Spássían - 2012, Page 37
37
ALLT bendir til að Óraland, síðasta sýning nýjasta
leiklistarútskriftarhóps Listaháskólans, verði síðasta sýning
Nemendaleikhússins. Vafalaust kemur eitthvað í staðinn,
einhver vettvangur fyrir ný- og hálfbakaða atvinnuleikara
að láta ljós sitt skína framan í óbreytta áhorfendur, en
hvað það verður er ekki vitað þegar þetta er ritað og
því maklegt að flétta umsögn um þessa lokasýningu
saman við einhvers konar minningargrein um þetta merka
leikhús.
Best að byrja þá á því að lýsa því yfir að Óraland er
verðugur endapunktur, ein sterkasta sýning sem ég man
eftir frá því ég fór í fyrsta sinn í Nemendaleikhúsið,
nýfluttur til borgarinnar. Það var 1990 og Baltasar og
Ingvar voru Óþelló og Jagó. Ekki fer sú sýning á listann
yfir þær allra bestu, en það gerir hins vegar lokaverkefni
sama hóps, Glataðir snillingar, sem mér fannst hreint
afbragð og þykir enn.
Í makalausu lokaeintali Óralands, í endalausu flóði af
sambærilegum andstæðupörum, lýsir ein persónan
því yfir að hún vilji svo gjarnan vera „spontant“ en
samt „örugg“. Einhvern veginn stendur þetta eftir sem
ágætis lýsing á góðu Nemendaleikhúsi. Innan þess er
allt leyfilegt, tilraunir, áhætta, ungæðisleg klikkun. En
allt þetta er hægt af því að umgjörðin veitir öryggi.
Nemendaleikhús er verndaður vinnustaður.
Og í Óralandi er svo sannarlega tekin áhætta. Verkið
er unnið af leikhópnum, og því trúlega lagt af stað
með algerlega óskrifað blað, leikararnir að grúska í
hugmyndaflugi sínu, mögulega minningum og athugunum á
samfélaginu. Úr verður svipmynd af þeim og okkur hinum
sem þeir hafa verið að horfa á. Skemmtilega kaldhæðin,
ekki sérlega „flatterandi“, en greinilega einlæg og
oft fyndin af því hún er sönn. Fyndnust náttúrulega í
óborganlegum endurteknum brandara um dramatískar
sviðsetningar þess að koma út úr skápnum.
Fyrsta sýning af skyldu tagi sem ég sá í
Nemendaleikhúsinu var hin fullkomlega óborganlega
sýning Trúðar árið 1994, sem er þá trú(ð)lega
fæðingarár hinna nafnkunnu trúða Barböru og Úlfars.
Þar var öryggisnetið eins gisið og það gerist í leikhúsinu,
allt komið undir uppátækjum þeirra rauðnefjuðu hverju
sinni. Ég sá hana tvisvar, á gjörólíkum kvöldum, og það
er til marks um galdurinn að önnur þeirra var með því
stórkostlegra sem ég hef séð í leikhúsi en hin, ja bara alls
ekki.
Óraland er öllu formaðri sýning, ekki alveg laus við
möguleika á að hlaupa útundan sér, en hér liggur engu
að síður handrit til grundvallar þó í sketsaformi sé,
samið af hópnum með ritara/leikskáld úti í sal. Það
virkar vafalaust eins og skammhrós en ég vona að
Jón Atli fyrirgefi mér samt þegar ég segi að mér þyki
sterkustu skrifkaflarnir í Óralandi eitthvað það besta
sem frá honum hefur komið. Fyrrnefnt eintal er frábært,
martraðarkenndar innkomur grímuklæddrar veru með
skilaboð úr undirmeðvitundinni voru skáldlegar mjög og
Spontant og örugg
Eftir Þorgeir Tryggvason
Óraland
Listrænir stjórnendur: Egill Ingibergsson, Jón
Atli Jónasson, Magnús Þór Þorbergsson og Una
Þorleifsdóttir. Nemendaleikhúsið í Smiðjunni við
Sölvhólsgötu vorið 2012.
Ljósmynd: Óskar Hallgrímsson