Víkurfréttir - 07.11.2019, Blaðsíða 8
Sumir af eldri kynslóðinni muna
kannski vel eftir 16 ára afmælisdeg-
inum sínum sem táknaði frelsi á alla
kanta. Þá mátti unglingurinn fara á ball
í Stapa án leyfis og ráða útivistartíma
sínum sjálfur. Tóbaksreykingar voru
miklu almennari í þá daga og áfengis-
drykkja hófst yfirleitt við fermingu eða
fyrr. Eiturlyfjaneysla var meira falin.
Slagsmál voru algeng eftir böll og oftar
en ekki þurfti að kalla á lögregluna.
Í dag lítur út fyrir að unglingamenn-
ingin sé allt önnur, betri eða verri, skal
ekki segja.
Víkurfréttir skruppu í matarhléi Fjöl-
brautaskóla Suðurnesja og áttu spjall
við tvo nemendur skólans en tilefnið var
að forvitnast um líf ungmenna í dag.
Ásta Rún Arnmundsdóttir og Birgitta
Rós Jónsdóttir urðu fyrir valinu og voru
þær til í smá spjall um lífið og tilveruna.
Báðar eru þær sextán ára gamlar og
nemendur á fyrsta ári við Fjölbrauta-
skóla Suðurnesja.
Kannski hollt fyrir okkur eldra fólkið að
hlusta eftir rödd unga fólksins?
Hvernig er að vera ung í dag?
„Það er alveg gaman en samt frekar
erfitt,“ segir Ásta Rún og blaðakonan
hváir við og spyr „Nú afhverju er það
erfitt?“
„Afþví að það er alltaf verið að fylgjast
með manni af yfirvöldum í skólanum.
Fyrir skólaböll voru krakkarnir kannski
að hittast en nú er búið að banna það.
Það er minna traust til okkar nemenda,“
segir Birgitta Rós.
„Einu sinni máttu nemendur í FS hittast
fyrir böll eða fyrir tíu árum en nú er allt
miklu strangara,“ segir Ásta Rún og
bætir við: „Allt er strangara og meira
eftirlit með öllu í dag. Bara sem dæmi
um hvað allt er miklu strangara, að
einu sinni máttu krakkar fara út í búð
og kaupa sígó fyrir mömmu sína en það
er stranglega bannað í dag. Það er svo
margt bannað.“
„Mér finnst svo margt bannað og ef
krakkar fara út af sporinu þá er hringt
í Barnavernd og klagað. Það er ótrúlega
mikið til af flökkusögum sem eru bara
bullsögur,“ segir Birgitta Rós.
„Eldra fólk hefur sagt manni hvað allt
var frjálslegra hér áður fyrr,“ segir
Ásta Rún.
„Já, pabbi minn hefur sagt mér hvernig
þetta var,“ segir Birgitta Rós.
„Ég held að krökkum finnist allt verða
meira spennandi þegar það er bannað,“
segir Ásta Rún og Birgitta Rós kinkar
kolli og segir: „Reglur eru til að brjóta
þær hugsa sumir. Það er allt of lítið
sem má í dag. Krakka langar að mega
hittast og skemmta sér saman.“
„Já, okkur langar að skemmta okkur
en við erum samt ekkert öll að drekka
áfengi. Það þarf ekki svoleiðis til að
skemmta sér. Krakkar byrja að fela fyrir
foreldrum sem eru allt of strangir eða
skólanum sem er að fylgjast með okkur
og banna að við hittumst fyrir böll sem
dæmi. Það var gert um daginn eftir
að hópur eldri nemenda í FS var með
partý fyrir ball, leigði sal út í bæ og
voru þar að dansa, eldri krakkar en við.
Okkur var ekki boðið en samt finnst
okkur að nemendur eigi að ráða þessu
sjálfir hvort þeir vilji hittast fyrir ball,
skólinn á ekki að ráða því,“ segir Ásta
Rún ákveðið.
„Við getum alveg skemmt okkur edrú
og þurfum ekki vímuefni eða eitthvað
drasl til þess að hafa gaman. Það finnst
okkur tilgangslaust. Já, við fréttum af
partý fyrir skólaball um daginn, okkur
var ekkert boðið í það en við stelpurnar,
fimm vinkonur hittumst fyrir ball heima
hjá einni og vorum að dressa okkur
upp saman og mála okkur, laga á okkur
hárið og svona. Það var rosa gaman,“
segir Birgitta Rós.
„Það er bara rosa gaman þegar stór
hópur af krökkum kemur saman, fær
að koma saman fyrir skólaball, hlusta á
tónlist, dansa og syngja. Það þarf ekkert
að vera áfengi til þess. Mér finnst tekið
allt of hart á þessu af skólanum. Það vill
engin niðurlægja foreldra sína. Full-
orðna fólkið verður að treysta okkur,“
segir Ásta Rún.
Blaðamaður man vel eftir því þegar
reykt var í Reykjanesi sem var opið rými
í Fjölbrautaskóla Suðurnesja á árum
áður. Ennfremur voru partý haldin í
kennslustofum skólans eða böll þar sem
áfengi var haft um hönd. Þá skemmtu
kennararnir sér jafnvel með nemendum.
Það var ódýrara að halda skemmtanir
nemenda í skólanum sjálfum en í Stapa
til dæmis. Stóru böllin voru í Stapanum.
Svona var þetta í denn.
Stundiði íþróttir stelpur?
„Ég æfði körfu og fannst það gaman
en hætti því þegar mér fannst pressan
orðin of mikil, allir áttu að stefna í at-
vinnumennsku. Í dag er ég í líkamsrækt
þrisvar fjórum sinnum í viku því mér
líður betur þegar ég hreyfi mig. Ég las
bók um líkamsrækt, sem heitir Full-
komnlega ófullkomin eftir Ernuland
og ákvað að fara eftir leiðbeiningunum
í henni,“ segir Ásta Rún.
„Ég er að æfa með Ástu í dag en ég var
að æfa fimleika áður og hætti þegar
mér fannst pressan um árangur orðin
of mikil. Mér fannst skemmtilegra að
æfa fimleika þegar ég var yngri. Ég var
í fimleikum út af félagsskapnum meira
en út af fimleikunum sjálfum. Við erum
nokkrar stelpur að æfa saman í ræktinni
í dag,“ segir Birgitta Rós.
„Það er gaman í íþróttum þegar það er
léttleiki á æfingunum en þegar alvar-
leiki kemur inn þá drepur það gleðina,“
segir Ásta Rún og Birgitta Rós kinkar
kolli til samþykkis.
„Þegar ég æfði fimleika þá var alveg
verið að hlæja sem mér fannst bæta
stemninguna. Ég tók þessu létt en svo
var ég orðin hrædd við að slasa mig og
þá hætti ég,“ segir Birgitta Rós.
Hvernig viljiði að fullorðnir komi
fram við ykkur?
„Ég vil að fullorðnir treysti mér, ég er
frekar þroskuð og veit hvað er rangt og
rétt. Ég er hress en ekki kærulaus. Ég
vil sjálf koma vel fram við fólk og miða
sjálf við gullnu regluna, komdu fram við
aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram
við þig,“ segir Birgitta Rós.
„Ég veit það ekki, mér líður vel með
fullorðnum, finnst létt að tala við þá.
Ég þoli ekki fúlt fullorðið fólk en ég
elska lífsglatt fólk. Gaman að því,“ segir
Ásta Rún.
Hvað með framtíðina stelpur?
„Ég er mjög bjartsýn á framtíðina, já
og veit að mér eru allir vegir færir. Ég
er á hársnyrtibraut núna en hef einnig
áhuga á að verða lögga eða ljósmóðir.
Ef ég vinn við hárgreiðslu þá langar
mig að vinna við að greiða leikurum í
kvikmyndum. Ég hefði gaman af því að
þekkja stjörnur, frægt fólk og greiða því
hárið en ég sjálf þarf ekkert að verða
fræg. Mig langar að lifa öðruvísi í fram-
tíðinni en ég geri í dag,“ segir Birgitta
Rós.
„Já, Birgitta Rós ætlar að verða allt í
heimi,“ segir Ásta Rún hlæjandi og bætir
við: „Ég er bjartsýn á framtíðina, það
eru spennandi tímar framundan. Ég
er á almennri braut núna en ég ætla að
verða flugvirki og fer í rafvirkjun hér í
FS á þriðju önn til að undirbúa námið
í flugvirkjun.“
Hvað með samskiptamiðla, eruð
þið mikið í símanum?
„Já, ég er alltof mikið í símanum. Það
er líka allt í símanum, vinir eru í sím-
anum, heimanámið er í símanum og
fréttir eru í símanum. Ef ég er ekki að
horfa á sjónvarp þá er ég í símanum að
horfa á eitthvað þar. Stundum geri ég
allt í einu, læri og geri allt hitt líka. Ég
er meðvituð um þetta og reyni að sleppa
því að vera í símanum þegar ég er að tala
við fólk, eins og núna til dæmis þegar
ég er að tala við þig í þessu viðtali þá
hef ég ekkert kíkt í símann minn,“ segir
Ásta Rún glaðbeitt.
„Ég hef meiri stjórn á símanum. Mér
finnst rosalega leiðinlegt að vera í sím-
anum en er það samt stundum. Ég gæti
alveg verið án hans,“ segir Birgitta Rós
og með þessum lokaorðum kveðja þær
vinkonur og eru roknar í tíma enda
matarhléið þeirra búið.
ER BÍLLINN BEYGLAÐUR?
Hann verður eins og nýr hjá okkur
Við vinnum fyrir öll tryggingafélög! Smiðjuvöllum 6 - Reykjanesbæ Sími 421-3500 – retting@simnet.is
VINKONURNAR ÁSTA RÚN OG BIRGITTA RÓS Í VIÐTALI
Stundum veltir maður því fyrir sér hvernig það
er að vera unglingur í dag. Allt er svo breytt. Bara
samskiptamátinn í gegnum snjallsíma er bylting.
Mar ta Eiríksdóttir
marta@vf.is
VIÐTAL
Þær eru hressar stelpur, Ásta Rún fyrir neðan og Birgitta Rós fyrir ofan.
UNGT
FÓLK MÁ
EKKERT
Í DAG
8 MANNLÍF Á SUÐURNESJUM f immtudagur 7. nóvember 2019 // 42. tbl. // 40. árg.