Morgunblaðið - 31.12.2019, Blaðsíða 22
22 STJÓRNMÁL
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 31. DESEMBER 2019
S
trönduðu franskir hjá Laugarnesi suður milli jóla og
nýárs; voru hér um veturinn.“ Þessi þrjú hundruð
ára gamla tilvitnun um árið 1719 í Ölfusvatnsannál
er skemmtileg áminning um tvö stór viðfangsefni
sem þræða sig í gegnum alla sögu fólksins í land-
inu:
Annað er glíman við náttúruöflin. Sú saga er bæði gömul og
ný. Hitt er sambandið við aðrar Evrópuþjóðir í viðskiptum og
margvíslegum öðrum samskiptum. Það samband hefur bæði
fyrr og síðar verið efnahagsleg lífæð þjóðarinnar.
Þegar fárviðrið skall á undir lok þessa árs var ofurafl þess
svo mikið að innviðir okkar nútímavædda samfélags stóðust
ekki álagið víða um land. Í einhverjum tilvikum má segja að
við höfum sofið á verðinum. Það er hlutverk stjórnarandstöð-
unnar á Alþingi að veita aðhald þegar brotalamir koma í ljós.
En við slíkar aðstæður stendur vilji okkar þó fyrst og fremst
til þess að brýna alla til samstöðu um nauðsynlegar úrbætur.
Þakklæti er mér nú fyrst og fremst í huga. Liðsmenn björg-
unarsveitanna, löggæslufólk, starfsfólk orkufyrirtækjanna og
fjölmargir aðrir sýndu hvað vel skipulögð viðbrögð og ósér-
hlífni við erfiðustu aðstæður skipta öll okkur hin miklu máli.
Þar á þjóðin sanna hauka í horni, sem við virðum og metum
þegar þetta ár er kvatt.
Náttúruhamfarir og loftslagsbreytingar
Þótt náttúruhamfarir séu okkur Íslendingum engin nýlunda
þá stöndum við eigi að síður eins og allar aðrar þjóðir and-
spænis nýrri vá. Það er ógnin sem stafar af loftslagsbreyt-
ingum. Jöklarnir okkar bera merki þeirra hröðu umskipta.
Hér er verkefni sem kallar á pólitísk viðbrögð. Hér duga ekki
vettlingatök, engin kyrrstaða.
Andsvarið við loftslagsvánni kallar á margvíslegar og mark-
vissar breytingar í samfélaginu. Ríkisstjórn, sem byggir á
sáttmála um kyrrstöðu, er á hinn bóginn ekki líkleg til að gera
það sem þarf, jafnvel þó að í röðum hennar sé að finna fólk
sem vill gera betur. Sá góði vilji lýtur einfaldlega þeim tak-
mörkunum sem kyrrstöðusáttmálinn setur.
Forystufólk ríkisstjórnarinnar kallar þetta sáttmála um
stöðugleika. Gagnvart fólkinu í landinu virkar hann þó fremur
eins og tjóðurband sem gerir velviljuðu fólki ókleift að takast á
við nýjar aðstæður. Helsti veikleiki ríkisstjórnarsamstarfsins
liggur einmitt í þessu.
Þau viðfangsefni sem við blasa í loftslagsmálum minna okk-
ur á að þau verða ekki, fremur en flest stærstu viðfangsefni
stjórnmálanna, leyst nema í alþjóðlegu samhengi og í alþjóð-
legu samstarfi. Hér er engin þjóð eyland.
Engin fjölþjóðasamtök hafa náð jafn lagt í samræmdum
bindandi aðgerðum á þessu sviði eins og Evrópusambandið,
sem þó hefur ekki gert nóg. Þegar loftslagsráðstefna Samein-
uðu þjóðanna í Madríd fór út um þúfur á dögunum kvartaði
umhverfisráðherra yfir því að meirihluti á þeim vettvangi gæti
ekki tekið ákvarðanir í ljósi þess hversu mikið væri í húfi.
Flokkur umhverfisráðherra hefur hins vegar bundist
tryggðaböndum við þau öfl í Sjálfstæðisflokknum og Fram-
sókn sem standa í vegi fyrir dýpri Evrópusamvinnu en felst í
aðild að innri markaði Evrópusambandsins. Ástæðan er sú að
á þeim vettvangi er unnt að taka bindandi ákvarðanir, meðal
annars í loftslagsmálum. Tvískinnungur er það orð sem mér
kemur fyrst í hug, svo ég taki nú ekki dýpra í árinni.
Varðstaða um völd hefur vikið hugsjónum til hliðar. Fólkið í
landinu biður ekki um kyrrstöðu, en það vill fyrirsjáanleika og
framfarir. Það vill vita eftir hvaða striki ríkisstjórnin siglir.
Fólkið sem stóð að stofnun Viðreisnar fyrir rúmum þremur ár-
um bað ekki um stór loforð. Það vildi einfaldlega fá rödd inn á
Alþingi sem væri trú ákveðnum grundvallarhugmyndum og
væri reiðubúin til að ræða og takast á við ný viðfangsefni á
þeim grunni. Við erum að tala um frjálslyndi og umhyggju í al-
þjóðlegu samhengi.
Auðlindanýting – á grunni trausts og gegnsæis
Þjóðinni var brugðið þegar Ríkisútvarpið dró fram í dags-
ljósið viðskiptahætti Samherja með veiðirétt í Namibíu. Þær
upplýsingar kölluðu hvarvetna fram óskir um viðbrögð til þess
að byggja upp traust gagnvart þeirri atvinnugrein, sem sann-
arlega var uppspretta lífskjarabyltingar í landinu á síðustu
öld.
Ríkisstjórnin brást við innan þess þrönga ramma sem kyrr-
stöðusáttmáli stjórnarflokkanna leyfði. Segja má að sjávar-
útvegsráðherra hafi lýst skilningi ríkisstjórnarinnar einkar vel
þegar hann hafði ekki annað að segja, um það pólitíska ákall
þjóðarinnar að byggja þurfi upp traust á ný, en að benda kurt-
eislega á að það sé nú langur vegur frá Öxarfirði til Namibíu.
Þingmenn Viðreisnar hafa þegar brugðist við þessum áskor-
unum fólksins í landinu ásamt þingmönnum úr tveimur öðrum
flokkum með frumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi.
Það felur í sér úrbætur á þeim leikreglum sem þeir verða að
fylgja sem hafa rétt til að veiða úr sameiginlegri auðlind lands-
manna. Þær úrbætur eru byggðar á frjálslyndum grundvallar-
hugmyndum, skýrri kröfu um gegnsæi, eðlilegum sjónar-
miðum um hámarksstærð fyrirtækja sem sækja í okkar
sameiginlegu auðlind og dreifða eignaraðild.
Við höfum einnig kallað eftir því að forsætisráðherra gefi til-
lögu sinni um auðlindaákvæði í stjórnarskrá efnislegan tilgang
með því að áskilja þar tímabundinn nýtingarrétt. En kyrr-
stöðusáttmáli stjórnarflokkanna bindur hendur hennar í þessu
efni eins og fleirum.
Heilbrigðismál á grunni frjálslyndis og umhyggju
Segja má að í hugmyndaheimi Viðreisnar séu tveir uppi-
stöðuþræðir: Það eru frjálslyndi og umhyggja. Þessir þræðir
eru samofnir í einn vef sem ekki verður slitinn í sundur í nú-
tíma velferðarsamfélagi. Þau viðhorf hafa einkennt málflutn-
ing okkar í heilbrigðismálum.
Á Alþingi heyrum við heilbrigðisráðherra lýsa því að aldrei
hafi meiri fjármunir farið til heilbrigðiskerfisins. Elstu menn
muna ekki jafn ánægðan ráðherra þessara mála.
Um leið og við samgleðjumst ráðherranum komumst við
ekki hjá því að heyra og lesa fréttir um víðtækar lokanir á
Landspítalanum, lengri biðlista, skort á menntuðu starfsfólki
og uppsagnir í stærri stíl en sögur fara af. Við heyrum líka að
heilbrigðisáætlun til 2030 er ekki fjármögnuð og hafi ekki að
geyma tímasett markmið.
Þegar við hlustum á fréttir er eins og heilbrigðisráðherra sé
að segja: Allt það sem ég vildi hafa gert bíður ráðherra næstu
ríkisstjórnar. Ég efast ekki um umhyggju ráðherrans. En það
er eins og eitthvað vanti upp á að siglt sé eftir ákveðnu striki
að settu markmiði. Þrátt fyrir að engin ríkisstjórn hafi fengið
jafn skýrt umboð frá kjósendum til umbóta í heilbrigðismálum.
Meðan biðlistarnir lengjast, lokanir verða alvarlegri og upp-
sögnum fjölgar er eins og öll orka heilbrigðisráðherra fari í að
kæfa það þróttmikla starf á sviði heilsugæslu, hjúkrunar og
forvarna sem í áratugi hefur vaxið og dafnað á vettvangi
óháðra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana. Með ófyrir-
séðum afleiðingum. Í öðrum velferðarríkjum samtímans eru
gamlar kreddur af þessu tagi taldar standa í vegi fyrir fram-
förum.
Ég hef hér vikið að þremur stórum viðfangsefnum sam-
tímans, loftslagsmálum, auðlindanýtingu og heilbrigðismálum.
Þetta eru í eðli sínu óskyld mál. En um þau öll gildir þó samt
eitt og sama pólitíska lögmálið.
Við þurfum að sýna umhyggju. Við þurfum að stefna að
settu marki á grundvelli frjálslyndra viðhorfa. Við þurfum að
stækka Ísland með víðtækara samstarfi við þjóðir Evrópu.
Fyrir hönd Viðreisnar vil ég þakka samfylgdina á liðnu ári
og óska landsmönnum öllum gleði og gæfu á nýju ári.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Frjálslyndi og umhyggja
í alþjóðlegu samhengi
Við þurfum að sýna umhyggju. Við þurfum að
stefna að settu marki á grundvelli frjálslyndra
viðhorfa. Við þurfum að stækka Ísland með víð-
tækara samstarfi við þjóðir Evrópu.