Morgunblaðið - 02.01.2019, Blaðsíða 19
19
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 2. JANÚAR 2019
Það hafa orðið
ánægjuleg umskipti í
íslenskum stjórnmálum
eftir mörg ár óróleika
og sundurlyndis. Frá
því ríkisstjórn Katrínar
Jakobsdóttur var
mynduð hefur skapast
festa í löggjafarstarfinu
en öflug stjórnarand-
staða veitir málefna-
lega andstöðu. Fyrir
utanaðkomandi virðist sem myndun
ríkisstjórnar flokka sem lengst af
hafa verið, og eru, á öndverðum
meiði hafi tekist vel og að tækifæri
hafi skapast til öflugrar framfara-
sóknar á mörgum sviðum. Áform eru
uppi um sókn í húsnæðismálum,
bygging nýs þjóðarsjúkrahúss er
hafin, stefnt er að átaki í vega- og
samgöngumálum og svo mætti áfram
telja.
Það er full ástæða til að þakka for-
ystumönnum stjórnmálaflokkanna
þessa kærkomnu breytingu. Hún fel-
ur í sér að verið er að nálgast við-
fangsefnin málefnalega, verkefnin af
virðingu og gæta yfirleitt hófs í orða-
vali og deilum sín í milli.
Þetta má bera saman við mikil
átök annars staðar. Í Bretlandi virð-
ist allt á hverfanda hveli og enginn
veit hvernig deilunni um útgöngu úr
Evrópusambandinu muni lykta. Í
Bandaríkjunum eiga sér stað hat-
römm átök milli stjórnmálahreyf-
inga. Í Frakklandi hefur verið ófrið-
legt um nokkra vikna skeið. Svipuð
dæmi má nefna víðar.
Hér á landi hefur verið mikill og
langvarandi hagvöxtur sem meðal
annars hefur komið fram í því að allir
hafa nóg að gera, hagur almennings
hefur batnað og afkoma ríkissjóðs og
sveitarfélaga hefur verið góð. Fólk
og fyrirtæki hafa greitt skuldir. At-
vinnulífið hefur ráðist í fjárfestingar,
fjárfest í nýsköpun og markaðssókn
og búið þannig í haginn fyrir vöxt til
frambúðar. Lífskjör hafa batnað.
Þrátt fyrir ofangreint eru fram-
undan miklar áskoranir. Á lista um
samkeppnishæfni þjóða hefur Ísland
ekki sótt fram sem skyldi en sam-
keppnishæfnin hefur afgerandi áhrif
á lífskjör íbúanna. Hér þarf að ríkja
efnahagslegur stöðugleiki. Það þarf
að vera frjór jarðvegur til verðmæta-
sköpunar, eflingar þekkingar og ný-
sköpunar sem byggist á góðu
menntakerfi og hvata til rannsókna.
Vextir þurfa að vera hóf-
legir og taka mið af því
sem gerist í nálægum
ríkjum og stöðugleiki
þarf að einkenna rekstur
hins opinbera, skatt-
kerfið og vinnumark-
aðinn. Einnig þarf
stefna ríkisstjórnarinnar
í efnahagsmálum, pen-
ingastefna Seðlabank-
ans og launastefna á
vinnumarkaði að vera í
takt.
Takist að bregðast rétt við þessum
áskorunum er unnt að auka fjöl-
breytni í atvinnulífinu, útflutnings-
starfsemin mun eflast, arðsemi batna
og verðmætasköpun aukast. Um leið
skapast forsendur fyrir áframhald-
andi lífskjarabata fyrir alla.
Framundan eru kjarasamningar á
vinnumarkaði. Samtök atvinnulífsins
hafa ákveðið að nálgast viðræðurnar
af ábyrgð og hófsemd. Það er ekki
svigrúm til mikilla launahækkana en
með því að endurskoða ýmis ákvæði
kjarasamninga, meðal annars um
skilgreiningu vinnutíma, má skapa
forsendur til kjarabóta handa þeim
sem helst þurfa á því að halda. Það er
alveg skýrt að Samtök atvinnulífsins
munu ekki gera kjarasamninga við
viðsemjendur sína sem taka væntan
ávinning jafnharðan til baka í hækk-
uðu verðlagi.
Það þarf sterka forystu bæði at-
vinnurekenda og verkalýðshreyf-
ingar til að leggja grunn að kjara-
samningum til næstu ára. Það er ekki
styrkleikamerki að boða átök heldur
þvert á móti. Það munu allir tapa
komi til átaka á vinnumarkaði, allra
mest þeir sem lakast standa og síst
skyldi.
Það þarf kjark til að semja í friði.
Það er erfiðara að vinna friðinn en
stríðið.
Ég óska landsmönnum öllum
gleðilegs árs.
Eftir Eyjólf Árna
Rafnsson
» Frá því ríkisstjórn
Katrínar Jakobs-
dóttur var mynduð hef-
ur skapast festa í lög-
gjafarstarfinu en öflug
stjórnarandstaða veitir
málefnalega andstöðu.
Eyjólfur Árni Rafnsson
Höfundur er formaður
Samtaka atvinnulífsins.
Að vinna friðinn
Á þessu ári eru þrjá-
tíu ár liðin frá því að
Barnasáttmálinn var
samþykktur á allsherj-
arþingi Sameinuðu
þjóðanna þann 20.
nóvember 1989. Þess-
um merka áfanga verð-
ur fagnað með ýmsu
móti víða um heim enda
hafa öll ríki heims, utan
Bandaríkjanna, stað-
fest sáttmálann og er Barnasáttmál-
inn á þrjátíu ára afmælinu því orðinn
útbreiddasti mannréttindasáttmáli í
heiminum. Embætti umboðsmanns
barna stendur á tímamótum við upp-
haf afmælisársins því á síðustu starfs-
dögum Alþingis fyrir jól voru sam-
þykktar breytingar á lögum um
embættið sem munu styrkja það
verulega auk þess sem þingið hafði
samþykkt auknar fjárveitingar til
embættisins í fjárlögum stuttu áður.
Með breytingum á lögum um um-
boðsmann barna er kveðið skýrar á
um hlutverk embættisins með sér-
stakri áherslu á réttindi barna, m.a.
með vísun til Barnasáttmálans og
fleiri alþjóðasamninga sem lúta að
réttindum barna, eins og til dæmis
samningur Sameinuðu þjóðanna um
réttindi fatlaðs fólks. Með samþykkt
laganna hefur embættinu verið falið
sérstakt hlutverk við að afla og miðla
gögnum um stöðu tiltekinna hópa
barna hverju sinni í samvinnu við
ýmsa aðila. Þau gögn munu liggja til
grundvallar samræmdri og mark-
vissri stefnu í málefnum barna hjá
stjórnvöldum. Þá hefur verið lögfest
virkt samráð við börn en embættið
hefur haft hóp barna sér til ráðgjafar
um árabil. Loks er kveðið á um að
umboðsmaður barna boði annað hvert
ár til þings um málefni barna þar sem
farið verði yfir stöðu og þróun í mál-
efnum barna á helstu sviðum sam-
félagsins og þá verða niðurstöður
þingsins kynntar ríkisstjórn og hlut-
aðeigandi ráðherrum. Fyrsta þingið
um málefni barna – barnaþing – verð-
ur haldið í nóvembermánuði á þessu
ári og verður án efa einn stærsti við-
burður afmælisársins. Gera má ráð
fyrir um 400-500 þátttakendum en í
nýsamþykktum lögum er kveðið á um
virka þátttöku barna í skipulagningu
og framkvæmd þingsins og að börn
verði meðal gesta og
mælenda þess. Umboðs-
manni barna er ekki
kunnugt um að sambæri-
legt þing hafi verið haldið
annars staðar þó ýmsar
leiðir hafi verið farnar til
að virkja þátttöku barna
víða um heim.
Í umræðum þing-
manna og nefndaráliti
velferðarnefndar við af-
greiðslu lagabreyting-
anna kom fram mikill
einhugur meðal þing-
manna um að styrkja embætti um-
boðsmanns barna og tryggja þannig
börnum á Íslandi öflugan málsvara.
Þá kom fram skýr vilji þingmanna um
aukið samráð við börn í starfi þingsins
og var fulltrúum úr ráðgjafarhópi
barna við embættið boðið á fund vel-
ferðarnefndar til samráðs um fyrir-
hugaðar lagabreytingar. Í áliti vel-
ferðarnefndar við afgreiðslu frum-
varpsins var sérstaklega fjallað um
þær áherslur sem komu fram í sam-
ræðu við fulltrúa barna þar sem sagði
„að Alþingi hefði reglulegt og raun-
verulegt samráð við börn þegar til
umfjöllunar væru mál sem snerta
hagsmuni þeirra. Sérstaklega var vís-
að til þess sem ungmennin komu á
framfæri um að vefsíður og skjöl Al-
þingis væru ekki alltaf nógu aðgengi-
leg, en jafnframt að styrkja þyrfti
fræðslu til barna um lýðræðisþátt-
töku svo að þeim væri gert auðveldara
að afla sér upplýsinga og hafa áhrif á
framgang mála á Alþingi. Telur
nefndin þetta mikilvæga þróun sem
öflugra embætti umboðsmanns barna
muni reynast traustur bandamaður
í.“ Álit velferðarnefndar og jákvæð af-
staða þingmanna er mikilvægt vega-
nesti fyrir embættið á næstu miss-
erum en þar hefur á síðustu árum
verið lögð áhersla á að stofnanir og
sveitarfélög styrki samráð við börn
með því að setja á laggirnar ráð-
gjafarhópa barna eða ungmennaráð.
Á þessu ári mun Ísland sitja fyrir
svörum hjá Sameinuðu þjóðunum um
framkvæmd Barnasáttmálans og við-
brögð stjórnvalda við lokaathuga-
semdum barnaréttarnefndarinnar frá
árinu 2011. Meðal tilmæla nefndar-
innar til íslenskra stjórnvalda var
ábending um nauðsyn þess að þróa
heildstætt kerfi um söfnun, vinnslu og
greiningu gagna sem grundvöll ár-
angursmats á framkvæmd réttinda
þeirra sem Barnasáttmálinn tryggir
börnum. Þá mæltist nefndin jafn-
framt til þess að tryggt verði að tillit
verði tekið til sjónarmiða barna hjá
öllum stofnunum sem aðkomu hafa
að málefnum barna. Ljóst er að efl-
ing embættis umboðsmanns barna er
mikilvægur liður í því að gera nauð-
synlegar úrbætur í samræmi við at-
hugasemdir og tilmæli Sameinuðu
þjóðanna um framkvæmd Barnasátt-
málans á Íslandi.
Ísland hefur sjaldan staðið betur
efnahagslega en nú um stundir og án
efa er betra að vera barn á Íslandi en
víða annars staðar. Margt bendir þó
til þess að þær þjóðfélagsbreytingar
sem orðið hafa á síðustu áratugum
hafi aukið verulega álag á börn. Sú
kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi er
í skipulagðri dagskrá nánast allan
ársins hring, fyrst í leikskóla, síðan
grunnskóla og loks framhaldsskóla
og jafnframt hefur skóladögum árs-
ins fjölgað. Þá sýna nýjustu tölur að
um helmingur ungmenna á aldrinum
15-17 ára vinnur með skóla. Skjá-
notkun og samfélagsmiðlum fylgir
meiri félagslegur þrýstingur en áður
hefur þekkst sem skapar aukna fé-
lagslega samkeppni með tilheyrandi
álagi og streitu. Það ætti því ekki að
koma á óvart að vaxandi fjöldi barna
glímir við kvíða og vanlíðan og lyfja-
notkun barna hefur aukist verulega á
síðustu árum.
Þessi staða barna er umhugsunar-
efni fyrir íslenskt samfélag sem allir
verða að taka alvarlega. Stjórnvöld
hafa sett málefni barna í forgang og
einn liður í því er stofnun nýs ráðu-
neytis barnamála sem tók til starfa
nú um áramótin. Það verður vonandi
mikilvægt skref í átt að því að móta
stofnanir samfélagsins út frá þörfum
og hagsmunum barna ekki síður en
fullorðinna og tryggja þannig rétt-
indi allra barna á Íslandi.
Eftir Salvöru
Nordal » Stjórnvöld hafa sett
málefni barna í for-
gang og einn liður í því
er stofnun nýs ráðu-
neytis barnamála sem
tók til starfa nú um ára-
mótin.
Salvör Nordal
Höfundur er umboðsmaður barna.
Barnasáttmálinn
þrjátíu ára á þessu ári
Það er styrkur að
geta tekist á við óvissu
framtíðarinnar af for-
vitni og án ótta. Við
getum mætt nýju ári
með bjartsýni en um
leið verið raunsæ gagn-
vart þeim verkefnum
sem þarf að leysa –
sum eru flókin og erfið,
önnur lítilfjörleg og
næstum léttvæg.
Óvissa er hluti af lífinu, þar sem
ekkert er öruggt nema skattar og
dauði svo vitnað sé í orð Benjamins
Franklin. Flest reynum við að lág-
marka óvissuna og gera áætlanir um
framtíðina. Þeir eru til sem reyna að
nýta sér óvissu til að skara eld að eig-
in köku eða fella pólitískar keilur.
Staðreyndir skipta litlu og allt er gert
tortryggilegt. Markmiðið er að reka
fleyg milli launafólks og atvinnurek-
enda – kljúfa þjóðina. Átök eru boðuð
í stað þess að mynda samstöðu um að
nýta þau ótrúlegu tækifæri sem eru
til staðar til að auka lífsgæði og lífs-
kjör allra.
Það reynir á ríkisstjórnina
Á nýju ári reyndi á atvinnurek-
endur ekki síður en leiðtoga launa-
fólks. Þeir hafa undir-
gengist þá skyldu að ná
samningum sem byggj-
ast á efnahagslegum
veruleika og tryggja þar
með bætt lífskjör. Og það
mun reyna á ríkisstjórn-
ina og ríkisstjórnarflokk-
ana. Með ýmsum hætti
getur ríkisstjórnin búið
til jarðveg fyrir kjara-
samninga en handan við
hornið bíða önnur risa-
vaxin verkefni: Ný lög
um Seðlabanka Íslands
og mótun nýrrar peningastefnu.
Ákvörðun um skipulag fjármálamark-
aðarins þar sem ríkið verður með
skipulegum hætti að draga úr áhættu
skattgreiðenda. Mótun samgöngu-
stefnu til langs tíma. Stofnun Þjóð-
arsjóðs. Markviss heilbrigðisstefna til
framtíðar. Átak í húsnæðismálum
með raunverulegt valfrelsi að leið-
arljósi. Uppstokkun á tekjuskatts-
kerfi einstaklinga – ekki til að auka
álögur heldur að auka ráðstöfunar-
tekjur þeirra sem lakast standa.
Verkefnin eru mörg.
Á sama tíma liggur fyrir að ekki
verður gengið lengra í aukningu út-
gjalda ríkisins. Þess vegna þarf að
tryggja hagkvæmari nýtingu sam-
eiginlegra fjármuna. Það verður fyrst
og síðast gert með því að ýta undir ný-
sköpun og nýja hugsun í opinberum
rekstri, útvistun verkefna og auknu
samstarfi hins opinbera og einkaaðila.
Með því að vinna skipulega að því að
innleiða rafræna stjórnsýslu er ekki
aðeins hægt að bæta þjónustu við
borgarana heldur einnig lækka
kostnað.
Við erum svo gæfusöm þjóð að eiga
marga einstaklinga sem eru tilbúnir
til að leggja allt undir til að byggja
upp fyrirtæki. Sumir eru að brjóta
múra úreltrar hugsunar og skipulagn-
ingar, eins og Þorbjörg Helga Vigfús-
dóttir er að gera með fjarþjónustufyr-
irtækinu Kara Connect. Í samvinnu
við nýsköpunarfyrirtæki geta ríki og
sveitarfélög slegið margar flugur í
einu höggi; aukið hagkvæmni, gert
þjónustuna betri og markvissari og
ýtt undir sköpunarkraftinn sem liggur
að baki nýjum hugmyndum frum-
kvöðla. Samþætting og samvinna hins
opinbera og einkaaðila hefur og getur
skilað góðum árangri, ekki síst í heil-
brigðisþjónustu og menntakerfinu.
Ekki aðeins launaumslagið
Lífskjör launafólks ráðast ekki að-
eins af fjölda króna í launaumslaginu
eftir að skattar og gjöld hafa verið
greidd. Lífskjörin ráðast ekki síður af
því hvernig til tekst við alla stjórn-
sýslu hins opinbera – hversu hag-
kvæm og góð þjónustan er. Með sama
hætti og rekstur ríkis og sveitarfélaga
hefur áhrif á lífskjörin hefur nýting
sameiginlegra eigna það einnig.
Í hvítbók um framtíðarsýn fyrir
fjármálakerfið, sem var kynnt fyrir
skömmu, er dregin upp skýr mynd af
þeim viðfangsefnum sem blasa við.
Um þau verður fjallað síðar en vert er
að draga fram ábendingar sem dr. Ás-
geir Jónsson, hagfræðingur og
deildarforseti hagfræðideildar Há-
skóla Íslands, setur fram í fylgiriti.
Ríkið er umsvifamikið á fjármála-
markaði og hefur bundið þar mikla
fjármuni. Um 330 milljarða í tveimur
bönkum og 120 milljarða í þremur
lánasjóðum. Auk þess er ríkið óbeint
eða beint í ábyrgðum fyrir 857 millj-
arða.
Líkt og Ásgeir er ég sannfærður
um að þeim 330 milljörðum sem
bundnir eru í Íslandsbanka og Lands-
banka væri betur varið í raunverulega
samfélagslega innviði – skóla, sjúkra-
hús og vegi.
Veggjöld og nýting eigna
Þegar þingmenn takast á við að
móta samgönguáætlun og svara þeirri
spurningu með hvaða hætti eigi að
fjármagna nauðsynlegar fram-
kvæmdir, er ekki hægt að líta fram
hjá gríðarlegum fjármunum sem eru
fastir í öðrum eignum en þeim sem
skipta almenning mestu máli.
Um það verður ekki deilt að öflugt
samgöngukerfi er ein stoðin undir
samkeppnishæfni atvinnulífsins og
forsenda þess að fólk hafi í reynd val
um hvar á landinu það vill búa. Sam-
göngukerfið er spurning um lífsgæði
og lífskjör.
Uppbygging samgöngukerfisins
hefur kallað á nýjar hugmyndir um
hvernig standa skuli að fjármögnun
framkvæmda. Í einfaldleika sínum
er ég hrifinn af þeirri hugmynda-
fræði að menn borgi fyrir það sem
þeir nota. Álagning veggjalda getur
því verið álitlegur kostur. En
ákvörðun um veggjöld verður ekki
tekin án þess að fram fari endur-
skoðun á gjalda- og skattakerfi sem
bílaeigendur búa við, um leið og
tryggt er að nýting annarra eigna
ríkisins sé með þeim hætti að hún
þjóni hagsmunum almennings.
Hvernig ríkisstjórninni og
stjórnarflokkunum tekst til við að
leysa verkefnin ræður miklu um lífs-
kjör á komandi árum. Skynsamlegir
kjarasamningar eru mikilvægir en
duga ekki einir og sér til að tryggja
stöðugleika og bættan hag alls al-
mennings.
Þetta snýst allt um lífskjörin
Eftir Óla Björn
Kárason » Það mun reyna á rík-
isstjórnina. Með
ýmsum hætti getur rík-
isstjórnin búið til jarð-
veg fyrir kjarasamninga
en handan við hornið
eru risavaxin verkefni.
Óli Björn Kárason
Höfundur er alþingismaður
Sjálfstæðisflokksins.