Morgunblaðið - Sunnudagur - 02.06.2019, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - Sunnudagur - 02.06.2019, Blaðsíða 22
22 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 2.6. 2019 LÍFSSTÍLL afganginn af farangrinum; svefnpoka og vistir. Gangan hefst í 2.600 metra hæð en endar í 5.400 metrum og því mikil hætta á hæðarveiki. Gengið var í fimm til sex tíma á dag með hvíld og gist í svokölluðum tehúsum á leiðinni. Þar var spilað, snætt og spjallað og kröftum safnað fyrir komandi göngu- dag. „Það var alveg bannað að leggja sig því þá verður maður veikur,“ seg- ir Helga Guðrún. „Maður notar minna súrefni þegar maður sefur og þá hægir á aðlög- unarferlinu,“ útskýrir Benedikt. „Það var algjört lykilatriði að leggja sig ekki.“ Tehúsin voru oft í litlum þorpum eða bæjum og því gafst tækifæri á að skoða sig um og drekka í sig fram- andi menningu Nepals. „Í sumum bæjum voru markaðir þar sem gaman var að ganga um og skoða,“ segir Helga Guðrún og þau segja að afar skemmtilegt hafi verið þegar þau fengu að kynnast inn- fæddum á bakaleiðinni og sjá hvernig þau búa, fjarri túrismanum. Það hafi í raun staðið upp úr þegar þau horfa til baka. „Að hitta fólkið og upplifa menninguna var það merkilegasta,“ segir Helga Guðrún. Benedikt tekur undir það. „Við fengum að fara heim með einum fararstjóranum og sjá hvernig hann býr og það var alveg magnað.“ Aldrei liðið eins illa Í grunnbúðum er gist í tjaldbúðum sem búið er að reisa áður en göngu- fólkið mætir á svæðið. Þar má finna fjöldann allan af tjaldbúðum ýmissa fyrirtækja en alls dvelja þar um 2.000 manns á þessum tíma. Í hópnum þeirra voru ellefu göngumenn og álíka margir sjerpar sem ætluðu á toppinn, þar á meðal Bjarni faðir þeirra. Systkinin gistu eina nótt í grunnbúðum og fannst það alveg nóg. Hæðarveikin hafði gert vart við sig á leiðinni og einnig var ekki hættulaust að dvelja þarna ofan á jökli. „Við erum ofan á jökli en í raun ekki á ís, heldur steinum. Þetta er mjög hrjóstrugt og allt á hreyfingu,“ útskýrir Benedikt. „Um nóttina upp- lifðum við að finna ísinn brotna undan tjaldinu og heyra í og sjá snjóflóð uppi í jöklinum, yfir skriðjökulinn þar sem pabbi var að fara að labba,“ segir hann. „Veðrið var ágætt þegar við vorum þarna en við fréttum að nóttina eftir hefði fólk ekki sofið því það var svo vindasamt. Við vorum í raun mjög heppin,“ segir Helga Guðrún. „Það var alveg nóg að gista þarna eina nótt. Ég hafði veikst tveimur dögum áður og ekki náð mér al- mennilega og það var alveg spurning á tímabili hvort ég kæmist alla leið,“ segir Helga Guðrún. „Ég myndi segja að það væri rosa- lega stórt persónulegt afrek fyrir Helgu að hafa náð í grunnbúðir. Hún lagði af stað veik.“ Bæði segjast hafa upplifað hæðar- veiki einhvern tímann á leiðinni. „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað, mikil vanlíðan,“ segir Bene- dikt. „Svolítið eins og að vera sjóveik- ur. Ég fékk þetta eftir þriggja daga göngu en þessi dagur sem ég veiktist var erfiður því við hækkuðum okkur um þúsund metra,“ segir hann. „Ég var alveg búinn á því en ég píndi ofan í mig mat og tók lyf við hæðarveikinni og 40 mínútum seinna leið mér betur. Þetta getur komið og farið jafn skjótt.“ Hvorugt þeirra segist hafa viljað gefast upp á leiðinni, þrátt fyrir erfiða göngu og veikindi. „Mér fannst þetta stundum heldur langt ferðalag. Á degi átta eða níu var ég orðin spennt að komast í sturtu, á venjulegt kló- sett, fá venjulegan mat og vera ekki alltaf kalt,“ segir hún. „En mér fannst þetta aldrei líkam- lega erfitt og sé ekki eftir að hafa far- ið.“ Þau segjast hafa skipst á að vera veik á leiðinni. Púlsinn var hár og öll áreynsla reyndi á. „Þegar ég var kominn í grunnbúðir og við vorum að ganga að okkar búðum leið mér hræðilega; mér hefur aldrei liðið eins illa á ævinni,“ segir hann og Helga Guðrún bætir við: „Þá var ég orðin mun betri en Benni alveg búinn.“ Eftir einn sólarhring í grunn- búðum ákváðu systkinin að ganga niður, ásamt Hilmu, en í boði var að taka þyrlu. „Við þáðum ekki að fara með þyrlunni; okkur langaði að klára þetta.“ Að takast á við áskoranir Systkinin segja bæði að gaman hafi verið að deila þessari reynslu með föður sínum og eru þau reynslunni ríkari. „Mér fannst það mjög skemmtilegt af því að þetta var svo krefjandi og reyndi á,“ segir Helga Guðrún. „Pabbi sagði strax í upphafi að þetta væri ferðalag en ekki frí,“ segir Benedikt. „Já, ég myndi aldrei segja að ég hefði farið í frí til Nepals. Það er ekki alveg lýsandi. Þetta var leiðangur,“ segir hún. „Maður hafði nógan tíma til að hugsa og það var oft smá stressandi að þurfa að passa upp á allt,“ segir hann. „Mér fannst ég læra það hvernig ég bregst við erfiðleikum. Ég hafði aldrei prófað neitt svona erfitt áður; þetta var áskorun. Og ég sá hvernig ég myndi standa mig. Ég er kannski minnsta fjallageitin af okkur fjórum Íslendingunum sem vorum þarna í hópi þannig að mér fannst gaman að finna að ég gæti staðið mig,“ segir hún og bætir við að hún hafi lært að meta ýmislegt betur eftir að hafa far- ið í þessa ferð. „Það hljómar kannski eins og klisja en eftir ferðina lærði ég líka að kunna betur að meta hluti eins og venjulega heita sturtu og almennilegt klósett,“ segir Helga Guðrún og brosir. „Svo auðvitað víkkaði sjóndeildar- hringurinn við að koma á svona fram- andi stað.“ Niðurleiðin segja þau að hafi verið erfiðari en uppleiðin. Gengið var nið- ur á skemmri tíma en upp og því lengri ganga á hverjum degi, eða átta til níu tímar. Einnig gerði hæðar- veikin aftur vart við sig. „Þetta voru erfiðir dagar,“ segir hún. Erfið kveðjustund Áður en lagt var af stað niður þurftu systkinin að kveðja föður sinn. Bjarni fylgdi börnum sínum að stíg þar sem leiðir skildi. Benedikt segir að kveðjustundin hafi verið tilfinninga- þrungin. „Það var erfiðara en ég hélt að það yrði,“ segir Helga Guðrún. „Ég var ekki búin að hugsa almennilega út í það en þegar kom að því var það mjög erfitt,“ segir hún. „Því laust niður í huga minn að þetta gæti verið í síðasta skipti sem ég sæi hann. Það voru 2,5 % líkur á að hann dæi og það var ekki hægt að líta framhjá því,“ segir Benedikt en Helga Guðrún segist ekki hafa hugs- að um það. „Eftir að hafa verið í grunnbúðum í einn dag vissi maður hvað aðstæðurnar voru erfiðar. Ég gat ekki ímyndað mér að hann ætti eftir að vera þarna í margar vikur í viðbót, við miklu verri aðstæður en við vorum í. Mér fannst erfitt að vita af honum þarna, svona langt í burtu og að eiga eftir þessa þrekraun,“ seg- ir hún. Þau segjast bæði vel hafa treyst föður sínum, sem er mjög reyndur göngumaður, til að ganga á tindinn en viðurkenna að hafa haft áhyggjur af aðstæðum sem maðurinn ræður ekki við. „Það er algjört prinsipp hjá pabba að bera virðingu fyrir náttúr- unni og aldrei halda að maður hafi yfirhöndina gagnvart henni,“ segir Benedikt og segist vita að náttúran sé manninum sterkari. „Allt getur gerst,“ segir Benedikt og viðurkennir að þessi síðasta vika þegar hann vissi af föður sínum á niðurleið hafi tekið á taugarnar. Endir á okkar ferðalagi líka Benedikt segist hafa verið í golfi þeg- ar fréttir bárust af því að faðir hans hefði komist á toppinn. Vinir hans óskuðu honum til hamingju en þá fyrst fór Benedikt að fá áhyggjur. „Mér fannst á þeim tímapunkti að ég gæti á hverri stundu frétt eitthvað hræðilegt. Það var stressandi tími.“ Eins og fjallað hefur verið um í fjöl- miðlum komst Bjarni á toppinn, átt- undi Íslendingurinn sem það afrekar. Þaðan komst hann heill á húfi niður, en fjallið tók mörg mannslíf síðustu vikur. Bjarni sagði í samtali við mbl.is að átakanlegt hefði verið að ganga fram á nýlátið fólk og segir: „Það er auðvitað mjög sorglegt að sjá þegar fólk er að fylgja draumum sínum að þetta sé verðið og það kosti það lífið.“ „Við vorum fegin að komast niður og ég get ekki ímyndað mér hvernig honum hefur liðið,“ segir Helga Guð- rún. „Ég talaði við hann í síma og hann var mjög djúpt snortinn eftir þennan dag. Það var erfitt fyrir hann að vera stoltur af sjálfum sér þegar hann svo gengur fram á fólk sem var að gera það nákvæmlega sama og hann og borgaði fyrir það með lífi sínu,“ segir Benedikt. Þau systkinin áttu von á föður sín- um þetta sama kvöld sem viðtalið var tekið. „Það að hann komi heim er líka svolítill endir á okkar ferðalagi. Það verður rosalega gott að fá hann heim í kvöld. Við vorum að grínast með það að setja tjald inn í svefnherbergið hans og allar vistir með,“ segir Bene- dikt og hlær. „Manni fannst maður mjög lítill einhvern veginn í þessum stóru fjallasölum. Þarna voru endalausir fjallgarðar. Þegar mað- ur komst nálægt tindum sá maður hvað þeir voru ógnvænlega háir,“ segir Benedikt. Gangan upp í grunnbúðir Everest tók tíu daga og reyndi á en sumir dagar voru betri en aðrir og þá var hægt að brosa framan í myndavélina. Bjarni og Helga Guðrún ræða málin í grunnbúðum Everest. Mannlífið og menningin er það sem stóð upp úr hjá tvíburunum.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.