Morgunblaðið - 31.08.2019, Side 22
22
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 31. ÁGÚST 2019
Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/
Snjalltæki eruflestumómissandi,
en þau eru einnig
viðsjárverð. Á
miðvikudag
greindi fyrirtækið
Apple frá því að stafræni
hjálparkokkurinn Siri, sem
fylgir snjalltækjum framleið-
andans, hefði „deilt“ upp-
tökum og samtölum notenda
með starfsmönnum. Jafnframt
voru birtar nýjar reglur um
meðferð á upptökum þannig
að starfsmenn megi aðeins
hlusta á þær ef notendur hafa
fallist á að taka þátt í því að
bæta frammistöðu Siri.
Þessi tilkynning barst frá
Apple eftir að fréttir birtust
um að verktakar hefðu hlustað
á einkasamtöl notenda þar
sem fram komu persónulegar
upplýsingar um til dæmis
heilsufar. Einnig hlustuðu
þeir á samtöl um kaup og sölu
á eiturlyfjum og upptökur af
notendum í samförum.
Forritið Siri snýst um að
notandinn gefi skipanir munn-
lega. Ýmislegt getur hins veg-
ar kveikt á forritinu án þess að
það hafi verið ætlun notand-
ans.
Fyrr í þessum mánuði kom
fram að netfyrirtækið Face-
book hefði greitt mörg hund-
ruð verktökum fyrir að hlusta
á og skrifa niður brot úr sam-
tölum notenda snjallforritsins
Messenger. Í fréttum kom
fram að verktökunum hefði
verið brugðið við að hlusta á
sum samtölin vegna þess að
þau hefðu snúist um einkamál,
þeir hefðu ekkert fengið að
vita um uppruna þeirra, né til
hvers ætti að nota þau.
Mark Zuckerberg, forstjóri
Facebook, sagði í vitnaleiðslu
fyrir öldungadeild Banda-
ríkjaþings að sú samsæris-
kenning væri á kreiki að fyrir-
tækið hlustaði á samtöl
notenda og notaði í auglýs-
ingar og bætti við: „Það gerum
við ekki.“ Síðar kom þó fram í
skriflegu svari til þingsins að
fyrirtækið safnaði samtölum
ef notendur hefðu leyft það
sérstaklega og notuðu ákveðin
forrit í símum sínum eða
snjalltækjum. Ekki var þó
sagt til hvers upptökurnar
væru notaðar.
Google er með raddstýrðan
þjón. Fyrirtækið hefur sagt að
hlé verði gert á því að hlusta á
og skrifa niður samtöl við
hann í löndum Evrópusam-
bandsins vegna persónuvernd-
arrannsóknar í Þýskalandi.
Netverslunin Amazon býður
einnig upp á raddstýrða gervi-
greindarþjónustu og nefnist
þjónustufulltrúinn Alexa.
Samtöl við Alexu
eru tekin upp
nema notendur
óski þess sér-
staklega að það
verði ekki gert.
Snjalltæknin
getur þróast af sjálfri sér upp
að ákveðnu marki, en í það
minnsta enn sem komið er
gerist það ekki án þess að
mannshöndin komi nærri.
Í þeim dæmum, sem lýst
hefur verið hér að ofan, er
snjalltæknin komin inn á grátt
svæði svo ekki sé meira sagt. Í
réttarkerfinu eru hleranir við-
kvæmt mál og þarf að sýna
fram á rækilegar ástæður eigi
að hlera samtöl manna. Þegar
yfirvöld vilja fá rýmkaðar
heimildir til eftirlits og hler-
ana kviknar ávallt á viðvör-
unarbjöllum. Snúast áhyggj-
urnar um að friðhelgi einkalífs
verði stefnt í voða.
Sennilega er þó meiri
ástæða til að hafa áhyggjur af
því hvernig fólk umgengst vef-
miðla og hvaða upplýsingar
það lætur sjálfviljugt af hendi
og slóðina, sem það skilur eftir
sig á ferðalögum sínum um
netið.
Þá hefur margfaldlega kom-
ið í ljós að öryggi þeirra upp-
lýsinga, sem netrisunum er
treyst fyrir, er ábótavant. Per-
sónulegar upplýsingar hafa
iðulega komist í hendur
óprúttinna einstaklinga.
Þegar fólk notar miðla þess-
ara fyrirtækja þarf það að
samþykkja skilmála þeirra
fyrir notkuninni. Fólk áttar
sig ekki alltaf á því bessaleyfi,
sem þau taka sér með upplýs-
ingar. Reyndin er sú að þau
hafa ansi frjálsar hendur.
Fyrirtækin keppast við að
rækta ímynd sakleysis, en
rekstrargrundvöllur þeirra
byggist ekki á góðgerðar-
starfsemi hvað sem líður fögr-
um fyrirheitum.
Enn á eftir að ráðast hvert
hlutverk raddstýrðra þjóna
verður. Nú þegar er hægt að
eiga við þá samtöl, spyrja til
dæmis um höfuðborgir eða
hæð fjalla eða biðja þá að
segja brandara. En eiga þeir
að virkjast þegar barn grætur
eða rúða brotnar? Á lögregla
að geta orðið sér úti um heim-
ild til að nota gervigreindar-
þjónana til hlerana? Spurning-
arnar eru margar. Hin nýja
tækni getur boðið upp á marg-
vísleg þægindi, sem freistandi
er að færa sér í nyt. En sá
böggull fylgir skammrifi að við
það verður neytandinn ber-
skjaldaður og lætur af hendi
upplýsingar, sem hann getur
ekki treyst á að varlega verði
farið með.
Stóru netfyrirtækin
misstíga sig í notk-
un raddstýrðrar
gervigreindartækni}
Hleranir netrisa
Í
næstu viku kemur þú til Íslands. Þá
þurfa þeir sem rödd hafa að nýta sér
hana og ákvað ég því að rita nokkur
orð um það sem ég vil koma á framfæri
við þig í von um að orð mín berist þér.
Í fyrsta lagi vil ég nefna að Ísland hefur heilt
yfir staðið framarlega í baráttu fyrir kynjajafn-
rétti sem og réttindum hinsegin fólks. Það
skiptir okkur máli að ríki heimsins virði jafnan
rétt fólks, hvaðan sem það kemur og hvernig
sem það er. Því vil ég leyfa mér að fordæma
hvers kyns skerðingar á rétti hinsegin fólks í
heimalandi þínu og brýna fyrir þér að kynna
þér betur aðstæður þess. Jafn réttur fólks af
öllum stærðum og gerðum, kynhneigð, þjóð-
erni og kyni skiptir okkur gestgjafa þína máli
og vona ég að við náum að opna augu þín örlítið
í þeim málum.
Í öðru lagi vil ég nefna réttindi barna á flótta. Bandarísk
stjórnvöld hafa hert mjög stefnu sína gegn fólki á flótta á
landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna og hefur stjórnin
nýlega boðað enn frekari hörku gegn þeim. Ég fordæmi
þessa stefnu og skora á þig að beita þér gegn frekari
sundrun flóttafjölskyldna. Í nýrri skýrslu sem barst
Bandaríkjaþingi í sumar segir að þúsundir barna hafi ver-
ið aðskilin frá fjölskyldum sínum og eru sum hver týnd öll-
um og órekjanlegt hvar þið hafið komið þeim fyrir vegna
skorts á faglegum vinnubrögðum. Nú hlýtur þú stöðu
þinnar vegna að hafa kynnt þér örlítið hvað það er sem
knýr fólk til að yfirgefa heimili sitt og fara með ung börn
sín út í fullkomna óvissu. Þetta gerir enginn
nema í algjörri neyð og því verður að segjast
eins og er að framkoma ykkar í þeirra garð er
algjörlega óboðleg með öllu, fjandsamleg
litlum börnum, hættuleg og mannskemmandi
til langrar framtíðar. Staðfest er að þið ætlið
enn að auka við þennan aðskilnað og fordæmi
ég það af öllu hjarta og skora á bandarísk
stjórnvöld að stöðva þegar í stað þessi mann-
réttindabrot.
Í þriðja lagi vil ég nefna land okkar og nátt-
úru. Nú berast fregnir af því að þið hyggist
stórauka viðveru ykkar hér á landi. Þykir mér
það nokkuð djarft af ykkur þar sem þið hafið
jú ekki tekið til eftir síðustu veru ykkar hér á
landi. Það ber ekki vott um mikla mannasiði að
mæta hingað á ný án þess að hafa gengið svo
frá að jörð sé hér óspillt eftir síðustu dvöl
ykkar. Á Langanesi, nánar tiltekið á H-2-herstöð ykkar á
Heiðarfjalli, hefur komið í ljós að ástand mála er mun
verra en áður var talið. Ný kanadísk rannsókn sýnir að allt
svæðið, langt út fyrir úrgangs- og spilliefnahauga ykkar,
er mengað hættulegum efnum sem hefur alvarleg áhrif á
dýralíf og náttúru. Það er því að lokum algjör grundvallar-
krafa að þið hefjist nú þegar handa við tiltekt áður en þið
hugleiðið að mæta hingað á nýjan leik. Bið ég íslensk
stjórnvöld um að beita sér í þessum efnum.
Helga Vala
Helgadóttir
Pistill
Það sem ég vildi sagt hafa, herra Pence
Höfundur er þingman Samfylkingarinnar.
helguvolu@gmail.com
STOFNAÐ 1913
Útgáfufélag: Árvakur hf., Reykjavík.
Ritstjóri:
Davíð Oddsson
Aðstoðarritstjóri:
Karl Blöndal
Ritstjóri og framkvæmdastjóri:
Haraldur Johannessen
SVIÐSLJÓS
Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Verði hækkun á skylduið-gjaldi í lífeyrissjóði úr 12%í 15,5%, og heimild til aðráðstafa 3,5% af því í til-
greinda séreign, lögfest fyrir allan
vinnumarkaðinn, sem stjórnvöld lof-
uðu í tengslum við gerð lífskjara-
samninganna í vor, getur sú breyt-
ing haft veruleg áhrif þrátt fyrir að
þessi hækkun nái nú þegar yfir
stærstan hluta vinnumarkaðarins.
Opinberir starfsmenn hafa um lang-
an tíma greitt slíkt iðgjald sem fer í
samtryggingu. Lífeyrisréttindi opin-
berra starfsmanna falla undir
væntanlega löggjöf „og þar með hafa
opinberir starfsmenn rétt til að
flytja hluta samtryggingar yfir í sér-
eign. Sá hópur sem kýs að gera slíkt
mun alla jafna hafa lægri trygginga-
réttindi“, eins og segir í skýringum
fjármála- og efnahagsráðuneytisins
um fyrirhugaða löggjöf, sem ætlað
er að taki gildi 1. janúar næstkom-
andi.
Fram kemur í nýrri umsögn
Landssamtaka lífeyrissjóða við
áform um lagasetninguna á sam-
ráðsgátt stjórnvalda að hækkun
skylduiðgjaldsins hefði þau áhrif á
sjálfstætt starfandi einstaklinga „að
þeim ber að greiða 29% hærra ið-
gjald að lágmarki fyrir sjálfan sig í
lífeyrissjóð“. Sjálfstætt starfandi
þurfa að greiða bæði framlag laun-
þega og mótframlag launagreiðanda,
sem er 12% í dag.
Gunnar Baldvinsson, fram-
kvæmdastjóri Almenna lífeyr-
issjóðsins, bendir á í umsögn að þessi
lagaáform feli í sér að lágmarks-
iðgjaldið verði hækkað um 29% í
þeim tilgangi að jafna lífeyrisréttindi
en í kynningu ráðuneytisins komi
ekkert fram um áhrif þessarar
hækkunar á áætluð eftirlaun ein-
staklinga né um áhrif á hagkerfið í
heild.
ASÍ og SA sömdu um það í janúar
2016 að hækka skyldutryggingar-
iðgjaldið á almenna vinnumark-
aðinum í skrefum úr 12% í 15,5%,
sem lokið var í fyrra og jafnframt að
sjóðfélögum væri heimilt að ráðstafa
í heild eða að hluta 3,5% hækkunar-
innar á iðgjaldinu til tilgreindrar
séreignar. Það er þessi breyting sem
lögfesta á fyrir allan vinnumarkað-
inn. ASÍ leggur hins vegar áherslu á
það í umsögn við áform stjórnvalda
að lögfesting þessarar hækkunar og
heimild til ráðstöfunar á 3,5% í til-
greinda séreign eigi ekki að skerða
greiðslur frá almannatryggingum.
Samtök starfsmanna fjármála-
fyrirtækja eru meðal þeirra sem
standa utan heildarsamtaka á vinnu-
markaði. Friðbert Traustason, for-
maður SSF, gagnrýnir lagaáformin í
umsögn og bendir á að skv. tölum
Hagstofunnar séu nú um 210.000
einstaklingar á íslenskum vinnu-
markaði, en um helmingur þeirra
eru félagsmenn í aðildarfélögum
ASÍ. ,,Það eru því um 100.000 ein-
staklingar á vinnumarkaði sem ekki
eiga aðild að kjarasamningum á vett-
vangi ASÍ. Nálægt 50.000 eru félags-
menn í stéttarfélögum opinberra
starfsmanna en 50.000 eru einyrkjar,
sjálfstæðir atvinnurekendur eða
eiga aðild að stéttarfélögum utan
heildarsamtaka.“ Bendir hann á að í
núgildandi kerfi hafi einstaklingar
val og sveigjanleika, sérstaklega
varðandi frjálsa séreign, ráðstöfun
hennar og úttekt. Fyrirhuguð lög-
festing megi ekki skaða þann sveigj-
anleika og það stríði gegn frjálsum
samningsrétti á vinnumarkaði að
breyta lögum í þá veru að þau þvingi
alla launamenn undir kjarasamninga
sem ASÍ-félög gera við sína viðsemj-
endur. SSF leggist því alfarið gegn
þessum áformum.
Í mati ráðuneytsins er gert ráð
fyrir að 2-4% starfsmanna njóti ekki
þess mótframlags sem til stendur að
lögfesta.
29% hækkun iðgjalds
sjálfstætt starfandi
Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Lífeyrisréttindi Lögfesta á 15,5% lágmarksskyldutryggingariðgjald til líf-
eyrissjóða og heimila öllum að ráðstafa 3,5% þar af í tilgreinda séreign.
Í umsögn Landssamtaka lífeyris-
sjóða segir að með því að lög-
binda lágmarksiðgjald í 15,5%
megi vænta þess að innheimta
iðgjalda verði skilvirkari. Hins
vegar er vakin athygli á því að
ekki virðist liggja fyrir rýni á hvar
þörfin liggur, þ.e. hvort almennt
sé þörf á því að hækka skylduið-
gjaldið úr 12% í 15,5%. Í umfjöll-
un um tilgreindu séreignina seg-
ir enn fremur m.a. að óæskilegt
sé að flækja lífeyrssjóðakerfið að
óþörfu ,,og því spurning hvort
raunveruleg þörf sé á því að
setja ákvæði um svokallaða til-
greinda séreign,“ segir Þórey S.
Þórðardóttir framkvæmdastjóri
samtakanna. Gunnar Baldvins-
son, framkvæmdastjóri Almenna
lífeyrissjóðsins, segir að með út-
reikningum megi sýna fram á að
í mörgum tilvikum geti fyrir-
huguð hækkun iðgjalda leitt til
þess að eftirlaun verði á mörkum
þess að vera of mikil og spyrja
megi hvort launþegar væru ekki
betur settir með því að fá þessa
hækkun frekar í formi launa.
Þörf fyrir
hækkun?
UMSAGNIR