Morgunblaðið - 31.12.2019, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 31.12.2019, Blaðsíða 23
STJÓRNMÁL 23 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 31. DESEMBER 2019 Þ að er manninum eiginlegt að hafa áhyggjur. Í raun erum við frá náttúrunnar hendi þannig gerð að neikvæðir hlutir vega þyngra en jákvæðir. Sér- fræðingar sem um þessi mál fjalla benda á að í fyrndinni hafi það skilið milli lífs og dauða að vera vakandi fyrir hættum og ógnum. Áhugi okkar á neikvæðum hlutum er viðvarandi, eins og sjá má af helstu umfjöllunarefnum fjölmiðla. Dramatískar nei- kvæðar fréttir fá einfaldlega meiri athygli. Og þótt aðgangur að upplýsingum hafi aldrei verið greiðari í mannkynssögunni virðist hræðsluáróður og hleypidómar lifa jafngóðu – ef ekki betra lífi en áður. Að einhverju leyti hefur skuldinni verið skellt á samfélags- miðla. Þar sé engin ritstjórn og auðvelt, fyrir þá sem vilja og nenna, að spila með almenningsálitið. Líklega er þó mest af því sem fram fer á þessum miðlum ekki skipulagt, heldur af- leiðing af þessum eðlislægu hvötum mannsins, að hneigjast til neikvæðni og viðra ótta sinn við hið óþekkta. Hugsanlega er ástæða til að hafa af þessu áhyggjur. Getur verið að umhverfið sem við höfum sjálf skapað sé til þess fall- ið að valda óþarfa vanlíðan og byrgja okkur sýn á það sem gengur vel og ætti að stuðla að hamingju? Þessi þróun er talin hafa haft áhrif á uppgang popúlista í Evrópu og víðar, þar sem alið er á sundrungu í hverju sam- félagi fyrir sig. Birtingarmyndirnar eru margar og hér á landi má meðal annars greina þær í ákveðnu umróti í flokkaskipu- laginu. Það má jafnframt segja að tilhneigingar gæti í um- ræðunni til að einfalda mjög flókna hluti og skipa fólki í fylk- ingar með eða á móti. Það er í sjálfu sér síður en svo nýtt fyrirbæri, en tæknin til að koma vanstilltri umræðu af stað um einstök mál er orðin þróaðri. Til ríkisstjórnarsamstarfs Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var í viss- um skilningi stofnað til að vinna gegn frekari pólun. Stefnu- mál flokkanna gáfu fyrirfram ekki tilefni til að ætla að þeir ættu best saman, en þeir gátu sameinast um stóru myndina og voru sammála um mikilvæg mál sem vinna þarf að þvert á pólitískar línur til að tryggja árangur fyrir heildina. Það ætl- uðu flokkarnir að gera, þrátt fyrir að gera mætti ráð fyrir að sótt yrði að ríkisstjórninni úr mörgum áttum fyrir að standa ekki fyrir nógu tærar hugmyndafræðilegar lausnir. Reyndar bendir margt til, ef tekið er mið af núverandi flokkaskipan, nýlegum kosningaúrslitum og kosningaskipu- lagi, að slíkt hið sama kunni að bíða framtíðarríkisstjórna. Segja má að innbyrðis ósamræmis gæti í kröfunni um færri málamiðlanir á sama tíma og sundrung verður á flokkaskipu- laginu. Óhjákvæmilegt er að óþols gæti í baklandinu á hinum pólit- ísku ásum þegar málamiðlanir eru gerðar eða stefnan er ekki afgerandi. Kallað er eftir frekari skattalækkunum til hægri en meiri miðstýringu til vinstri svo dæmi séu nefnd. Niðurstaða síðustu kosninga var hvað sem því líður sú að fylgið dreifðist á flokka og eftir sundrungu og pólitískt gjörningaveður síð- asta áratug var tími til kominn að brúa gjána sem myndast hafði. Styrkur stjórnarinnar verður ekki mældur í fyrirsögnum vefmiðla eða hálfsmánaðarlegum fylgiskönnunum. Þegar upp er staðið verða það verkin, málin sem stjórnin setur á dagskrá og kemur í framkvæmd sem standa sem klettur upp úr öldu- róti samfélagsmiðlanna. Slík stjórn starfar samkvæmt þeirri trú að þegar reikningsskil verða gerð megi uppsláttur ein- stakra mála á miðju kjörtímabili sín lítils gegn raunverulegum árangri og traustvekjandi framtíðarsýn. Í ljósi alls þess, sem hér hefur verið sagt, kemur það ef til vill ekki á óvart að áhyggjur af framtíðinni voru líklega ein helsta ástæða þess að ég gaf mig að stjórnmálunum á sínum tíma – en það voru áhyggjur sem ég vildi virkja sem drifkraft breytinga og framfara. Ein helsta forsenda þess að endast eitthvað á vettvangi stjórnmálanna, án þess að missa móð, er síðan að hafa innri rödd og geta spurt sig reglulega: Hvernig gengur – svona í raun og veru? Og við áramót er góður tími til að spyrja hvernig gangi. Hvernig hafa áherslur og ákvarðanir líðandi árs og undanfar- inna ára reynst samfélaginu? Okkur Íslendingum hefur gengið vel á árinu sem er að líða. Það er hægt að segja þrátt fyrir loðnubrest í upphafi árs, sem vissulega kom hart niður á ákveðnum byggðum, en aðrar tekjur komu í staðinn fyrir þjóðarbúið í heild. Það er merki- legt því loðnan hefur í áratugi verið önnur verðmætasta út- flutningstegund sjávarafurða. Gjaldþrot félags, sem í fyrra flutti 25% allra ferðamanna til landsins, var áhyggjuefni, og vissulega fækkaði ferðamönnum. Þeir sem komu keyptu þó fleiri gistinætur og neysla ferðamanna dróst einungis saman um 6% á árinu. Við stóðum þessi áföll vel af okkur, meðal annars vegna þess að atvinnulíf okkar er fjölbreyttara en áður og útflutn- ingstekjurnar koma nú víðar að. Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði voru stærsta einstaka ákvörðun sem tekin var á árinu og hafði mikil áhrif á framvindu mála. Aðilar vinnumarkaðar náðu tímamótasamn- ingum með stuðningi stjórnvalda í formi aðgerða sem spanna allt frá lækkun skatta og lengra fæðingarorlofi til úrræða í húsnæðismálum. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að nýta í störfum sínum nýja mælikvarða um hagsæld og lífsgæði sem munu hafa mikil áhrif á mat okkar á árangri á mikilvægum sviðum. Stefnan í opinberum fjármálum var endurskoðuð, vextir lækkuðu og þannig var tryggt að umsamdar launahækkanir skiluðu sér í vasa launþega. Ársins 2019 verður meðal annars minnst fyrir jákvæð áhrif þess þegar opinber fjármál, vinnu- markaður og framkvæmd peningastefnunnar lögðust á sömu sveif. Við höfum búið við litla verðbólgu, lægstu húsnæðisvexti í sögunni og þetta var enn eitt árið sem kaupmáttur launþega óx. Ríkissjóður hefur aldrei notið betri kjara, skuldir lækka og viðskiptastaðan við útlönd er hagstæðari þjóðarbúinu en áður. Þetta er sannarlega góð staða til að hefja nýtt ár. Sterk staða efnahagsmála skiptir miklu fyrir þjóðina. Okkar bíða áfram verkefni sem á engan hátt verða auðleyst. Við vilj- um styrkja vegakerfið, bæta með því samgöngur og auka um- ferðaröryggi. Óveðrið undir lok árs minnti okkur á hve mikil- vægt flutnings- og dreifikerfi raforku er fyrir byggð um allt land. Þar er þörf á átaki. Stuðningskerfi aldraðra með lágan lífeyri þarf að þétta. Þótt þjóðin sé ung er hún að eldast og betri lyf og lausnir í heilbrigðismálum kalla á aukið fjármagn. Við viljum sam- keppnishæfa skóla sem skila nemendum vel undirbúnum út í lífið. Við viljum líka nútímavæða opinberar þjónustu- og eftir- litsstofnanir. Þannig verður blómlegt mannlíf um allt land, jafnt í þéttbýli sem dreifbýli og góðar hugmyndir fá fram- gang. Alls staðar eigum við að gera kröfu um að nýta tækni til að geta gert meira fyrir minna, aukið framleiðni, afköst og ánægju, ávallt í sóknarhug öllum til hagsbóta. Við erum í fremstu röð þjóða hvað lífsgæði varðar og verð- um að halda vöku okkar svo samkeppnishæfni landsins dvíni ekki. Enn er búist við því að hagvöxtur á heimsvísu taki við sér árið 2020 en þó er útlit fyrir að hagvöxtur minnki í helstu viðskiptalöndum Íslands sem er áhyggjuefni fyrir viðskipta- kjör okkar. Nýleg skýrsla um EES-samstarfið dregur fram hve mikil- væg aðildin að innri markaðinum er okkur í þessu tilliti. Að sinni virðist sem okkur standi meiri ógn af viðskiptastríði stórveldanna en atburðum sem standa okkur nær, svo sem út- göngu Bretlands úr ESB. Frjáls viðskipti eru frumforsenda velmegunar og friðar. Ísland á að vera öflugur málsvari slíkra sjónarmiða á alþjóðavettvangi, þannig tryggjum við best möguleika okkar til að vera áfram í hópi þeirra þjóða sem búa við hvað best lífskjör. Við skulum vera þakklát fyrir allt það góða sem áunnist hefur og muna að það var dugnaður, þor og seigla þeirra sem á undan okkur hafa gengið sem lagði grunn að þeirri vel- megun sem við Íslendingar búum nú við. Við skulum því fara bjartsýn inn í nýtt ár – með mátulegar áhyggjur af framtíð- inni svo við missum ekki dampinn – og treystum á landið og okkur sjálf til góðra verka. Gleðilegt nýtt ár! Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Við áramót Við skulum því fara bjartsýn inn í nýtt ár – með mátulegar áhyggjur af framtíðinni svo við missum ekki dampinn – og treystum á landið og okkur sjálf til góðra verka.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.