Dagblaðið Vísir - DV - 21.08.2020, Blaðsíða 21

Dagblaðið Vísir - DV - 21.08.2020, Blaðsíða 21
Þá er maður ekkert að ná að vinna úr upplýsingunum og festa þær í minni. Þær verða ekki aðgengilegar fyrir mann þegar maður mætir í prófið.“ Koffín Hvað með koffín, gerviorkuna sem slær á skilaboðin sem líkaminn sendir okkur þegar hann er þreyttur, er það óvin- ur okkar eða er allt gott í hófi? „Við vitum að koffín skerpir einbeitingu, eykur efnaskipti og hjálpar okkur að vakna. Þess vegna leitum við í það þegar við erum þreytt. Ég geng ekki svo langt að segja að koffín sé óvinur okkar og að við eigum að sleppa því alfarið. Mér finnst sjálfri gott að fá mér morgunbolla, en við þurfum að gæta hófs. Við þurfum að átta okkur á því að koffín er örvandi efni og er lengi í líkamanum. Það hefur mikil áhrif á líkams- starfsemina. Fyrir utan að skemma svefn þá getur koffín aukið streitu og kvíða, því við erum að auka hjartslátt og efnaskipti. Helmingunartími koffíns er um 5-6 klukku- stundir þannig að við mælum ekki með neinu koffíni eftir klukkan tvö á daginn og að takmarka það líka fram að því. Það er einnig gott að vera meðvituð um þetta. Ég held að koffínneysla sé oft mjög vanatengd, við mætum á fund og okkur er boðinn kaffibolli og við einhvern veginn tökum hann en þurfum hann ekki endilega,“ segir Erla og bætir við að orkudrykkjanotkun sé einnig vaxandi vandamál. „Þeir eru margir hverjir mjög sterkir en einnig sætir og svalandi, þannig að maður þambar þá kannski meira en kaffið. Við þurfum að passa þessa neyslu mun meira en við erum að gera,“ segir hún. Orkudrykkjaneysla hefur aukist um 55% „Orkudrykkjaneysla meðal framhaldsskólanema hefur aukist um 55 prósent síðustu tvö ár og hún var nú ekki lítil fyrir. Við vitum að þessi mark- aðssetning er að virka. Áhrifa- valdar, afreksíþróttafólk, fegurðardrottningar og fleiri eru að auglýsa þessa drykki þannig að ungt fólk tengir þetta við heilsu og fegurð. Sem einhverja svona heilsudrykki. Og mér finnst það ákveðið vandamál því þetta eru ekki heilsudrykkir, þeir eru heilsu- spillandi ef eitthvað er. Mér finnst þurfa að vera ábyrgari markaðssetning á þessu. Og staðhæfingar sem eru settar fram í auglýsingum fara fyrir brjóstið á manni því maður veit að ungt fólk er að glíma við aukinn svefnvanda í mikl- um mæli og þetta er einn söku- dólgurinn í því samhengi.“ Algengustu mistökin sem við gerum varðandi svefn „Ég held að algengustu mis- tökin séu óregla. Við erum að slaka of mikið á þegar við eigum frí og snúum sólar- hringnum við. Nú eru margir að fara að detta aftur inn í rútínu eftir sumarfrí og eiga erfitt verk fyrir höndum. Okkur hættir til að gera þetta um leið og við höfum tækifæri til,“ segir Erla. „Svo er það kannski líka að þegar við eigum slæma nótt, sem er bara eðlilegt og kem- ur fyrir hjá öllum, þá er það fyrsta sem okkur dettur í hug að bæta okkur það upp. Eins og að sofa lengur um morgun- inn, leggja sig eftir vinnu eða fara fyrr að sofa. En þetta er mjög skammgóður vermir og hegðun sem leiðir mann gjarnan í vítahring af lang- varandi vandamáli. Það sem maður á frekar að gera eftir erfiða nótt er að fara á fætur á sínum eðlilega tíma, harka af sér í gegnum daginn og fara að sofa á eðlilegum tíma næsta kvöld og eiga góða nótt. Ekki fara í þessar skyndi- björgunaraðgerðir.“ Hættu í símanum fyrir svefn Við erum orðin mjög góðu vön með þessar kraftmiklu litlu tölvur í vasanum sem gera okkur kleift að spjalla við vinina, horfa á fyndið mynd- band, lesa fréttir og deila mynd af matnum okkar, allt á sama tíma. Mörg okkar verja miklum tíma í símanum rétt fyrir svefn og erum jafnvel að skrolla í gegnum Insta - gram alveg þar til við lokum augunum. En skjánotkunin er að hafa mun meiri áhrif á gæði svefns þíns en þig grunar. „Símanotkun fyrir svefn hefur klárlega áhrif. Það er bæði birtan frá skjánum og svo bara áreitið sem ég held að sé enn þá mikilvægara. Heilinn er í örvunarástandi alveg þar til við leggjumst á koddann og það er bara þann- ig að svefninn þarf sinn að- draganda. Við þurfum að gíra okkur niður og ná slökun áður en við förum að sofa. Þannig að ég mæli með því að gefa sér helst tvo klukkutíma fyrir svefn án síma. Ég held að af því við erum umkringd svo miklu áreiti allan daginn þá eru áhrifin svo lúmsk. Við föttum þetta ekki alveg sjálf.“ Erla þekkir áhrifin af eigin raun. Hún setti unglingunum sínum reglur um símanotkun fyrir svefn og ákvað að hætta sjálf í símanum á kvöldin til að setja gott fordæmi. „Ég var sjálf oft í símanum alveg þar til ég fór að sofa. Mér fannst það ekki hafa áhrif því ég svaf alveg ágætlega en um leið og ég fór að taka sjálfa mig í gegn til að verða fyrir- mynd fyrir þá, þá fattaði ég að þetta væri að hafa lúmsk áhrif á mig. Ég var að detta inn í vinnu á kvöldin eða vaka lengur en ég ætlaði mér því ég datt inn í einhverja afþrey- ingu eða eitthvað. Þetta var að klípa af svefninum mínum og hafa áhrif þó ég reyndi að selja mér eitthvað annað. Ég held það sé gott fyrir mann að gefa sér smá frí frá öllu þessu áreiti. Allavega síðasta klukkutímann áður en við förum að sofa,“ segir Erla og bætir við að sjónvarpsáhorf sé í lagi. „Því það er aðeins öðru- vísi áreiti. Bæði ertu yfir- leitt lengra frá sjónvarpinu og þetta er aðeins passífara áreiti. Þú ert að fylgjast með einhverri afþreyingu en ert ekki að flakka á milli mis- munandi afþreyingar, vinnu og annars konar áreitis eins og maður gerir í símanum. Það er ekki sama örvun í gangi. En auðvitað er best svona síðasta klukkutímann að slökkva á þessu öllu, lesa eða jafnvel hlusta á hljóðbók og bara reyna að vera í slökun með sjálfum sér. Því minna áreiti um kvöldið, því betra. Koma líkama og sál í ró.“ n GÓÐ RÁÐ TIL AÐ NÁ BETRI SVEFNI Sleppa koffíni eftir klukkan tvö á daginn. Sleppa síma, og helst öllum skjáum, síðasta klukkutímann fyrir svefn. Setja sér markmið varðandi reglu um svefn, reyna að fara að sofa á svipuðum tíma og fætur á svipuðum tíma alla daga vikunnar. Auðvitað er í lagi að hnika til um einhverja klukkutíma um helgar, fara aðeins seinna í rúmið og aðeins seinna á fætur. En að maður sé ekki að fara í þessar öfgar að snúa sólar- hringnum við. Hreyfa sig, hreyfing hefur mjög góð áhrif á svefn. En passa sig samt að hreyfa sig ekki eftir kvöldmat. Draga úr áfengisneyslu, hún hefur áhrif á svefn og dregur úr svefngæðum. Svefnleysi eykur líkur á mörgum alvarlegum sjúk- dómum og hrein- lega styttir líf okkar. Það er ekkert grín að sofa ekki nóg til lengri tíma. FÓKUS 21DV 21. ÁGÚST 2020

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.