Skessuhorn - 28.10.2015, Blaðsíða 16
MIÐVIKUDAGUR 28. OKTÓBER 201516
„Ég held að framleiðslugeta ís-
lenskrar bolfiskvinnslu sem sendir
frá sér ferskar og frystar afurðir sé
um það bil að verða fullnýtt. Þá á
ég bæði við tæki, tól og fjölda þeirra
sem starfa við þennan hluta grein-
arinnar. Við höfum lítið byggt upp
þessar vinnslur hjá okkur þó við
séum reyndar víða að tæknivæðast
betur þessi misserin. Kvótinn hefur
hins vegar verið að aukast þónokk-
uð í þorski. Frystitogurum hef-
ur fækkað og ferskfiskurinn er að
koma í auknum mæli inn í vinnsl-
urnar,“ segir Guðmundur Smári
Guðmundsson framkvæmdastjóri
G Run í Grundarfirði. Hann er
með reyndari fyrirtækjastjórnend-
um í íslenskum sjávarútvegi í dag.
Allt frá barnæsku hefur hann lifað
og hrærst í rekstri fjölskyldufyrir-
tækisins G Run og um leið haft
puttann á púlsi atvinnugreinarinn-
ar. Við hittum hann í síðustu viku
og tókum spjall um ýmislegt varð-
andi sjávarútveginn og stöðu grein-
arinnar nú í upphafi vetrar, þó tæp-
ast verði slíkt umræðuefni tæmt í
einu blaðaviðtali.
Horfir til aukningar
Framkvæmdastjóri G Run rökstyð-
ur frekar mál sitt varðandi uppbygg-
ingu fiskvinnslunnar. „Það standa jú
vonir til að væntingar um stækkun
þorskstofnsins gangi eftir. Undan-
farin ár hefur kvótinn í honum auk-
ist umtalsvert. Hér áður fyrr vorum
við að jafnaði að veiða stöðugt um
300 þúsund tonn af þorski árlega,
70 til 80 þúsund tonn af ýsu, 110 til
120 þúsund tonn af ufsa, 70 til 90
þúsund tonn af karfa. Ef við náum
veiðinni á bolfiski hér við land aft-
ur upp í þessar tölur þá er ljóst að
okkur vantar mikið upp á í saman-
lagðri vinnslugetu í íslenskum fisk-
iðnað til að ná að vinna úr þessu.
Það er búið að loka ótal frystihús-
um og leggja niður vinnslur hring-
inn í kringum landið. Það þarf að
fara að huga að uppbyggingu í fisk-
vinnslum hér á landi sem sjá um að
framleiða úr hráefni á fiski úr þess-
um tegundum. Bæði fjölga þessum
vinnslum og stækka þær sem fyrir
eru.“
Guðmundur Smári segir að frá
þessu megi undanskilja saltfisk-
vinnsluna. „Þar höfum við mikla
umfram framleiðslugetu í dag
vegna þess að eftirpurnin eftir hon-
um minnkaði mjög í kjölfar efna-
hagskreppunnar í lok síðasta ára-
tugar. Saltfiskurinn er þó að koma
til. Mikilvæg markaðslönd eins og
Ítalía, Spánn, Portúgal og Ítalía
eru aðeins að rétta úr kútnum eft-
ir efnahagsörðugleika undangeng-
inna ára. Ef svo væri ekki þá værum
við í enn verri málum með verðið á
þorskinum.“
Fiskverð hafa lækkað
Með tali sínu um verðþróun á
þorski vísar Guðmundur Smári til
þess að verð á fiskmörkuðum hafa
lækkað undanfarið. „Þorskurinn er
það eina sem heldur nokkurn veg-
inn verði þó hann hafi lækkað einn-
ig. Hann er svona 270 til 360 krón-
ur kílóið á mörkuðum. Við sáum
hann áður margoft fara yfir 400
krónur og hann lá stöðugt yfir 300
krónum. En ýsan fer varla yfir 300
krónur. Hún er bara á bilinu 200 til
300 krónur kílóið á uppboðsmörk-
uðum hér innanlands. Menn eru
hugsi yfir þessari lækkandi þróun
í verði. Við megum í því sambandi
ekki gleyma því að íslenska krón-
an hefur verið að styrkjast mjög
mikið. Það skilar sér inn í fiskverð-
ið þannig að það lækkar í krónum
talið.“
Guðmundur Smári segir að fleira
komi til. Margir þættir í flóknu
samspili hafa áhrif á þróun fisk-
verðs. „Sjáum ýsuna núna á fisk-
mörkuðunum. Hún er komin nið-
ur fyrir ufsaverð. Ýsan var einhver
okkar verðmætasti bolfiskur. Að
einhverju leyti er þetta vegna ýsu-
veiða í Barentshafi. Gæði ýsunn-
ar hafa verið að aukast hjá Norð-
mönnum og Rússum. Þeir heil-
frystu mikið af þessum fiski úti á
sjó. Þeir unnu ýsuna illa, hún er til
dæmis mjög vandmeðfarin í upp-
þíðingu. Nú hafa bæði Rússar og
Norðmenn bætt sig í meðferðinni á
ýsunni. Kaupendur á ýsu svo sem í
Bretlandi hafa svo fengið þessa tví-
frystu ýsu úr Barentshafi fyrir eng-
an pening. Fyrir bragðið þá sitjum
við uppi með hana. Reyndar náðum
við árangri í markaðssetningu á ýsu
þegar kvótinn á henni fór yfir 100
þúsund tonn fyrir nokkrum árum.
Þá tókst okkur að koma henni inn í
allar holur á markaðnum. Síðan er
búið að skera ýsukvótann niður al-
veg helling en við erum í ströggli
við að selja þessi 35 þúsund tonn
sem við megum veiða núna.“
Góður markaður
sem hvarf
Hann tekur annað dæmi um sölu-
málin og nefnir nú kolann. Varð-
andi þann fisk telur Guðmundur
Smári að Íslendingar hafi farið illa
að ráði sínu. „Bestu kolamið Íslands
eru við Snæfellsnes og ekki síst
sunnanverða Vestfirði. Þar er mjög
góður koli, bjartur og fínn. Hann
var mjög eftirsótt vara um áratuga
skeið, svo sem á Bretlandsmarkaði.
Okkar fyrirtæki var mikið í að vinna
kola hér áður fyrr. Haustið var okk-
ar tími þar sem við veiddum kola
og seldum meginþorra hans í gám-
um beint á erlenda markaði. Við
veiddum hann í troll á meðan bátar
í Ólafsvík veiddu hann í dragnót.
Fyrir kolann fengum við alla jafnan
hærra verð en fyrir þorskinn. Það
gat munað svona tíu til þrjátíu pró-
sentum allt eftir framboði og eftir-
spurn á mörkuðum. Þetta gekk afar
vel. Í dag erum við hins vegar að
fá aðeins þriðjung af þorskverðinu
fyrir kolann.“
Aðspurður segir Guðmundur
Smári að skýringuna megi finna
hjá okkur Íslendingum. „Við
keyrðum kolakvótann þó nokkuð
niður. Þá dró úr framboði frá Ís-
landi. Verðið hækkaði í kjölfarið en
svo hættum við að sinna markaðs-
málunum fyrir ferskan kola á er-
lendum mörkuðum sem var seld-
ur þangað ísaður í gámum. Stjórn-
málamenn, verkalýðsleiðtogar og
fleiri aðilar stóðu fyrir botnlausum
áróðri um að þessi gámaútflutn-
ingur væri stórhættuleg starfsemi.
En svo var ekki. Þarna vorum við
að flytja út fisk á blómlegan mark-
að sem tók við óendanlegu magni
af kola. Þar var þessi koli flakaður
og unninn og síðan keyrður út til
viðskiptavina. Við hættum að hirða
um þennan markað fyrir ekki nema
þremur til fjórum árum síðan. Koli
er veiddur mjög víða í heiminum
og önnur lönd fylltu að einhverju
leyti í staðinn í það tómarúm sem
Ísland skildi eftir.“
Sölumálin í ólestri
Guðmundur Smári segir að hann
telji heilt yfir að Íslendingar hafi
tekið ranga stefnu í sölumálum
á fiski. Sölukerfið sé laskað í dag.
Samstaða framleiðenda hafi ver-
ið rofin. „Að mínu mati þá hætt-
um við Íslendingar á vissan hátt að
selja fisk fyrir nokkrum árum síð-
an. Við lögðum niður sölusam-
tökin okkar sem voru í eigu fram-
leiðslufyrirtækjanna. Þetta voru
fyrirtæki á borð við Sölumiðstöð
hraðfrystihúsanna, SÍF og Íslensk-
ar sjávarafurðir. Í stað þeirra skipt-
um þessu upp í einhver sölufyrir-
tæki. Sum hver þessa nýju fyrir-
tækja hættu bara að selja íslenskan
fisk en sneru sér að selja tvífrystan
fisk frá Kína og þess háttar. Gömlu
sölufyrirtækin sem seldu fyrir okk-
ur fiskinn áður, sáu um sölu á öll-
um fiski frá íslenskum framleið-
endum. Framleiðendurnir sem
áttu þau gerðu þá kröfu á sölufyrir-
tækin. Þau fengu ekki bara að selja
þorsk og ýsu heldur sinntu öllu.
Sölufyrirtækin sem selja í dag eru
fyrst og fremst að líta til þess sem
gefur þeim arð. Þau eru ekkert að
eltast við eitthvað sem skilar þeim
ekki neinu. Við framleiðendur, sjó-
menn og útgerðarmenn, erum að
bíta úr nálinni með þetta núna.“
Plúsar og mínusar
Í lokin víkjum við spjallinu stutt-
lega að rekstrarskilyrðum sjávarút-
vegsins í dag. Guðmundur Smári
stjórnar fyrirtæki sem hefur hasl-
að sér völl í útflutningi á ferskum
fiski. „Við erum með tvo litla ís-
fisktogara, Helga og Hring. Fersk-
fisksvinnslan er mjög vaxandi. Í
hana fara um tveir þriðju af fisk-
afla úr kvóta fyrirtækisins. Hann
fer ferskur um borð í flutninga-
skip í Reykjavík á miðvikudög-
um og fimmtudögum. Helgi land-
ar alltaf hér í vinnsluna í Grund-
arfirði á mánudögum. Hring-
ur kemur svo inn á miðvikudög-
um. Þannig höldum við vinnslunni
gangandi alla virka daga vikunn-
ar frá klukkan 8 til 16. Þetta skap-
ar um 80 störf bæði á sjó og landi.
Síðustu ár hafa verið okkur mjög
góð að mörgu leyti. Það eru auð-
vitað plúsar og mínusar í þessu eins
og öðrum rekstri. Gengi íslensku
krónunnar hefur verið að styrkjast
eins og ég nefndi áðan. Það kemur
okkur illa. Á móti hefur svo olíu-
verð lækkað mikið. Það léttir mjög
róðurinn hjá sjávarútveginum. Ég
græt það ekki þó eitthvað af því
sem sparast í olíukaupum færist þá
í vasa verkafólksins. Vinnulaunin í
fiskvinnslunni hafa verið að hækka
þónokkuð mikið. Fiskverkafólk var
of lágt launað.“
Ríkið spilar stóran þátt
Guðmundur Smári segir að veiði-
gjöldin séu þung í skauti. Margir
kostnaðarliðir sjávarútvegsins séu
háir. Það sé ekki síst vegna þess að
ríkisvaldið taki til sín stóran hlut
af kökunni. Hið opinbera hefur
með einum eða öðrum hætti mik-
il afskipti af sjávarútveginum. Það
snýr ekki síst að gjaldtöku og ýms-
um álögum. „Veiðigjöldin voru al-
veg fáránlega há í fyrra og hitt-
eðfyrra, og eru í sjálfu sér ekki að
lækka mikið á þessu ári. Það eru
alveg ljóst að sjávarútvegsfyrirtæki
hér á Vesturlandi og Norðvest-
urlandi sem hafa ekki haft neitt
nema þessar hefðbundnu tegund-
ir; þorsk, ýsu, ufsa og karfa en ekki
neinn uppsjávarfisk, eiga í vök að
verjast samanborið við fyrirtæki á
suðvesturhorninu. Við glímum við
háan flutningskostnað til mark-
aðanna. Ég hef reiknað út að fyr-
ir hverja krónu sem við borgum
í flutninga þá fara 62 aurar beint
til ríkisins og þá gegnum skatta og
gjöld. Síðan er raforkukostnaður
hærri hér. Þegar allt þetta er tek-
ið saman þá erum við að tala um
stórar upphæðir sem gera stöðu
okkar lakari samanborið við suð-
vesturlandið. Þetta mun til lengri
tíma að óbreyttu skekkja byggð
enn frekar í landinu. Stjórnvöld
horfa á þetta en virðast ekki hafa
önnur ráð en að taka veiðiheimild-
ir frá sumum fyrirtækjum og láta
hann öðrum í té. Þannig elta menn
skottið á sjálfum sér og leysa engan
vanda í staðinn fyrir að skoða þetta
með heildstæðari hætti,“ segir
Guðmundur Smári Guðmundsson
að lokum. mþh
Guðmundur Smári Guðmundsson framkvæmdastjóri G Run í Grundarfirði:
„Tímabært að auka framleiðslugetu íslenskrar bolfiskvinnslu“
Guðmundur Smári Guðmundsson framkvæmdastjóri G Run á skrifstofu fyrirtæksins í Grundarfirði. Að baki honum eru
málverk af foreldrum hans, þeim Guðmundi Runólfssyni og Ingibjörgu S. Kristjánsdóttur en þau stofnuðu fyrirtækið á sínum
tíma.
Togarinn Hringur SH er annar af tveimur slíkum í eigu G Run. Hér er hann við bryggju í heimahöfn í síðustu viku.