Morgunblaðið - 05.02.2019, Blaðsíða 21
UMRÆÐAN 21
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 5. FEBRÚAR 2019
Ylströndin Nauthólsvík
Sími: 411 5000 • www.itr.is
Mánudagar – Föstudagar
11-14 og 17-20
Laugardagar
11-16
Lengri
afgreiðslutími
á ylströnd
Verið velkomin í Nauthólsvík
Veröldin er að hlýna.
Mælingar sýna hlýnun
sem staðið hefur í tölu-
verðan tíma. Hin al-
menna skoðun er að
þetta sé manninum að
kenna. Hlýnunin sé
komin á hættulegt stig,
almenn græðgi og sókn
í alls konar óþarfa sé
að auka kolsýruna
(CO2, koltvíildi) svo
mikið að hnattrænar hörmungar
muni dynja yfir innan fárra áratuga
ef fram heldur sem horfir.
Kolsýran í andrúmsloftinu eykst
um 2 ppm (partar af milljón) á hverju
ári. Þetta hefur legið fyrir í meira en
hálfa öld. Alheimsráðstefnur í Kyoto
1997 og Kaupmannahöfn 2009
breyttu engu um það og Parísarráð-
stefnan 2015 gerir það ekki heldur.
Churchill sagði um frækilega vörn
breska flughersins gegn þeim þýska í
orrustunni um Bretland 1940: „Sjald-
an hafa jafn margir átt jafn fáum jafn
mikið að þakka.“ Í sama stíl má segja
um þessar ráðstefnur: Sjaldan hafa
jafn margir talað jafn mikið til jafn
lítils gagns.
Orsök hlýnunarinnar
Kolsýran býr til gróðurhúsaáhrif
en loftrakinn og skýjafarið eru mun
virkari. Sýna má fram á að hlýnunin
eykur rakamagnið í loftinu og þar
með aukast gróðurhúsaáhrifin enn
frekar (positive feedback effect).
Þetta gerist með aukinni hlýnun
sjávar, sem enn er ekki komin fram
að ráði. Þetta gæti endað með ósköp-
um og breytt jörðinni í hnött eins og
Mars eða Venus. Jörðin var á svona
leið fyrir 50-200 milljónum ára, en af
einhverjum orsökum slapp hún. Í
dag eru til spádómar sem ganga út á
að við séum á þessari leið núna, hlýn-
un jarðar er nýjasta heimsendakenn-
ing spámanna loftslagsins og má vera
að þeir haft meira til síns máls en
eldri starfsbræður.
Loftslagsspámenn halda því fram
að hlýnun jarðar umfram 1,5-2 gráð-
ur sé hættuleg, eftir það verði ekki
við neitt ráðið. Mönnum
til huggunar má benda á
að heildargróðurhúsa-
áhrifin á meðalhita jarð-
ar eru um 33 gráður, án
þeirra væri jörðin
óbyggileg. Gróðurhúsa-
áhrifin eins og þau eru á
hverjum tíma sveiflast
til með loftslaginu, sem
er alltaf að breytast eins
og lesa má úr loftslags-
sögu jarðarinnar. Að
gróðurhúsaáhrifin megi
ekki aukast nema um 5-6% hljómar
ekki sennilega. En auðvitað á að
stemma stigu við loftslagsbreyt-
ingum af mannavöldum. Nógu slæmt
er veðrið samt.
En jörðin getur kólnað aftur eins
og hún hefur alltaf gert og ný ísöld
skollið á.
Útreikningar og spádómar
Er hægt að segja fyrir um hitastig
og veður langt fram í tímann? Stutta
svarið er nei. En meðalhiti jarðar er
að hækka, ekkert sem bendir til að sú
þróun sé að breytast svo auðvelt er
að búa til reiknilíkön sem elta mæl-
ingarnar og nota þau til að spá um
þróun hitastigsins fram í tímann.
Þetta gera vísindamenn, og þessar
reikniæfingar eru orðnar svo mikil
íþrótt að í raun og veru má tala um
loftslagsbreytingaiðnað.
Víða eru notuð hnattræn veður-
líkön sem geta innifalið geislunar-
ferla sólarljóssins og áhrif þeirra á
hitastig. Þessi líkön hafa verið þróuð
áfram af vísindamönnunum sem
standa að IPCC (Intergovernmental
Panel of Climate Change) sem starf-
ar undir Sameinuðu þjóðunum. Þeir
birta niðurstöður sínar í svokölluðum
„Assessment Reports“, þær skýrslur
mála hnattræna hlýnun æ svartari
litum eftir því sem fleiri koma.
En veðurfar er sterkt ólínulegt
kerfi sem hvorki getur endurtekið
sjálft sig eða staðið í stað eins og Jul-
es Henri Poincaré og fleiri stærð-
fræðingar, sérfróðir um óreiðukerfi
(kaótísk), hafa sýnt fram á. Að reikna
út veðrið örugglega mjög langt fram í
tímann er ekki hægt og verður aldrei
hægt. Og það er ekki bara því að
kenna hvað veðurkerfin eru eðl-
isfræðilega flókin.
Hvað er til ráða?
Minnka verður kolsýruframleiðsl-
una. Til þess eru ágætis meðöl sem
hafa verið þekkt í 50 ár (EPRI:
Technically feasible CO2 reductions).
Á árunum 2007-2012 voru fjórar
áætlanir lagðar fyrir Bandaríkjaþing
sem voru í samræmi við þetta. Ekk-
ert af þeim hefur náð fram að ganga
vegna sameinaðrar andstöðu hags-
munahópa í atvinnulífinu og um-
hverfisverndarsinna. Andstaða þess-
ara síðarnefndu kemur e.t.v. á óvart,
en EPRI-tillögurnar innihalda bæði
kjarnorku og vatnsafl sem umhverf-
isverndarsinnar eru heitir á móti,
sama hvar í heiminum borið er niður.
Tillögurnar innihalda líka þær end-
urbætur á olíurafstöðvum að auka
virkni þeirra í 40% eða meir, en um-
hverfisverndarsinnar eru ekki hrifnir
af því heldur. Þessar tillögur hefðu
dugað 2010, en gera það ekki í dag.
Evrópumenn hafa lítið rætt þetta á
sínum þjóðþingum en verið þeim
mun duglegri í Kyoto, Kaupmanna-
höfn og París og öðrum kjaftaþing-
um. Orsökin gæti verið að viðmið-
unarárið í kolsýruútblæstri er 1990,
og árangur talinn í breytingum frá
því. Einmitt þetta ár lagði Evrópa
niður kommúnisma, vestrænir
tæknimenn komust í orkukerfin í
Austur-Evrópu og gátu lagað þá
óhóflegu mengun sem þaðan kom,
aðallega vegna brennslu á surtar-
brandi. Þróun kolsýrulosunar í Evr-
ópu var því jákvæð, þ.e. minnkun
fyrstu árin eftir 1990. Enn þann dag í
dag er ekki alveg búið að hreinsa til
eftir kommúnismann. T.d. er tölu-
verð vinnsla á surtarbrandi ennþá í
Slóvakíu.
Nánar þarf að fjalla um Ísland og
pólitíkina, en verður ekki gert hér.
Hlýnun jarðar:
Umræða til einskis
Eftir Jónas
Elíasson
Jónas Elíasson
» Alþjóðasamningar
og þrefið um lofts-
lagsbreytingar hafa
engu skilað. Engar
raunhæfar aðgerðir
sem breyta þessu eru
til umræðu, CO2
loftsins eykst bara.
Höfundur er prófessor.
jonaseliassonhi@gmail.com
Hvert og eitt okkar
getur minnkað líkur á
krabbameinum og
dauðsföllum af völdum
krabbameina um allt
að 40% með lífsstíl,
með því að vera vak-
andi fyrir einkennum
krabbameina og með
krabbameins-
meðferðum. Mataræði
er hluti af þeim þátt-
um sem skipta máli til að draga úr
líkum á krabbameinum og öðrum
sjúkdómum. Hér skiptir til að
mynda máli fyrir heilsuna að borða
vel af trefjum.
Trefjar eru í heilkornavörum
eins og heilkornabrauði, rúgbrauði
(helst ósætt), haframjöli, byggi,
heilhveitipasta og hýðishrís-
grjónum. Trefjar er einnig að finna
í ávöxtum, grænmeti, baunum,
hnetum og fræjum.
Í tilefni af Alþjóðlega krabba-
meinsdeginum sem var í gær, 4.
febrúar, leggur Krabbameinsfélagið
áherslu á að miðla fræðslu um for-
varnir og einkenni krabbameina.
Tilgangur dagsins er að vekja at-
hygli á þeim vanda sem fylgir
krabbameinum og hvetja til um-
bóta og eflingar á sviði forvarna,
greiningar og meðferðar gegn
krabbameinum.
Af hverju skipta trefjar máli?
Trefjar eru vatnsleysanlegar eða
óvatnsleysanlegar og gegna mis-
munandi hlutverki í líkamanum.
Því er mikilvægt að borða fjöl-
breytta fæðu til þess að fá nóg af
öllum gerðum trefja. Neysla þeirra
stuðlar að betri þarmaflóru í ristl-
inum. Sjálf getum við ekki brotið
niður trefjar en bakteríur í ristl-
inum geta nýtt trefjarnar til að
mynda stuttar fitusýrur sem nýtast
líkamanum vel. Helstu kostir þess
að innbyrða trefjar daglega er að
hægðir verða reglulegri og líkur á
ristilkrabbameini og hjarta- og
æðasjúkdómum minnka. Trefjar
binda hluta af kólesterólinu í melt-
ingarveginum og skila því út með
hægðunum. Þegar við borðum
trefjaríkt fæði erum við einnig
lengur að melta fæðuna. Því lengur
sem við erum södd, því minni líkur
eru á að við borðum meira en við
þurfum og þyngjumst einnig síður.
Auk þess fara næringarefni eins og
glúkósi hægar út í blóðrásina eftir
máltíð sem er rík af trefjum. Það
er jákvætt af því að þá þurfum við
minna insúlín til að koma sykrinum
í frumur líkamans.
Embætti landlæknis mælir með
því að borða heil-
kornavörur að minnsta
kosti tvisvar sinnum á
dag. Fyrir eldri en
tveggja ára er einnig
mælt með 500 grömm-
um af ávöxtum og
grænmeti. Með þessu
tryggjum við nægt
magn af trefjum og
öðrum nauðsynlegum
vatnsleysanlegum vít-
amínum og stein-
efnum. Ef kornvörur eru merktar
með græna skráargatinu innihalda
þær ríflega af trefjum.
Krabbamein í ristli
og endaþarmi
Krabbamein í ristli og endaþarmi
er þriðja algengasta krabbameinið í
heiminum. Að meðaltali greinast
165 manns á ári á Íslandi með
þennan sjúkdóm og 67 látast af
völdum hans.
Samkvæmt fjölda rannsókna er
hægt að minnka líkur á krabba-
meini í ristli og endaþarmi með því
að hreyfa sig reglulega, borða
trefjaríkt fæði, kalkríkar vörur, lít-
ið af rauðu kjöti og unnum kjötvör-
um og drekka hóflega af áfengi eða
sleppa því. Einnig eru vísbendingar
um að góður D-vítamínbúskapur
geti minnkað líkur á krabbamein-
inu.
Helstu einkenni ristilkrabba-
meins geta verið breytingar á
hægðum eins og niðurgangur og
hægðatregða sem varir yfir nokkr-
ar vikur, blóð í hægðum, stöðugur
kviðverkur og óútskýrt þyngd-
artap. Í tilvikum sem þessum er
ráðlagt að panta tíma hjá lækni.
Með góðu aðgengi að hollum
fæðutegundum, til dæmis með því
að niðurgreiða hollari valkosti, get-
um við fækkað krabbamein-
stilfellum.
Mikilvægi
trefja gegn ristil-
krabbameini
Eftir Jóhönnu E.
Torfadóttur
»Hægt er að minnka
líkur á krabba-
meinum um allt að 40%
með lífsstíl, þekkingu
á einkennum, snemm-
greiningum og meðferð.
Krabbamein í ristli og
endaþarmi er þriðja
algengasta krabbamein
í heimi.
Jóhanna E. Torfadóttir
Höfundur er næringar- og
lýðheilsufræðingur og sérfræðingur
í forvörnum hjá Krabbameinsfélagi
Íslands.
Móttaka aðsendra greina
Morgunblaðið er vettvangur lifandi umræðu í landinu og birtir aðsendar grein-
ar alla útgáfudaga.
Þeir sem vilja senda Morgunblaðinu greinar eru vinsamlega beðnir að nota
innsendikerfi blaðsins. Kerfið er auðvelt í notkun og tryggir öryggi í sam-
skiptum milli starfsfólks Morgunblaðsins og höfunda. Morgunblaðið birtir
ekki greinar sem einnig eru sendar á aðra miðla.
Kerfið er aðgengilegt undir Morgunblaðslógóinu efst í hægra horni forsíðu
mbl.is. Þegar smellt er á lógóið birtist felligluggi þar sem liðurinn „Senda inn
grein“ er valinn.
Í fyrsta skipti sem innsendikerfið er notað þarf notandinn að nýskrá sig inn
í kerfið. Ítarlegar leiðbeiningar fylgja hverju þrepi í skráningarferlinu. Eftir að
viðkomandi hefur skráð sig sem notanda í kerfið er nóg að slá inn kennitölu
notanda og lykilorð til að opna svæðið. Hægt er að senda greinar allan sólar-
hringinn.
Nánari upplýsingar veitir starfsfólk Morgunblaðsins alla virka daga í síma
569-1100 frá kl. 8-18.
fasteignir