Morgunblaðið - 01.02.2019, Side 33
MENNING 33
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 1. FEBRÚAR 2019
SÉRBLAÐ
Tíska&
förðun
Fylgir Morgunblaðinu
föstudaginn 15. febrúar
Fjallað er um tískuna í förðun,
snyrtingu, fatnaði og fylgihlutum auk
umhirðu húðarinnar, dekur o.fl.
PÖNTUN AUGLÝSINGA:
Til mánudagsins 11. febrúar
NÁNARI UPPLÝSINGAR GEFUR:
Katrín Theódórsdóttir
Sími: 569 1105 kata@mbl.is
–– Meira fyrir lesendur
Tryggð
Kvikmynd eftir leikstjórann Ást-
hildi Kjartansdóttur. Sjá gagnrýni
hér fyrir ofan.
Vice
Kvikmynd sem fjallar um Dick
Cheney sem var varaforseti
Bandaríkjanna í stjórnartíð
Georges W. Bush frá árinu 2001
til 2009.
„Mynd um það hvernig innan-
búðarmaður í stjórnsýslunni í
Washington, Dick Cheney, varð
allt í einu einn valdamesti maður í
heimi, sem varaforseti George W.
Bush. Áhrif hans á Bandaríkin og
heiminn urðu mikil og þau vara
enn í dag,“ segir um myndina á
miðasöluvefnum midi.is.
Leikstjóri kvikmyndarinnar er
Adam McKay og með aðalhlutverk
fara Christian Bale, Amy Adams,
Steve Carell og Sam Rockwell.
Metacritic: 61/100
Þýskir kvikmyndadagar
Í Bíó Paradís hefjast í dag Þýskir
kvikmyndadagar og eru átta kvik-
myndir á dagskrá þeirra og þar af
ein heimildarmynd. Frekari upp-
lýsingar um dagskrána má finna á
bioparadis.is og stendur hátíðin
yfir til og með 10. febrúar.
Bíófrumsýningar
Tryggð, Cheney
og Þýskir dagar
Gjörbreyttur Christian Bale fitaði
sig heldur betur fyrir hlutverk Dick
Cheney og er nánast óþekkjanlegur
í kvikmyndinni Vice, eins og sjá má.
Tryggð er fyrsta leiknakvikmynd ÁsthildarKjartansdóttur í fullrilengd og bætist hún þar
með við fríðan flokk leikstjóra sem
hafa debúterað undanfarin misseri.
Ásthildur er samt sem áður enginn
græningi, hún hefur gert töluvert
af heimildarmyndum og sjónvarps-
efni.
Þótt framleiðsla myndarinnar
hafi ekki verið stór í sniðum var
hún afar metnaðarfull og braut-
ryðjandi að vissu leyti, þar sem
sérstaklega var hugað að aðkall-
andi málum eins og kynjajafnrétti
og umhverfismálum. Myndin er
umhverfisvottuð af BAFTA Albert
í Bretlandi og Hamburg Film
Institute í Þýskalandi og þess var
gætt að jöfn kynjahlutföll væru í
starfsliðinu. Þetta er að sjálfsögðu
til mikillar fyrirmyndar og vonandi
að aðrir úr bransanum fari að for-
dæmi Tryggðar-teymisins.
Myndin er aðlögun á Tryggðar-
panti, bók Auðar Jónsdóttur frá
árinu 2007. Bókin fékk lofsamlegar
viðtökur á sínum tíma og fékk
meðal annars tilnefningu til Ís-
lensku bókmenntaverðlaunanna.
Þar sem rýnir hefur því miður
ekki lesið bókina verður ekki farið
sérstaklega í samanburð á bók og
mynd.
Tryggð segir frá Gísellu Dal,
sem er leikin af Elmu Lísu
Gunnarsdóttur. Gísella býr ein í
stóru og fallegu húsi sem hún hef-
ur erft frá ömmu sinni. Í upphafi
myndarinnar segir hún upp starfi
sínu sem blaðamaður, þar sem hún
er ekki sammála ritstjórnarstefnu
blaðsins sem hún vinnur á. Þetta
kemur sér nokkuð illa, þar sem
hún er í fyrsta sinn á ævinni í fjár-
hagsvandræðum og þarf því að
finna sér nýja tekjulind sem allra
fyrst.
Hún leitar á náðir Hnefans, rót-
tæks tímarits, í von um að fá bita-
stæðari verkefni. Þar er henni tek-
ið vel og hún er beðin að skrifa
grein um húsnæðismál innflytj-
enda. Þegar hún er að vinna
rannsóknarvinnu fyrir greinina
kynnist hún erlendum konum sem
búa í ömurlegu húsnæði, Mariu frá
Kólumbíu og mæðgunum Abebu
og Lunu sem eru frá Úganda. Hún
ákveður að bjóða konunum að
leigja hjá sér og slá þar með tvær
flugur í einu höggi: koma konunum
til hjálpar og koma skikki á fjár-
málin. Fyrst um sinn gengur sam-
búðin vel en það líður ekki á löngu
þar til árekstrar verða milli heim-
iliskvennanna og samlífið reynir sí-
fellt meira á þolinmæði Gísellu.
Flæðið í byrjun myndarinnar er
ögn höktandi og það tekur svolitla
stund að sökkva inn í atburða-
rásina. Þetta skrifast að hluta til á
undarlega klippingu og skort á
stofnskotum (e. establishing shot),
sem þjóna þeim tilgangi að stað-
setja áhorfendur í rými og tíma.
Hljóðmyndin er líka nokkuð slitr-
ótt og ómarkviss. Þetta batnar
hins vegar allt saman þegar líður á
og eftir að konurnar eru fluttar
inn saman verður flæðið sterkara.
Sagan verður að allegóríu þar
sem Gísella og húsið sem hún býr í
verður táknmynd valdhafans og
jafnvel þjóðríkisins. Gísella gerir
stangar kröfur til leigjendanna,
hún setur þeim ákveðnar reglur og
bregst illa við þegar þeim er ekki
framfylgt, en sjálf fer hún hins
vegar oft á svig við sínar eigin
reglur. Gísella er ekki illa innrætt,
raunar hefur hún mjög sterka
réttlætiskennd, en hún virðist ekki
vera meðvituð um þá miklu for-
réttindastöðu sem hún er í. Þetta
er því (sem betur fer) ekki einfalt
ævintýri um hina hjartahlýju hvítu
manneskju sem kemur hjálparvana
hörundsdökkum aðkomendum til
bjargar.
Myndin gerist að langmestu
leyti inni í húsinu þar sem kon-
urnar búa. Sviðsmyndin er því
nokkuð föst fyrir og fyrir vikið er
ákveðinn leikhúsbragur yfir mynd-
inni. Það er ekki þar með sagt að
möguleikar kvikmyndamiðilsins
séu vannýttir, kvikmyndataka og
myndmál er hreint afbragð. Það er
skemmtilega unnið með endur-
tekningar, ákveðnir rammar eða
stef birtast endurtekið og þjóna
alltaf skýrum tilgangi. Gísella er
gjarnan sýnd í spegli, sem vísar til
sjálfskoðunar hennar (eða skorts
þar á). Einnig má túlka það sem
endurspeglun á vangetu Gísellu til
að setja sig í spor annarra, þ.e. að
spegla sig í öðru fólki. Annað end-
urtekið stef er að Gísella horfir oft
út um gluggann á herberginu sínu,
sem staðsetur hana í eins konar
fílabeinsturni þar sem hún fylgist
með fólkinu á götunni. Lokaskotið
í myndinni sýnir Gísellu einmitt
þar sem hún horfir út um
gluggann og í gluggakistunni
stendur stytta af hvítum ránfugli
og þar með verður til afar kröftug
myndlíking.
Það mæðir mikið á Elmu Lísu í
aðalhlutverkinu, hún er í mynd
nánast allan tímann, og frammi-
staða hennar er skörp og marg-
laga líkt og sagan sjálf. Enid,
Raffaella og Claire Harpa, sem
fara með hlutverk Abebu, Mariu
og Lunu, eru allar nýliðar með
litla eða enga reynslu af kvik-
myndaleik og miðað við það skila
þær feikilega góðu dagsverki. Sér-
staklega Claire Harpa, sem býr yf-
ir mikilli útgeislun og túlkar Lunu
með glæsibrag.
Tryggð er ekki hnökralaus en
hún er samt sem áður vönduð.
Sagan er áræðin og vekur mann til
umhugsunar og myndmál er notað
á snjallan hátt til að styrkja efni-
viðinn. Þá er mikill fengur að fá
frábæra nýliða úr röðum kvenna
inn á svið íslenskra frásagnar-
mynda, sér í lagi leikkonurnar
Enid, Raffaellu og Claire Hörpu
og leikstjórann Ásthildi Kjartans-
dóttur.
Ránfuglinn og nágrannarnir
Vinkonur Elma Lísa Gunnarsdóttir og Claire Harpa Kristinsdóttir í kvikmyndinni Tryggð.
Borgarbíó, Smárabíó
og Háskólabíó
Tryggð bbbbn
Leikstjórn og handrit: Ásthildur Kjart-
ansdóttir. Kvikmyndataka: Ásgrímur
Guðbjartsson. Klipping: Andri Steinn.
Tónlist: Kira Kira.
Aðalhlutverk: Elma Lísa Gunnarsdóttir,
Enid Mbabazi, Raffaella Brizuela Sig-
urðardóttir, Claire Harpa Kristinsdóttir,
Sólveig Guðmundsdóttir, Sveinn Ólafur
Gunnarsson og Theodór Júlíusson.
90 mín. Ísland, 2019.
BRYNJA
HJÁLMSDÓTTIR
KVIKMYNDIR