Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.12.2019, Blaðsíða 12
KVIKMYNDIR
12 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 8.12. 2019
þess að upplýsa það eða bæta við það á nokkurn
hátt og fjölga um leið persónum í myndinni, sem
þá þegar eru svo margar að áhorfandinn á fullt í
fangi með að henda reiður á þeim.“
Síðar í umsögninni segir Sigurður Sverrir:
„Allt þetta hjálpar aðeins til að rugla áhorfand-
ann, sem yfirgefur kvikmyndahúsið jafn rugl-
aður og yfirmaður Kyrrahafsflotans (Henry
Fonda), sem segir í lok myndarinnar: „Vorum
við betri en Japanarnir eða bara heppnari?“ Á
þeim þrjátíu og fjórum árum, sem líða frá því
atburðurinn gerist og þar til myndin er gerð,
hefði átt að gefast tími til að svara þessari
spurningu.“
Slasaðist einhver?
Anna Bjarnason rýndi í myndina fyrir hönd
Dagblaðsins og sagði meðal annars: „Ekki veit
undirritaður hvort farið er eftir sögulegum
heimildum í myndinni, en öll atburðarásin virk-
ar mjög sennileg og bardagarnir eru sumir
hverjir ógnvekjandi. Mér hefur oft dottið í hug
hvort þeir sem leika í svona „stórslysa“-
myndum slasist ekki í átökunum. Myndin er hin
prýðilegasta „skemmtun“. Ég hef orðið
skemmtun innan gæsalappa, því það er und-
arlegt að nokkur skuli hafa gaman að því að
horfa upp á menn drepa hvern annan með köldu
blóði. Ef það væri eitthvað sem mætti finna að
þá væri það kannski helzt að mér fannst dálítið
ósmekklegt að þegar Bandaríkjamennirnir
voru að „plaffa“ Japanana niður, höfðu þeir um
það mörg og ófögur orð í talstöðvum sínum.
Japanarnir skutu hins vegar Bandaríkjamenn
niður orða- og umbúðalaust. Það er alveg sægur
af gömlum og góðum leikurum í myndinni og að
dómi bíóglaðs áhorfenda skiluðu þeir sínu hlut-
verki vel.“
Og svo kom auðvitað fram gagnrýni á gagn-
rýnina. Þannig skrifaði „kvikmyndakannari“ í
Vísi: „Ég sá að í Dagblaðinu 18. apríl síðastlið-
inn var „krítik“ um myndina Orrustan um
Midway, sem Laugarásbíó hefur haft til sýn-
ingar. Greinarhöfundur veltir myndinni fyrir
sér frá ýmsum sjónarhornum. Meðal annars (og
þá gat ég ekki varist brosi) er sagt að bardaga-
senur séu margar hverjar mjög ógnvekjandi og
hvort ekki sé hætta á að menn meiði sig við töku
svona stórslysamynda. Það er tekið fram í upp-
hafi myndarinnar að í bardagasenum séu not-
aðar filmur sem teknar voru þegar þessi ör-
lagaríka orrusta var háð á sínum tíma. Þetta
hefur einnig komið fram í umfjöllun allra kvik-
myndagagnrýnenda, nema Dagblaðsins. Hon-
um til fróðleiks er því rétt að geta þess að það
var töluvert um að menn meiddu sig við töku
þessarar myndar. Allur Kyrrahafsfloti Japana
meiddi sig.“
Meiri vitleysan
Myndina bar víða á góma og skellti tékkneski
stórmeistarinn Vlastimil Hort sér til dæmis í
Laugarásbíó en hann var hér staddur til að tefla
á móti. Synd væri að segja að hann hafi fallið í
stafi. „Mér þykir ósegjanlega gaman að sjá góð-
ar kvikmyndir. Þú veist hvað ég meina þegar ég
segi góðar myndir. Þá á ég ekki við einhverjar
hasarmyndir. Um daginn skrapp ég hér í bíó og
sá Battle Of Midway. Það var meiri vitleysan.
Nei, ég á við alvörumyndir eins og til dæmis
Forman gerir. Þar er list á ferðinni,“ sagði Hort
við Vísi.
Þetta var í takt við umsagnir um myndina
vestan hafs. „Ég geri ráð fyrir að njóta megi
myndarinnar sem sjónarspils ef við gerum ekki
tilraun til þess að botna í henni,“ skrifaði Roger
Ebert í Chicago Sun-Times. Honum þótti leik-
stjórinn ennfremur gera dapra atlögu að því að
skýra orrustuna og hvers vegna Bandaríkin
unnu óvæntan sigur.
Arthur D. Murphy, gagnrýnandi Variety, sagði
myndina minna meira á atriði í þemagarði en al-
vöru spennumynd í bíó og Gary Arnold hjá The
Washington Post talaði um „lúna bardagaepík“.
Myndefni frá John Ford
Eins og fram kemur hér að ofan var notað mynd-
efni í Midway, sem tekið var meðan hin raun-
verulega orrusta stóð yfir. Sá sem stóð meðal
annarra fyrir þeirri kvikmyndatöku var enginn
annar en leikstjórinn John Ford en hann vann á
stríðsárunum sem kvikmyndagerðarmaður hjá
hernum. Aðalverkefni hans var að láta kvik-
mynda starfsemi skæruliða, skemmdarverka-
manna og neðanjarðarhreyfinga í Evrópu í sögu-
skyni og til notkunar síðar meir, að því er fram
kom í Morgunblaðinu á sínum tíma, en Ford
virðist fremur hafa unnið með fyrrverandi sam-
starfsmönnum sínum, eins og kvikmyndatöku-
manninum Gregg Toland og handritahöfund-
inum Dudley Nichols, við að gera fréttamyndir.
Ford stóð sjálfur í því að koma kvikmyndatöku-
vélum fyrir á Midway, áður en árásin var gerð og
kvikmyndaði þar, meðan sprengjunum rigndi yf-
ir. Særðist hann í árásinni og tapaði af þeim sök-
um sjón á öðru auga upp frá því. Einnig var kvik-
myndað um borð í flugmóðurskipunum og
flugvélunum og efnið sent til Bandaríkjanna, þar
sem það var klippt niður í átján mínútna heimild-
armynd, sem varð um leið fyrsta heimild-
armyndin um þátttöku Bandaríkjamanna í síðari
heimsstyrjöldinni. Ford sá ekki árangurinn fyrr
en nokkrum vikum seinna og þótti honum þá
lesturinn með myndinni vera svo slæmur, að
hann ákvað að skipta um raddir. Einn þeirra,
sem þá las inn á myndina, var Henry nokkur
Fonda. Mynd Fords, sem heitir The Battle of
Midway, hlaut Óskarsverðlaun 1942.
Hryllingur hellist yfir
Þrátt fyrir góða aðsókn á Midway í Laug-
arásbíói og fleiri stríðsmyndir voru ekki allir
sannfærðir á þessum tíma um nauðsyn og ágæti
þess að búa til sjónvarpsefni og kvikmyndir um
hildarleikinn heimsstyrjöldina síðari. „Við
hreiðruðum um okkur í sófanum í fyrravetur til
að horfa á stríðið í sjónvarpinu. Hryllingur síð-
ari heimsstyrjaldarinnar hellist nú yfir okkur úr
sjónvarpi, kvikmyndum, bókum, líkönum af víg-
vélum og leikjum,“ sagði í nafnlausri heilsíðu-
grein í Vísi í ársbyrjun 1977. „Hvers vegna er
allur þessi áhugi á stríðinu, svo hryllilegt sem
það var? Meðal ungs fólks er áhuginn reyndar
ekki almennur. En óhætt er að fullyrða, að
margir þeir sem komnir eru á miðjan aldur,
hlökkuðu beinlínis til að sjá næsta sjónvarps-
þátt um heimsstyrjöldina. Liggur sökin hjá
þeim sem framleiða skemmtiefni um stríð eða
hjá þeim, sem kaupa skemmtiefnið? Spyr sá,
sem ekki veit.“
Miðað við vinsældir og aðsókn að Orrustunni
um Midway deildu ekki margir þessum áhyggj-
um með greinarhöfundi.
Ekki endurgerð
Þýska kvikmyndaleikstjórann Roland Emm-
erich, sem meðal annars gerði Independence
Day og The Day After Tomorrow, hafði lengi
dreymt um að gera mynd um orrustuna við
Midway en gekk illa að fjármagna hana gegnum
stóru kvikmyndaverin vestra. Á endanum leit-
aði hann sjálfur eftir framlögum, ekki síst frá
kínverskum fjárfestum, og er hér um að ræða
eina dýrustu óháðu kvikmynd sögunnar. Tökur
hófust haustið 2018.
Ekki er um endurgerð á mynd Smights að
ræða enda þótt téð orrusta sé viðfangsefni
beggja mynda.
Ekki er hægt að segja að nýja myndin sé eins
stríðmönnuð, ef svo má að orði komast, og sú
gamla en hún skartar þó nokkrum velþekktum
leikurum, svo sem Ed Skrein, Patrick Wilson,
Luke Evans, Aaron Eckhart, Nick Jonas,
Mandy Moore, Dennis Quaid, Tadanobu Asano
og Woody Harrelson.
Mynd Emmerichs var frumsýnd 8. nóvember
síðastliðinn í Bandaríkjunum og að þessu sinni
tók það hana bara nokkra daga að skila sér í
Laugarásbíó en ekki tæpt ár, eins og 1977. Eins
og fyrri myndin hefur miðasala gengið vel,
Midway var tekjuhæsta myndin í Bandaríkj-
unum fyrstu helgina sem hún var í sýningu og í
vikunni voru brúttótekjurnar að nálgast 100
milljónir bandaríkjadala.
Eins og fyrir fjörutíu árum eru gagnrýn-
endur ekki eins hrifnir. Midway er aðeins með
42% á kvikmyndasíðunni Rotten Tomatoes og
þar segir: „Midway kemur aftur að kunnri sögu
með nútíma tæknibrellur að vopni og yfirveg-
aðri afstöðu, en handritið er ekki alveg búið
undir hólmgöngu.“
En sem fyrr virðast þessar úrtölur ekki trufla
hinn almenna bíógest; hann skrúfar glaður frá
skynfærunum og spennir beltið. Ætli fjörið
komi fram á skjálftamælum?
Laugarásbíó var tek-
ið í notkun árið
1956. Hér er verið
að stækka bíóið á
níunda áratugnum.
Morgunblaðið/Bjarni
Vlastimil Hort gaf sér tíma til að líta upp
frá skákborðinu og skella sér á Midway.
Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Orrustan í algleymingi í nýju myndinni hans Rolands Emmerichs.
AFP
Leikendur og leikstjóri Midway á rauða dreglinum fyrir um mánuði; Aaron Eckhart, Patrick Wilson,
Ed Skrein, Mandy Moore, Luke Kleintank, Roland Emmerich, Luke Evans og Nick Jonas.
Gamall aðgöngumiði úr Laugarásbíói,
líklega hefur myndin þó verið önnur en
Midway, enda miðinn frá 1978.