Morgunblaðið - Sunnudagur - 27.10.2019, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - Sunnudagur - 27.10.2019, Blaðsíða 14
Þ að er mánudagsmorgunn og safnið er nýopnað. Reyndar er Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsinu opið 363 daga á ári þannig að þar koma gestir sjaldan að lokuðum dyrum. Blaðamaður er mættur til fundar við safnstjór- ann Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur en hún hef- ur verið þar við stjórnvölinn í fjögur ár. Við komum okkur fyrir á notalegu kaffistofunni á annarri hæð með útsýni út á haf og Esju og tölum um ferilinn, listamenn og myndlist, sem er að sjálfsögðu óþrjótandi umræðuefni. Það kemur fljótt í ljós að Ólöf hefur mikla ástríðu fyrir safninu, starfinu og myndlist í landinu sem hún segir á afar háu plani. Frábær tími í Chicago Ólöf tók við starfi safnstjóra í ágúst árið 2015 og segist hún hafa tekið við góðu búi af Haf- þóri Yngvasyni sem stjórnaði safninu í tíu ár þar á undan. Ólöf segist vel geta hugsað sér að sitja í áratug en starfið er tímabundið og tíu ár er hámarkið sem safnstjóri má sitja. „Mér finnst þetta svo skemmtilegt og svo mikil áskorun. Þetta er svo gefandi starf að það hálfa væri nóg,“ segir hún. „Ég kom reyndar ekki ókunnug að þessu verkefni því ég var búin að vinna svo lengi hér áður en ég tók við sem safnstjóri. Ég þekkti innviði stofnunarinnar og hafði strax skýra sýn á það hvar væru tækifæri til úrbóta,“ segir Ólöf en hún er í grunninn með próf úr Mynd- lista- og handíðaskóla Íslands og meistarapróf frá School of the Art Institute í Chicago þar sem hún sérhæfði sig í stjórnun listasafna og sýningarstjórnun. „Ég málaði aðeins eftir myndlistarnámið og hélt sýningar og tók þetta nokkuð alvarlega. Ég flutti til Akureyrar ásamt manninum mín- um sem var að leika hjá Leikfélagi Akureyrar og bjó þar í þrjú ár. Þar tók ég að mér verkefni þar sem mitt hlutverk var meira að skapa vett- vang fyrir aðra listamenn. Ég stýrði Lista- sumri á Akureyri en á þessum tíma var Gilið rétt að byrja að ná flugi. Þar komst ég að því að ég hafði ótrúlega gaman af því að láta eitt- hvað gerast. Það gaf mér mikið og ég gerði það vel. Þá fann ég að þetta var eitthvað sem mig langaði að gera. Ég var að fást þarna við allar listgreinar; myndlist, leiklist og tónlist,“ segir hún. „Þegar ég kom svo aftur suður fór ég að vinna í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi þar sem líka er verið að fást við ýmsar listgreinar en komst fljótt að því að ég var best í myndlist- inni, enda með þann grunn. Ég sótti svo um og fékk starf deildarstjóra fræðsludeildar Lista- safns Reykjavíkur og sinnti því starfi í ellefu ár ásamt sýningarstjórnun.“ Ólöf tók sér hlé frá vinnu þegar hún var rétt að verða fertug og hélt út í heim með mann og börn. „Ég fann háskóla í Chicago þar sem ég gat tekið meistaragráðu sem var tengd bæði safnafræði og samtímalistfræði. Á þessum tíma voru ýmis knýjandi viðfangsefni til um- ræðu í safnaheiminum, eins og safnið sem vett- vangur sköpunar, og ýmis viðfangsefni sem tengjast nýmiðlum. Ég skrifaði lokaritgerðina mína um varðveislu stafrænna miðla og það er enn verið að reyna að leysa þá þraut. En þar fyrir utan var þetta ótrúlega gaman og gefandi fyrir okkur sem fjölskyldu,“ segir Ólöf og nefnir að börnin hafi þá aðeins verið um tveggja og tólf ára en eru í dag þrítug og tví- tug. Eiginmaður Ólafar, Sigurþór Albert Heimisson, er menntaður leikari og vinnur við vefumsjón í LHÍ og sem leiðsögumaður. „Í Chicago var hann að leika í leikhópi sem fékk einmitt virt verðlaun, og svo var hann líka að sinna börnunum og heimilinu. Þetta var frá- bær tími fyrir okkur öll. “ Griðastaður landsmanna Eftir starfið sem deildarstjóri fræðsludeildar Listasafns Reykjavíkur tók Ólöf við starfi safnstjóra Hafnarborgar. „Ég tók við því starfi 1. október 2008, sex dögum fyrir hrun,“ segir hún og hlær. „Þetta var mjög áhugaverður tími. Það var jákvæðni gagnvart breytingum og þótt ég hafi líka þar tekið við góðu búi var sitthvað sem ég vildi breyta. Það er einmitt þess vegna sem þessar stöður eru allar tímabundnar; svo nýtt fólk geti komið inn með nýja sýn,“ segir hún. „Svo þegar ég tók við hér fann ég að hér voru væntingarnar miklar. Fólk væntir þess að þetta safn sé áhugavert og spennandi,“ seg- ir Ólöf og tekur fram að safnið hafi síður en svo verið illa rekið áður en auðvitað hafi hún komið inn með nýjar áherslur. „Mig langaði að opna safnið meira út í sam- félagið; að leggja áherslu á að safn sem er rek- ið fyrir almannafé sé griðastaður fyrir fólkið. Ég vil að fólk geti komi hingað og upplifað þá sögu sem myndlistin speglar um samtíma okk- ar og fortíð og jafnvel hvernig hún getur verið vegvísir inn í framtíðina. Auðvitað þurfum við að vera með vandaðar sýningar; það er grund- vallaratriði. Það þurfa að vera sýningar sem tala inn í samtímann og eru ekki á skjön við það sem fólk er almennt að velta fyrir sér í samfélaginu. Við fylgjum sýningunum eftir með vönduðum textum sem eru aðgengilegir og ókeypis. Síðan þarf að ná til fólks í gegnum miðlun og gera hana opna og aðgengilega,“ segir Ólöf. „Safnið hefur vaxið mikið en margir eru þó enn pínu hræddir við stofnanir eins og þessa og sumum finnst þeir ekki eiga erindi inn á listasafn en hluti af þessari stefnu okkar var að vera opin og bjóða fólk velkomið og um leið veita því góða þjónustu,“ segir Ólöf og nefnir að allt starfsfólk Listasafnsins telur um fjöru- tíu manns. Að finna samhljóminn Ólöf segir að safnið eigi oft í góðu samstarfi við erlend söfn og komið hefur fyrir að sýningar héðan séu sendar utan. „Við fáum líka mikið af fyrirspurnum frá söfnum úti um allan heim sem óska eftir samstarfi og þá er það okkar áskorun að velja úr það sem okkur finnst eiga erindi hingað. Við höfum lagt áherslu á að kynna listasögulega mikilvæga listamenn. Í sumar vorum við til dæmis með William Morr- is-sýninguna. Mér fannst mjög áhugavert að kynna hann hér af ýmsum ástæðum. Hann var áhugamaður um Ísland og kom hingað, kunni íslensku, skrifaði mikið og þýddi íslenskar bókmenntir. En einnig þá rímaði hans hug- myndafræði um hönnun ótrúlega vel við hug- myndafræði um sjálfbærni í samtímanum. Þannig að ég er líka að skoða hvaða erindi hlutir eiga við okkur,“ segir hún. „Á næsta ári verða tvær alþjóðlegar sýn- ingar hér í Hafnarhúsinu. Annars vegar sýn- ing á verkum bandaríska listamannsins Sol LeWitt, sem er stórt nafn í samtímalistasög- unni, sérstaklega í tengslum við mínimal- ismann. Það er áhugavert að kynna hann hér sem sögulega mikilvæga persónu en ekki síst vegna þess að það má finna hans taug í verkum nokkurra íslenskra listamanna,“ útskýrir hún. „Þessi sýning verður á sama tíma og sýning á Feneyjaverki Hrafnhildar Arnardóttur / Shoplifter. Báðar sýningarnar eru hugsaðar út frá rými og þannig fáum við tækifæri til að skoða innsetninguna sem fyrirbæri; að lista- verk séu hluti af arkitektúr og rými fyrir gesti. Það verður ákveðinn samhljómur í þessu. Ég vil að gesturinn sem gengur inn á safnið upplifi einhverja sögu; það er markmið með því hvernig hlutirnir eru settir saman. Eins og þegar við settum upp á Kjarvalsstöðum í sum- ar Sölva Helgason og William Morris, sem eru samtímamenn úr gerólíkum áttum. En það var alveg óneitanlega samhljómur í því sem þeir gerðu en áhrif þeirra á heiminn mjög ólík,“ segir hún. „Hin erlenda sýningin sem verður á næsta ári er sýning á verkum breska tvíeykisins Gil- bert & George. Hún verður hluti af Listahátíð og við erum að vinna hana í samstarfi við önn- ur söfn í öðrum löndum,“ segir Ólöf og segir afar mikilvægt að vera í nánu samstarfi við er- lend söfn því án þess væri ekki möguleiki að fá stór nöfn til að sýna hérlendis. Gaman að vera á gólfinu Þegar Ólöf er spurð hvernig hún velji lista- menn til að sýna, svarar hún: „Þetta er stórt safn með þrjá sýningarsali, þannig við höfum tækifæri til hafa fjölbreyttar sýningar,“ en auk Hafnarhússins eru Kjarvalsstaðir og Ásmund- arsafn undir Listasafni Reykjavíkur. „Ég vil segja margar og fjölbreyttar sögur. Við reynum að tala við alla, en ekki alla í einu. Við höfum skyldur við skapandi listamenn og við listasöguna út frá okkar safneign en mér finnst líka mjög mikilvægt að taka saman feril einstaka listamanna eins og til dæmis á við um yfirlitssýningu á verkum Ólafar Nordal á Kjarvalsstöðum og sýningu á verkum Magn- úsar Pálssonar í Hafnarhúsi. Safnið er líka af- ar mikilvægur vettvangur nýsköpunar þar sem róttækar hugmyndir komast á flug,“ segir Ólöf. „Ég er sýningarstjóri einstaka sýninga og þar að auki finnst mér stundum ægilega gam- an að vera á gólfinu þótt mér þyki líka ótrúlega skemmtilegt að horfa yfir völlinn,“ segir hún. Ólöf segir söfnin þrjú bjóða upp á ólíkar nálganir við myndlist; hvert hús hafi sínar föstu sýningar; Kjarval, Erró og Ásmund. „Við erum vissulega að skoða listasöguna en samtíminn er þó drifkrafturinn, að tengja söguna við samtímann með nýjum og eldri verkum. Hér í Hafnarhúsi viljum við vera með tilraunakenndari miðla og meira ögrandi sýningar. Í D-salnum sýnum við verk eftir fólk sem hefur þegar sýnt af sér tilburði í minni rýmum í borginni en fær svo að eiga hér sína fyrstu safnasýningu,“ segir Ólöf og segir ákveðna áskorun fólgna í því að fylgjast með því nýja sem er að gerast í myndlist í landinu. Mikilvægt að eignast Heimsljós Listasafnið á mikið safn verka eftir íslenska samtímalistamenn, auk safns Kjarvals, Errós og Ásmundar. Ólöf segir þau leitast við að sýna hluta þeirra árlega. „Þá finnum við þema eða viðfangsefni og vinnum með safneignina út frá því. Við höfum til dæmis verið dugleg að tengja Ásmund við samtímann og vorum einmitt tilnefnd til ís- lensku safnverðlauna fyrir það; að halda myndlist Ásmundar lifandi í gegnum samtal við yngri listamenn,“ segir hún. „Svo er Kjarval ótrúlega ríkulegur og hægt að skoða hann frá ýmsum sjónarhornum. Eins og þegar Eggert Pétursson gerði sýningu, sem hangir uppi núna, sér maður að þetta er allt annar Kjarval en maður hefur áður séð. Fólk fær aðra mynd af honum og það er hollt og gott,“ segir hún. „Það bætist alltaf eitthvað við safneignina á hverju ári. Við erum með takmarkað fé til inn- kaupanna en höfum notið góðs af því að við eigum velunnara sem hafa styrkt okkur í inn- kaupum. Svo fáum við líka listaverkagjafir,“ segir hún. „Mér fannst til dæmis mjög mikilvægt að eignast verkið Heimsljós eftir Ragnar Kjart- ansson þegar hann var að taka flugið alþjóð- lega og verkin hans eru orðin mjög dýr. Það kom til okkar velunnari og studdi okkur til þess að við gætum keypt verkið.“ Ólöf segir eitt af hlutverkum safnsins sé að sýna þjóðinni þessar gersemar og eru því fimm hundruð verk til sýnis víða um bæinn í stofnunum Reykjavíkurborgar. „Við sjáum um Höfða og Ráðhúsið svo dæmi séu nefnd, og svo eru alltaf verk héðan á sýn- ingum alþjóðlega. Það er mikilvægt að við lán- um verkin til útlanda og er líka gæðastimpill á safnið.“ Hafði strax skýra sýn Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, hefur í mörg horn að líta. Mikil gróska er í myndlist í landinu en safnið sinnir samtímalist og reynir að gefa listamönnum af öllum kynslóðum pláss. Ólöf vill að almenningur líti á safnið sem griðastað þar sem njóta megi myndlistar, félagsskapar og menningar. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is „Mig langaði að opna safnið meira út í sam- félagið; að leggja áherslu á að safn sem er rekið fyrir almannafé sé griðastaður fyrir fólkið. Ég vil að fólk geti komi hingað og upp- lifað þá sögu sem myndlistin speglar um sam- tíma okkar og fortíð og jafnvel hvernig hún getur verið vegvísir inn í framtíðina,“ segir safnstjórinn Ólöf Kristín Sigurðardóttir. VIÐTAL 14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 27.10. 2019

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.