Morgunblaðið - 15.01.2019, Side 20

Morgunblaðið - 15.01.2019, Side 20
20 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 15. JANÚAR 2019 ✝ SteinbjörnBjörnsson fæddist á Hrapps- stöðum í Víðidal í V- Húnavatnssýslu 22. september 1929. Hann lést á hjúkr- unarheimilinu Droplaugarstöðum 5. janúar 2019. Foreldrar hans voru hjónin Sigríð- ur Jónsdóttir og Björn Ingvar Jósefsson, bændur á Hrappsstöðum. Steinbjörn var sjöundi í röð 11 systkina, hin eru: Tryggvi, f. 29.5. 1919, d. 21.3. 2001, Guðrún Ingveldur, f. 1.2. 1921, d. 28.11. 2001, stúlka, f. 16.11. 1922, d. 3.1. 1923, Jós- efína, f. 31.3. 1924, d. 7.5. 2017, Bjarni Ásgeir, f. 15.8. 1925, d. 19.1. 2009, Sigvaldi, f. 22.2. 1927, d. 16.8. 2009, Guðmundína Unn- ur, f. 15.2. 1931, Álfheiður, f. 15.2. 1931, d. 25.10. 2012, Sigrún Jóney, f. 18.6. 1933, og Gunn- laugur, f. 24.3. 1937. Steinbjörn ólst upp á Hrapps- stöðum hjá for- eldrum sínum til 17 ára aldurs en flutti þá að Syðri-Völlum til móðurbróður síns og nafna. Hjá honum lærði hann söðlasmíði og vann við þá iðn meðfram annarri vinnu í fjölda ára. Hann vann á jarðýtu hjá Ræktunarsambandi V-Húnavatnssýslu um árabil og stundaði einnig tamningar hrossa. Á sjöunda áratugnum flutti hann til Reykjavíkur og keypti sér íbúð sem varð heimili hans síðan. Hann fór um svipað leyti að leggja stund á múrverk og flísalagnir bæði norðan og sunn- an heiða, sem varð aðalstarf hans meðan kraftar entust. Steinbjörn var ókvæntur og barnlaus. Útförin fer fram frá Bústaða- kirkju í dag, 15. janúar 2019, klukkan 13. Steini frændi kom að Syðri- Völlum, í Húnaþingi vestra til afa okkar, Steinbjörns Jónssonar, og ömmu, Elínborgar Jónasdóttur, þegar hann var um fermingu. Hann varð hluti af fjölskyldunni og barnahópnum sem þá taldi Álfhildi, Samúel, Önnu, Sigurð og nokkrum árum síðar Pétur. Afi, sem var móðurbróðir Steina, var alla tíð hans helsti bandamaður. Hann var söðlasmiður og kenndi Steina þá iðn enda kom snemma í ljós að Steini var mjög laghentur. Þeir nafnar unnu lengi saman á söðlasmíðaverkstæði afa og eng- um duldist að góð vinátta var á milli þeirra þó að oft hafi þögnin ráðið ríkjum. Steini var ekki gefinn fyrir samkomur en þeim mun duglegri að koma í heimsókn. Hann var alla tíð heimagangur hjá fóstur- systkinum sínum og þeim náinn. Þau ferðuðust saman innanlands og utan og hann naut sín vel á stórtorgum erlendis með lítinn bjór í hendi. Hann kom nánast að öllum framkvæmdum fjölskyld- unnar, ekki síst múrverki og flísa- lögnum. Steini lifði eiginlega eftir eigin klukku og þegar hann mætti á svæðið og hóf störf var hans bendingum fylgt möglunarlaust. Steini var mjög snyrtilegur til fara og í allri umgengni svo eftir var tekið. Heimilið var fallegt og hann hugsaði vel um bílana sína og sérstaklega rauða Bronco- jeppann H 616. Bílinn átti hann frá 1966 til æviloka og gat ekki hugsað sér að láta hann frá sér þó að safn hefði verið tilbúið að taka við honum. Hann vakti athygli þegar hann rúntaði á bílnum, ekki síst vegna þess að hann keyrði löturhægt og átti það til að fylgja umferðarreglum lauslega. Hann hafði alltaf mikinn áhuga á hestum og sjálfur átti hann nokkra hesta um ævina. Þetta áhugamál stundaði hann meðan hann hafði heilsu til, hugsaði vel um hesthúsið og hestana sem hann hafði þar inni og gætti þess að allt væri snyrtilegt. Steini hafði mikinn áhuga á fótbolta og þegar mót stóðu yfir missti hann varla af leik í sjónvarpinu og lagði óspart niður störf ef svo bar undir til að sinna þessu áhugamáli. Fóstursystur hans og makar fundu sannarlega fyrir þessari ástríðu þegar þau voru stödd er- lendis og stórmót stóðu yfir því að dagskrá hópsins riðlaðist sífellt þegar Steini neitaði að halda áfram þegar hann fann fótbolta- leik á skjá. Hann gat verið stífur ef svo bar undir og þeir sem þekktu hann vissu að það stoðaði lítt að reyna að snúa honum. Hann hélt miklum tengslum við Norðurland og var þar oft svo mánuðum skipti og tók þá gjarn- an að sér múrvinnu eða flísalagn- ir. Sem ungur maður heima á Völlum vann hann á jarðýtu við að brjóta nýtt land undir tún og síðar á skurðgröfu. Við þessa vinnu tíðkaðist að gista á bæjunum og eignaðist Steini marga vini sem hann hélt tryggð við eftir það. Steini var nægjusamur, átti sín áhugamál og hélt tryggð við fjöl- skyldu og vini. Hann bjó vel í íbúðinni sinni í Búðargerði, þótti vænt um hestana sína og var stoltur af Bronco-inum. Steini var eftirsóttur í vinnu en tók hana að sér þegar það hentaði honum. Hann undi hag sínum vel í líf- inu, fór sínar eigin leiðir og var sjálfum sér nægur. Steini frændi, takk fyrir sam- fylgdina, Hrönn, Hlín og Guðrún Alda. Við ferðalok langar mig að minnast Steina frænda míns með nokkrum orðum. Mínar fyrstu minningar um Steina eru sitjandi í eldhúsinu í Heiðargerðinu þar sem hann kíkti oft við. Þar fékk hann sér oft kaffibolla, var ávallt snyrtilegur til fara og hlustaði á heimilisfólkið tala, hann var nefni- lega ekki maður margra orða hann Steini og fannst oftast nær betra að hlusta heldur en að tala. Um hver jól kom Steini með tertu sem hann vildi þó ekki alltaf smakka á sjálfur því hann var ekki viss um hvort hann mætti við slíkri óhollustu þrátt fyrir að vera í góðu formi. Í seinni tíð var heyrnin farin að bregðast og þeg- ar hann kíkti í heimsókn þá var oft setið í þögn í lengri tíma en það virtist skipta hann litlu máli en angraði líkast til frekar viðmæl- endur hans. Stundum velti ég því fyrir mér hvort hann heyrði í raun betur en hann þóttist gera því stundum greip hann inn í samtöl ef umræðuefnið var að hans mati áhugavert þegar ég hélt að hann heyrði ekki neitt. Eftir að undir- ritaður flutti að heiman fór Steini að venja komur sínar til okkar fjölskyldunnar og það dró ekki úr heimsóknum þar til hann hætti að keyra fyrir um það bil tveimur ár- um, þá kominn vel á níræðisaldur. Það angraði hann ekkert ef þeir fullorðnu voru ekki heima og fannst honum ekkert síðra að setjast niður með yngri kynslóð- inni, fá sér kaffibolla og hlusta á hvað þau höfðu að segja eða þá bara að sitja með þeim í þögninni. Steini var alla tíð mikill hesta- maður og ófáum sinnum fékk ég að fara með honum í hesthúsið þar sem hann sýndi mér hestana sína sem honum þótti svo vænt um og var svo stoltur af. Það skipti í raun engu máli um hvaða dýr var að ræða því í kringum þau var hann á heimavelli og naut sín. Ekki er hægt að minnast á Steina án þess að skrifa um bílinn hans, rauða Ford Bronco-inn ár- gerð 1966 sem hann hugsaði svo vel um. Bíllinn var alla tíð eins og nýr þrátt fyrir að hafa verið í eigu hans yfir 50 ár. Hann passaði það vel upp á jeppann sinn að fyrir um 20 árum tók hann þá ákvörðun að fjárfesta í aukabíl og notaði ein- ungis Fordinn þegar vel viðraði. Steini keyrði hægt og oft var komin röð bíla fyrir aftan hann en flestir sáu að þar var á ferð eldri maður sem tók sér sinn tíma í að keyra og varðaði lítið um stefnu- ljós. Einhverju sinni sat ég með honum í bílnum og þótti hann fara ansi hægt yfir, minntist ég þá á að ég hefði nú aldrei fengið að prófa bílinn hans, Steini svaraði þá að það væri sjálfsagt best að hann keyrði bílinn þar sem bíllinn væri bara þriggja gíra og þar með var þeirri umræðu lokið. Steini var einstaklega hjálp- samur og vandvirkur, hefur sjálf- sagt flísalagt eða múrað fyrir flestalla ættingja sína. Hann spurði einnig reglulega hvort ég væri búinn að gera þetta eða hitt og minnti mann á ýmsa viðhalds- vinnu ef honum fannst tími kom- inn á slíkt. Það voru forréttindi að eiga Steina sem frænda og hans verð- ur sárt saknað. Samúel Orri Samúelsson og fjölskylda. Steinbjörn móðurbróðir minn var einn af þessum traustu mönn- um sem maður kynnist, fátt sem raskaði ró hans, góður vinur vina sinna og ræktaði þann vinskap. Hann var frekar alvörugefinn en þó léttur og kátur á góðri stund. Hann ólst upp á Hrappsstöðum hjá foreldrum sínum og í stórum systkinahóp við leik og störf. Maður sér fyrir sér að það hafi verið tekið til hendinni við bú- skapinn því öll voru þau og eru þessi systkini einstakt dugnaðar- fólk og Steini þar engin undan- tekning. Sautján ára flutti hann að Syðri-Völlum til móðurbróður síns og nafna sem þar var bóndi og jafnframt því að vinna við bú- skapinn þar fór hann að leggja stund á tamningar og þótti góður tamningamaður. Hesta átti hann fram á efri ár eða meðan kraftar entust því hestar voru hans áhugamál. Nafni hans á Syðri- Völlum var söðlasmiður og hjá honum lærði hann að smíða hnakka og reiðtygi. Steini réð sig á jarðýtu fyrir Ræktunarsam- band V-Hún. og vann við það á annan áratug á hverju sumri. Hann fór nánast á hvern einasta bæ í V-Hún. að bylta landi til tún- gerðar. Það er til mynd af honum á fyrstu jarðýtunni en hún var húslaus svo það hefur verið kal- samt stundum. Ég hef heyrt að viðhald hafi ekki verið mikið á þeim jarðýtum sem hann vann á, hann hirti þær svo vel, sá um að smyrja þær og beitti þeim af lagni. Á sjöunda áratugnum fór hann að leggja stund á múrverk og flísalagnir og um svipað leyti keypti hann sér íbúð í Búðargerði 5 í Reykjavík sem var eftir það hans heimili. En í mörg ár eftir að hann flutti suður smíðaði hann hnakka og gerði við yfir veturinn. Hann kom svo norður á vorin um svipað leyti og farfuglarnir til þess að múra fyrir Húnvetninga því hann var eftirsóttur vegna vandvirkni og dugnaðar og ekki spillti að geta svo farið á hestbak úti í náttúruna með góðum fé- lögum. Nokkra bíla átti Steini í gegnum tíðina en sá sem hann átti lengst er Ford Bronco árgerð 1966, rauður og hvítur. Í seinni tíð hefur þessi bíll lítið farið út úr húsi nema á sólskinsdögum. Ég hjálpaði honum að fara með Broncoinn í skoðun síðustu ár og bað hann mig að koma ekki ef það væri rigning. Það má segja að bíll- inn líti út eins og nýr miðað við aldur. Svona var frændi minn snyrtimenni alls staðar. Við hjónin þökkum Steina það sem hann gerði fyrir okkur, bæði fyrir norðan og sunnan heiða, og biðjum Guð að blessa hann á nýj- um stað. Systkinum hans vottum við innilega samúð. Þórður og Valdís. Látinn er kær vinur og frændi, Steinbjörn Björnsson. Steini frændi hefur verið náinn fjöl- skyldunni okkar í áratugi og nán- ast daglegur gestur hjá okkur frá árinu 1999 þegar við fluttum í ná- grenni við hann í Smáíbúða- hverfinu og þar til eftir lát upp- eldisbróður hans, Sigurðar, að við fluttum okkur um set. Frá 14 ára aldri hefur Steini tekið þátt í lífi Syðri-Valla-fjöl- skyldunnar og reyndist tengda- foreldrum mínum sem besti son- ur. Margs er að minnast frá liðnum dögum. Steini var hand- laginn og vann lengi við múrverk og flísalagnir. Hann vann meðal annars við að múra hús okkar í Fífuseli og hefur oft komið að því að dytta að eignum okkar. Steini hafði mjög gaman af að stríða ungviðinu á heimilinu og minnast þau systkini kímni hans og sér- staks talanda með bros á vör. Steini ferðaðist með okkur bæði innanlands og erlendis og voru margar skemmtilegar uppá- komur sem tengjast Steina. Hestamennska var helsta áhugamál Steina. Steinbjörn frændi hans fór ófáar ferðir með honum í hesthús og að hjálpa til við að færa hestakerruna. Steini hafði líka mikinn áhuga á bolta- íþróttum og oftar en ekki snar- aðist hann inn úr dyrunum með orðunum: „Er ekki bolti?“ Chelsea var uppáhaldsliðið hans í enska boltanum og horfðu þeir nafnar saman á ótal leiki þótt þeir ættu sér hvor sitt uppáhaldslið. Fátt gladdi Steina meira en að fá að gjöf góða derhúfu og var það ávallt haft í huga þegar við fórum utan, sérstaklega ef þær tengdust hestum eða þá Chelsea. Í bílskúrnum stendur svo gull- molinn hans: H-616, Bronco ’66, uppgerður og glæsilegur. Bíllinn var aðeins tekinn úr skúrnum á góðviðrisdögum yfir sumarið og það var ávallt gaman að sjá hvað Steini var hreykinn af honum og naut þess að keyra hann um hverfið. Steini hafði sterkar skoðanir og var fastur fyrir, fór sínar eigin leiðir og oft deildu þeir uppeldisbræður um stjórnmál og fleira enda oftast á öndverðum meiði. Gætti þar einnig stríðni Steina, sem gat verið á móti bara til að fá smá fjör í leikinn. Steini hafði ákaflega gaman af því að fara með hundinn okkar, Nökkva, út að ganga og sótti hann nánast daglega í þau sex ár sem hundur- inn var með okkur, oft slóst kötturinn Grettir með í för. Ræturnar norður í Húnavatns- sýslu voru sterkar og á meðan Steini hafði heilsu fór hann oft norður. Á seinni árum dalaði heilsan og síðustu árin dvaldi hann á hjúkr- unarheimilum. Þegar hann varð 89 ára í september sl. sagði hann við mig: „Ég vil tertu.“ Og terta var það, en Steini var mjög hrif- inn af svokölluðum Hressótertum og áttum við góða eftirmiðdags- stund með nokkrum ættingjum yfir kaffi og Hressótertu. Dótt- ursonur minn, sem kynntist Steina mjög vel og saknar hans mikið, sagði við mig: „Hann Steini kenndi mér að heilsa með handabandi, amma.“ Við kveðjum Steina frænda með söknuði og þökkum honum samfylgdina, blessuð sé minning hans. Elín Einarsdóttir, Steinbjörn og Anna Lilja Sigurðarbörn. Við höfum þekkt Steina frá því við vorum börn. Hann var tengdur okkur fjölskyldubönd- um, þar sem systir hans var gift móðurbróður okkar, en þau bjuggu á næsta bæ við okkur, þar sem Steini var tíður gestur og mikill samgangur á milli bæj- anna. Sem ungur maður vann hann á jarðýtu og breytti móum í tún. Verkefni hans var að fara á milli bæja í héraðinu og var hann því oft á heimili okkar, þegar hann var þar við jarðvinnu. Sennilega hefur heyrn Steina skaðast varanlega á þessum ár- um, því hávaðinn í vinnuvélum var ærandi og ekki var farið að nota eyrnahlífar á þessum tíma, en hann var með mjög skerta heyrn á undanförnum árum. Síðar skipti Steini um starfs- vettvang og gerðist handlangari hjá múrara. Síðar var hann farinn að vinna sjálfstætt við múrverk og varð eftirsóttur á meðal ætt- menna sinna, því hann var góður verkmaður, vandvirkur og vinnu- samur. Sagt var um hann að hann væri fagmaður án réttinda. Hann vann líka fyrir okkur systkinin, bæði hér fyrir sunnan og líka fyr- ir norðan, í Brautarlandi. Svo gleymist það ekki að reikningarn- ir frá honum voru ákaflega hóf- stilltir. Steini keypti sér Bronco-jeppa þegar þeir komu á markað og notaði hann sem einkabíl í nokkra áratugi, en þegar kominn var tími til að fá sér nýjan bíl var jeppinn settur inn í bílskúr og er hann þar sennilega enn. Hann hafði mikið yndi af hestum og átti alltaf góð- an reiðhest og var liðtækur tamn- ingamaður. Eftir að Steini fór inn á Drop- laugarstaði höfum við systkinin af og til hitt hann þar og rifjað upp sögur úr sveitinni. Við kveðjum nú þennan hóf- sama fjölskylduvin. Blessuð sé minning Steina. Fyrir hönd systkinanna frá Brautarlandi, Ingólfur Steindórsson. Steinbjörn var einn af mörgu systkinunum frá Hrappsstöðum. 17 ára gamall fluttist hann til nafna síns og frænda á Syðri- Völlum og varð þá líka hluti fjöl- skyldunnar þar. Fyrstu minning- ar mínar um Steinbjörn eru frá því að ég var stráklingur en hann ungur maður að spila fótbolta og temja hross á Hvammstanga. Hann var eftirminnilega sprett- harður á boltavellinum en hrossa- stússi hans kynntist ég betur síð- ar. Hann var lágvaxinn, kapp- samur og hraustur. Ungur vann hann á jarðýtum við túnasléttur og vegagerð. Að vetrinum stundaði hann oft ýmsa vinnu fyrir sunnan. Seinna vann hann þar við múrverk hjá valin- kunnum meisturum og kynntist vel fagmennsku í þeirri grein. Í framhaldi þess fór hann að vinna sem múrari og á Hvammstanga og í nærsveitum múraði hann fjölmörg hús. Víðar tók hann líka að sér múrverk og flísalagnir enda eftirsóttur, harðduglegur og vandvirkur. Hann múraði íbúðar- húsið sem ég byggði á Hvamms- tanga og þaðan í frá varð hann heimilisvinur og átti stundum hjá okkur langtímadvalir og lögheim- ili í mörg ár. Steinbjörn varð áhrifamikill örlagavaldur í lífi mínu þegar hann vakti hjá mér áhuga á hestum. Þær voru ófáar sögurnar sem hann sagði af hestum og hestamönnum. Aðrir sögðu sögur af honum, hversu óragur hann var við að sitja baldna fola, fastur í hnakknum og laginn. Veturinn 1971 kom hann upp hesthúsi í bíl- skúr við íbúðarhús á Garðavegi. Þar hélt ég hjá honum minn fyrsta hest. Síðan brölluðum við margt saman í kringum hesta. Í góðra vina hópi fórum við margar hestaferðir um lágsveitir, heiðar og í aðra landshluta. Þátttaka Steinbjörns í þeim ferðum er minnisstæð og tíðum rifjuð upp. Natni hans við hesta var einstök og mörg voru þau ráðin sem hann gaf um umgengni og brúkun hesta með velferð þeirra að leið- arljósi. Hann var natinn við járningar og smíðaði líka hnakka og hnakk- töskur og nam þá kúnst af nafna sínum á Syðri-Völlum. Steinbjörn byggði sér íbúð í litlu fjölbýli í Búðargerðinu í Reykjavík en dvaldi þó mest fyrir norðan þar til hann hætti að vinna. Í íbúðinni var allt fægt og strokið. Hann var snyrtimenni og hirti vel um allar sínar eigur. Broncoinn, sem hann fékk nýjan 1966, varðveitti hann svo vel að nú er hann eins og nýr af færi- bandinu. Fyrir um einu ári varð Stein- björn að flytjast úr íbúðinni sinni og dvaldi síðast á Droplaugar- stöðum. Við tveir vinir hans heim- sóttum hann núna rétt fyrir jólin. Þá var máttur hans þrotinn og minnið farið en hann þekkti okkur. Líkt og svo oft áður barst talið að hestum. Hann sagði þá, að í gær hefði hann mætt þremur mönnum á rauðskjóttum hestum og var sá er fremstur fór þeirra glæsilegastur. Hann sagðist líka vera nýkominn úr heimsókn á til- tekinn bæ fyrir norðan. Við viss- um betur. Hann þáði örlítið í nefið en sat annars að mestu þögull með göngugrindina fyrir framan sig. Í mistri minnisleysisins grillti hann þó enn í sveitina fyrir norð- an og það sem honum var alltaf svo kært, fallega hesta. Ég er þakklátur fyrir að hafa átt Steinbjörn að góðum félaga og vini í rúmlega hálfa öld. Þórður Skúlason. Eitt sinn skal hver deyja segir gamalt máltæki og nú hefur öðlingurinn og vinur okkar Stein- björn Björnsson lagt upp í ferð- ina til Sumarlandsins. Hann hef- ur án efa orðið ferðalaginu feginn þar sem heilsan var farin að gefa sig enda aldurinn orðinn hár. Steinbjörn var Húnvetningur eins og við og bjó í næsta ná- grenni við okkur síðustu tuttugu árin eða svo. Hann kom því oft í heimsókn og alltaf var jafn ánægjulegt þegar hann kom, með sitt ljúfa geð og létta húmor. Hann gat verið hnyttinn í tilsvör- um og frásögnum og þá kom gjarnan á hann sérstakur svipur - sem sagði ekki minna en orðin. Hann vildi fylgjast með lífinu fyr- ir norðan og spurði oft frétta það- an og þá kom gjarnan í ljós að hann vissi fleira og meira en við. Stundum kom hann með köku úr bakaríinu nú eða brodd, sem hann fékk að norðan, en ábrystir þótti honum og okkur herra- mannsmatur. Oft sagði hann okkur sögur frá gamalli tíð þegar hann var að vinna á jarðýtum víða um Vest- ursýsluna eins og svo var sagt. Einnig sagði hann okkur frá mörgum ferðum á hestum fram á heiðar því hestamaður var hann af lífi og sál og hafði átt marga gæðinga. Hann átti reyndar fleiri gæð- inga en það voru bílarnir hans. Hann hafði keypt sér Bronco sem okkur minnir að hann hafi fengið í hendur í janúarbyrjun 1966. Þennan bíl átti hann ennþá og hafði látið taka hann allan í gegn þannig að hann var eins og nýr, ef ekki betri. Gljáfægður og meira að segja vélin var máluð og allt eftir því. Þessi dýrgripur fékk þann heiður að eiga húsaskjól í bílskúrnum en á sólardögum, sér- staklega áður fyrr, fékk hann að fara út og vakti þá hvarvetna at- hygli. Alltaf var Broncoinn settur reglulega í gang, strokið eins og gæðingi og sinnt um hann af kost- gæfni. Bílarnir sem Steinbjörn átti til daglegs brúks voru ætíð hreinir og stífpússaðir enda var hann ein- stakt snyrtimenni. Sjálfur var hann alla tíð vel til fara, nýrak- aður og flottur. Eins var inni hjá honum, allt einstaklega snyrtilegt og vel um gengið. Hvergi sást rykkorn, hvað þá annað. Hann vildi hafa allt sem fínast bæði inni og úti. Við erum þakklát fyrir kynnin af Steinbirni og að hafa átt hann að vini og söknum heimsóknanna hans. Við óskum honum góðrar ferðar til Sumarlandsins. Þar fær hann áreiðanlega góðar móttökur og kannski gæðinga sem hann getur þeyst á um græna velli. Við sendum ættingjum hans samúðarkveðjur. Steinunn og Eiríkur. Steinbjörn Björnsson

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.