Morgunblaðið - 28.09.2019, Side 39
MINNINGAR 39
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 28. SEPTEMBER 2019
og fá helling af kossum, knúsum
og sögum.
Á Hólabrautinni hékk fallegt
dagatal uppi á vegg þegar ég var
lítil og ég elskaði að fá að raða
dögunum. Fljótlega komst sú hefð
á að dagatalið hélst oftast nær
óbreytt á milli heimsókna minna.
Þegar ég kom hlaupandi inn um
dyrnar kom Gugga oftast á móti
mér: „Ertu komin, litla skotta?
Það þýðir bara eitt, þú veist að
það bíður eftir þér á sínum stað.“ Í
flestum tilfellum kom Gugga með
mér að dagatalinu og við áttum
ótrúlegar stundir við að raða því
réttu. Eftir dagatalsleiðréttingu
var svo farið inn í eldhús og bakk-
elsi borið á borð. Ég fékk auðvitað
að hjálpa til og á meðan sagði
Gugga mér hverja söguna á fætur
annarri.
Gugga var oft búin að segja
mér að einn daginn yrði þetta
dagatal að mínu, með því loforði
að ég myndi halda áfram að sjá
um það. Sjokkið var samt töluvert
á fermingardaginn minn þegar ég
opnaði pakka frá þeim hjónum og
úr honum kom fallegur grár bak-
poki og dagatalið. Skilaboðin sem
fylgdu var að ég myndi örugglega
hafa meira gaman af því að sjá um
dagatalið núna og því ætti það
heima hjá mér. Ég viðurkenni fús-
lega að það voru tár sem féllu
þetta kvöld – en síðan þá hefur
dagatalið hangið á vegg hérna
heima og vel verið hugsað um það.
Í dag er ég virkilega þakklát
fyrir þessar minningar og að fá að
hafa dagatalið hjá mér um
ókomna tíð – það er ótrúlegt hvað
einn hlutur getur rifjað mikið upp.
Mér þótti svo ótrúlega vænt um
að þau hjónin gerðu sér ferð aust-
ur á land til þess að koma í ferm-
inguna mína fyrir nokkrum árum.
Ef ég þurfti að útskýra fyrir fólki
hver þau væru talaði ég alltaf um
að þetta væri bróðir afa og konan
hans, en þau væru mér svona eins
og þriðja settið af ömmu og afa –
sem ég var ótrúlega heppin að
eiga.
Síðustu dagar hafa verið ótrú-
lega erfiðir. Það er skrítið að
hugsa til þess að eiga ekki eftir að
hitta elsku Guggu sína aftur eða
að fá eitt knús í seinasta skipti. Ég
lifi þó í þeirri trú um að henni líði
betur núna þegar hún er laus við
þann hræðilega sjúkdóm sem hún
barðist við eins og hetja undanfar-
in ár.
Ég á mikið af frábærum minn-
ingum sem munu lifa í huga mín-
um og hjarta um ókomna tíð. Ég
er virkilega þakklát fyrir að hafa
haft þig í lífi mínu öll þessi ár, það
gerði lífið svo miklu skemmtilegra
– ég elska þig alltaf.
Fyrir allt sem okkur varstu
ástarþakkir færum þér.
Gæði og tryggð er gafstu
í verki góðri konu vitni ber.
Aðalsmerkið: elska og fórna
yfir þínum sporum skín.
Hlý og björt í hugum okkar
hjartkær lifir minning þín.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Elsku Brói minn, Anna Linda,
Jónas, Ásthildur og fjölskyldur,
ykkar missir er mikill. Megi guð
styrkja ykkur í gegnum þennan
erfiða tíma.
Stefanía Hrund
Guðmundsdóttir.
Elsku amma.
Það er víst komið að því,
kveðjustundinni. Tilfinningarnar
hrannast upp bæði yfirþyrmandi
sorg en einnig þakklæti fyrir að
hafa átt þig að. Það er ómögulegt
að koma því á blað hversu einstök
manneskja þú varst og hversu
mikil áhrif þú hafðir á líf svo
margra. Einstakur stuðpinni og
gleðigjafi en einnig svo hlý og góð.
Þú varst ein skemmtilegasta
manneskja sem ég hef kynnst.
Þegar ég lít til baka hef ég ver-
ið að syrgja þig í fleiri ár þar sem
þú hefur verið að hverfa frá okkur
hægt og rólega. Sem betur fer á
ég ótal minningar sem ég get
huggað mig við: Allir laugardags-
morgnarnir á Hólabrautinni þeg-
ar ég kom nokkurra ára ásamt
Sigurgeiri til að horfa á „Með afa“
í sjónvarpinu, morgunmaturinn
sem þú færðir okkur í hvert skipti,
brauð skorið horn í horn með mis-
munandi áleggi og ávexti. Þegar
við systkinin bjuggum hjá ykkur
afa í fleiri vikur sumarið 1994 þeg-
ar mamma var svo lasin. Hvernig
þú gafst þér endalausan tíma í
spjall, gafst mér hlýju og kenndir
mér að róa mig með því að kitla
andlitið með horninu á sængur-
verinu þegar ég saknaði mömmu
og pabba sem mest. Kitlið inn í
lófann og á framhandlegginn sem
þú gafst ósjálfrátt ef maður sat við
hlið þér. Grínið og glensið sem
einkenndi samverustundirnar þar
sem við lágum endurtekið öll stór-
fjölskyldan uppi í hjónarúmi hjá
ykkur afa, yfirleitt pakksödd eftir
einhverjar kræsingarnar. Ferð-
irnar með þér á leikæfingar sem
var algjör ævintýraheimur fyrir
barn. Þú varst frábær leikari og
besti sögumaðurinn. Gast enda-
laust sagt sögur, margar þeirra
heyrði ég aftur og aftur en þær
voru alltaf jafn skemmtilegar.
Sögurnar af æsku þinni í Hafn-
arfirðinum, t.d. gleðinni sem
fylgdi því þegar þið gátuð unnið
ykkur fyrir mat eftir erfiða daga á
heimilinu, prakkarastrikum Önnu
Lindu, þegar pabbi faldi súkku-
laðið á ljósakrónunni og þegar ég
sagði smámælt þriggja ára:
„Mamma mín setur aldrei rusl í
matinn minn,“ þegar þú hafðir
sett lárviðarlauf í kjötréttinn.
Endalaust spjall við matar-
borðið á Hólabrautinni, oftast
með eitthvað gott að borða, t.d.
bestu ástarpungana, ristað brauð,
skonsurnar þínar eða nýbakað
brauð. Ferðin til Danmerkur 2008
þegar við heimsóttum Sigurgeir
og Ásdísi og yndislegu tilraunir
þínar og mömmu við að tjá ykkur.
Þú komst alltaf fram við mig sem
jafninga og varst alltaf heiðarleg
alveg sama hversu ung ég var.
Þannig treysti ég þér 100% og
gat tjáð mig um allt, jafnvel hluti
sem flestir tala ekki um við ömm-
ur sínar.
Ég þrái að knúsa þig einu sinni
enn þar sem þú hlærð og ruggar
þér aðeins á staðnum og ég myndi
hvísla að þér að ég lofa að ég hafi
aldrei fundið gömlu-konu-lykt af
þér eins og við lofuðum þér. Ef þú
manst það ekki þá langar mig líka
að segja þér að afi hefur staðið sig
eins og klettur við hlið þér síðustu
árin, það sem ég er stolt af hon-
um! Veit þú værir það líka. Ó,
hvað ég á eftir að sakna þín!
Þín
Dagrún.
Elsku Gugga systir mín hefur
kvatt þennan heim eftir erfið veik-
indi. Það er ósanngjarnt þegar
hún sem alltaf var svo hraust er
tekin frá fjölskyldu og vinum.
Gugga sem alltaf var svo flott
og í góðu líkamlegu formi, hún
minnti mig oft á tugþrautarkonu.
Minningar frá uppvaxtarárun-
um eru ofarlega í huga mér. Við
vorum alltaf mjög náin. Margir
héldu að við Gugga værum tvíbur-
ar svo lík vorum við því Reynir
tvíburabróðir minn var talsvert
ólíkur okkur. Það voru ekki nema
rúmir 18 mánuðir á milli okkar.
Lífsgleði, dugnaður, hjálpsemi,
góða skapið og einstaklega góð
framkoma við alla sem hún um-
gekkst var áberandi í fari Guggu.
Ég man aldrei eftir því að hún
reiddist eða talaði illa um sam-
ferðafólk.
Ég er þakklátur fyrir öll árin
sem við áttum saman á uppvaxt-
arárunum. Það var ekki mikið
gólfrými á Álfaskeiðinu eða flott
útvarpstæki eða hljómtæki en við
þær aðstæður kenndi Gugga mér
að dansa „djæf“ „rokk“ og gömlu
dansana. Danstímarnir voru þeg-
ar „Óskalög sjúklinga“ og „Óska-
lög sjómanna“ voru fluttir í út-
varpinu. Skemmtilegir danstímar
þar sem lífsgleðin var mikil.
Við vildum alltaf gefa mömmu
og systkinum okkar gjafir á jól-
unum. Til þess að geta það urðum
við að vinna fyrir þeim. Við seld-
um fagurlega skreytt bréfblóm
sem listakona í Hafnarfirði útbjó.
Við gengum hús úr húsi og seld-
um þessi bréfblóm. Gugga var
mikill sölumaður ég fékk að njóta
þess. Saman fórum við svo í jóla-
gjafaleiðangur og gáfum saman
mömmu og systkinum okkar.
Gugga var í Fimleikafélaginu
Björk í Hafnarfirði þegar hún var
unglingur. Hún var í sýningar-
hópi Bjarkanna. Ég man hvað ég
var montinn af Guggu þegar
Hafnarfjarðarbær hélt upp á 50
ára kaupstaðarafmæli og sýning-
arhópur Bjarkanna sýndi fim-
leika á stóru sviði á Thors plani,
þar var Gugga fremst í flokki.
Ung að árum ákvað Gugga að
freista gæfunnar og réði sig i
vinnu á Hótel Blönduós. Síðan lá
leiðin í Húsmæðraskólann þar.
Á Blönduósi réðust örlög henn-
ar. Þar hitti hún Bróa sinn og þar
hafa þau búið nær allan sinn bú-
skap. Ég hefði viljað hafa hana
lengur í Hafnarfirði, en auðvitað
er það bara eigingirni. Þó að við
hittumst ekki eins oft og við vild-
um þá voru tengslin svo sterk að
endurfundir urðu alltaf eins og
við hefðum hist í gær.
Á mörgum ferðum okkar Sifjar
og barnanna norður í land var
skemmtilegt að koma við á Hóla-
brautinni. Þá voru á augabragði
veisluföng fram borin, mikið rætt
um menn og málefni, þá sérstak-
lega frá Hafnarfirði og Húna-
þingi. Aldrei var farið norður án
þess að stoppa á Blönduósi.
Elsku Brói, Jónas, Anna
Linda, Ásthildur og fjölskyldur,
innilegar samúðarkveðjur, minn-
ingin um elsku Guggu systur lifir
áfram í hjarta okkar.
Rúnar og Sif.
Nú hefur Gugga okkar elsku-
leg kvatt okkur í hinsta sinn.
Gugga var alveg einstök kona
sem náði til allra; barna, unglinga,
ungs fólks og aldraðra. Pabbi
minn hann Deidei átti góðan vin
þar sem Gugga var. Hún var allt-
af með bros á vör, var hlý og góð-
ur hlustandi. Margir áttu einlægt
samtal við hana. Hún sagði
skemmtilega frá og svo var hún
líka svo fyndin eins og sonardóttir
mín sagði svo fallega við mig í vik-
unni.
Ég man aldrei eftir henni öðru-
vísi en í góðu skapi sumarið 1964
sem ég var í vist hjá þeim Guggu
og Bróa.
Já, hún kunni svo vel að geyma
barnið í sjálfri sér, sem fáum er
gefið.
Gugga var vinsæl í vinnu og
hafði gaman af að þjóna fólki.
Margir sem nutu þjónustu henn-
ar minnast hennar fyrir góða og
skemmtilega þjónustu.
Hún var líka góð leikkona og
tók þátt í nokkrum leiksýningum.
Hún var mikil handavinnukona
og var lengi í bútasaumsklúbbi.
Eftir að hún veiktist kom hún í
heimsókn til okkar og dáðist Leif-
ur minn að bútasaumsrúmfata-
poka þeirra hjóna. Hún vildi endi-
lega sauma svona poka handa
okkur og gerði það með góðri
hjálp vinkonu sinnar. Hún var svo
glöð þegar hún færði okkur fal-
legan rúmfatapoka og munum við
varðveita hann vel í minningu um
hana.
Það eru svo margir sem munu
sakna hennar Guggu enda var
hún elskuð af öllum þeim sem
kynntust henni.
Alltaf var fullt hús af ættingj-
um, vinum og nágrönnum í kaffi
og mat hjá Guggu og Bróa, sem
oftast eru nefnd saman.
Þetta hafa verið erfið ár fyrir
Bróa frænda minn sem sat alla
daga hjá Guggu sinni og einnig
fyrir fjölskylduna sem kveður
elskulega móður, ömmu og lang-
ömmu. Innilegar samúðarkveðjur
til ykkar frá okkur Leifi.
Blessuð sé minning Guggu
Páls.
Hildur.
Gugga tók við mér rúmlega
mánaðargömlum og passaði mig
hálfan vetur og svo aftur veturinn
eftir. Þá urðu til tengsl sem ekki
rofnuðu.
Snemma fór ég að þvælast um
einn, eins og tíðkaðist á lands-
byggðinni í svokallaða gamla
daga. Þá fór ég oft í heimsókn til
Guggu og Bróa til að hitta þau og
Patta, hundinn þeirra. Mamma
segir að ég hafi oft horfið og þá
hafi hún byrjað að leita að mér á
Hólabraut 1.
Þegar þau eignuðust yngsta
barnið sitt hana Ásthildi var ég á
fjórða ári. Þau kölluðu hana kan-
arífuglinn sinn ég og fékk að
hjálpa Guggu að passa hana.
Við Gugga skiptumst á gjöfum
fyrir jólin og hjá henni föndraði ég
fyrstu gjafirnar sem ég gaf
mömmu og pabba, meðal annars
klósettrúlluhaldara, sem hún kall-
aði skeini.
Gugga var alltaf kát og glöð og
hafði einstaklega notalega nær-
veru. Hún sagði mikið af sögum,
þar sem skemmtanagildið var að-
alatriðið.
Sérstaklega var eftirminnileg
bókin um Gulskinna sem hún las
fyrir mig aftur og aftur og allar
hundabaksferðirnar á Patta með
aðstoð Bróa.
Á fullorðinsárum þegar ég var
fluttur frá Blönduósi kom ég oft
við þar til að kynna Guggu og
Bróa fyrir börnunum mínum og til
að heyra þennan einstaka hlátur
sem Gugga átti og var ekki spör á.
Þá var gott að vera kallaður „ást-
arpungur“ aftur, en það var gælu-
nafnið sem Gugga gaf mér.
Síðustu heimsóknirnar voru
ekki eins góðar þar sem lífsgleði
Guggu var ekki lengur til staðar.
Þá sá maður svo vel hversu ein-
staka fjölskyldu hún átti, sérstak-
lega Bróa sinn sem var hjá henni
alla daga, og Önnu Lindu. Ég
votta þeim og fjölskyldunni allri
mína dýpstu samúð.
Takk fyrir allt, elsku Gugga
mín, og hvíldu í friði.
Reynir Finndal Grétarsson.
✝ Anna Jónas-dóttir fæddist
í Reykjarfirði á
Hornströndum 19.
júlí 1927. Hún lést
16. september
2019. Hún var
elsta dóttir hjón-
anna Jónasar Guð-
jónssonar og Alex-
andrínu Bene-
diktsdóttur. Al-
systur hennar,
Svanfríður Vigdís, Ólína Ket-
ilríður og Jensína Rósa, fædd-
ust 1928, 1930 og 1932. Að
auki átti hún fjögur samfeðra
hálfsystkini, þau Högna, Krist-
ján, Margréti og Guðnýju.
Anna ólst upp í Reykjarfirði.
Fyrri eiginmaður Önnu var
Jakob Kristján Einarsson frá
Kollsá í Jökulfjörðum. Þau
giftust 28. desember 1946.
Þau bjuggu á Kollsá ásamt
foreldrum Jakobs uns þau
brugðu búi árið
1957 og fluttu til
Ísafjarðar. Þau
eignuðust tvo syni,
Guðfinn Ellert ár-
ið 1943 og Svan-
berg Kristin árið
1949.
Síðari eiginmað-
ur Önnu var
Sveinbjörn Vetur-
liðason en þau
giftust árið 1966.
Kjördóttir þeirra er Guðrún
Kristín Sveinbjörnsdóttir en
þau ólu einnig upp Guðmund
Jakob Svanbergsson, sonarson
Önnu.
Afkomendur Önnu eru tveir
synir auk kjördóttur, níu
barnabörn, ellefu barnabarna-
börn og eitt barnabarnabarna-
barn, alls 24 afkomendur.
Útförin fer fram frá Ísa-
fjarðarkirkju í dag, 28. sept-
ember 2019, klukkan 11.
Kær frænka mín, Anna Jón-
asdóttir, verður jarðsungin frá
Ísafjarðarkirkju í dag.
Anna var náskyld mér í báð-
ar ættir. Móðir hennar Alex-
andrína Benediktsdóttir var
hálfsystir móðurömmu minnar
og faðir hennar föðurbróðir
minn. Móðir Önnu bjó sín
fyrstu búskaparár í Reykjar-
firði þar sem hún átti einn
þriðja hluta jarðarinnar. Síðar
flutti hún að Höfðaströnd í Jök-
ulfjörðum með fjölskylduna.
Anna fór ung í vinnumennsku í
Trékyllisvík hjá Önnu föður-
systur sinni og manni hennar.
Aðstæður höguðu því þannig að
hún fermdist þar í sveit og
móðir hennar komst ekki í
fermingu hennar vegna veðurs.
Frænka hennar og nafna sem
hún bjó hjá gerði þó sitt til
þess að gleðja hana. Haldið var
kaffiboð og einhverja gjöf fékk
hún líka. Anna giftist fyrri
manni sínum Jakobi Einarssyni
bónda á Kollsá í Jökulfjörðum,
næsta bæ við Höfðaströnd og
hefur það eflaust átt þátt í því
að móðir hennar flutti þangað.
Anna og Jakob eignuðust tvo
syni, Guðfinn og Svanberg.
Ég var mörg sumur í sveit
hjá Alexandrínu á Höfðaströnd
og kom stundum að Kollsá sem
stelpa, þá vorkenndi ég Önnu
alltaf svolítið, hún var svo ung,
lítil og grönn og í mörgu að
snúast á stóru heimili. Þau flutt
til Ísafjarðar þegar þau brugðu
búi og skildu nokkru síðar. Á
Ísafirði kynntist Anna seinni
manni sínum, Sveinbirni Vet-
urliðasyni. Þau tóku í fóstur
stúlku sem ólst upp hjá þeim.
Ég kynntist Önnu betur eftir
að hún kom til Ísafjarðar og
heimsótti hana ævinlega ef ég
fór vestur. Hún var alltaf glöð
og hress í tali og mér fannst
hún blómstra á miðjum aldri.
Síðustu árin bjó hún á Hlíð,
íbúðum aldraðra á meðan hún
hafði heilsu og líkaði það mjög
vel. Allra síðast var hún á
hjúkrunarheimilinu Eyri. Þar
var vel hugsað um hana. Gegn-
um tíðina tók Anna mér alltaf
hlýlega og við höfðum nóg að
spjalla. Með Önnu er gengin
mæt og góð kona. Börnum
hennar, systrum og fjölskyldu
allri sendi ég innilegar sam-
úðarkveðjur. Blessuð sé minn-
ing hennar.
Þrúður Kristjánsdóttir,
Búðardal.
Anna
Jónasdóttir
Virðing,
reynsla
& þjónusta
Allan
sólarhringinn
571 8222
Svafar:
82o 3939
Hermann:
82o 3938
Ingibjörg:
82o 3937
www.kvedja.is
svafar & hermann
Ástkær eiginmaður minn, sonur, bróðir,
mágur, frændi, stjúpfaðir, tengdafaðir
og afi,
ÞORSTEINN ANDRÉSSON,
lést 22. september
Útförin fer fram frá Grensáskirkju
miðvikudaginn 2. október klukkan 15.
Ingibjörg Magnúsdóttir
Sigríður Ágústsdóttir
Katrín H. Andrésdóttir Sveinn Ingvarsson
Kristleifur Andrésson Hanna M. Harðardóttir
Sóley Andrésdóttir Björgvin Njáll Ingólfsson
og afkomendur
Bóndi minn, faðir okkar og tengdafaðir,
HEIÐAR KRISTJÁNSSON
frá Hæli,
Austur-Húnavatnssýslu,
lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands,
Blönduósi, mánudaginn 23. september.
Útförin fer fram frá Blönduóskirkju
laugardaginn 5. október klukkan 14. Blóm og kransar eru
vinsamlegast afþakkaðir, en þeim sem vildu minnast hans er
bent á Krabbameinsfélag Austur-Húnavatnssýslu.
Kristín Jónsdóttir
Bryndís Þorbjörg Heiðarsd. Axel Gígjar Ásgeirsson
Jón Þorvaldur Heiðarsson Jóhanna Hjartardóttir
Berglind Salvör Heiðarsd. Borgar Guðjónsson
Kristján Björn Heiðarsson Ingunn Þorkelsdóttir
og afkomendur
Sálm. 86.5
biblian.is
Þú, Drottinn,
ert góður og fús
til að fyrirgefa,
gæskuríkur öllum
sem ákalla þig.