla en
ekki meðafla sjávarspendýra og
sjófugla. Það er alveg ljóst að ef
ekki á að byggja á gögnum frá
þeim sem stunda þessar veiðar
verður að skipuleggja eftirlitið á
annan hátt.“ Veiðieftirlitið þurfi að
framkvæma af handahófi til að út-
reikningarnir verði sem réttastir.
„Markmið veiðieftirlits og vísinda
fara illa saman hvað varðar aðferð-
ir upplýsingasöfnunarinnar.“
Axel gagnrýnir einnig að um-
rædd varúðarmörk sem notuð eru
til viðmiðunar séu hvergi skil-
greind.
„Ég hef reynt að fá uppgefið frá
Náttúrufræðistofnun og þeim að-
ilum sem sjá um vottunina; þegar
við erum með stofnstærðir af ein-
hverri tiltekinni stærð, hvað þolir
viðkomandi stofn? Hvað er ásætt-
anlegt veiðiálag? Við þessum
spurningum fást engin svör. Samt
eru þetta grundvallarspurningar.
Svo virðist sem þetta sé algjörlega
matskennt. Það er engin tala eða
nokkur mörk sem miðað er við.
Matið virðist vera hundrað prósent
huglægt.“
Þurfi uppfærð stofnmöt
Í aðgerðaáætlun, sem samþykkt
hefur verið af vottunarstofunni og
er ætlað að stuðla að því að end-
urheimta vottun MSC, er í grófum
dráttum lagt til að bætt verði
skráning á meðafla hjá sjómönn-
um, net verði ekki lögð grynnra en
á 15 metra dýpi og að lokað verði
þeim svæðum þar sem vænta megi
meiri meðafla sels og skarfa.
Axel segir að innan raða smá-
bátasjómanna sé yfirgnæfandi
meirihluti fyrir því að farið verði
varlega í að verða við þessum kröf-
um.
„Þau gögn sem liggja að baki
niðurfellingu vottunarinnar benda
til þess að byrja þurfi á að fá upp-
færð stofnmöt á þeim tegundum
sem um ræðir og að uppreikna
þurfi meðafla í samhengi við teg-
undadreifingu, dýpi og árstíma,“
segir hann.
„Sjómenn okkar eru þeirrar
skoðunar að meðafli við veiðar
þeirra á þeim tegundum sem hér
um ræðir geti ekki verið aðal-
ástæða fyrir fækkun í viðkomandi
stofnum, ef um fækkun er að ræða.
Nefna má að litið hefur verið á sel-
inn sem meindýr í íslenskri nátt-
úru af hálfu greinarinnar og yf-
irvalda og að greitt var fyrir að
drepa hann allt til síðustu ára-
móta.“
Þá megi enn hver sem er veiða
sel án veiðileyfis, og séu þar engar
magntakmarkanir á.
Er vottunin nauðsynleg?
„Einnig má nefna að við skotveiðar
á teistu var árlega veitt meira en
tvöfalt það magn sem Hafró reikn-
aði út sem meðafla við grá-
sleppuveiðar, en skotveiðar á teistu
hafa verið bannaðar frá síðasta
ári.“
Axel segir að eftir að vottun
fékkst bendi ekkert til þess að það
verð sem grásleppusjómenn fá fyr-
ir sinn hlut hafi hækkað. Varan sé
að vísu mjög háð framboði og eft-
irspurn og því sé erfitt að reikna
út áhrif vottunarinnar einnar og
sér.
„Við getum held ég öll verið
sammála um að hér við land verði
stundaðar sjálfbærar veiðar, á grá-
sleppu sem og öðrum tegundum.
En því má ekki gleyma, að vottun
um sjálfbærni annars vegar og
sjálfbærar veiðar hins vegar er
ekki sami hluturinn. Við getum og
munum viðhalda sjálfbærum veið-
um án þess að til þurfi að koma al-
þjóðlegt fyrirtæki, sem innheimtir
svo gjald í hlutfalli við verðmæti
þeirrar vöru sem seldar eru með
merkjum vottunarinnar.“
Þurfa sjálfbærar veiðar vottun?
Hvers virði er alþjóðleg
vottun um að grá-
sleppuveiðar Íslendinga
séu sjálfbærar? Getur
það staðist að árið 2016
hafi 2.870 útselir veiðst
í grásleppunet hér við
land, eða 68% af stofn-
inum? Að þessu spyr
Axel Helgason, formað-
ur Landssambands
smábátaeigenda.
Morgunblaðið/Ófeigur
Formaður Axel segir að hægt sé að viðhalda sjálfbærum veiðum án tilkomu fyrirtækis, sem innheimti gjald fyrir vottunina.
Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
Grásleppuvertíð á Húsavík Veiðarnar misstu vottun MSC í janúar á þessu ári.
Morgunblaðið/RAX
Landselur í Norðurfirði Tíu landselir urðu að 620 í uppreikningi stofnunarinnar.