Morgunblaðið - 27.04.2020, Blaðsíða 15
15
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 27. APRÍL 2020
Borgarfjörður Norðtunga í Þverárhlíð er kirkjustaður og mektarbýli við Örnólfsdalsá og yfir hana liggur brú í gömlum stíl, reist 1899 en er nýlega uppgerð. Norðtunguskógur sést í bakgrunni.
Sigurður Bogi
Við lifum á óvenjulegum tím-
um. Loksins þegar það var að
renna upp fyrir þorra fólks að
taka yrði fyrir alvöru á hlýnun
jarðar brast á drepsóttin sem nú
geisar og engin mótefni hafa enn
fundist gegn. Veiran sú hefur á
einum ársfjórðungi breytt að-
stæðum manna, jafnt einkalífi,
atvinnulífi og viðskiptum. Horft
til baka vekur furðu að slíkur at-
burður skuli hafa komið flestum í
opna skjöldu aðeins öld eftir að
spænska veikin lagði um 50 milljónir manna
að velli og veirusýkingar sem engin lyf voru
tiltæk gegn hafa ítrekað stungið upp kollinum
síðustu áratugi. Helsta skýringin er einsýni,
þar sem hnattvædd viðskipti hafa orðið ráð-
andi í efnahagslífi og leiðandi öfl, jafnt á Vest-
urlöndum sem annars staðar, skella skollaeyr-
um við öllu sem þar gæti verið til fyrirstöðu.
Kreppan er til að læra af henni
Viðbrögðin til að stemma stigu við veirufar-
aldrinum hafa í einu vetfangi kallað fram gjör-
breyttar aðstæður í atvinnurekstri og við-
skiptum. Landamærum hefur verið lokað,
framleiðsla stöðvast og viðskipti lamast milli
landa og heimshluta. Seðlabankar og ríkis-
stjórnir gerast ábyrgðaraðilar fyrir skyndi-
lausnum sem enginn getur sagt um hvert leiði
eða hversu lengi verði þörf á. Kostnaður af
slíkum ráðstöfunum mun skjótt vinda upp á
sig. „Það skal lukka til að árið 2020 gangi ekki
inn í sögubækur sem árið þar sem sveigj-
anleiki og frjáls markaður gaf upp öndina“
skrifar The Economist 10. apríl sl. (s. 8). Rétt
er að hafa í huga að veirufaraldurinn á eftir að
geisa víða um heim út þetta ár eða lengur og á
meðan verða hömlur á flestum
sviðum, m.a. í ferðum milli
landa. – Auðvitað er brýnt að
koma atvinnulífi sem víðast á
réttan kjöl en áfallið og nýjan
veruleika sem blasir við þarf að
nota til umhugsunar og umræðu
um hvernig fram skuli haldið í
efnahagsstarfsemi hvers lands
sem og alþjóðlega. Inn í það mat
verður að taka reynsluna af
veirusjúkdómum, en jafnframt
og umfram allt að finna nýjar
leiðir til að ná tökum á ósjálf-
bæru efnahagskerfi, ekki síst í
ljósi glímunnar framundan við
loftslagsháskann. Þótt Ísland vegi ekki þungt
á heimsvísu í því stóra dæmi verður hvert
þjóðríki að axla sína ábyrgð. eitt eða í sam-
vinnu við aðra.
Grunnfærin pólitísk umræða
Sá sem þetta skrifar telur sig í hópi þeirra
sem fylgjast með samfélagsumræðu og frétt-
um og hefur raunar lagt við hlustir lengi, bæði
hér á heimavettvangi og erlendis. Ekki vantar
magnið og rásirnar sem hægt er að tengjast,
en samt er það mín tilfinning að mikið skorti á
að stjórnmálamenn, flokkar og hagsmuna-
samtök geri ljósa grein fyrir stefnu sinni og
afstöðu. Hægri og vinstri ber vissulega áfram
á góma en tengsl slíkra hugtaka við brýn sam-
félagsleg úrlausnarefni eru oft á huldu. Sjón-
varp og snjallsímar gera yfirleitt út á stutt
skilaboð, tími til útlistana og greiningar er lið-
inn. Twitter-innkoma Trumps er dæmigerð
fyrir hinn nýja stíl og hentar vel fjölmiðlaum-
hverfinu. – Ný hugtök komast í tísku án þess
merking þeirra sé skilgreind. Dæmi um það
er „pópúlismi“ sem enga merkingu hefur
nema þá sem skammaryrði. Alþingi hefur með
vissum hætti orðið fórnarlamb hinnar nýju
orðræðu. Þar taka andsvör og „fundarstjórn
forseta“ upp sviðið í þeim mæli sem ég hygg
að sé óþekkt á þingum annars staðar á Norð-
urlöndum. Þangað sótti forsætisnefnd Alþing-
is andsvaraformið sumarið 1991 í góðri trú.
Hér hefur það breyst í andhverfu sína!
Piketty, auðmagn
og hugmyndafræði
Andstæðan við grunnfærna umræðu birtist
víða í verkum nútímahöfunda, sagnfræðinga
eins og Ísraelsmannsins Yuval Noah Harari
(f. 1976) og hagfræðinga á borð við Thomas
Piketty (f. 1971). Tvær bækur þess síð-
arnefnda, Auðmagnið á 21. öldinni (Capital in
the Twenty-First Century, útg. á ensku 2014)
og Auðmagn og hugmyndafræði (Capital and
Ideology, útg. á ensku 2020), eru stórvirki
sem vakið hafa heimsathygli fyrir innsæi og
skarpa greiningu. Þetta eru miklir doðrantar,
700 til 1.100 blaðsíður, en auðlesnir fyrir les-
endur án sérfræðiþekkingar. Þótt Piketty sé
hagfræðiprófessor rýnir hann af mikilli skarp-
skyggni í mannkynssöguna, m.a. stéttaskipt-
ingu liðinna alda og sérréttindi yfirstéttanna.
Niðurstöður hans um sívaxandi ójöfnuð í
Bandaríkjunum og víðar í skjóli nýfrjáls-
hyggju frá 1980 að telja eru nú almennt við-
urkenndar. Greining hans og upplýsingar hafa
verið drjúgt veganesti frambjóðenda demó-
krata í kosningabaráttunni vestra, þeirra Ber-
nie Sanders og Elizabeth Warren. Heimafyrir
í Frakklandi hefur Piketty gagnrýnt Macron
forseta fyrir afslátt á sköttum milljónera, en á
sama tíma niðurskurð til námsmanna og aldr-
aðra. Í bókinni Auðmagn og hugmyndafræði
segist hann vilja umorða þekkta skilgreiningu
Karls Marx um stéttabaráttu sem kjarna
samfélagsbaráttu, á þessa leið: Saga allra
samfélaga hingað til er sagan um baráttu hug-
mynda og leit að réttlæti. (The history of all
hitherto existing societies is the history of the
struggle og ideologies and the quest for jus-
tice (s. 1035)). Í sérstökum kafla í síðarnefndu
bókinni fjallar Piketty um stighækkandi
skattlagningu á losun CO2 í glímunni við hlýn-
un jarðar (s. 1004). Fram kemur víða í ritum
Pikettys að hann lítur margt í þjóðarbúskap
Norðurlanda jákvæðum augum og telur
stjórnarskrárbundna aðild launamanna að
stjórnum fyrirtækja í Þýskalandi jákvæða fyr-
irmynd. Framsetning Pikettys er hófsöm og
vel rökstudd.
Maísólin mun senn rísa
Undangengnir vetrarmánuðir munu seint
úr minni líða. Þeir lögðust yfir mikinn hluta
landsins með óvenju miklu snjófargi og veð-
urofsa sem björgunarsveitir brugðust við af
ósérhlífni. Við tók aðvífandi og áður óþekkt
veirusótt með vaxandi þunga og óvissu hér
sem annars staðar. Við þær óvæntu aðstæður
hefur létt róðurinn aðdáunarvert teymi sér-
fróðra sem rataði á rétt vað og hefur náð að
stilla saman strengi. Boðaðar aðgerðir stjórn-
valda og bærileg samstaða á Alþingi auðvelda
framhaldið. Senn mun maísólin rísa. Notum
vordagana til að safna kröftum andlega og lík-
amlega fyrir gönguna framundan. Í sumar
ferðumst við um landið okkar, rifjum upp
kynnin af dásemdum þess og könnum ókunna
stigu.
Eftir Hjörleif
Guttormsson » Áfallið og nýjan veruleika
sem blasir við þarf að nota
til umhugsunar um hvernig
fram skuli haldið í efnahags-
starfsemi hvers lands og al-
þjóðlega.
Hjörleifur
Guttormsson
Höfundur er náttúrufræðingur.
Breytt og hófstillt efnahagskerfi taki við til frambúðar
Þegar á móti blæs er horft til
hins opinbera til að standa þétt
við bakið á fólkinu í landinu. Rík-
isstjórnin hefur nú kynnt 20 að-
gerðir til varnar, verndar og við-
spyrnu og er þar margt gott að
finna þótt öllum sé ljóst að þetta
er ekki í síðasta sinn sem ríkis-
stjórnin stígur fram og kynnir
aðgerðapakka.
Borgarstjórn kynnti í lok mars
13 aðgerðir um frestun, niðurfell-
ingu og lækkun gjalda; sveigj-
anleika í innheimtu; stuðning við ferðaþjón-
ustu, nýsköpun, skapandi greinar,
þekkingargreinar, menningu, listir, íþróttir og
viðburðahald; markvissar vinnumarkaðs-
aðgerðir; auknar fjárfestingar og átak í upp-
byggingu fjölbreytts og hagkvæms húsnæðis.
Aukin þjónusta sveitarfélaga
Sveitarfélögin, líkt og ríkisvaldið, vilja
standa sig á þessum erfiðu tímum í því að
styðja við fólk og fyrirtæki, veita framúrskar-
andi þjónustu og halda uppi atvinnustigi. Það
er hlutverk sveitarfélaganna að
veita mikilvæga nærþjónustu,
nú sem aldrei fyrr.
Sveitarfélögin hafa lýst áhuga
á að auka framkvæmdir sínar,
fara í víðtækar aðgerðir til að
stuðla að félagslegri virkni, efla
menningu, íþróttir og bjóða upp
á stuðning við þann stóra hóp
sem missir vinnuna. Að auki
mun fjöldi atvinnulausra og
minni tekjur íbúa þýða verulega
aukin útgjöld vegna fjárhags-
aðstoðar og sérstakra húsa-
leigubóta.
Ekki bara hægt að bregðast
við með lántökum
Sveitarfélögunum er þó mun þrengri stakk-
ur skorinn en ríkinu þegar kemur að hugs-
anlegri tekjuöflun til að standa bæði undir
hríðfallandi tekjum og auknum kröfum um að
auka þjónustu og framkvæmdir, og lækka
álögur sínar.
Samtök sveitarfélaganna á höfuðborg-
arsvæðinu sendu fjármálaráðherra minnisblað
fyrr í mánuðinum, þar sem fram koma áhyggj-
ur sveitarfélaganna af getu sinni til að taka
þátt í viðnámi, auka þjónustu, vinnumarkaðs-
aðgerðum eða framkvæmdum, verði efnahags-
legum áhrifum faraldursins velt yfir á sveit-
arfélögin. Hættan er sú að sveitarfélögin verði
lömuð til langs tíma, eigi þau einungis að
bregðast við með stóraukinni skuldsetningu.
Sveitarstjórnarráðherra
á villigötum
Sigurður Ingi Jóhannsson sveitar-
stjórnarráðherra hélt því fram í pontu Alþing-
is í síðustu viku, að þau sveitarfélög sem skilað
hefðu hagnaði á undanförnum árum gætu vel
tekið á sig það högg sem nú skellur á.
Viðbrögð hans, og sá aðgerðapakki sem
kynntur var af ríkisstjórninni sem sérstakur
stuðningur við sveitarfélögin, sýna mikið
skilningsleysi á þeim brimskafli sem er að
skella á þeim. Hafi sveitarfélag á undan-
förnum árum skilað afgangi, líkt og sveitar-
stjórnarráðherra lýsti, mun sá afgangur vera
fljótur að hverfa til að halda rekstri þess á
floti á þessu ári.
Næsti aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar
hlýtur að sýna vanda sveitarfélaganna meiri
skilning. Ég skora á ríkisvaldið að huga bæði
að almennum stuðningi við öll sveitarfélög í
landinu og sértækum stuðningi við þau sveit-
arfélög þar sem algjört hrun hefur orðið á at-
vinnugreinum, líkt og við sjáum á nokkrum
stöðum s.s. í Skútustaðahreppi, í Mýrdal og á
fleiri stöðum.
Sú leið sem Samtök sveitarfélaganna á höf-
uðborgarsvæðinu leggur til í minnisblaði til
fjármálaráðherra er skynsamleg um leið og
hún er uppbyggileg. Tillagan gengur út á að
ríkið leggi fram 137.000 kr. á íbúa í hverju
sveitarfélagi fyrir sig, sem mun leiða til þess
að sveitarfélög geti haldið öflugu þjónustu- og
framkvæmdastigi í gegnum þennan brimskafl
sem við erum öll saman í. Útkoman yrði betri
fyrir alla, sveitarfélög til skamms tíma og rík-
ið til lengri tíma.
Sveitarfélögin mega ekki lamast
Eftir Þórdísi Lóu
Þórhallsdóttur » Tillaga SSH um almennt
framlag til allra sveitarfé-
laga, svo þau geti haldið öflugu
þjónustu- og framkvæmda-
stigi, er skynsamleg og upp-
byggileg.
Þórdís Lóa
Þórhallsdóttir
Höfundur er formaður borgarráðs og oddviti Við-
reisnar.