Hugur og hönd - 01.06.1984, Blaðsíða 41
skúmaskotum eða skemmuloftum, þar sem þessu hafði
verið komið fyrir yfir sumarið. Vefstóllinn settur upp, það
var mikið starf framundan, að vinna í allar jólaflíkurnar,
svo enginn á bænum klæddi köttinn á hátíðinni. Búið var að
sjá fyrir jólamatnum uppi í rótinni í eldhúsinu og þannig
mætti lengi telja.
Hámark gleðinnar var þó daginn sem laufabrauðið var
bakað. í þeirri gleði tóku allir á heimilinu sinn þátt.
Mamma og Óla voru búnar að hnoða öll ósköp af deigi og
Stína ráðskona var að fylla steikarpottinn af tólg, svo hann
væri tilbúinn þegar tekið var til við laufaskurðinn. Stúlk-
urnar fóru með fyrra móti í fjósið, og sama var með piltana.
Þeir flýttu sér í húsunum og voru óvenju hraðhentir að
skipta um plögg og þvo sér um hendur. Gamla fólkið kom
ofan af loftinu og svo við krakkarnir, sem iðuðum í skinninu
af eftirvæntingu eftir að laufabrauðsbaksturinn byrjaði,
komum okkur fyrir úti í horni, við vildum líka fá að skera
kökur. Nú lá mikið við að gera fallegar laufabrauðskökur.
Stundum var efnt til verðlauna fyrir fallegustu kökurnar.
Verðlaunin voru kökusnúður eða annað góðgæti. Allir
voru í jólaskapi.
Brátt var allt heimilisfólkið komið niður í eldhús. Pilt-
arnir sestir á eldhúsbekkinn með rúmfjalir á hnjánum til að
skera á kökurnar, búnir að taka upp sjálfskeiðingana sína
til að skera með og brátt sýndi það sig hver var mestur
listamaðurinn. Stúlkurnar voru einnig teknar til við laufa-
skurðinn og nógir voru snúningarnir. Glatt var á hjalla á
þessum kvöldum, margt skrafað, kveðið og sungið. Óla
stjórnaði söngnum og kvað við raust rímur Sigurðar Breið-
fjörð, hann var hennar uppáhaldsskáld.
Senn var farið að snarka í tólgarpottinum og þá var tekið
til við baksturinn. Rekið var á eftir laufaskurðarfólkinu,
ekki mátti standa á kökum í pottinn og svo vandað um við
þá sem höfðu skurðinn of stórgerðan, þá vildu kökurnar
aflagast í feitinni. Ekki leið á löngu þar til trog fylltist hjá
Stínu af ilmandi laufabrauði og svo fylltist hvert trogið af
öðru, það þurfti margar kökur handa fjölmennu heimili.
Voru trogin borin jafnóðum og þau fylltust út í ytra-búr,
þar var köld geymsla og ekki mátti snerta það sem þangað
fór fyrr en á jólunum.
Þegar líða tók á kvöldið var hellt upp á könnuna og allir
fengu góðan kaffisopa og bragð af laufabrauði. Á þessum
árum veittu íslendingar sér ekki þann munað að drekka
kaffi á kvöldin, en þetta kvöld var brugðið út af venjunni og
var vel þegið. Það var orðið framorðið þegar bakstrinum
lauk, hætt að snarka í pottinum hennar Stínu og söngurinn
þagnaður. Allir gengu glaðir til hvílu það kvöldið. Andblær
jólanna var að nálgast - þessi laufabrauðskvöld bernsku
minnar verða mér ávallt minnisstæð og ljúf minning.
Heyrt hef ég að laufabrauð hafi aðallega verið bakað á
Norður- og Norðausturlandi. Sunnanlands og jafnvel á
Vestfjörðum hafi slíkt ekki tíðkast. Meðan húsmæðra-
skólarnir voru og hétu héldu þeir uppi hinum góða sið að
láta baka laufabrauð fyrir jólin, hefur það eflaust stuðlað að
því að þessi siður er orðinn almennari en áður. Oft minnist
ég góðra stunda með nemendum mínum, þegar þeir fjöl-
menntu í borðstofu og eldhúsi við laufabrauðsgerð. Keppst
var um að gera fallegar kökur. Einna fallegastar reyndust
oft kökurnar hjá Þingeyingum, hvernig sem á því stóð.
Vonandi gleyma íslendingar ekki þessum gamla og góða
sið að baka laufabrauð, og eiga um langan aldur sinn laufa-
brauðsdag heima hjá sér fyrir jólin. Það er sárt til þess að
vita hve fólk sinnir lítið gömlum og góðum siðum, sem hafa
haldist með þjóðinni í aldaraðir. Þeir mega ekki gleymast.
- Nú er sennilega hætt að nota sjálfskeiðinga við laufa-
skurð, enda fáir sem bera hníf í vasa, eins og áður var. Nú
fást járn svipuð kleinujárnum í verslun Heimilisiðnaðarfé-
lags íslands sem auðvelda laufaskurðinn. Hér fara á eftir
uppskriftir af laufabrauði. í Kvennafræðara frú Elínar
Briem er uppskriftin þannig:
500 gr. rúgmjöl
tæpur peli mjólk
Þetta er hnoðað vel saman, flatt út mjög þunnt og
skornar úr því kökur undan diski. Síðan eru skorin með
hníf ýmiss konar lauf á hverja köku. Kökurnar eru sam-
dægurs soðnar í tólg. Þegar Kvennafræðarinn kom fyrst út
árið 1889, var hveiti munaðarvara, en síðar var blandað
hveiti og rúgmjöli saman í laufabrauðið. Heima á Möðru-
völlum var notað hveiti eingöngu og mun sá siður þá hafa
tíðkast víðast hvar, og uppskriftin þessi:
500 gr. hveiti
35-60 gr. smjör
15 gr. sykur
250 gr. mjólk
1 tsk. lyftiduft
Hveitið sigtað með lyftiduftinu, sykri blandað í, smjörið
mulið í hveitið. Snarpheitri mjólkinni hrært samanvið.
Hnoðað vel, flatt þunnt út, skornar kökur undan diski með
kleinujárni o. s. frv. Mér gefst vel að bræða smjörið í mjólk-
ina, þá hún er hituð, og hafa mjólkina ekki eins heita og
venja var, þá verður hægara að fletja út deigið.
Hulda Á. Stefánsdóttir
hugur og hönd
41