Morgunblaðið - 13.03.2020, Síða 4
KÓRÓNUVEIRUFARALDUR4
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 13. MARS 2020
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Viðmælendur Morgunblaðsins telja almennt
ótímabært að segja til um áhrif boðaðra aðgerða
ríkisstjórnarinnar til að örva efnahagslífið.
Fyrsta tillagan kveður á um að fyrirtækjum
sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum
vegna tekjufalls verði veitt svigrúm, til dæmis
með lengri fresti til að standa skil á sköttum og
opinberum gjöldum.
Hjá Ríkisskattstjóra fékkst það svar að form-
legar útfærslur liggi ekki fyrir, hvort heldur
lögbundnar eða með öðrum hætti.
„Ríkisskattstjóri hefur verið í viðræðum við
viðkomandi ráðuneyti en endanlegar ákvarðan-
ir hafa ekki verið teknar varðandi útfærslurnar
og því er ekki unnt að veita neinar nánari upp-
lýsingar á þessari stundu,“ sagði í svari skatt-
stjóra.
Önnur tillagan er að skoðað verði að fella
tímabundið niður tekjuöflun sem er íþyngjandi
fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu, t.d. gistinátta-
skatt sem verður afnuminn tímabundið.
Markaðsátak í ferðaþjónustu
Þriðja tillagan er að hleypa markaðsátaki af
stokkunum erlendis þegar aðstæður skapast til
þess að kynna Ísland sem áfangastað, auk átaks
til að hvetja til ferðalaga Íslendinga innanlands.
Kristófer Oliversson, formaður Fyrirtækja í
hótel- og gistiþjónustu (FHG), segir það hafa
mikla þýðingu að fella niður gistináttaskattinn.
„Það hefur gríðarlega þýðingu fyrir okkur
sem ætlum að vera í þessu til lengri tíma að
gistináttaskatturinn verði felldur niður og komi
aldrei á aftur. Þetta er hátt í að vera auka trygg-
ingargjald sem er aðeins lagt á hótel og gisti-
heimili. Airbnb er undanþegið gistináttaskatti
og niðurfellingin jafnar samkeppnisstöðuna við
skuggahagkerfið,“ segir Kristófer.
Spurður hvort það myndi mögulega skila
meiri árangri að lækka t.d. tryggingagjaldið
bendir Kristófer á að hver prósenta af trygging-
argjaldi skili ríkinu um 15 milljörðum.
„Spurningin er hvort svo almenn aðgerð eigi
við einmitt núna. Ég tel að fókusinn þurfi að
vera á ferðaþjónustuna og þá er e.t.v. betra að
eiga 15 milljarðana til að fara í markaðssókn og
aðrar aðgerðir til að snúa ferðaþjónustuna í
gang aftur. Heilt yfir er staðan mjög alvarleg“
Fjórða tillagan er að grípa til ráðstafana sem
örvað geta einkaneyslu og eftirspurn, t.d. með
skatta- eða stuðningskerfum.
Fimmta tillagan er að setja aukinn kraft í
opinberar framkvæmdir í ár og á næstu árum.
Væntingarnar skipta máli
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri
Samtaka iðnaðarins, segir aðgerðirnar mikil-
vægar hvað snertir væntingar í hagkerfinu.
„Þetta sendir skýr skilaboð um að ríkisfjármál-
um verði beitt til að örva hagkerfið. Eftirspurn
er að dragast saman. Við þær aðstæður skiptir
miklu máli að stjórnvöld sýni að þau ætla að
auka sína eftirspurn og fjárfestingar í
framtíðarvexti. Það er hvatning til annarra og
skapar væntingar um að efnahagsbatinn verði
hugsanlega hraðari en ella. Fjárhagslegu áhrif-
in koma fram seinna,“ segir Sigurður.
Það eigi eftir að koma í ljós hvaða áhrif
kórónuveiran muni hafa á uppbyggingu íbúða.
Stjórnvöld geti með ívilnandi aðgerðum stutt
við byggingargeirann. Til dæmis með eiginfjár-
lánum, stofnstyrkjum vegna félagslegs húsnæð-
is og endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna
endurbóta á húsnæði. Þá hafi ríkisstjórnin
kynnt aðgerðir um að auka opinberar fram-
kvæmdir um 20-25 milljarða á ári næstu þrjú ár.
„Það á eftir að meta áhrifin af þessum aðgerð-
um heildstætt. Ríkisstjórnin er ekki í öfunds-
verðri stöðu hvað það varðar,“ segir Sigurður.
Sjötta tillagan er að efna til virks samráðs
milli stjórnvalda og Samtaka fjármálafyrir-
tækja (SFF) um viðbrögð þeirra við fyrirsjáan-
legum lausafjár- og greiðsluörðugleikum fyrir-
tækja í ferðaþjónustu.
Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri SFF,
segir málið í vinnslu. „Það er verið að meta fær-
ar leiðir. Það er verið að skoða þetta á dýptina.
Það eru allir að vinna að málunum með það í
huga að hlutirnir gerist eins hratt og gerlegt
er,“ segir Katrín um stöðuna.
Sjöunda tillagan varðar flutning á innstæðum
Íbúðalánasjóðs í Seðlabankanum á innláns-
reikninga í bönkum til að styðja við svigrúm
banka og lánardrottna til að veita viðskipta-
mönnum sínum lánafyrirgreiðslu. Hjá Íslands-
banka fékkst það svar að of snemmt væri að
segja til um áhrifin. Svar Landsbankans var að
sterk eiginfjár- og lausafjárstaða auki svigrúm
bankans til útlána og til að veita greiðslufresti.
„Bankinn mun styðja við viðskiptavini sem
lenda í tímabundnum greiðsluerfiðleikum, jafnt
fyrirtæki sem einstaklinga, og stendur vel að
vígi til að gera það,“ sagði í svari bankans.
Óvissa um björgunaraðgerðirnar
Ríkisstjórnin boðaði aðgerðir í sjö liðum til að mæta efnahagslegum áhrifum kórónuveirunnar
Fulltrúar hagsmunasamtaka og stofnana segja málin í vinnslu Því sé ótímabært að meta áhrifin
Ljósmynd/Páll Ketilsson
Leifsstöð Tengifarþegar flykktust að skrifstofu Icelandair þegar ferðabannið spurðist út.
Jóhannes Þór Skúlason,
framkvæmdastjóri Sam-
taka ferðaþjónustunnar,
segir aðspurður að boðuð
átaksverkefni geti fyrst
farið í fullan gang þegar
faraldurinn er afstaðinn.
Varðandi innanlands-
átakið bendi ný könnun
til að Íslendingar muni
ferðast meira innanlands
í sumar. Það geti skapað tækifæri.
Ríkisstjórnin boðar jafnframt tíma-
bundið afnám gistináttaskatts.
Spurður hvort gagnlegra sé að fella
tímabundið niður tryggingagjald og önnur
regluleg gjöld segir Jóhannes Þór mikil-
vægt að taka úr sambandi sértæka skatta
og gjöld á atvinnugreinina. „Hins vegar má
líka horfa á aðrar aðgerðir sem gætu jafn-
vel haft enn meiri áhrif. Við eigum eftir að
sjá útfærslur á öðrum aðgerðum sem gætu
komið til viðbótar,“ segir Jóhannes Þór.
Ljóst sé að skatttekjur af ferðaþjónustu
verði mun minni í ár en áætlað var. Mikill
samdráttur verði í útflutningstekjum vegna
kórónuveirunnar. Á þessari stundu sé útlit
fyrir að samdrátturinn vegna veirunnar
verði álíka mikill og vegna falls WOW air. Er-
lendum ferðamönnum fækkaði um 300
þúsund við fall WOW air, úr 2,3 í 2 milljónir.
„Við erum að horfa á að minnsta kosti
jafn mikið fall í fjölda erlendra ferðamanna
og í fyrra og jafnvel enn meira eftir þá
ákvörðun Bandaríkjastjórnar að loka á flug
frá Evrópu,“ segir Jóhannes Þór.
Með þetta í huga geti erlendum ferða-
mönnum fækkað í 1,6-1,7 milljónir í ár.
700 þúsund færri
gestir en 2018
FÆKKUN FERÐAMANNA
Jóhannes Þór
Skúlason
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Heilsugæslan í Reykjavík, lögreglan í
Reykjavík og fleiri stofnanir vinna að
því þessa dagana að skipta upp starfs-
stöðvum og draga úr samgangi starfs-
fólks til þess að hægja á smiti kórónu-
veiru. Í afgreiðslum verða
andlitsmaskar fyrir kvefaða skjólstæð-
inga.
Heilsugæslan í Reykjavík er að búa
sig undir miklar annir vegna kórón-
uveirunnar í næstu viku. Búist er við
að veikindi aukist og fleiri komi til
skoðunar. Óskar S. Reykdalsson, for-
stjóri Heilsugæslunnar, segir nauðsyn-
legt að hafa allan búnað tiltækan og
skipuleggja innra starfið.
Fjarþjónusta heilsugæslu aukin
Heilsugæslan hefur verið að gera
ýmsar ráðstafanir til að verja starfs-
fólk sitt og sjúklinga. Það hefur verið
gert með því að auka símaþjónustu og
aðra fjarþjónustu. Haft er samband við
alla þá sem eiga pantaðan tíma og tek-
in staða á sjúklingum og athugað hvort
hægt er að leysa erindið símleiðis eða
gefa tíma seinna. Fólk getur hringt á
heilsugæslustöðina sína, pantað tíma
eða spjallað við starfsfólk í gegnum
vefinn Heilsuvera.is. Nú er verið að
taka í notkun þá nýjung á Heilsuveru
að fólk geti pantað viðtal í síma við
lækni eða hjúkrunarfræðing. „Við lof-
um að hringja samdægurs til baka og
vinnum eins lengi og þarf til að það
náist,“ segir Óskar.
Hann leggur þó áherslu á að áfram
sé fólk til viðtals á heilsugæslustöðv-
unum og þeir sem vilji og þurfi að fara í
skoðun hjá lækni eigi að gera það.
„Mesta hættan er að fólk neiti sér um
heilbrigðisþjónustu vegna hræðslu við
að smitast. Við verðum að gæta okkar
á því.“
Á heilsugæslustöðvunum er gripið
til ýmissa almennra smitvarna, eins og
í fleiri stofnunum og fyrirtækjum.
Starfsfólk sem veikist er beðið um að
halda sig heima. Ef það er vinnufært
verða því falin verkefni sem hægt er að
vinna heima. Starfsstöðvum er skipt
upp og reynt að draga sem mest úr
samskiptum.
Reynt er að hafa ákveðna fjarlægð
milli starfsfólks og sjúklinga, þar sem
það er hægt. Þá verða andlitsmaskar í
afgreiðslu sem kvefaðir skjólstæðingar
eru beðnir um að setja upp. Sömuleiðis
setur starfsfólk á sig maska og hanska
þegar það sinnir sjúklingum með kvef-
einkenni. „Þetta verður að gera við
þær ótryggu aðstæður sem eru í dag til
að vernda alla, bæði starfsfólk og sjúk-
linga,“ segir Óskar.
Starfsemi lögreglu lamist ekki
„Allar aðgerðir okkar eru til að
reyna að forðast smit eða að minnsta
kosti að hægja á smiti,“ segir Sigríður
Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á
höfuðborgarsvæðinu, í skriflegu svari
við fyrirspurn um smitvarnaaðgerðir
embættisins.
Meðal aðgerða er að hafa sérstakan
mannskap í samræmingarmiðstöðinni
í Skógarhlíð og draga úr samgangi á
milli stöðva og Skógarhlíðar. Útkalls-
liðið er ekki í beinum samskiptum við
aðrar deildir nema þegar brýna nauð-
syn ber til og allt embættið hefur verið
hólfað niður samkvæmt aðgerðaáætl-
un. Þeir sem geta unnið heima gera
það og flestir fundir eru nú haldnir
með fjarfundabúnaði. Allt er þetta gert
til þess að minnka líkur á að starfsemin
lamist vegna veikinda. Önnur embætti
grípa einnig til aðgerða.
Um 180 heilbrigðisstarfsmenn höfðu
í gær skráð sig í bakvarðasveit heil-
brigðisþjónustunnar. Bakvarðasveitin
er listi yfir heilbrigðisstarfsfólk sem er
í öðrum störfum, sjálfstætt starfandi
eða hefur látið af störfum og lýsir sig
reiðubúið til að koma tímabundið til
starfa í heilbrigðisþjónustunni með
skömmum fyrirvara til að aðstoða í
væntanlegu álagi vegna fjöldaveikinda
vegna kórónuveirunnar.
Kvefaðir fá maska á
heilsugæslustöðvum
Heilsugæslan býr sig undir holskeflu í næstu viku
Fjöldi símtala til
heilsugæslunnar
Þúsundir símtala
mán.
24.2.
þri.
25.2.
mið.
26.2.
fim.
27.2.
fös.
28.2.
mán.
2.3.
þri.
3.3.
mið.
4.3.
fim.
5.3.
fös.
6.3.
mán.
9.3.
þri.
10.3.
3,4
2,7
2,4 2,4 2,2
3,6
3 2,9 2,6
2,3
4,7
3,5
H
e
im
ild
:
H
e
ils
u
ga
es
la
.is
Aðalfundur
Aðalfundur Hampiðjunnar hf. verður haldinn
að Skarfagörðum 4, Reykjavík,
föstudaginn 27. mars 2020 og hefst kl. 16:00.
Á dagskrá fundarins verða:
Stjórn Hampiðjunnar hf.
1. Venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt samþykktum félagsins.
2. Tillaga um heimild félagsstjórnar til kaupa á
eigin hlutum skv. 55. gr. hlutafélagalaga.
3. Önnur mál, löglega upp borin.
Dagskrá, endanlegar tillögur ásamt ársreikningi félagsins
munu liggja frammi á skrifstofu félagsins, hluthöfum til sýnis,
tveimur vikum fyrir aðalfund.
Atkvæðaseðlar og önnur fundargögn verða afhent á fundarstað.
Framboðsfrestur vegna stjórnarkjörs rennur út fimm dögum
fyrir upphaf aðalfundar.
Tillögur frá hluthöfum, sem bera á fram á aðalfundi, skulu hafa
borist í hendur stjórnar með skriflegum hætti eigi síðar en 10
dögum fyrir aðalfund.
Hluthafar sem ekki geta sótt fundinn, en hyggjast gefa umboð,
þurfa að gera það skriflega eða með rafrænum hætti og þannig
að dagsetning komi fram.