Morgunblaðið - 28.09.2019, Blaðsíða 53
MENNING 53
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 28. SEPTEMBER 2019
Vínlandsleið 16
Grafarholti
urdarapotek.is
Sími 577 1770
Opið virka daga kl. 09.00-18.30
og laugardaga kl. 12.00-16.00
VELKOMIN Í
URÐARAPÓTEK
VIÐTAL
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Bandaríski leikarinn John Hawkes
er staddur hér á landi sem einn af
heiðursgestum Alþjóðlegrar kvik-
myndahátíðar í Reykjavík, RIFF,
en hann leikur í kvikm ynd leik-
stjórans Elfars Aðalsteins, End of
Sentence, opnunarmynd hátíðar-
innar sem hófst í fyrradag.
Í myndinni segir af feðgum,
Frank sem Hawkes leikur og Sean
sem leikinn er af Logan Lehrman,
sem eiga ekki skap saman, svo
vægt sé til orða tekið. Sean afplán-
ar fangelsisdóm fyrir bílþjófnað og
þegar móðir hans og eiginkona
Franks, Anna, deyr af völdum
krabbameins kemur í ljós að henn-
ar hinsta ósk var að feðgarnir færu
til Írlands og dreifðu ösku hennar
við tiltekið stöðuvatn. Þegar Sean
losnar úr fangelsi er hann alls ekki
á því að fara með föður sínum í
þetta ferðalag en lætur að lokum til
leiðast.
Feðgarnir eru eins og svart og
hvítt, sonurinn hvatvís með stuttan
kveikiþráð en faðirinn ákaflega hlé-
drægur og lokaður og lætur allt yf-
ir sig ganga. Ástæðan fyrir þessu
stirða sambandi eða sambandsleysi
feðganna liggur ekki fyrir til að
byrja með en eftir því sem líður á
myndina geta áhorfendur gert sér í
hugarlund hvað veldur.
Gott handrit og
vinalegur leikstjóri
Hawkes hefur hlotið mikinn
fjölda tilnefninga og verðlauna fyr-
ir leik sinn og hlutverkin sem hann
hefur tekið að sér eru afar fjöl-
breytt. Hann var tilnefndur til Ósk-
arsverðlauna fyrir eftirminnilegan
leik sinn i Winter’s Bone og hefur á
ferlinum hlotið 17 verðlaun, þar af
nokkur fyrir frábæran leik sinn í
kvikmyndinni The Sessions. Í
henni leikur hann lamað ljóðskáld.
Blaðamaður hitti þá Elfar og
Hawkes í fyrradag, á upphafsdegi
RIFF, og spurði Hawkes fyrst
hvernig óþekktum, íslenskum leik-
stjóra hefði tekist að landa svo
þekktum og virtum leikara. „Ég
hitti Jonna [Sigurjón Sighvatsson
kvikmyndaframleiðanda] og Elfar
og okkur kom mjög vel saman. Ég
kunni líka vel að meta handritið og
sá líka stuttmyndina sem Elfar
gerði með John Hurt, Sailcloth, og
fannst hún falleg. Ég vissi ekki að
Elfar væri óþekktur, hann leit ekki
út fyrir að vera það,“ segir Hawkes
sposkur, „og það hefði ekki skipt
neinu máli,“ bætir hann við, „mað-
ur fær á tilfinninguna þegar maður
hittir einhvern í fyrsta sinn hvort
hann sé vingjarnlegur og hvort
maður geti hugsað sér að vinna
með honum.“
Hawkes bætir við að fyrir leikara
skipti öllu máli að geta treyst leik-
stjóranum, rætt opinskátt við hann
og mikilvægt sé að hafa trú á getu
hans til að segja sögu í kvikmynda-
formi.
Óvenjulegt samband
Elfar segir myndina vera vega-
mynd sem fjalli um laskað sam-
band föður og sonar. Þetta kjarna-
samband feðganna í handritinu var
það sem vakti áhuga hans, segir
hann. „Ég átti sjálfur í óvenjulegu
sambandi við föður minn og á fjög-
ur börn, þar af þrjá syni, þannig að
mig langaði að kanna þetta sam-
band frá báðum hliðum.“
Elfar segir söguna hafa hreyft
við honum og að hann hafi unnið
áfram í handritinu með handrits-
höfundinum, Michael Armbruster, í
tæpt ár, allt fram að tökum á
myndinni. „Sagan varð á endanum
persónuleg fyrir okkur báða sem
skiptir öllu máli,“ segir Elfar blaða-
manni.
Heiðarleiki
Hawkes er spurður að því hvort
hann búi að svipaðri reynslu og Elf-
ar þegar kemur að samskiptum við
föður hans. Nei, ekki er það svo,
hann segist hafa elskað föður sinn
heitinn þó svo að hann hafi yfirgefið
hann og móður hans þegar Hawkes
var ellefu ára. „Samband okkar
feðganna var kannski ekki flókið en
það var óvenjulegt og drengir sem
alast upp meira eða minna föður-
lausir mótast af því á ákveðinn
hátt,“ segir Hawkes. „Það er
áhugavert að kanna fjölskyldusam-
bönd með heiðarlegum hætti og
mér fannst ákveðinn sannleikur og
heiðarleiki einkenna þetta handrit
þegar kemur að slíkum samböndum
og hversu flókin þau geta verið.“
Leikarinn segist hafa getað sett
sig í spor Franks líkt og annarra
persóna sem hann hefur leikið þó
svo hann eigi ekki börn sjálfur.
Hann bendir brosandi á að leikari
þurfi ekki að vera morðingi til að
geta leikið morðingja.
Fjötrandi stífni
Hawkes er spurður að því hvern-
ig maður Frank sé. „Frank er mjög
góð manneskja en stífnin reynist
honum stundum fjötur um fót. Þeg-
ar maður er að leika ákveðna per-
sónu er það reynsla mín að áhuga-
verðara sé að finna sannleikann í
henni, fela hann svo og láta hann
skína í gegnum brynvörnina,“ svar-
ar Hawkes. Frank sé einstaklega
vandur að virðingu sinni og rólynd-
ismaður en undir niðri kraumi mik-
il reiði í garð sonarins og skelfi-
legra veikinda og andláts
eiginkonunnar. „Verkefni mitt fólst
í því að fela þessar staðreyndir.
Frank er einfaldur á yfirborðinu
en flókinn undir niðri.“
Undirbúningurinn flóknastur
Hawkes segist hafa notið þess til
hins ýtrasta að vinna með Elfari og
hrósar honum fyrir vandaða leik-
stjórn. Hann segir Elfar hafa veitt
leikurum myndarinnar svigrúm til
að kanna ólíkar leiðir og gera mis-
tök sem leiddu til endurbóta.
Leikstjórinn er í kjölfarið spurð-
ur að því hvað hafi reynst honum
erfiðast við að gera fyrstu kvik-
myndina í fullri lengd. Hann svar-
ar því til að undirbúningurinn hafi
verið flóknastur, að láta allt smella
saman, bæði hvað varðar fjár-
mögnun og tímasetningar. „Þetta
tók aðeins á því ég vann einnig sem
framleiðandi en með samstilltu
átaki með þeim sómamönnum sem
framleiddu með mér, Sigurjóni
Sighvatssyni og írska framleiðand-
anum David Collins, gekk þetta á
endanum upp,“ segir Elfar.
„Ég hélt að þú myndir segja „að
keyra á vinstri akrein vegarins,““
skýtur Hawkes þá inn í prakk-
aralegur og þeir félagarnir hlæja
innilega. Elfar bendir Hawkes á að
hann hafi búið lengi á Englandi og
eigi því auðvelt með vinstri umferð.
Elfar er með óvenjulegan bak-
grunn af kvikmyndaleikstjóra að
vera, starfaði sem forstjóri útgerð-
arfélagsins Eskju áður en hann
ákvað að láta þann draum sinn
rætast að fara í kvikmyndanám.
Það sama má segja um Hawkes,
bakgrunnur hans er heldur
óvenjulegur líka. Hann hefur aldr-
ei stundað leiklistarnám og segist
hafa ætlað að verða glímukappi.
Nú hváir blaðamaður. Glíma? „Já,
glíma,“ svarar Hawkes. Hann hafi
verið efnilegur sem drengur en
misst áhugann þegar nýr þjálfari
tók við. Þá var ekki lengur gaman
og meiðsli fóru líka að hrjá hann.
Leiklist, tónlist og dans
Hawkes ólst upp í smábæ í
Minnesota, tók þátt í skólaleikriti í
miðskóla og smitaðist af hinni al-
ræmdu leiklistarbakteríu. „Ég
flutti til Austin í Texas þegar ég
var 18 ára og ætlaði að starfa þar
sem smiður. Það var mikið að ger-
ast í borginni á þeim tíma, ódýrt
að búa þar og mikið að gerast í
listalífinu. Ég hékk mikið með mér
eldra og gáfaðra fólki sem kenndi
mér að segja sögur, tók þátt í
stofnun leikfélags, var í hljómsveit
og vann við nútímadans. Þetta var
minn háskóli,“ segir Hawkes.
Nú hváir blaðamaður aftur. Nú-
tímadans? Var hann líka dansari?
„Ég átti vini sem voru í nútíma-
dansi og drógu mig inn í sýningar.
Ég bjó ekki heldur yfir neinni
þjálfun í dansi og var bara meira í
því að hreyfa mig. Ég lærði teygj-
ur sem ég geri enn í dag og stund-
um fékk ég að leika tónlist eða
tala. Ég er ekki hæfileikaríkur
dansari,“ svarar Hawkes kíminn.
Sýningar leikhópsins fyrrnefnda
vöktu athygli umboðsmanna og
Hawkes fór að fá lítil hlutverk í
Hollywood-myndum sem teknar
voru í Austin. Þá fór boltinn að
rúlla, hlutverkunum fjölgaði með
árunum og á endanum flutti Haw-
kes til Los Angeles að freista gæf-
unnar. Þar hefur hann búið síðan,
í 29 ár og hlutverkin skipta nú
tugum. Hawkes segist hafa áttað
sig á því í Austin að hann væri
betri leikari en smiður. „Ég ákvað
að þetta væri það sem ég vildi
gera.“
Ástríðuverkefni
Eins og fjallað hefur verið um í
Morgunblaðinu er næsta verkefni
Elfars kvikmynd eftir bók Jóns
Kalmans, Sumarljós og svo kemur
nóttin. Hann vonast til þess að
geta hafið tökur næsta sumar og
vetrartökurnar fylgi svo í desem-
ber ef allt fer að óskum. Elfar er
spurður að því hvort ekki hafi ver-
ið snúið að laga bókina að kvik-
myndarforminu. Jú, hann segir
svo hafa verið, bókin sé mjög ljóð-
ræn og þorpið verði í raun
aðalpersónan sem leiði okkur frá
sögu til sögu. „Jón er einn af þess-
um kynngimögnuðu höfundum
sem geta farið með prósann úr
litlu þorpi lengst út í geim og aftur
til baka í sömu málsgreininni og
það verður gaman að takast á við
slíkt í myndmálinu. Við erum að
vinna í að klára fjármögnunina
eins og er sem tekur alltaf sinn
tíma,“ segir Elfar.
Spurður út í leikaraval segist
hann einungis búinn að finna
nokkra af aðalleikurunum sem
verða 12 talsins. „En hér heima
eru svo góðir leikarar að ég
hlakka sérstaklega til þess að
hefja prufur,“ segir Elfar.
„Ein af persónunum verður
kannski bandarískur blaðamaður
af íslenskum uppruna,“ bætir
hann við og horfir lymskulega á
Hawkes. Blaðamaður spyr leik-
arann hvort hann ætli að leika
þann náunga. Hawkes hlær við,
segir „já, já, ekkert mál“ og gefur
síðan hljóðdæmi, bablar eitthvað
sem á líklega að vera íslenska. Við
ákveðum að það séu viðeigandi
lokaorð. Eða lokababl, öllu heldur.
Betri leikari en smiður
John Hawkes er einn af heiðursgestum RIFF í ár Leikur kvalinn ekkil, Frank, sem á í afar erf-
iðu sambandi við son sinn í kvikmynd Elfars Aðalsteins, End of Sentence Einfaldur á yfirborðinu
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Vinir Elfar og Hawkes í setustofu Hotel Marina. Þeir náðu vel saman við gerð kvikmyndarinnar End of Sentence.
Ljósmynd/Bernard Walsh
Bollaleggingar John Hawkes, Elfar Aðalsteins og Logan Lerman spá í spil-
in við tökur á íslensk-írsku kvikmyndinni End of Sentence á Írlandi.