Morgunblaðið - 18.06.2019, Síða 25
ÍÞRÓTTIR 25
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 18. JÚNÍ 2019
Innkoma Bjarka Más El-
íssonar í leik Íslands og Tyrk-
lands í undankeppni EM í
handbolta á sunnudag var
glæsileg. Bjarki skoraði ellefu
mörk þrátt fyrir að hann spil-
aði aðeins seinni hálfleikinn.
Guðjón Valur Sigurðsson
átti erfitt uppdráttar í fyrri
hálfleiknum og var verðskuldað
settur á bekkinn í hálfleik.
Guðmundur Guðmundsson,
landsliðsþjálfari, hikar ekki við
að henda mönnum á bekkinn
og jafnvel úr hópnum ef hann
er ekki sáttur við þitt framlag.
Einhver umræða hefur
skapast eftir leikinn um að
Guðjón eigi að kalla þetta gott
með landsliðinu til að hleypa
Bjarka Má Elíssyni og Stefáni
Rafni Sigurmannssyni í hópinn
í hans stað.
Guðjón verður sá fyrsti til
að viðurkenna að hann átti
slæman dag, en hann á nóg
eftir með landsliðinu, það er
ég sannfærður um. Hann skor-
aði 142 mörk í 33 leikjum á ný-
afstaðinni leiktíð í þýsku deild-
inni og átti auk þess afar góða
leiki í Meistaradeild Evrópu.
Bjarki Már skoraði 100 mörk í
34 leikjum í sömu deild.
Guðjón Valur var ekki með
á HM í Króatíu í janúar vegna
hnémeiðsla. Bjarki Már fékk þá
gullið tækifæri til að láta ljós
sitt skína en hann átti ekki
sérstakt mót. Guðjón Valur er
að öllum líkindum vinstri
hornamaður númer eitt í lands-
liðinu þrátt fyrir einn slæman
leik.
Hann á nóg eftir þrátt fyrir
að vera orðinn 39 ára gamall.
Hann er á leiðinni í stórliðið
PSG fyrir næstu leiktíð og það
kæmi mér ekki á óvart ef Guð-
jón yrði einn markahæsti leik-
maðurinn á EM í janúar.
BAKVÖRÐUR
Jóhann Ingi
Hafþórsson
johanningi@mbl.is
HM 2019
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Noregur tryggði sér sæti í sextán liða
úrslitum heimsmeistaramóts kvenna í
fótbolta með naumum 2:1-sigri á Suð-
ur-Kóreu í gær. Bæði mörk Norð-
manna komu úr vítaspyrnum, en Suð-
ur-Kórea var heilt yfir sterkari
aðilinn í leiknum.
María Þórisdóttir, dóttir Þóris
Hergeirssonar sem þjálfar kvennalið
Noregs í handbolta, er búin að vera
með betri leikmönnum Norðmanna í
keppninni til þessa. Hún náði í víta-
spyrnu strax á fimmtu mínútu sem
Caroline Hansen skoraði úr. Hansen
náði svo sjálf í víti á 51. mínútu og þá
mætti Isabell Herlovsen á svæðið og
tvöfaldaði forskot Noregs. Eftir það
sótti Suður-Kórea án afláts og tókst
að minnka muninn, en norska liðið
hélt út og fagnaði sigri. Noregur
mætir annað hvort Brasilíu eða Ástr-
alíu í 16-liða úrslitunum næstkomandi
laugardag.
Frakkar sluppu með skrekkinn á
móti Nígeríu. Lokatölur urðu 1:0 og
kom sigurmarkið úr vítaspyrnu á 79.
mínútu. Varnarmaðurinn Wendie
Renard, sem skoraði skrautlegt
sjálfsmark gegn Noregi, fékk tvær
tilraunir á punktinum. Chiamaka
Nnadozie, 18 ára markmaður Níger-
íu, fór af marklínunni er Rendard
skaut í stöng og fékk hún að launum
gult spjald og Renard aðra tilraun.
Síðari tilraunin heppnaðist betur og
Frakkar fara í sextán liða úrslit með
fullt hús stiga. Þrátt fyrir það eru
margir ósáttir við frammistöðu
franska liðsins til þessa, en hún var
ósannfærandi gegn Noregi í síðustu
umferð og lítið skárri gegn Nígeríu.
Frakkland mætir einu þeirra liða sem
hafna í þriðja sæti síns riðils í næstu
umferð.
Leikmenn nígerska liðsins voru
niðurbrotnir að leik loknum, enda
hefði jafntefli tryggt liðinu farseðilinn
í 16-liða úrslitin. Þess í stað þurfa þær
nígersku að treysta á önnur úrslit.
Þjóðverjar með fullt hús
Þýskaland átti ekki i neinum vand-
ræðum með að tryggja sér toppsæti
B-riðils. Eins og flestir bjuggust við
vann Þýskaland sannfærandi 4:0-
sigur á Suður-Afríku. Fram að leikn-
um í gær hafði Þýskaland aðeins
skorað tvö mörk í keppninni, en Ól-
ympíumeistararnir voru sterkari en
Suður-Afríka frá fyrstu mínútu til
þeirrar síðustu. Suður-Afríka, sem
var að leika á sínu fyrsta heimsmeist-
aramóti, lauk keppni án stiga.
Sara Däbritz skoraði í öðrum
leiknum í röð og þær Melanie Leu-
polz, Alexandra Popp og Lina Ma-
gull komust einnig á blað. Þýskaland
leikur í 16-liða úrslitum í Grenoble
næstkomandi laugardag og mætir
einu af liðunum sem höfnuðu í þriðja
sæti í sínum riðli. Þýskaland hefur
ekki tapað leik í riðlakeppni HM síð-
an liðið tapaði fyrir Svíþjóð árið
1995.
Það var ljóst fyrir leik Spánverja
og Kínverja að bæði lið færu í 16-liða
úrslit með jafntefli. Þrátt fyrir mikla
yfirburði Spánverja tókst þeim ekki
að koma boltanum framhjá Shimeng
Peng í marki Kína, sem átti magn-
aðan leik. Lauk leiknum með marka-
lausus jafntefli. Spánverjar áttu 20
skot gegn engu hjá Kína, en það
dugði ekki til. Liðin fögnuðu því bæði
sætum í 16-liða úrslitum. Ljóst er að
Spánverjar, sem eru komnir í útslátt-
arkeppnina í fyrsta skipti, mæta ann-
að hvort Bandaríkjunum eða Svíþjóð
í Reims næstkomandi mánudag.
Óvíst er hvaða andstæðingur bíður
Kína í 16-liða úrslitum.
Vítaspyrnur og dramatík
María Þórisdóttir með Noregi í 16-liða úrslit Brasilía eða Ástralía bíður
Frakkar sluppu með skrekkinn Renard fékk tvær tilraunir á punktinum
AFP
Víti Mörk Noregs komu úr vítum. Isabell Herlovsen skoraði annað markið og gulltryggði farseðil í 16-liða úrslit.
Íslenska karlalandsliðið í hand-
bolta verður í þriðja styrkleika-
flokki þegar dregið verður í riðla
fyrir úrslitakeppni Evrópumótsins
en Ísland tryggði sér farseðilinn á
mótið með sigrinum gegn Tyrkjum
á sunnudaginn og tekur þar með
þátt í sínu 11. Evrópumóti í röð.
Evrópumótið verður haldið í
Austurríki, Noregi og Svíþjóð 9.-
26. janúar á næsta ári.
24 þjóðir taka þátt í Evrópu-
keppninni og verður spilað í sex
fjögurra liða riðlum. Drátturinn
fer fram í Vín föstudaginn 28.
júní.
1. styrkleikaflokkur: Spánn, Sví-
þjóð, Frakkland, Danmörk, Króat-
ía og Tékkland.
2. styrkleikaflokkur: Noregur,
Slóvenía, Þýskaland, N-Makedónía,
Ungverjaland og H-Rússland.
3. styrkleikaflokkur: Austurríki,
Ísland, Svartfjallaland, Portúgal,
Sviss og Lettland.
4. styrkleikaflokkur: Pólland,
Rússland, Serbía, Úkraína, Bosnía
og Holland. gummih@mbl.is
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Yngstur og elstur Viktor Gísli Hallgrímsson og Guðjón Valur Sigurðsson.
Ísland í 3. styrkleika-
flokki í drættinum á EM