Fréttablaðið - 14.09.2015, Qupperneq 13
Með öflugu dreifikerfi Póstsins kemur þú þínum
vörum hratt og örugglega hvert á land sem er. Hvort
sem um ræðir stakar vörur eða bílfarma þá hefur
Pósturinn lausnina. Eitt símtal og við erum að dansa.
STÓRAR SENDINGAR
VIÐ FÖRUM LÉTT MEÐ ÞAÐ
www.postur.is
Kjarasamningar framhaldsskólakenn-
ara hafa orðið ýmsum að yrkisefni
síðustu daga og þrátt fyrir rómaða geð-
prýði get ég ekki lengur orða bundist.
Helstu verkalýðsforkólfar landsins
sem og framkvæmdastjóri Samtaka
atvinnulífsins virðast nefnilega vera
þeirrar skoðunar að þessir samningar
okkar hafi komið af stað skriðu sem
nú ógnar efnahagslegum stöðugleika.
Þannig eiga samningar okkar að hafa
lagt línur fyrir gerðardóm og þar með
launahækkanir BHM og hjúkrunar-
fræðinga.
Til upprifjunar þá skrifuðu fram-
haldsskólakennarar undir kjarasamn-
ing þann 4. apríl á síðasta ári sem fól
í sér uppsafnaða 30% launahækkun á
samningstímanum, út október 2016.
Ég er reyndar almennt þeirrar skoð-
unar að við sem stöndum í fylkingar-
brjósti verkalýðsbaráttu í landinu (því
öll erum við verkalýður sama hvaða
prófgráður leynast í handraðanum)
eigum að standa saman í stað þess að
ráðast hvert gegn öðru, því ég kalla það
ekkert annað en árásir þegar forystu-
fólk annarra stéttarfélaga úttalar sig
með þessum hætti um kjarasamninga
annarra.
Við fyrstu sýn má mögulega telja vel
í lagt, þ.e. launahækkanir okkar fram-
haldsskólakennara. En skoðum samn-
ingsforsendur okkar og sérfræðinga á
hinum almenna markaði nánar.
Launaskrið lítið sem ekkert
Í aðdraganda kjarasamninga vorið
2014 var unnið með gögn fá árinu
2012 og 2011. Á þeim tíma voru
regluleg dagvinnulaun sérfræðinga
á almennum markaði rúmum 72%
hærri en framhaldsskólakennara. Já
sjötíuogtvöprósent! Þrátt fyrir tæp-
lega 16% uppsafnaða launahækkun á
árinu 2014 munaði enn 58% á meðal-
dagvinnulaunum þessara sömu hópa.
Það er nefnilega þannig að nokkrir
hópar opinberra starfsmanna, þar á
meðal kennarar, semja jafnt um lág-
marks- og hámarkslaun. Kjarasamn-
ingar á almennum markaði, t.d. hjá
VR og ASÍ, tryggja lágmarkslaun og
sýna gögn að rétt um 5% félagsmanna
VR eru á lágmarkstöxtum.
Í kjarasamningum framhaldsskóla-
kennara vorið 2014 var í fyrsta skipti
viðurkennd sú staðreynd að launa-
skrið meðal kennara er lítið sem
ekki neitt. Aftur og aftur hafa þessar
stéttir dregist aftur úr í launum og
mátt heyja harða baráttu fyrir sínu,
samt stöndum við nú sem fyrr langt
að baki félögum okkar á almenna
markaðinum þegar kemur að launa-
kjörum.
Ég vísa því algjörlega út í hafsauga
að kennarar á öllum skólastigum beri
einhverja ábyrgð á efnahagslegum
óstöðugleika. Ég óska öðrum laun-
þegum alls góðs, sem og forystufólki
annarra vinnandi stétta, og vildi óska
að okkur tækist að reka hvert um sig
kjarabaráttu án þess að tala hvert
annað niður. Eitt veit ég þó fyrir víst
– framhaldsskólakennarar eru enn
eftirbátar í launum í samanburði við
launþega á almennum markaði svo
það er óþarfi að sjá ofsjónum yfir
prósentuhækkunum sem enn eru
langt frá því að brúa leiðina frá okkur
til þeirra.
Hafa skal það sem
sannara reynist
Ég vísa því algjörlega út
í hafsauga að kennarar á
öllum skólastigum beri
einhverja ábyrgð á efnahags-
legum óstöðugleika.
Guðríður
Arnardóttir
formaður Félags
framhaldsskóla
kennara
Talað er um það í fréttaskýr-ingum að Jeremy Corbyn, nýr leiðtogi Verkamanna-
flokksins, sé gamaldags, fulltrúi
úreltra viðhorfa á borð við að
útrýma fátækt, skapa jöfn tækifæri
og hugsa um hagsmuni heildar-
innar fremur en einstakra forrétt-
indahópa. Hann hefur talað gegn
hernaðarhyggju og árásum á fjarlæg
lönd. Hann hefur talað um að hlut-
verk stjórnmálanna sé að stuðla að
gagnkvæmri virðingu, skilningi,
jákvæðni – og réttlæti.
Í fréttaskýringum er þetta látið
hljóma eins og hann ætli að kalla
Gúlagið yfir England.
Frelsi, jafnrétti og bræðralag
Réttlætið kann að vera gamaldags
en það er líka nútildags: það fellur
aldrei úr gildi. Sjálf hugmyndin um
jafnrétti allra manna og jöfn tæki-
færi í lífinu er hornsteinn þeirra
samfélaga sem byggð hafa verið í
Evrópu. Það er ekki jaðarskoðun.
Hugmyndin um að ranglæti sé hag-
kvæmara og þar með æskilegra en
réttlæti er hins vegar öfgaskoðun,
og ekki á að veita þeim stjórnmála-
mönnum brautargengi sem slíkar
hugmyndir aðhyllast.
Corbyn stendur ekki fyrir úrelt
sjónarmið þó að hann vilji (eins
og flestallir samlandar hans) að
járnbrautirnar verði aftur færðar í
almannaeigu. Hann stendur fyrir
klassísk sjónarmið. Hitt virðist
augljóst, að sú þjóðfélagstilraun
sem hófst fyrir alvöru í valdatíð
Margrétar Thatcher í Englandi og
Ronalds Reagan í Bandaríkjunum –
og Davíðs Oddssonar hér hjá okkur
– er runnin út í sandinn; græðgis-
hyggjan með tilheyrandi áherslu á
misskiptingu, óréttlæti, stórfyrir-
tækjadekur, glundroða, sýndar-
gróða og hirðuleysi um náttúru
og önnur verðmæti hefur unnið
ómældan skaða og er vonandi búin
að syngja sitt síðasta sem ráðandi
hugmyndafræði í þjóðfélaginu.
Í Englandi háttar svo til að stétta-
skipting er miklu rótgrónari en
við erum svo lánsöm að hafa átt
að venjast hér á landi. Þar er hún
nánast innbyggð, óorðuð en liggur
í loftinu og litar öll samskipti fólks
á flestum sviðum þjóðlífsins, og
eitrar alls staðar andrúmsloftið.
Hér á landi var um hríð lagt mikið
kapp á að búa til svipað andrúms-
loft, þar sem sumt fólk reyndi að
telja sig yfir aðra hafið vegna ríki-
dæmis – en fram að þessu hefur
verið hlegið að slíku fólki hér á
landi, og verður vonandi enn um
hríð. Reynt var að koma því inn hjá
okkur að tiltekin borgarhverfi væru
fínni en önnur, tilteknir skólar
fínni en aðrir og tiltekin störf fínni
en önnur. Slíkar hugmyndir stríða
gegn sjálfri grundvallar-sjálfsmynd
þjóðarinnar: að við sitjum hérna
meira og minna öll saman í þessari
súpu: að vera Íslendingar.
Áhrifin hér á landi
Hér á landi er áreiðanlega mikill
hljómgrunnur fyrir þau sjónarmið
sem Corbyn heldur á lofti. Gott
ef þetta eru ekki almenn ríkjandi
sjónarmið hér. Í Englandi rúmast
þeir hins vegar í einum og sama
flokknum Tony Blair og Jeremy
Corbyn – enn að minnsta kosti.
Hér á landi eru jafnaðarmenn
ekki í rónni fyrr en þeir eru búnir
að stofna nýjan flokk gegn „fjór-
flokknum“, með þeim árangri að
hægri menn hafa stjórnað Íslandi
meira og minna alla okkar full-
veldistíð; þegar vinstri flokkarnir
komust loks til valda þurftu þeir
að vísu að endurreisa efnahags-
kerfið eftir mestu efnahagsófarir
Íslandssögunnar, heimatilbúnar
að mestu, en sökum þess að vinstri
flokkunum tókst ekki, á fjórum
árum að færa til betri vegar allt sem
aflaga hafði farið á Íslandi öll full-
veldisárin – með markvisst málþóf
minnihlutans í gangi frá morgni til
kvölds og um nætur – þá ákváðu
kjósendur að leiða á ný til valda
hægri flokkana og refsa vinstri
flokkunum. Það væri sami rassinn
undir þeim öllum, sem er eitt af
þessum íslensku orðtökum sem ég
hef aldrei almennilega skilið: hvaða
rass? Einum rassi svipar vissulega til
annars, en mér er ekki ljóst hvers
vegna ég eigi að draga svo altækar
ályktanir af því.
Það eru einkum tvö mál sem
valda því að SF og VG geta ekki átt
von á fylgisaukningu alveg á næst-
unni. Annað er Icesave, sem vinstri
flokkarnir áttuðu sig aldrei á að
snerist ekki nema í aðra röndina um
peninga; hitt er stjórnarskráin sem
er mál sem neitar að hverfa, enda
hefði samþykkt nýrrar stjórnar skrár
leitt til mikilla umbóta á að minnsta
kosti kosningakerfi okkar; komið á
raunverulegu lýðræði hér, þar sem
atkvæði væru jafngild burtséð frá
búsetu. Síðasta ríkisstjórn færðist of
mikið í fang í stjórnarskrármálinu
og hafði ekki afl til að leiða það til
lykta; og hefði raunar ekki veitt af
meiri stuðningi, til dæmis frá þeim
sextíu og fjórum prósentum lands-
manna sem sniðgengu kosningarnar
til stjórnlagaþings, sem þar með hafði
mjög veiklað umboð og var útsettara
en ella fyrir árásum öflugra óvina. Þau
þrjátíu og sex prósent landsmanna
sem þó sýndu málinu áhuga eru
hins vegar ekki reiðubúin að fyrir-
gefa SF, VG og BF að hafa samið við
minnihlutann um að setja stjórnar-
skrármálið í nefnd, í stað þess að láta
hægri menn um að drepa málið með
málþófi. Við það situr.
Sum sé Jeremy. Ensk stjórnmál
hafa löngum haft furðu mikil áhrif
hér á landi, sé haft í huga hversu
ólíkt kerfið þeirra er okkar og raunar
samfélagsgerðin öll. Mun sigur hans
hrista upp í vinstriflokkunum okkar?
Alveg áreiðanlega. Og mun ekki af
veita.
Gamaldags réttlæti
Guðmundur
Andri Thorsson
Réttlætið kann að vera
gamaldags en það er líka
nútildags: það fellur aldrei
úr gildi. Sjálf hugmyndin um
jafnrétti allra manna og jöfn
tækifæri í lífinu er horn-
steinn þeirra samfélaga sem
byggð hafa verið í Evrópu.
Jeremy Corbyn er nýr leiðtogi Verka-
mannaflokksins í Bretlandi.
NordicPhotos/AFP
s k o ð u n ∙ F R É T T A B L A ð i ð 13M Á n u D A G u R 1 4 . s e p T e M B e R 2 0 1 5