Spássían - 2012, Qupperneq 35

Spássían - 2012, Qupperneq 35
35 Eftir að Bjarni komst þarna upp á bragðið með bókaútgáfu hefur hann haldið henni áfram en það er helst að þátttaka hans í pólitík hafi ýtt þeim verkefnum til hliðar. „Þetta er bara aukageta, svona verkefni sem ég hef tekið ástfóstri við. Næstu bækur sem ég gaf út voru þjóðsögur eftir gamlan vin minn, Helga Hannesson, sem var fæddur 1896 og dó 1989. Hann hafði verið kaupfélagsstjóri í Rangárvallasýslu á millistríðsárunum en á árunum uppúr 1930 fékk hann ljósmyndadellu og síðustu áratugi sinnar löngu ævi gerði hann ekki mikið annað en sitja í Reykjavík við skriftir. Hann var mjög sérvitur og ekkert mjög vinsæll í lifanda lífi fyrir hreinskilni sína. Á þessum árum var til dæmis mjög fyrirkvíðanlegt í Holtunum og á Rangárvöllunum að deyja. Það er það náttúrulega alltaf að einhverju leyti en bættist við að þegar menn voru dauðir skrifaði Helgi minningargrein. Þær voru óskaplega flottar, hrein listaverk, en hann dró ekkert undan, þetta voru engar lofgreinar. Hann bara skrifaði um það ef menn höfðu einhvern alvarlegan persónuleikagalla, eins og til dæmis að vera íhald. Annað sem hann þoldi mönnum ekki var að vera drykkjuraftar en gat haft mikla samlíðan með ýmsum öðrum brestum manna. Hann kunni mannlýsingar allra á þessu svæði um 200 ár aftur í tímann, munnmæli frá 19. öld og auðvitað allar kjaftasögur. Í minningargreinunum dró hann alltaf fram upplýsingar á borð við að amma viðkomandi hefði verið rangfeðruð og í raun dóttir prestsins og menn þorðu varla að deyja.“ Bjarni bætti svo við kaffihúsa- og bókabúðarrekstri fyrir hálfgerða tilviljun. „Við fórum inn í þetta húsnæði árið 2002 með Sunnlenska fréttablaðinu sem ég gaf út í næstum 20 ár. Þá leigði ég tveimur konum út hluta rýmisins fyrir hárgreiðslustofu og þær eiga eiginlega heiðurinn af innréttingunum. Þegar þær fluttu í stærra húsnæði ákvað ég að prófa að setja upp bókabúð fyrir jólin. Ég fór líka strax að selja kaffi en það var nú allt fremur frumstætt í byrjun. Jólabókasalan gekk það vel að við tímdum ekki að hætta og svo hefur búðin stækkað smám saman. Fljótlega bættist við einn skápur af gömlum bókum en nú eru þær orðnar mörg þúsund talsins og ég er með sjálfboðaliða hjá mér í vinnu að skrá þær inn í gagnagrunn.“ Bækurnar koma víða að og Bjarni segir að ekki líði sú vika að einhver hafi ekki samband og bjóði honum bækur. „Ég kaupi þó ekki nema það sé eitthvað bitastætt. Oft finnst mönnum ég borga of lítið. En endursöluverð á bókum er mjög lágt og fólk ofmetur stundum verðmætin sem í bókunum felast. Auðvitað eru til bækur sem eru mjög verðmætar en stór hluti af því sem mér berst hafa verið tískubækur síns tíma og eru til í stóru upplagi.“ Gömlu bækurnar eru aðallega seldar á netinu en það er þó afskaplega gaman að grúska í öllu því mögulega og ómögulega sem finna má í hillum Sunnlenska bókakaffisins. Bjarni segist helst taka eftir einni breytingu á kaupvenjum viðskiptavina með aukinni tæknivæðingu. „Fyrstu árin voru útlendir ferðamenn, sem koma við að fá sér kaffi og fara á netið, hungraðir í að fá kiljur til að lesa og ég er alltaf með slatta af kiljum hér frammi á 300 kall. En nú nota lestrarhestar sem ferðast um heiminn rafbækur, sem er skiljanlegt. Ég þekki þetta vandamál, bakpokinn minn er alltaf hálfur af bókum. Það er náttúrulega engin hemja að bera svona bækur milli heimsálfa.“ Það virðist liggja í augum uppi að kaffihús og litlar bókabúðir af þessu tagi þykja ávallt eftirsóknarverðar. En Bjarni segir ekki síður þörf á litlum bókaútgáfum sem mótvægi við þær stærstu. „Það er gríðarlega mikilvægt að það sé flóra í þessum geira og ekki bara út frá samkeppnissjónarmiðum heldur líka menningarpólitískum. Útgáfur eiga að vera margar og með mismunandi sýn; grasrótarútgáfur, höfundaútgáfur og þar fram eftir götunum. Þetta hefur með ákveðið tjáningarfrelsi

x

Spássían

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.