Morgunblaðið - 24.10.2019, Qupperneq 90
Morgunblaðið/Árni Sæberg
F
jölskyldufyrirtækið Epal, sem Eyjólf-
ur Pálsson stofnaði fyrir 44 árum,
hefur verið á lista Creditinfo yfir
framúrskarandi fyrirtæki frá árinu
2017. Epal er þekktast hér á landi fyrir sölu á
vönduðum hönnunarhúsgögnum sem mest-
megnis koma frá Skandinavíu, einna helst
Danmörku, en þar nam Eyjólfur innanhús-
arkitektúr eftir að hafa lært húsgagnasmíði
hér á landi. Sonur Eyjólfs, Kjartan Páll, er
tekinn við stjórnartaumum fyrirtækisins í dag
og hefur hann verið framkvæmdastjóri frá
árinu 2008. Epal hefur verið rekið af sömu fjöl-
skyldu á sömu kennitölu í 44 ár. Fyrirtækið
hefur sýn stofnandans að leiðarljósi í rekstr-
inum enn þann dag í dag um að koma íslenskri
hönnun á framfæri en hefur þurft að takast á
við breyttar aðstæður á undanförnum árum. Í
dag er Epal, að sögn Kjartans, verslun sem
býður upp á fjölbreytta flóru húsgagna á
breiðu verðbili auk alls þess sem viðkemur
rýmum í húsnæði fólks.
Fjármagn runnið inn á við
Kjartan segir vottun Creditinfo vera gæða-
stimpil og viðurkenningu á að þau hjá Epal séu
að gera eitthvað rétt. „Það er ekkert nema já-
kvætt við þetta. Þetta er jákvæður stimpill en
við teljum okkur þó hafa verið fyrirmyndar-
fyrirtæki alla tíð,“ segir Kjartan og brosir.
Að sögn Kjartans hefur Epal gengið í gegn-
um ýmsar áskoranir á þeim 44 árum sem liðin
eru frá stofnun fyrirtækisins. „Við höfum
þroskast mikið og lært. Okkar fjármagn hefur
runnið inn á við og við höfum ekki verið að
belgja okkur út eða keypt aðra aðila eða fyrir-
tæki. Við höfum frekar styrkt okkar stoðir. Við
eigum okkar húsnæði sjálf og þetta er allt und-
ir okkur komið. Síðasta ár gekk mjög vel og við
teljum okkur vera á réttri leið. Auðvitað þarf
alltaf að vinna í hlutunum og það eru ýmsar ut-
anaðkomandi aðstæður sem maður hefur ekki
stjórn á; hækkandi kostnaður og ýmislegt í
umhverfinu sem vinna verður með,“ segir
Kjartan en fyrirtækið rekur fjórar verslanir.
Flaggskipsverslunin er í Skeifunni í flenni-
stóru rými sem telur um 2.000 fermetra.
„Við höfum verið að byggja okkur upp og
stækkað rýmið og plássið til að sýna og selja
vandaða gæðavöru,“ segir Kjartan.
Auknar kröfur
Að sögn Kjartans er húsgagnamarkaðurinn
krefjandi. Viðskiptavinir gera auknar kröfur
til söluaðila og þar spilar internetið stóra rullu.
„Það er meiri samkeppni við netverslanir en
við teljum okkur vera með það frambærilegar
vörur og sanngjarnt verð að við eigum fullt er-
indi á markaðinn. En það er ekkert leyndar-
mál að hér er meiri samkeppni en áður. Í
gegnum tíðina hefur verið sagt að Epal sé dýr
verslun. Við erum það ekki lengur. Síðustu ár-
in höfum við verið mjög sambærileg öðrum og
við reynum að verðleggja okkur í samræmi við
það sem gerist úti í heimi,“ segir Kjartan en
nefnir þó að auðvitað þurfi að flytja vörurnar
til Íslands. Það sé kostnaðarsamt.
„Aðgengið að vörum er miklu meira en það
var áður. Fólk sættir sig ekkert við að kaupa
vöru hérna heima sem er 20-30% dýrari. Það
er einfalt að fletta upp hvað hlutir kosta t.d. í
Illum Bolighus. Þetta á að vera nokkurn veg-
inn á pari. En það er alltaf dýrt að flytja vörur
til Íslands og það kostar sitt. Menn eru ekki
alltaf að bera saman epli og epli,“ segir Kjart-
an og viðurkennir að þessi þróun hafi gert
reksturinn meira krefjandi.
Kjartan segir að Epal selji vissulega dýr
merki. Fyrirtækið selur húsgögn frá klass-
ískum dönskum húsgagnaframleiðendum,
Carl Hansen, Fritz Hansen og Louis Poulsen,
en hefur í seinni tíð boðið upp á vörur frá Hay
og Muuto. „Sem eru ódýr merki. Við höfum
alla flóruna. En aftur á móti eru þetta allt
vandaðar gæða- og hönnunarvörur. Þetta fell-
ur allt undir okkar hatt og við getum þjónað
öllum – sama hvort fólk er að kaupa dýran
sófa, millidýran eða ódýran,“ segir Kjartan.
Vendipunktur árið 2008
Kjartan segir ákveðna áherslubreytingu
hafa átt sér stað hjá fyrirtækinu eftir fjármála-
hrunið árið 2008. Þá hafi fyrirtækið þurft að
leita leiða til þess að glæða söluna en í dag
nemur sala á gjafavöru um 30% af heildarsölu
fyrirtækisins.
„Vendipunkturinn var árið 2008. Þá fór fók-
usinn meira í gjafavöru sem var ekki til staðar
hjá okkur áður. Fjölbreytnin varð meiri. Það
sýndi sig líka í byrjun kreppunnar að fólk hljóp
ekki út í búð að kaupa sófa. En þú ert alltaf að
kaupa smáhluti, afmælisgjafir, brúðargjafir,
innflutningsgjafir og annað. Þannig fengum
við fólk inn í búðina sem hugsanlega sá svo
eitthvað sem það keypti síðar meir,“ segir
Kjartan.
Hjálpa upprennandi hönnuðum
Í gegnum tíðina hefur Epal lagt mikla
áherslu á að koma íslenskri hönnun á fram-
færi. Hvort sem varan er framleidd hér á landi
eða erlendis. Sú viðleitni á rætur að rekja til
Eyjólfs, stofnanda Epals og föður Kjartans.
„Þetta er hans ástríða: íslensk hönnun og að
koma henni á framfæri,“ segir Kjartan en fugl-
ar hannaðir af Sigurjóni Pálssyni sem eru
bæði framleiddir af Epal og Normann Copen-
hagen hafa náð hvað mestri útbreiðslu.
„Við erum að framleiða ákveðna línu, vörur
sem Sigurjón Pálsson hefur hannað fyrir okk-
ur, en í grunninn erum við verslun, söluaðili og
heildsali. En við erum að reyna fyrir okkur í
útflutningi. Þetta er ekki mikið magn en við
erum að reyna,“ segir Kjartan sem selur þess-
ar vörur m.a. til Færeyja og Danmerkur.
Fyrirtækið hefur í gegnum tíðina reynt að
hjálpa upprennandi hönnuðum.
„Við fáum margt fólk til okkar sem vill fá að
selja hjá okkur eða leitar ráða hjá okkur varð-
andi ýmis praktísk atriði. Hönnuðir eru ekkert
endilega lærðir í öllu því sem við kemur að
koma vöru á markað. T.d. mál sem varða um-
búðir eða hvort það þurfi hreinlega strika-
merki á vöruna. Við búum einnig yfir góðu
tengslaneti og stundum passa ákveðnar vörur
ekki í okkar verslun. Þá reynum við að benda
fólki í þær áttir þar sem við teljum að þetta
myndi ganga,“ segir Kjartan.
Epal tekur virkan þátt í Hönnunarmars sem
er framtak sem rímar vel við áherslur fyrir-
tækisins.
„Við erum einn af aðalþátttakendunum í
Hönnunarmars. Við eyðum miklum tíma í það
framtak og gerum það af miklum þrótti. Það er
góður gluggi fyrir upprennandi hönnuði til
þess að koma vörum sínum á framfæri. Þangað
sækja margir erlendir aðilar,“ segir Kjartan.
peturh@mbl.is
Ástríða fyrir íslenskri hönnun
281. sæti
EPAL
Meðalstórt 88. sæti
Kjartan Páll Eyjólfsson
90 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 23. OKTÓBER 2019 VIÐSKIPTAMOGGINN FRAMÚRSKARANDI FYRIRTÆKI
Vörur frá danska húsgagna- og hönnunarfyrirtækinu Hay hafa notið vinsælda í Skandin-
avíu á undanförnum árum og rekur fyrirtækið nokkrar verslanir í Kaupmannahafnarborg.
Aðspurður hvort það komi til greina að taka eitthvað af þeim vörumerkjum út fyrir sviga
hér á landi í stað þess að selja þær í verslunum Epal segir Kjartan að það hafi komið til
tals.
„Við höfum hugsað og rætt þessa hluti. Það eru ákveðin vörumerki sem gætu þolað
það. Ég ætla ekki að útiloka neitt og Hay er eitt af merkjunum sem gætu réttlætt það. En
svo er það spurning með umfang og annað og hvað markaðurinn þolir,“ segir Kjartan.
Gætu þolað sér verslun
Kjartan Páll segir að fyrir-
tækið hafi þurft að leita
leiða til þess að glæða
söluna eftir hrun sem fólst
meðal annars í því að
selja gjafavöru.