Morgunblaðið - 17.03.2020, Side 16

Morgunblaðið - 17.03.2020, Side 16
Á Húsafelli í Borgarfirði var á 18. og 19. öld, og jafnvel fyrr, stunduð óvenjuleg og merkileg heimilisiðja, legsteinasmíð, sem ekki á sér líka hérlendis. Húsafellsmenn, afkom- endur séra Snorra Björnssonar, hins nafnkunna klerks, voru alkunn- ir hæfileikamenn til munns og handa og fylgir það ættinni enn. Þar í Bæjargilinu á Húsafelli, og eins í Selgili allnokkru innar, má finna steintegundir sem hentugar eru til steinsmíða. Annars vegar er dökk- rauður leirsteinn í Bæjargilinu, mjúkur og hagfelldur svo að skafa má yfirborðið slétt og síðan höggva í letur og skraut með hentugum verk- færum, en steinninn í Selgili er ann- ars konar og grár að lit, hefur hann minna verið hafður í legsteina, enda er rauði steinninn sérlega áferðar- fagur. Ég kynntist þessari merku stein- smíð Húsafellsmanna fyrst vorið 1963 er þáverandi þjóðminjavörður, Kristján Eldjárn, sendi mig að Reykholti til að gera steinunum nokkuð til góða, hreinsa af þeim skófir og mosa og hefja þá úr jörðu sem sokknir voru. Hann sá manna bezt hverjar menningarminjar steinarnir voru og var þetta tilraun til að gera þeim til góða. Skrifaði ég síðan grein um steinana í Árbók Fornleifafélagsins, og síðar hefur verið skrifuð BA ritgerð við Háskóla Íslands góð yfirlitsritgerð um „húsa- fellssteina“, svo sem þeir eru tíðast nefndir, í ýmsum kirkjugörðum og er þar greint frá gerðum þeirra, til- greindar áletranir og hverjir stein- smiðirnir voru. Þessir húsafellsstein- ar eru flatar og sléttar steinhellur, nokkrir þó lítillega kúptir, flestir ferhyrndir en nokkrir þó með boga að ofan. Brúnir steinanna eru allajafna strikaðar til skrauts, en á sumum eru þær skreyttar með svonefndum tannstaf sem sjá má víða sem skraut á ölturum og pré- dikunarstólum frá 19. öld, en á sumum er bárubekkur um- hverfis. Steinarnir eru sléttskafnir og áletrunin öll á efra borði, enda hafa steinarnir legið flatir á leiðunum að þeirrar tíðar hætti. Fyrir kemur að smiðurinn hafi sett nafn sitt á steininn. Áletranir eru yfirleitt með latínuletri, hástöfum, en sumir með skrifletri, og fyrir koma báðar let- urgerðir á sama steini. Þar stendur nafn hins látna og fáein æviatriði og fæðingar- og dánarár, nokkur ein- kunnarorð um hinn látna og bless- unarósk eða tilvitnun í biblíuvers. Leturgerðirnar eru með afbrigðum fagrar og letrið sett af mikilli ná- kvæmni á steinana og sést vart feg- urri leturgerð á steinsmíð hér. Steinarnir eru höggnir heima á Húsafelli. Þekktustu steinsmiðirnir eru Jakob, sonur Snorra prests Björnssonar, og synir Jakobs, Gísli og Þorsteinn. Kristleifur Þorsteinsson á Stóra- Kroppi, þriðji ættliður frá Snorra presti, hefur sagt nokkuð frá heim- ilisiðju á Húsafelli þar sem hann getur barna Jakobs Snorrasonar, sem voru tólf. Segir hann: „Guð- mundur smíðaði rokka, Björn smíð- aði gull og silfur, Eiríkur smíðaði drifna hellusöðla, Snorri batt inn bækur og faðir minn, sem var yngst- ur allra systkina sinna, var með föð- ur sínum bæði við legsteinasmíði og járnsmíðar.“ Kveður hann föður sinn hafa smíðað mikið af legstein- um „eftir pöntunum úr ýmsum átt- um.“ Húsafellssteina má sjá í flestum kirkjugörðum í Borgarfjarðarhér- aði. Einna flestir eru þeir í Reyk- holti og í Síðumúla, og að sjálfsögðu eru margir heima á Húsafelli. Flest- ir eru þeir settir yfir presta og kon- ur þeirra eða yfir heldra bændafólk. Má hér nefna að húsafellssteinn er á gröf séra Hallgríms Péturssonar í Saurbæ, sem Stefán Stephensen amtmaður lét setja, og lét hann jafn- framt sjálfs sín rækilega getið á steininum. Steinarnir í Reykholti voru marg- ir orðnir talsvert skemmdir og svo er reyndar um alla húsafellssteina hvarvetna. Mjúka, rauðleita stein- tegundin veðrast tiltölulega fljótt, en mestum skemmdum veldur þó frostið. Vatn frýs niðri í letrinu og í skrautinu og sprengir yfirborðið smám saman, og víða myndast djúp- ar holur, og eins eru margir steinar brotnir um þvert og jafnvel í marga parta. Oft er það vegna ónærgætni. Sums staðar hafa menn ekið yfir gamla legsteina af óvarkárni í um- ferð um garðana. Víða má sjá í kirkjugörðum gríð- arstóra og merka legsteina, flesta frá 17.-18. öld, er gerðir voru erlend- is og settir til minningar um hefðar- fólk. Sums staðar hefur verið reynt að koma slíkum steinum undir þak, inn í kirkju ef svo hagar til eða í ný- byggð safnaðarheimili, og er það eina ráðið til að vernda þá til langrar frambúðar, varðveita þá frá eyðingu af náttúruöflum. Þannig er um húsa- fellsstein norður á Höskuldsstöðum, sem settur var til minningar um Stefán Ólafsson prest þar, forföður Stefánunga. Hann var settur á vegg í forkirkju og sómir sér vel sem minningartákn, og eins er um stein í Hjarðarholti í Dölum, sem þar er í safnaðarheimili. Svo má nefna tvo afarstóra steina á Ingjaldshóli sem settir voru á veggi í safnaðarheimili og fara þar mjög vel og minna betur á hina liðnu en ef þeir lægju úti í kirkjugarði. Margir þekkja til hvernig gengið er frá legsteinunum fornu í sýningarstofu í Skálholts- dómkirkju. „Legsteininn springur, og letur hans máist í vindum“, orkti borg- firzka skáldið Jón Helgason. En ætl- un þeirra sem steinana létu setja hefur þó verið sú að þeir skyldu um alla framtíð minna á hina liðnu. Illa hefur hins vegar tekizt til sums staðar þar sem menn hafa ráð- izt á gamla legsteina með sleggju og brotið þá í marga parta og haft brot- in í kirkjugrunn eða kirkjustétt. Er þar kunnasta dæmið steinninn sem Hallgrímur Pétursson hjó í minn- ingu Steinunnar dóttur sinnar og sem brotinn var síðar svo að fella mætti hann í kirkjustétt á Hvals- nesi. Er reyndar oft furðulegt að hugsa til þess hve rækt manna um minningarmörk næstu forfeðra sinna var oft fljót að hverfa. Húsafellssteinarnir í Reykholti hafa nú verið settir til sýnis í sýning- arskálanum við Snorrastofu og fara þar vel. Allir sjá þar áletranirnar og geta þá hugsað til þess fólks sem steinarnir voru settir til minningar um, svo sem ætlun var í öndverðu. Þetta er eina ráðið til að varðveita þessar merku menningarminjar, forna legsteina, til langrar fram- tíðar, að færa þá inn í hús og setja þá þar sem allir geta virt þá fyrir sér. Ætla má að fæstir þessara steina liggi nú á upphaflegum stað í görðunum, á leiði hins látna. Þeir hafa margir hverjir oftlega verið færðir til við grafartökur eða annað umrót í görðunum. Og þótt á sumum legsteinum standi: „hér undir hvíl- ir…“ er sú ekki alltaf raunin nú. Afkomendur hinna gömlu stein- smiða á Húsafelli hafa sýnt í verki fullan vilja til að sýna forfeðrunum minningarrækt með verndun handa- verka þeirra og er það vel. Legsteinar á Húsafelli Eftir Þór Magnússon Þór Magnússon » Steinarnir eru höggnir heima á Húsa- felli. Þekktustu steinsmiðirnir eru Jakob, sonur Snorra prests Björnssonar, og synir Jakobs, Gísli og Þorsteinn. Höfundur er fv. þjóðminjavörður. Í Stafholti Legsteinn gerður á Húsafelli en nú mjög brotinn á leiði séra Péturs Péturssonar pró- fasts í Stafholti. Í Reykholti Legsteinn á leiði séra Jónasar Jónssonar prests þar, höggv- inn af Gísla Jakobssyni á Húsafelli. 16 UMRÆÐAN MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 17. MARS 2020

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.