Morgunblaðið - 03.01.2019, Síða 38

Morgunblaðið - 03.01.2019, Síða 38
38 FRÉTTIRErlent MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 3. JANÚAR 2019 BAKSVIÐ Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.is Veðmál hvers konar hafa verið ein tímafrekasta tómstundaiðja Albana. En spilafíknin hefur leikið marga albanska fjölskylduna grátt. Oftar en ekki hefur iðja þessi leitt til heimilisofbeldis og fátæktar en í annan stað gefið glæpamönnum vel í aðra hönd. Afleiðingarnar eru sagð- ar hrikaleg samfélagsvandamál af mörgum toga, sem líkja mætti við plágur, í einu fátækasta ríki Evr- ópu. Nú kann að verða breyting á þessu því Albanir frömdu nokkurs konar heit fyrir nýliðin áramót um að láta af ósómanum. Vonast er til að þjáningum aðþrengdrar þjóðar linni en mikil ógæfa hefur dunið yfir marga fjölskylduna vegna veðmála- fíknarinnar. Með lögum sem tóku gildi 1. jan- úar verður um 4.300 veðmálastofum í landinu lokað. Þær höfðu sprottið upp á næstum hverju einasta götu- horni bæja og borga Albaníu. Þar sem Albanir teljast 2,8 milljónir jafngildir útbreiðsla veðmálastof- anna því að 670 manns séu um hverja þeirra. Er hlutfall þeirra langtum hærra en í öðrum ríkjum Balkanskagans og þróaðri ríkjum Vestur-Evrópu, að sögn hagfræð- ingsins Klodian Tomorri. Veðmálabannið gildir einnig um fjárhættuspil á netinu og spilavíti – sem mörg hver hafa verið í nágrenni skóla – verða einungis leyfð í fimm stjörnu hótelum á sérstökum ferða- mannastöðum. Fyrir konur eins og hina 31 árs gömlu Arta, tveggja barna móður, eru nýju lögin blessun. Að vísu ganga þau í gildi of seint til að bjarga fjölskyldu hennar sem galt afhroð á altari spilanna. Var hún lögð í rúst er eiginmaður hennar stökk fram af stórhýsi eftir að hafa tapað veðmáli um úrslitaleikinn á HM í knattspyrnu 15. júlí sl. Lagði hann allt undir á sigur Belga en Frakkar unnu leikinn. „Hann veðj- aði á Belga, en uppskar andlega vanlíðan,“ sagði Arta með tár á hvörmum og skjálfandi röddu. Verð- ur hún nú að láta sér duga um 13 þúsund króna bætur á mánuði til að framfleyta ungum börnum sínum. Samkvæmt rannsókn háskólans í höfuðborginni Tirana hefur fjórði hver spilafíkill reynt sjálfsvíg að minnsta kosti einu sinni. Til við- bótar hafa 70% spilara þjáðst af streitu og sálrænum vandamálum. „Við sáum ennfremur mikla fylgni milli veðmála og heimilisofbeldis, sem kallað hefur gríðarlega erf- iðleika yfir marga fjölskylduna,“ sagði Iris Luarasi við AFP- fréttstofuna, en hún rekur símaráð- gjöf fyrir fórnarlömb ofbeldis. Tapa öllu Ilir Musta, 35 ára gildvaxinn karl- maður, hefur upplifað slíkar fjöl- skylduhörmungar frá fyrstu hendi. „Ég veit ekki hvernig á að komast út úr þessu, vinsamlegast hjálpið mér,“ sagði hann lækni í Tirana þar sem hann leitaði hjálpar við kvíða. „Spilin gáfu vel til að byrja með, en nú sit ég uppi með krabbamein. Líf mitt er tapað; ég hef líka tapað eig- inkonunni, dótturinni; ég er lifandi dauður,“ bætti Ilir við í örvilnan. Hann byrjaði veðmál fyrir aðeins tveimur árum á sviði íþrótta og þótt- ist sannfærður um að hann væri við það að landa þeim stóra, auðgast mjög. En í staðinn vaknaði hann einn góðan veðurdag við botnlausar skuldir og endaði í fangelsi fyrir að lúberja eiginkonuna er hún fór fram á skilnað. Þessi sviðsmynd er ákaf- lega einkennandi fyrir albanskt þjóðfélag síðustu misserin, tugir fjölskyldna hafa liðast í sundur vegna spilafíknar. Að sögn lögfræðingsins Vjollca Pustina í Tirana hafa um 70% skiln- aðarmála sem komið hafa til kasta dómstóla árið 2018 tengst veð- málum. Af hálfu ríkisins verða sett- ar á laggirnar endurhæfingar- stöðvar fyrir spilafíkla sem neyddir verða til strangrar meðferðar þar til að losna úr hreðjatökum fíkninnar. Ekki eru allir trúaðir á að fyrir- heitin um endurhæfingu gangi nógu hratt eftir. „Spilafíkn er sjúkdómur og verður að meðhöndlast þegar veðmálastofunum hefur verið lokað. Sem stendur skortir algjörlega slík- ar endurhæfingarstöðvar,“ sagði Menada Petro, prófessor í félags- fræðum við háskólann í Durres í Albaníu, við AFP-fréttastofuna. Glæpir og gróði Spilafyrirtækin hafa verið gagn- rýnd fyrir að raka saman fé úr fjöl- skyldusjóðum í landi þar sem með- altekjur á mánuði ná ekki 300 evrum að jafnaði. Samkvæmt opin- berum skýrslum veðja Albanir ár hvert fyrir sem svarar um 140 til 150 milljónum evra á íþróttakeppni. Mun það jafngilda um 70% þess sem meðalfjölskyldur landsins verja til heilbrigðisþjónustu. Þetta er þó ekki allt því af hálfu hins opinbera er áætlað að þegar tekið hefur verið tillit til ólöglegrar veðmálastarfsemi sé heildarupphæðin allt að fimm sinnum hærri, eða sem svarar 700 milljónum evra. Annað stórmál í augum Edi Rama forsætisráðherra er að ná að loka fyrir fjárstreymi til skipulegrar glæpastarfsemi sem hagnast hefur mjög á veðmálum og hefur notað spilafyrirtækin til að þvætta fé. Hann játar samt að nýju lögin muni ekki duga til í átökunum við glæpa- gengin, þau verði ekki upprætt svo greiðlega. „Styrjöldin heldur áfram því glæpamennirnir munu hafa hamskipti og breyta um herfræði,“ sagði Rama nýverið í sjónvarps- viðtali. Undir yfirborðið Fjölda veðmálastofa var lokað í Albaníu í jólamánuðinum en aðrar ákváðu að halda út til síðustu mín- útu í von um vænan gróða í áhlaupi á stofurnar síðustu daga desem- bermánaðar, að sögn Artan Shyti, formanns landssamtaka albanskra veðmálafyrirtækja. Næsta stríð mun snúast um að bæla niður ólöglegar spilastöðvar, ekki síst á netinu. Veðmálafyrir- tækin hafa mörg hver flutt starf- semi sína til Makedóníu, Svartfjalla- lands og Kósóvó. Að sögn Shyti geta dótturfyrirtæki þar boðið veðmál á netinu í ró og næði afskiptalaust. Reynt var árið 2013 að fækka spila- og veðmálaklúbbum í Albaníu en pólitískir hagsmunir og aðrir sér- hagsmunir komu í veg fyrir að það gengi eftir. Með nýju lögunum, sem sett voru í október, urðu um 8.000 manns at- vinnulaus um áramótin. „Stjórnvöld hafa leyft veðmálastarfseminni að vaxa og dafna en núna knýja þau okkur fyrirvaralítið til að loka og það án þess að gera greinarmun á heiðarlegri starfsemi og óhreinni,“ sagði Arjan Gumi, 47 ára Albani sem rak lítinn veðmálaklúbb í Tir- ana síðustu 16 árin. Hann veit ekki hvað við tekur hjá sér við tímamót- in, en segist reiða sig á að ríkis- stjórnin standi við loforð um að að- stoða þá sem atvinnu sína missa. „Lokunin er líka harmleikur, fyrir fjölskyldur okkar, sem við þetta hafa unnið.“ Það er víðar en í Albaníu sem menn freista þess að vinna fúlgur fjár með veðmálum. Það á við um fyrrum sovétlýðveldið Georgíu. Til marks um vinsældir veðmála er þar varið meiri fjárhæðum í spila- mennsku en í matvörur og aðrar vöru til heimilishalds. Það er alla- vega niðurstaða hagstofu landsins, Sakstat, að sögn fréttamiðilsins Ak- hali Taoba. Þetta segja andstæð- ingar veðmálastarfsemi sýna að rík- isstjórnin þurfi að ná tökum á greininni sem þróast hefur stjórn- laust. Þeir segja stjórnvöld hafa meiri áhuga á að tryggja sér væna sneið af tekjum veðmangaranna en að koma böndum á starfsemina. Í Georgíu er litið á veðmála- starfsemi sem aðferð til að draga ferðamenn til landsins við Svarta- haf. Spilavíti hafa sprottið þar upp og minna á Las Vegas og Mónakó. Þar er þungamiðja veðmála- starfsemi í Mið-Asíu, ekki síst þar sem þrengt hefur verið mjög að veð- málastarfsemi í grannríkjunum eða hún bönnuð, t.d. í Tyrklandi. Því hafa spilafíklar svarað með því að streyma til Georgíu. Gert er sér- staklega út á að laða Tyrki í spilavít- in og eru þeir tíðir gestir þeirra. Í stærstu borg landsins, Batumi, er algengt að helmingur gestanna á einni helgi sé Tyrkir. Skemmta þér sér við rúllettur og blackjack-borð. Alls heimsóttu 750.000 Tyrkir Bat- umi í fyrra, eða fleiri en af nokkru öðru þjóðerni. Leið þeirra yfir landamærin er greið því slakað hef- ur verið á eftirliti í þágu spilavít- anna. Veðmálastarfsemi var óþekkt í Georgíu fram að falli Sovétríkjanna en hefur þróast hratt frá 1992, er fyrsta veðmálafyrirtækið hlaut starfsleyfi með opinberri ríkis- stjórnartilskipun. Í henni var kveðið á um 35% skatt til ríkisins af allri lottóstarfsemi og annarri spila- starfsemi þar sem spilað var um peninga. Ári seinna voru sett lög í þinginu um tekjuskatta fyrirtækja. Í þeim var tekjuskattur spilavíta, veðmálastofa og annarrar veðmála- starfsemi hækkaður í 70%. Árið 2013 var lagt fram frumvarp á þingi sem kvað á um bann við öllum aug- lýsingum á veðmálstarfsemi. Eig- endur fyrirtækjanna töldu að þetta myndi bitna verulega á tekjum þeirra og hagnaði. Lögðust þeir gegn allsherjarbanni en sögðust reiðubúnir til að draga úr auglýs- ingum að einhverju marki. Svo sem búist var við komust lögin ekki gegnum þingið og vöxtur starfsem- innar heldur áfram. Túristum sem fundið hafa aðdráttarafl í veðmála- starfseminni í Georgíu fjölgaði á ný- liðnu ári. Og búist er við að sú freisting tryggi áframhaldandi aukningu í ár. Eymdin ein í vinning  Albanar skera upp herör gegn fjár- hættuspilum  Veðmálastofum lokað AFP Lokað Maður býr sig undir að taka niður skilti á veðmálabúllu í Tirana í Albaníu í lok desember. Frá og með ára- mótum verður öll veðmálastarfsemi í landinu bönnuð utan að spilavíti verða leyfð í fimm stjörnu hótelum. Suðurlandsbraut 6, 108 Rvk | S. 419 9000 | info@handafl.is | handafl.is VANTAR ÞIG STARFSFÓLK? Við útvegum hæfa starfskrafta í flestar greinar atvinnulífsins Traust og fagleg starfsmannaveita sem þjónað hefur íslenskum fyrirtækjum í áraraðir

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.