Bændablaðið - 20.10.2016, Blaðsíða 41
41Bændablaðið | Fimmtudagur 20. október 2016
Borgartúni 7c, 105 Reykjavík
Sími 530 1400
www.rikiskaup.is
Tilboð óskast í ríkisjörðina
Höskuldsstaði í Þingeyjarsveit
20435 – Höskuldsstaðir í Þingeyjarsveit
Um er að ræða ríkisjörðina Höskuldsstaði í Reykjadal í Þingeyjarsveit,
landnr. 153770. Jörðin er talin vera allt að 274 ha en landamerkjum
hefur ekki verið þinglýst. Jörðin er á landbúnaðarsvæði samkvæmt að-
alskipulagi. Jörðin er vel staðsett og bærinn stendur á fallegum stað við
rætur Fljótsheiðar. Samkvæmt Þjóðskrá Íslands – fasteignaskrá er um að
ræða íbúðarhús, 138,2 m², byggt 1945, fjárhús, 154,2 m², byggt 1954 og
skúr, 12,3 m² byggður 1990. Öll húsin þarfnast töluverðra endurbóta og
m.a. hefur þak fallið á útihúsum.
Jörðin á veiðirétt í Reykjadalsá og Vestmannavatni.
Vestmannsvatn var friðlýst árið 1977 og er hluti jarðarinnar innan friðlands,
uþb. 81 ha. Ágreiningur er um landamarki meðfram suðurhluta jarðar-
innar sem nær yfir 27 ha. landsvæði. Ekki hefur verið búið á jörðinni um
nokkurra ára skeið en þau tún sem nytjuð hafa verið eru á því landsvæði
sem ágreiningur stendur um. Sú kvöð fylgir jörðinni að óheimilt er að
hefta för gangandi fólks um þinglýst friðlandið vegna gönguferða eða
berjatínslu.
Þar sem hluti jarðarinnar er friðlýstur er farið fram á að með kaupt-
ilboði fylgi á sérblaði stutt en greinargóð lýsing um fyrirhuguð not
tilboðsgjafa á jörðinni.
Jörðin selst í því ástandi sem hún er í og eru áhugasamir tilboðsgjafar
hvattir til að kynna sér mjög vel ástand húsa og umhverfis þar sem ekki
hefur verið búið á jörðinni í nokkur ár.
Jörðin er ekki langt frá Akureyri og með tilkomu Vaðlaheiðargangnanna
styttist sú vegalengd enn frekar.
Öll vegsvæði á vegum Vegagerðarinnar sem liggja yfir land jarðar þessarar
eru undanskilin við sölu þessa og er eignarhald þessara vegsvæða í eigu
Ríkissjóðs Íslands.
Í samræmi við 40. gr. jarðalaga nr. 81/2004 eru undanskilin í sölu þessari
námuréttur og réttur til efnistöku, þ.m.t. sand- og malarnám, og vatns-
og jarðhitaréttindi umfram heimilis- og búsþarfir. Nauðsynleg aðstaða til
að hagnýta framangreind réttindi eru einnig undanskilin í sölu þessari.
Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Ríkiskaupum, Borgartúni 7c, 105
Reykjavík í síma 530 1400.
Tilboðseyðublöð liggja frammi á sama stað ásamt reglum um frágang og
útfyllingu á tilboðseyðublaði. Sjá einnig nánari upplýsingar á heimasíðu
Ríkiskaupa www.rikiskaup.is
Tilboð skulu berast Ríkiskaupum, Borgartúni 7c, 105 Reykjavík fyrir kl.
10.00 þann 2. nóvember 2016 þar sem þau verða opnuð í viðurvist
bjóðenda er þess óska.
TIL SÖLU
Lesendabás
Draumalambið
Það vantaði ekki fjaðrafokið við
löggildingu búvörusamninga
nýverið og ljóst að landsmenn
eru ekki algerlega einhuga þegar
kemur að stuðningi við landbún-
að. Sjálfur er ég aðdáandi íslensku
sauðkindarinnar en hana tel ég
ekki bara vera afbragðs matvöru
heldur stóran hluta af menningu
og sögu þjóðarinnar.
Sumir setja fram hrokafullar
tillögur um að leggja algerlega af
stuðning við sauðfjárrækt og flytja
frekar inn ódýrara kjöt, en ég tilheyri
ekki þeim hópi. Ég hef samt sem
áður ýmsar hugmyndir og skoðanir
á sauðfjárrækt og hef fullan rétt á
því þó að ég sé fæddur og uppalinn
í Breiðholtinu.
Við neytendur erum nefnilega
að borga milljarða í styrki til sauð-
fjárræktar árlega og erum því í raun
meðeigendur að búfjárstofni bænda.
Bændur geta þess vegna ekki heldur
leyft sér að vera með einhvern hroka
gagnvart skoðunum neytenda. Sem
meðeigandi geri ég því eftirfarandi
framtíðarkröfur til sauðfjárræktar og
kjötvinnslu.
Draumalambinu mínu má ekki
vera beitt á land sem þolir illa beit.
Það er nóg til af afrétti sem þolir
beit og því óþarfi að ganga nærri
landi sem þolir það illa. Sauðfjárbeit
sem veldur gróðureyðingu er ósjálf-
bær og óásættanleg. Ég skil ekki af
hverju sauðfjárbændur vilja grafa
undan sjálfum sér með því að leyfa
örfáum aðilum að beita viðkvæm
svæði. Hættum þessu strax. Ég vil
að styrkir skattgreiðenda fari í að
styrkja bændur til að sporna við
gróðureyðingu frekar en að stuðla að
henni með beingreiðslum í skrokka
á röngum stöðum.
Draumalambið mitt hefur líka
lítið sem ekkert kolefnisspor frá
vöggu til grafar. Ég vil lítinn sem
engan tilbúinn áburð í sauðfjárrækt
af þeirri einföldu ástæðu að hann er
innfluttur og framleiðsla hans krefst
venjulega mikils jarðefnaeldsneyt-
is með tilheyrandi útblæstri. Þegar
draumalambið er komið af fjalli hefst
svo kjötvinnslan.
Sem betur fer er kjötvinnsla hér
á landi keyrð á umhverfisvænni
orku en það sem ekki endar á borði
okkar sem dýrindis máltíð má alls
ekki fara í urðun. Urðun á lífrænu
efni er tímaskekkja og metnaðar-
leysi. Lífrænt efni sem fer í urðun
gefur af sér gríðarlegt magn gróð-
urhúsaloftegunda. Þetta vandamál er
löngu búið að leysa t.d. með jarðgerð
líkt og á sér stað í Moltu í Eyjafirði.
Sem dæmi þá tekur Molta við um
2000 tonnum af sláturúrgangi og
breytir honum í verðmætan áburð.
Ef þetta magn færi í urðun, eins og
allt of mikið af sláturúrgangi gerir,
þá hefði útblásturinn orðið 2500
tonnum meiri en ella. Moltugerðin
skilar því meiri loftslagsávinningi
en þúsund rafbílar.
Ef kjötvinnslur vilja spara örfáar
kr. á kg og urða sláturúrgang frekar
en að senda í jarðgerð þá eru menn
á rangri braut og alls ekki í takt við
neytendur. Ég fullyrði að flestir neyt-
endur myndu glaðir borga 10 krón-
um meira fyrir skrokkinn vitandi
að með því fengist langtum minna
kolefnisspor.
Þetta er heldur ekki allt, því nú
eru Vistorka á Akureyri og Lífdísill
ehf. að vinna að verkefnum þar sem
allri fitu úr kjötvinnslu verður breytt
í dýrmætan og umhverfisvænan líf-
dísil sem sýnir að það eru enn meiri
verðmæti fólgin í því að urða ekki.
Olíunotkun sem enn er til staðar í
greininni, t.d. í dráttarvélum bænda
og vegna afurðaflutninga, eiga bænd-
ur svo að kolefnisjafna með skóg-
rækt, landgræðslu og endurheimt
votlendis. Það er varla til sá sauð-
fjárbóndi sem ekki getur ræktað tré,
grætt upp land eða fyllt í skurði. Ég
tel að það sé allra hagur að uppfylla
þessi skilyrði enda verður afurðin þar
með einstakari og umhverfisvænni í
samanburði við innflutt kjöt. Slík
staða gæti bæði hækkað afurðaverð
og gert stuðning í formi beingreiðslna
og tolla eðlilegri.
Draumalambið mitt, sem ég hef
þegar greitt fyrir að hluta, hvort sem
ég borða það eða ekki, á því í fyrsta
lagi að sækja sólarorku í gegnum
fjallagrös á landi sem þolir beit.
Síðan á það ekki bara að gefa af sér
hágæða matvæli, heldur á það líka
að enda sem lífeldsneyti og áburður.
Að lokum vil ég fá uppruna-
merkingar og staðfestingu á kolefn-
ishlutleysi með mótvægisaðgerðum
bænda. Ég vil styðja við landbúnað
og borða lambakjöt sem kitlar bragð-
laukana með góðri umhverfissam-
visku. Áfram íslenskur landbúnaður!
Sigurður Ingi Friðleifsson
framkvæmdastjóri
Orkuseturs
Sigurður Ingi Friðleifsson.