Spássían - 2012, Side 38
38
„
svo sá ég ekki betur en þarna væru drög að fullburða
„skrifuðu“ leikverki í hefðbundnu formi. Þar á ég við
feðgana sem glíma við nauðgunarkæru sem sonurinn
þarf að svara fyrir og faðirinn ákveður að hrekja með
aðferðum leikhússins. Það er mikið efni þarna og þarf
ekkert endilega að taka á því með þeim súrrealíska
lokahnykk sem hér er gert, snjall sem hann þó er. Þá má
ekki vanmeta þátt leikstjórans í svona vinnu, en ég myndi
ætla að Una Þorleifsdóttir hafi unnið talsvert afrek með
þessari sýningu.
Samvinna Nemendaleikhússins við íslensk leikskáld,
sem nær aftur til stofnunar þess, hefur getið af sér
fjölmörg verk og ekki öll frábær. Að skrifa verk með
hæfilegum og nokkuð jafnstórum hlutverkum fyrir fimm
til tíu leikara á sama aldri hefur stundum reynst meiri
snóker en innblástur. Mér þykir alltaf svolítið vænt um
Peysufatadaginn sem Kjartan Ragnarsson skrifaði fyrir
útskriftarhópinn 1980-1981, sá það reyndar ekki en
lék í því sjálfur í menntaskóla og finnst það glúrið. En
Maríusögur Þorvaldar Þorsteinssonar (1995) þykja mér
framúrskarandi, eitt hans besta verk og er þá mikið sagt.
Það er óhjákvæmilegt að velta því fyrir sér á sýningum
Nemendaleikhúsins (og eftir að heim er komið) hvað
verði nú um þessa ungu listamenn. Hverjir verði áberandi,
hverjir minna, hverjir hverfi til annarra starfa innan
leikhúss og utan. Þessi samkvæmisleikur á ekkert erindi
á prent, bæði er það ómaklegt gagnvart nýútskrifuðu
fólki, en það er heldur ekki hollt að gefa þannig
höggstað á sér, því þetta er hættuspil. Ein albesta
sýning Nemendaleikhússins í mínu minni er uppfærsla
Guðjóns Pedersen á Draumi á Jónsmessunótt 1993, hans
besti Shakespeare. Ég hefði nú ekki spáð því að hinn
gjörsamlega óborganlegi Spóli vefari, Guðlaug Elísabet
Ólafsdóttir, yrði tólf árum síðar orðinn staðarhaldari í
Viðey, eða að Þórhallur Gunnarsson myndi snúa sér að
þáttastjórnun í sjónvarpi.
Það er því best að vera ekki að velta opinberlega fyrir
sér mögulegum framgangi eða stefnu ríkisborgaranna
í Óralandi. Þau mæta ansi berskjölduð til leiks í þessari
sýningu og ná mörg að blómstra, þó ljóst sé að þau njóta
sín misvel í þessari nálgun.
En við þökkum þeim Hirti Jóhanni Jónssyni, Kolbeini
Arnbjörnssyni, Olgu Sonju Thorarensen, Ólöfu
Haraldsdóttur, Pétri Ármannssyni, Sögu Garðarsdóttur,
Söru Margréti Nordahl, Sigurði Þór Óskarssyni, Snorra
Engilbertssyni og Tinnu Sverrisdóttur kærlega fyrir
þennan örláta, innblásna, snjalla, skemmtilega og áleitna
endapunkt á glæsta sögu Nemendaleikhússins.
Innan þess er allt leyfilegt, tilraunir, áhætta,
ungæðisleg klikkun. En allt þetta er hægt af því
að umgjörðin veitir öryggi. Nemendaleikhús er
verndaður vinnustaður.
Úr sýningu
Nemendaleikhússins á
Jarðskjálftar í London eftir
Mike Bartlett
Ljósmynd: Óskar Hallgrímsson