Morgunblaðið - 31.12.2019, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 31.12.2019, Blaðsíða 27
STJÓRNMÁL 27 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 31. DESEMBER 2019 Þ að er gömul saga og ný að náttúruöflin geta verið óvægin og hafa oft höggvið djúp skörð í tilveru okkar. Síðast í desember minntu grimmar lægðir okkur á þetta. Ungur piltur var hrifsaður burt og slíkt verður aldrei bætt. Að öðru leyti var tjónið einkum fjárhagslegt og auðveldara að lifa með því. Það var ánægjulegt að upplifa þann kraft og samstöðu sem birtist hjá viðbragðsaðilum og meðal íbúa þeirra byggðar- laga sem illa urðu úti. Þá getum við verið þakklát fyrir þá þekkingu, útsjónarsemi og tækni sem gerir okkur mögulegt að segja fyrir um slíkt veður og bregðast við. En það dróst líka upp síður ásættanleg mynd sem afhjúp- aði eina birtingarmynd ójöfnuðar – í þessu tilfelli byggða- ójöfnuð. Þetta ójafnvægi höfum við raunar séð birtast á fleiri vegu. Má þar nefna nýlegar niðurstöður Pisa- rannsóknar, sem sýna að líklega er fámennari byggðar- lögum sniðinn þrengri stakkur til að sinna fullnægjandi skólastarfi en eðlilegt er. Það liggja miklir almannahags- munir í að úr því sé bætt. Um aldamótin 1900, þegar pólitísk ákvörðun var tekin um að staðsetja flest embætti og stofnanir í Reykjavík, bjuggu þar ríflega 6.000 manns eða um 8% landsmanna. Það var vafalítið skynsamlegt hjá fámennri þjóð í stóru landi en of lítið hefur verið hirt um að ráðast í mótvægisaðgerðir gegn- um tíðina. Árið 2019 búa því 36% þjóðarinnar í Reykjavík og 64% á höfuðborgarsvæðinu. Ef ekkert verður aðhafst mun sífellt hærra hlutfall þjóðarinnar búa á höfuðborgar- svæðinu. Rökin fyrir því að allt þurfi að vera staðsett í Reykjavík, því þar sé fólkið, munu verða enn veigameiri og ójafnvægið verður að endingu svo mikið að lítið verður við ráðið. Landsbyggðin þarf á sterkri höfuðborg að halda en höfuðborgin þarf líka á öflugri landsbyggð að halda. Það þarf samfélagslega sátt um að jafna búsetuskilyrði. Nauðsynlegt er að leggja fram djarfa byggðastefnu með áherslu á stærstu bæi landsbyggðarinnar, sameina sveitar- félög og endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. En líka eiga opið og fordómalaust samtal til að auka skiln- ing okkar á stöðu hvert annars. Sú tilhneiging að etja höfuðborg gegn landsbyggð, sem er því miður of algengt í stjórnmálaumræðunni, sundrar og gerir illt verra. Við eig- um öll rétt á að búa við öryggi og höfum öll hagsmuni af góðum innviðum, þjónustu og tækifærum sem víðast um landið. Ójöfnuðurinn á Íslandi birtist þó í fleiri myndum. Þrátt fyrir að við státum gjarnan af góðum samanburði við önnur lönd og veifum hagstæðum meðaltölum sem sýna velsæld búa alltof margir við ömurleg kjör. Þetta er algerlega óvið- unandi og óþarfi í tíunda ríkasta landi veraldar. Þetta er ómannúðlegt og skapar óhamingju. Auk þess er þetta heimskuleg efnahagsstjórn og sogar mátt úr samfélaginu þegar við þurfum að sækja fram, á tímum mikilla breytinga. Það þarf að taka með í reikninginn hvað það kostar að lág- tekjufólk neiti sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, eigi ekki fyrir mat milli mánaða eða einangrist félagslega. Það er er ekki spurning um hvort, heldur hvar og hvernig af- leiddur kostnaður af því kemur fram í samfélaginu. Þá kann það áhugaleysi sem stjórnvöld sýna fjölmennum opinberum kvennastéttum á opinberum vinnumarkaði í kjarabaráttu, ekki síst innan skóla- og heilbrigðiskerfisins, að hafa slæm- ar afleiðingar. Skortur á heildarsýn og fyrirhyggju er raunar of einkenn- andi fyrir stjórnmál á Íslandi. Við erum réttilega stolt af því að hafa með aukinni tækni og fræðslu minnkað mannskaða til sjós og stórfækkað banaslysum á vegum, þrátt fyrir stór- aukna umferð. En virðumst svo úrræðalaus, jafnvel skeyt- ingarlítil, þegar við horfum eftir tugum mannslífa, oft ungra einstaklinga, sem verða fíkniefnum að bráð eða falla fyrir eigin hendi. Við erum meðvituð um að ef við skömmtum of naumt til skóla og annarrar grunnþjónustu, bjóðum ekki börnum og ungmennum upp á verkefni sem vekja áhuga og næra styrkleika þeirra, veldur það fjölda þeirra tjóni síðar á ævinni og kostar samfélagið gríðarlega mikið. Við vitum um afleiðingarnar en gerum þetta samt. Norðmenn telja sig þurfa að mæta um 5% allra barna með sérhæfðri geðheil- brigðisþjónustu á hverju ári – og þeir gera það. Íslendingar mæta þörfum 2% barna með slíkri þjónustu, þótt flestum sé ljóst að það er allt of lítið. Vonandi stafar þetta ekki af kaldlyndi heldur þeirri ein- feldni að halda að slæmir hlutir þrífist síður hjá fámennri þjóð. En ef til vill er þetta sama hirðuleysið og hefur valdið því að hér hefur verið trassað að byggja upp regluverk um heilbrigð viðskipti og varnir gegn peningaþvætti. Fyrir vik- ið erum við á gráum lista sem veldur erfiðleikum fyrir ís- lenskt atvinnulíf. Það er vandræðalegra en orð fá lýst að viðbrögð einstakra ráðherra skuli vera að þetta skipti litlu máli því enginn trúi því hvort sem er upp á Íslendinga eða að við séum nú a.m.k. ekki á þeim svarta. Getu- og/eða viljaleysi íslenskra stjórnmála til að sjá heildarmynd birtist þó kannski skýrast í því að afmarka umræðu um erfið mál – eins og þau séu alltaf einangruð tilvik. Þrátt fyrir að hafa á tíu árum upplifað bankahrun, óeðlilega fjármálavafninga, stórfelld skattaundanskot auðmanna og nú síðast ásakanir um svívirðileg lögbrot og siðleysi stórfyrirtækis gagnvart einni af fátækari þjóðum heims er lítill vilji til að horfa á samhengi – koma auga á mynstur. Ræða það hvort rót vandans sé léleg löggjöf, hirðuleysisleg stjórnsýsla og skortur á skýrum gildum. Meirihluti Alþingis hafnar því meira að segja að tryggja nægt fé til rannsókna og eftirlit og felur það duttlungum einstakra ráðherra. Aukin áhersla á gildi eins og heiðarleika, réttlæti, samúð og jöfnuð kemur ekki með öllu í veg fyrir óæskilega hegðun en getur skapað betri umgjörð og lagt sterkari grunn að því að gripið sé inn af myndugleik þegar græðgi fárra ógnar hagsmunum fjöldans og kastar jafnvel rýrð á heila þjóð. Nýja stjórnarskráin, sem samin var af fulltrúum almenn- ings, var nauðsynlegur þáttur á þeirri leið að byggja sam- félagssáttmála á þessum gildum og það verkefni þarf að klára. Við lifum merkilega tíma og ákvarðanir stjórnmála sam- tímans munu ráða miklu um hvernig okkur vegnar í fram- tíðinni. Ný tækni þjappar veröldinni saman og við erum sí- fellt minnt á að jarðarbúar eru ein stór fjölskylda og við verðum að taka ábyrgð hvert á öðru. Áskoranir samfara nýrri tæknibyltingu og loftslagsógnum verða aldrei leystar nema í samstilltu átaki alls mannkyns. Við þurfum því stjórnvöld sem auðvelda alþjóðlega samvinnu; byggja brýr í stað þess að reisa múra. Hin nýja tækni opnar fámennri þjóð enn frekari leiðir til verðmætasköpunar en við höfum áður þekkt. Til þess að geta hagnýtt okkur hana og tryggt að hún leiði til meiri jöfnuðar og betri lífsskilyrða þurfum við þó að hafa kjark til að ráðast í byltingarkennda sókn í menntamálum og stórefla rannsóknir og nýsköpun. Byggja meira á hugviti í stað frumframleiðslu drifinnar áfram af nýtingu náttúruauðlinda. Við ættum að auka fjölbreytni atvinnulífs þar sem hryggjar- stykki samfélagsins verða frekar mörg smærri fyrirtæki með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi en fá ofurstór. Umfram allt þurfum við stjórnvöld sem hafa þor og fram- sýni til að ráðast í gagngera endurhugsun á skattkerfinu, sem deila gæðum jafnar og tryggja að auðlindir okkar skili almenningi eðlilegum arði, þannig að við getum þróað sam- félag þar sem enginn verður skilinn eftir. Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Um samhengi hluta Áskoranir samfara nýrri tæknibyltingu og loftslagsógnum verða aldrei leystar nema í sam- stilltu átaki alls mannkyns. Við þurfum því stjórnvöld sem auðvelda alþjóðlega samvinnu; byggja brýr í stað þess að reisa múra.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.