Skessuhorn - 28.09.2016, Blaðsíða 22
MIÐVIKUDAGUR 28. SEPTEMBER 201622
Jóhann Oddsson er bóndi á Stein-
um II í Stafholtstungum. Hann er
kvæntur Valgerði Björnsdóttur og
saman áttu þau fjögur börn. Jóhann
er fæddur á Steinum en þau hjón
hafa alla sína búskapartíð búið þar,
en hún er frá Deildartungu í Reyk-
holtsdal. Á Steinum II er sauð-
fjárbú með rúmlega 500 fjár. Auk
þess hafa þau nokkuð af hestum,
nokkrar hænur og tvo hunda. Eins
og kunnugt er fara bændur í leitir
að hausti og sækja fé af fjalli til að
setja á eða slátra. Jóhann er reynd-
ari en margur hver þegar kemur að
leitum, búinn að fara á fjall óslitið í
56 ár. „Ég fór fyrst í leitir ferming-
arárið mitt 1960. Þá fór ég í fyrstu
leit en hef farið í fyrstu, aðra og
þriðju leit allar götur síðan,“ segir
Jóhann Oddsson, bóndi á Steinum
ll í Stafholtstungum, í samtali við
Skessuhorn. Reiknast okkur þannig
til að Jóhann hafi farið 156 sinnum
í leit sem hlýtur að vera atlaga að
Íslandsmeti og jafnvel heimsmeti.
Þá eru ótaldar allar eftirleitir og
heimasmalamennskur. „Ég veit nú
ekki hvort þetta er eitthvað met,“
segir Jóhann hæverskur. „En ég hef
þó farið oftast af þeim sem leita hér
um slóðir,“ bætir hann við.
Alla tíð hefur Jóhann leitað
sama svæðið, Holtavörðuheiðina
og Snjófjöllin, og rekið fé til rétt-
ar í Þverárrétt, fjárflestu rétt lands-
ins. „Samkvæmt fjallskilaseðli eru
um tíu þúsund ær sem fara á fjall
að vori. Ef við gerum ráð fyrir því
að 65% sé tvílembt, sem er ekki
ofáætlað, þá eru það rúmlega 26
þúsund ær og lömb. Það skilar sér
auðvitað ekki allt til réttar í fyrstu
leit. En ég held að það megi slá því
föstu að 20 þúsund fjár sé rekið til
réttar í fyrstu leit á hverju hausti,
varlega áætlað,“ segir Jóhann. En
féð kemur vitaskuld ekki allt frá
bæjum í Stafholtstungum.
„Í fyrstu leit er riðið í Forna-
hvamm á fimmtudegi og leitað á
föstudegi vestan vegar Tröllakirkju,
Snjófjöll og vestan Snjófjalla á móti
Dalamönnum. Á laugardegi er leit-
að austan vegar; Holtavörðuheiðin
og Hellistungurnar á móti Þver-
hlíðingum,“ segir hann. Má þess
geta að Norðdælingar að hluta til
eiga afrétt á Holltavörðuheiði og
eru með í leitum.
Mikilvægast að
vera vel búinn
Hefur Jóhann á sinni tíð smalað
hverja einustu leið sem leitarmenn
á Holtavörðuheiði fara hverju
sinni. „Ég hef farið yfir allt svæðið
og þekki það orðið allt saman. Það
er kannski karlagrobb að geta þess
en ég hef verið fjallkóngur í annarri
leit síðan 1971,“ segir hann. Að-
spurður segir hann aldrei hafa velt
því fyrir sér að hætta að fara á fjall.
„Ég hef alltaf verið heilsuhraust-
ur og sprækur og þetta er verk sem
þarf að vinna. Ég hef aldrei velt því
fyrir mér að hætta en það hlýtur að
koma að því einhvern tímann,“ seg-
ir hann og brosir.
Nær allt svæðið er leitað á hest-
baki núorðið eftir að menn eignuð-
ust stórar hestakerrur og eru hross-
in þá keyrð norður á heiði. Áður
var þetta allt gengið en í seinni tíð
er hafður einn hestur svona til að
hvíla sig á sitthvorn daginn. Ein-
staka staði þarf þó að smala fót-
gangandi, eins og gengur og gerist.
Alltaf ganga þrír menn Tröllakirkju
og Snjófjallakambinn. „Ég hef alltaf
farið ríðandi upp að Fornahvammi
með tvo hesta sem ég nota sitthvorn
daginn og svo á eftir safninu til rétt-
ar síðasta daginn. Svo eftir réttina
rekum við á okkar fé heim á bæinn
og erum tæplega þrjá tíma að því á
hestum. Svæðið er það stórt og leit-
irnar það langar að betra er að hafa
tvo hesta,“ segir Jóhann.
Að öðrum kosti segir smalinn
reyndi að helst þurfi að huga að því
að búa sig vel þegar farið er á fjall.
Allra veðra sé von og oft skipist þau
skjótt í lofti. „Á Holtavörðuheið-
inni getur skollið á með svoleið-
is svartaþoku að maður sér ekki
neitt. Þá geta fyrirvaralítið komið
él og veður hafa oft verið hörð í
leitum, sérstaklega þegar komið er
fram í þriðju leit,“ segir hann. Það
var einmitt í vondu veðri í annarri
leit sem átti sér stað atburður sem
Jóhann gleymir seint. „Árið 1972
varð maður úti í leit í vondu veðri
á heiðinni. Hann hét Hreinn Árna-
son. Það var hræðilegt og gleymist
aldrei,“ segir Jóhann.
Hefur feitt kjöt í nesti
Dagsverkið í leit á Holtavörðuheiði
er langt og strangt. Að jafnaði er
vaknað klukkan fimm að morgni og
leitað fram á kvöld, stundum fram
í myrkur. Þegar svo ber undir er
mikilvægt að leitarmenn fái góðan
mat. Meðan enn var hótel í Forna-
hvammi segir Jóhann að leitar-
menn hafi verið í fæði þar. „En eft-
ir að það hætti var verið tvö haust
á bænum Sveinatungu, síðan voru
ýmsir sem elduðu niðri í byggð og
komu með heitan mat að kvöldi.
Valgerður konan mín hafði ein-
mitt orð á því um daginn að hún
hafi verið ráðskona í leitum í ára-
tug. Þá eldaði hún hér heima og
kom með matinn uppeftir til okk-
ar,“ segir Jóhann. „En síðustu þrjú
ár höfum við keypt fæði frá fyrir-
tækjum eða matsölustöðum. Svo
erum við með morgunmat og höf-
um auðvitað sjálfir með nesti yfir
daginn meðan við erum úti á heið-
inni,“ segir Jóhann og kveðst vera
gamaldags þegar kemur að nestis-
vali. „Ég er nú svo gamaldags að ég
vil helst hafa feitt kjöt í nesti, vel
feitar kótelettur eða eitthvað slíkt,“
segir hann.
Lengi hefur það fylgt göngum
og leitum að menn hafa fengið sér
í staupinu, stundum ótæpilega. Jó-
hann segir slíkt hafa færst verulega
í betra horf með árunum. „Drykkja
á leitarmönnum hefur lagast mikið
í seinni tíð. Þegar ég var ungling-
ur þá man ég eftir mönnum sem
voru bara hreint út sagt öskufull-
ir, stundum allan tímann og mis-
jafnlega gagnslausir,“ segir Jóhann
ómyrkur í máli. „En ég hef alltaf
verið laus við þetta sjálfur, sem bet-
ur fer,“ bætir hann við.
Til að leitist vel er að mörgu
að huga en eitt segir Jóhann öðru
mikilvægara þegar kemur að því að
sækja fé á fjall. „Það munar mikið
um að hafa góða smalahunda. Alltaf
er farið með nokkra hunda á hvert
svæði. Nokkrir hafa verið góð-
ir og einn og einn verulega góð-
ur og munar mikið um það,“ seg-
ir Jóhann. En hvernig sem gengur
að koma fénu heim kveðst Jóhann
alltaf una sér vel á fjalli. „Mér líð-
ur alltaf vel á fjalli,“ segir hann að
endingu.
kgk
Jóhann á Steinum hefur farið í leitir óslitið síðan 1960:
„Mér líður alltaf vel á fjalli“
Jóhann Oddsson, bóndi á Steinum II í Stafholtstungum, hefur farið 156 sinnum í leit síðan árið 1960.
Jóhann segir mikilvægast að búa sig vel þegar farið er á fjall. „Á Holtavörðuheið-
inni getur skollið á með svoleiðis svartaþoku að maður sér ekki neitt. Þá geta
fyrirvaralítið komið él og veður hafa oft verið hörð í leitum, sérstaklega þegar
komið er fram í þriðju leit,“ segir hann.
Hér er Jóhann nýkominn af fjalli úr fyrstu leit haustið 2010. Réttarstjórinn Davíð
Aðalsteinsson heilsar honum við komuna.
„Samkvæmt fjallskilaseðli eru um tíu þúsund ær sem fara á fjall að vori. Ef við
gerum ráð fyrir því að 65% sé tvílembt, sem er ekki ofáætlað, þá eru það rúmlega
26 þúsund ær og lömb. Það skilar sér auðvitað ekki allt til réttar í fyrstu leit.
En ég held að það megi slá því föstu að 20 þúsund fjár sé rekið til réttar í fyrstu
leit á hverju hausti, varlega áætlað,“ segir Jóhann. Hér er horft yfir safnið í
réttargirðingunni.
Safnið rekið niður Holtavörðuheiðina í fyrrahaust. Norðuráin liðast niður dalinn og Fornihvammur til hægri. Ljósmyndina
tók Guðmundur Steinar, sonur Jóhanns á Steinum.