Morgunblaðið - Sunnudagur - 22.12.2019, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - Sunnudagur - 22.12.2019, Blaðsíða 12
VIÐTAL 12 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 22.12. 2019 Inn í bóluplast Hvað er það næsta sem þú manst eftir slysið? „Ég man ekki neitt næstu tíu daga eða svo. Ég veit ekkert hverjir komu í heimsókn til mín á spítalann. Fyrst var mér haldið sofandi og svo dagana á eftir man ég lítið. Það er engin skýr minning frá þessum dögum,“ segir Bryn- dís. Að vonum hafi öll fjölskyldan verið í áfalli en Jóhann flaug strax heim og var kominn að hlið hennar sólarhring síðar. „Maður er svo sjálfhverfur í þessu ferli og hefur nóg með sjálfan sig. Það var ekki fyrr en nýlega að ég áttaði mig á því hvað þetta í raun hafði mikil áhrif á alla aðstandendur og miklu meiri áhrif en ég gerði mér grein fyrir í upp- hafi. Ég sé nú hversu tvísýnt þetta var,“ segir hún hugsi. „Krakkarnir eru enn að glíma við þetta. Þetta hefur markað djúp spor hjá dóttur minni og hún er svolítið mikið að passa upp á mömmu sína. Svo er ég nú líka dálítil brussa að eðlisfari,“ segir hún og brosir. „Dóttir mín segist helst vilja vefja mig inn í bóluplast og loka mig inni. Það er mikill ótti í henni.“ Bryndís segir minnið enn í dag bregðast sér annað slagið. „Það er dálítið ógnvekjandi að margar minn- ingar eru týndar eftir þetta. Bæði fyrir slys og eftir,“ segir hún og segir að stundum nefni ein- hver atburð sem hún tók þátt í, sem hún svo muni ekki. „Það er eins og minningin sé þarna en brúin að henni sé brotin. Stundum eru það stórir bútar og þeir koma ekki aftur.“ Eins og 95 ára Líkamlegir áverkar voru sem fyrr segir miklir og alvarlegir. Vegna þess að augnbotninn brotnaði færðist augað niður á við og olli miklu tvísýni hjá Bryndísi. „Ef ég tek af mér gler- augun sé ég þig tvöfalt. Svo reynir heilinn að vinna við að stilla sjónina. Ég fór í aðgerð á auganu sem var alveg mögnuð. Í aðgerðinni voru vöðvarnir ofan við augnkúluna styttir og hinir sem eru fyrir neðan lengd- ir. Svo var skilinn eftir spotti sem stóð út úr auganu. Ég var látin horfa á mynd sem var einhverja metra frá mér og svo togaði augnlæknirinn í spottann þar til myndin skýrðist og hætti að vera tvöföld. Þá gerði hann hnút og klippti. En ég þarf sérstök gleraugu sem fínstilla svo allt saman,“ segir hún. „Ef ég fer út að hjóla, ganga, skíða eða keyra verð ég að vera með gleraugun. Annars fer jafnvægið út um þúfur.“ Bryndís var nokkrar vikur á sjúkrahúsi og þaðan lá leiðin á Grensás. Þar bjó hún í mánuð í stífri endurhæfingu en mætti svo á dagdeild í hálft ár. „Ég þurfti að læra ýmislegt upp á nýtt; ég missti jafnvægið út af auganu og bólgum í heila. Ég gekk með göngugrind eins og gamla fólkið. Ég gekk lengi með sjóræningjalepp, rosa flott. Án hans endaði ég bara á hliðinni,“ segir hún og brosir. „Ég var í iðjuþjálfun og sjúkraþjálfun en þetta er yndislegur staður. Það gerast krafta- verk þarna,“ segir hún og hrósar happi hversu vel á sig komin hún var fyrir slysið. „Ég var í mjög góðu formi fyrir slysið og það hjálpaði mér mikið hvað ég þekki líkama minn vel. Enda hefur hann verið mitt atvinnuverk- færi frá unglingsárum. Endurhæfingin var ekki bara á Grensás; ég þurfti líka að drífa mig sjálf út að ganga. Þegar maður liggur á spítala rýrnar maður rosalega og vöðvastyrkurinn minnkar mikið. Öll orkan fór í að halda sér uppi.“ Hvernig var andlega hliðin? „Ég var svo ótrúlega lánsöm að ég datt ekki niður í þunglyndi. Ári eftir slysið fór ég í viðtöl hjá Virk, á núvitundarnámskeið og fékk sál- fræðiaðstoð. Ég fór reyndar bara tvisvar til sálfræðings af því mér fannst ég ekki þurfa þess. Auðvitað var ég rosalega döpur, alltaf þreytt og með höfuðverk. Ég var orðin eins og 95 ára á svipstundu.“ Flensa í þrjú ár Nú fimm árum síðar er Bryndís enn að glíma við afleiðingar slyssins. „Ég þjáist enn af sí- þreytu, þótt hún sé ekkert miðað við fyrstu tvö, þrjú árin. Ég er óþolinmóð að eðlisfari og ég man að læknar og starfsfólk á Grensás sögðu mér að gefa þessu ár. Svo var árið liðið og ég var ekki orðin neitt góð og þá sögðu þau: gefðu þessu tvö ár. Fyrstu þrjú árin leið mér eins og allt sem ég gerði gerði ég með flensu. Orkan var ekki fyrir hendi og ég var alltaf hálfslöpp með höfuðverk. Ef ég var heima í hvíld var ég ágæt en um leið og ég fór af stað leið mér eins og með flensu,“ segir hún. „Annað sumarið eftir slysið fór ég að vinna aftur sem leiðsögumaður og ef ég vann einn dag lá ég alveg daginn eftir. Maður borgaði alltaf tvöfalt fyrir. En mér fannst það vera al- veg þess virði; ég gat ekki bara verið heima og gert ekkert. Þá hefði ég endanlega farið í gröf- ina.“ Bryndís segist eiga frábæra vinnuveitendur hjá 3-H Travel sem leyfi sér að vinna eftir eig- in getu. Einnig hefur hún tekið að sér styttri túra hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. „Mig langar að fara í lengri fjallaferðir því þar liggur mín ástríða. Í fyrrasumar fór ég í þriggja daga skálaferð og ég rétt meikaði það. Svo lá ég bara. Í sumar fór ég aftur og það var aðeins auðveldara,“ segir Bryndís og segist sí- fellt finna hægfara breytingar til hins betra. „Nú eftir fimm ár er ég komin nálægt því að vera eins og ég var,“ segir hún en viðurkennir þó að hún sé oft þreytt og alltaf með hausverk. „Ég er alltaf með haus- verk, bara mismikinn. Ég þarf að taka mikið af verkjatöflum, sérstaklega ef ég er að gera eitthvað eins og að hreyfa mig.“ Nú sjást engin ör, ertu kannski með ör undir hárinu? „Já, finndu!“ segir hún og leyfir blaðamanni að þreifa á höfðinu. Þar finnst greinileg dæld. „Ég er með nokkrar holur,“ segir hún og hlær. Mjög lítið hrædd í lífinu Útivist og fjallgöngur hafa alltaf heillað Bryn- dísi. Hún er ekki af baki dottin þótt slysið hafi vissulega sett strik í reikninginn. „Ég geri bara hlutina. Svo borga ég eftir á.“ Hjónin höfðu skipulagt ferð upp á Kilimanj- aro í janúar 2015 ásamt vinahópi en ferðin var að sjálfsögðu slegin af. Í upphafi árs 2019 var svo ákveðið að láta drauminn um Kilimanjaro rætast. „Við lögðum af stað fjögur pör og þetta tókst að stærstum hluta. Ég náði ekki alveg á topp- inn og ég græt það ekkert þótt það hafi verið pínu svekkjandi. Ég náði upp á næstefsta þrepið en þennan dag var aftakaveður. Í efstu búðum fuku tjöld og súlur brotnuðu,“ segir Bryndís. „Sjálfsagt var ástæðan fyrir því að ég þurfti að snúa við háfjallaveiki, en af því að augun eru löskuð þá missti ég hálfpartinn sjónina. Ég hætti að sjá á leiðinni upp. Það var eins og það væri búið að dýfa gleraugunum ofan í sand; þannig var sjónin. Ég þurfti því að snúa við en hópurinn hélt áfram upp.“ Blaðamann hryllir við tilhugsuninni um að sjónin hyrfi smátt og smátt í miðri fjallshlíð. Varstu ekki hrædd? Hún hugsar sig um í smá stund. „Nei. Góð spurning. Ég held að það sem hef- ur hjálpað mér og dregið mig áfram sé að ég er mjög lítið hrædd í lífinu.“ Bryndís viðurkennir að ferðin hafi tekið á en hafi verið fyllilega þess virði. Bryndís fékk sér hund eftir slysið og segir hún tíkina Kríu hafa hjálp- að sér mikið í endurhæfingunni. Kría þarf að fá sína göngutúra og drífur eiganda sinn með. Fjölskyldan fór saman á skíði nokkrum mánuðum fyrir slysið, en þau eru öll mikið fyrir útivist. Bryndís er hér ásamt eiginmanninum Jóhanni Erni og börnunum Erni Frey og Petru Hlíf. Bryndís hlaut mikla áverka á höfði, augnbotninn brotnaði og þrír hryggjarliðir. ’Ég hef sætt mig al-gjörlega við þetta. Éger voða lítið fyrir dramaog sé litla ástæðu til að velta mér upp úr því sem ekki er hægt að breyta. Ég er jákvæð og þrjósk. Bryndís þurfti strax að fara í aðgerð á höfði og ber þess ör. Minnið á það til að bregðast henni.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.