Skessuhorn - 17.12.2003, Page 36
36
MIÐVIKUDAGUR 17. DESEMBER 2003
^uiissunu^
Jólakveðja jrá Grundarfírði
Þegar líða tekur að fæðingu barns fyllist hin verðandi móðir mikilli ó-
kyrrð. Hún linnir ekki látum fyrr en allt er tilbúið fyrir komu barnsins, og
búin að strauja samfellurnar og sængurfötin og faðirinn búinn að setja upp
vögguna og skiptiborðið. Þessi árátta er oft kölluð hreiðurgerð með tilvís-
un í hátterni fuglanna á vorin.
Um þessar mundir bíða margar verðandi mæður á Islandi í eftirvæntingu
eftir komu barnsins síns í þennan heim, sumar hafa lokið hreiðurgerðinni,
aðrar eru enn önnum kafnar við að safna stráum og flétta sarnan í hlýtt og
öruggt skjól.
Það hlýtur að vera sérstök tilfmning að vænta fæðingar barns á aðvent-
unni og jólagjöf engri lík að taka á móti því um jólaleytið. En ekki einvörð-
ungu verðandi foreldrar bíða í ofvæni; gjörvöll kristnin væntir fæðingar
Frelsarans, komu ljóssins í myrkvaðan heim. Hver og ein kristin manneskja
tekur þátt í eftirvæntingu og kvíða Maríu og Jósefs á lævi blandinni ferð
þeirra til Betlehem. Hver og ein kristin manneskja tekur þátt í fögnuði
þeirra yfir öruggri fæðingu barnsins í gripahúsinu, eins og væri það þeirra
eigið barn. Fæðing barns gjörbreytir ævinlega aðstæðum foreldranna; ekk-
ert verður sem fyrr. Fæðing Jesú breytti ekki aðeins aðstæðum Maríu og
Jósefs, hún breytir aðstæðum allra manna. Hún hefur í för með sér grund-
vallandi breytingu á sambandi Guðs og manns, því að í Jesú gerist Guð
maður, tekur á sig hlutskipti manna. Af því leiðir, að Guð skilur fullkomlega
hvernig manninum líður, skilur gleði hans og þjáningu, ótta hans og þrá,
því hann reynir það sjálfur. I þessu er fólgin sérstaða og stórkostleg gjöf
kristinnar trúar.
Takið eftir, að ég tala í nútíð, eins og í sálminum góða, sem við syngjuin
á aðfangadagskvöld: „I Betlehem er barn oss fætt“. Við tölum ekki í þátíð
eins og um liðinn atburð sé að ræða, sem við minnumst með ljúfsárri eftir-
sjá, svo sem eins og fæðingu okkar eigin barna, heldur í nútíð, eins og fæð-
ingin hafi átt sér stað skömmu áður og okkur hafi rétt í þessu verið að ber-
ast fréttirnar. Því að fæðing barnsins, sem fæðist í fjárhúsinu í Betlehem, er
engri annarri fæðingu lík; á einhvern leyndardómsfullan hátt er hún alltaf
raunveruleg.
Um hver jól fæðist barn í Betlehem, en ekki þeirri Betlehem, hvar Israel-
ar og Palestínumenn berast á banaspjót, heldur í himneskri Betlehem, Bet-
lehem trúarinnar. Það er gjöf trúarinnar, að fæðingin, sem átti sér stað í
Betlehem í Palestínu fyrir rúmum tvö þúsund árum, er ævarandi veruleiki í
heimi trúarinnar. Og reyndar er gildi hennar ekki einskorðað við kristna
kirkju, heldur hefur hún gildi fyrir heiminn allan, því að lífshlaupið, sem
hún bar í skauti sér, var sigurganga lífsins í baráttunni við dauðann; lífið
hefur sigrað, broddur dauðans er brotinn.
Já, „í Betlehem er barn oss fætt“ syngjum við á jólanótt. Það er fólgið
okkur til að hlúa að því, vernda og styrkja, það er gjöf Guðs til okkar, ekki
bara Maríu og Jósefs. En til þess að við getum tekið við þessari gjöf í sannri
gleði, þurfum við sannarlega að upplifa að hún sé að okkur rétt, að við eig-
um hlutdeild í henni. Til þess að það megi verða, þarf að huga að hreiður-
gerðinni og henni að vera Iokið áður en barnið fæðist. En athugið að ekki
er nóg að öll ytri umgjörð sé skikkanleg. Til þess að verðandi móður sé
mögulegt að njóta þess kraftaverks, sem fæðing er, þrátt fyrir þá þraut og
kvöl, sem henni fylgir, verður hún að hafa haft tækifæri til þess að samstilla
sál og líkama og íhuga það, sem hún á vændum, í friði og ró. Þetta á raun-
ar við um báða foreldra og systkini barnsins einnig. Það þarf að vera frið-
sæld og ró í hreiðrinu. Hið sama gildir þegar við undirbúum fæðingarhátíð
frelsarans. Það er æskilegt að nota aðventuna til að undirbúa sig andlega
fyrir jólin og til að skapa þann anda friðar og kærleika á heimilinu, sem
komu Jesúbarnsins er ætlað að færa með sér. Við ættum að einbeita okkur
sérstaklega að því að rækta jákvæð og kærleiksrík samskipti við okkar nán-
ustu, nokkuð sem oft vill farast fyrir í amstri hversdagsins, þegar við hneigj-
umst gjarnan til að hafa allt á hornum okkur. Því að þó að flestir finni fyrir
því að viss helgi hvíli yfir þeirri stund, er klukkurnar hringja inn jólin klukk-
an sex á aðfangadagskvöld, þá er hætt við því að sú helgi hafi ekki þau töfra-
áhrif sem margir vonast eftir. Ef samskiptin á heimilinu einkennast af
spennu og pirringi, þá hverfur það andrúmsloft ekki eins og dögg fyrir sólu
klukkan sex á aðfangadagskvöld. Við skulum því reyna að nota tímann, sem
enn er til jóla, til þess að skapa meðvitað það andrúmsloft kærleika og ffið-
ar, sem tilhlýðilegt er að taki á móti nýfæddum Guðs syni. Annríkið, sem ó-
hjákvæmilega fylgir aðventunni ætti ekki að koma í veg fyrir þetta; það á að
vera gleðilegt annríki fjölskyldunnar, sem undirbýr komu hins ófædda
barns. Þá munum við vonandi með sanni geta fagnað yfir því að „barn er
oss fætt, sonur er oss gefinn“.
Eg óska lesevdum Skessuhomsins gleóilegra jóla ogfarsældar á nýju ári.
Elínhorg Sturludóttir.
Sóknarprestur í Grundarjirði