Feykir - 28.08.2019, Side 4
Ágætu málþingsgestir.
Ég þakka það ágæta boð að ávarpa
ykkur á þessu þarfa þingi. Hér minnumst
við Jóns Árnasonar og hans mikla
ævistarfs á sviði menningar og fræða. Af
mörgu er þar að taka en helst lifir hann
þó í huga og minni landsmanna fyrir það
þrekvirki að safna með öðrum þjóð-
sögum og ævintýrum, forða því að þau
féllu í gleymskunnar dá. Nú er það
hlutverk okkar, sem á eftir komum, að
hampa áfram þessum þjóðfræðaarfi, sjá
til þess að hann lifi meðal þjóðarinnar,
að þeir njóti hans sem það vilja.
Ég hlakka til að fræðast hér frekar um
ævi og störf Jóns Árnasonar, heyra frá
sérfróðu fólki. Hvernig urðu þessar
frásagnir til, hvernig lifðu þær á tungu
þjóðarinnar, mann fram af manni, öld
fram af öld? Hvers vegna var þeim safnað
saman? Hvernig var farið að því? Já, hvers
vegna að segja sögur? Við Íslendingar
búum að ríkri munnlegri sagnahefð. Fólk
stytti sér stundir á löngum og ljós-
vakalausum vetrarkvöldum með því að
hlýða á sögur og ævintýri, frásagnir af
sérkennilegu fólki og atburðum, rímur og
annan kveðskap. Þjóðsögurnar og ævin-
týrin rötuðu hins vegar varla á prent fyrr
en okkar maður kom til skjalanna ásamt
öðrum frumherjum, ekki síst Magnúsi
Grímssyni fyrst um sinn.
Við getum gefið okkur að Jón Árnason
hafi hlýtt á guðsorð og annan bað-
stofulestur á fæðingarstað sínum á Hofi á
Skagaströnd og síðar á þeim stöðum sem
hann hraktist til með einstæðri móður
sinni. Þetta hlaut að hafa áhrif og kemur
frekari innblástur svo ekki að utan, með
ferskum vindum þjóðernishyggju og
rómantíkur, með áherslu á þjóðleg og
alþýðleg verðmæti? Var það ekki breskur
fræðimaður, búsettur í Svíþjóð, sem lagði
til að hafist yrði handa við söfnun
þjóðsagna á Íslandi, og var það ekki í anda
hinna þýsku Grimmsbræðra sem lögðu
línur í þessum efnum um alla álfuna?
Og efnið, er það ekki alþjóðlegt að
mörgu leyti? Enduróma ekki erlendar
sagnir og minni í hinum íslensku
þjóðsögum? Víst verða þær ekkert
endilega betri eða verri við það. Eins víst
mun líka vera að þjóðsagnasöfnun Jóns
efldi þjóðernisvitund á Íslandi, og gott ef
ekki almenna fróðleiksfýsn sömuleiðis.
Eflaust megum við þó varast að líta á
þjóðsögurnar, stíl þeirra og innihald, sem
einhvers konar aldarspegil.
Þannig hefur því verið haldið fram að
fyrirbærið „þjóðsagnastíll“ sé að talsverðu
leyti tilbúningur Jóns Árnasonar og
annarra skrásetjara og að hann hafi ekki
safnað sögum alþýðufólks í sama mæli og
frá virðulegum prestum og öðrum
fyrirmennum í samfélagi nítjándu aldar.
Öll söfnun hlýtur að bera merki safnarans.
Það breytir því þó ekki að sögur og
ævintýri lifðu á sinn hátt með þjóðinni.
Frægt er að Halldór Laxness kallaði
kvöldvökur og lestur á baðstofum „háskóla
Íslendinga“. Þangað er gagnlegt að
skyggnast í ljósi þessa málþings, og þarf þá
ekki að leita langt yfir skammt.
Erlendur Guðmundsson fæddist árið 1863
og ólst upp á Mörk í Laxárdal fremri, á
mörkum Húnavatnssýslu og Skagafjarðar.
Hann flutti síðar vestur um haf og rifjaði í
elli upp æskuárin. Guðmundur Jónsson
faðir hans var bóndi í almúgastétt, að sögn
Erlendar „í betra lagi greindur, ágætur
lesari, skrifaði með þeim bestu í hans
stétt“.
Og móðirin Steinunn Erlendsdóttir
hafði yndi af lestri og öllum sögum, þótt
að mörgu væri að huga. „Það mætti þykja
næsta undarlegt,“ sagði Erlendur í
endurminningum sínum, ef að svona
kona hefði getað hugsað um annað en
þrældóm og búshyggju – en þó var nú svo.
Steinunn var að jöfnum þræði bókhneigð
þó daglegt matarstrit yrði að sitja í
fyrirrúmi. Hún sagði að það væri „ótukt“
að eiga ekki bækur … Hún hélt fast fram
þeirri reglu að láta lesa allar kvöldsögur og
enginn lagði betur eyru við lestrinum en
hún, og batt sig ekkert sérstaklega við
sögur eða rímur, heldur einnig kennslu-
bækur í ýmsum greinum svo sem mann-
kynssögu, dýrafræði, landafræði og ljóð
eins og Ódysseifskviðu.
Vart þarf að taka fram að þjóðsögur og
ævintýri áttu upp á pallborðið á Mörk.
Reyndar var því þó fráleitt að heilsa á
öllum bæjum. Ólína Jónasdóttir, fædd
1885, óx úr grasi hjá vandalausum á
Kúskerpi í Skagafirði. Ólína varð
landskunn skáldkona og sagði svo frá
uppvexti sínum:
Tvær hillur voru yfir rúmi húsbóndans,
á annarri þeirra voru guðsorðabækurnar,
en á hinni sögur og rímur. Ég var látin
læra marga af Passíusálmunum, og varð
mér það einu sinni á, að ég lét þá á
sögubókahilluna. Þótti þetta hin versta
óhæfa, og bættist drjúgum á syndabyrði
mína.
Á vetrum voru lesnar sögur og kveðnar
rímur, var það góð skemmtun. Íslendinga-
sögur, riddarasögur og Noregskonunga-
sögur voru dáðar af öllum nema
húsmóðurinni, henni var meinilla við þær
og sagði, að þær ættu ekki að vera lesnar á
kristnu heimili, þjóðsögurnar fyrirbauð
hún að lesa, sagði, að af þeim stafaði
óhamingja.
Húsmóðirin birtist hér í frekar ófagurri
mynd, siðavönd og ströng, jafnvel
ofstækisfull í hörku sinni. Hér er þó að
ýmsu að hyggja, ekki satt?
Ef við gerum Erlend á Mörk og foreldra
hans að fulltrúum hinna upplýstu og
fróðleiksfúsu rekumst við fljótlega á vegg.
Gamall að aldri í Vesturheimi mundi hann
enn hvernig frásagnir af draugum og
forynjum greiptust í huga hans; grípum
aftur niður í rit hans:
Hvað áhrifum af þessum kynjasögum
víkur við þá voru þau, hvað mig snerti,
nær því að gjöra mig trylltan og var slíkt
ástand meðal unglinga mjög almennt. Ég
þorði hvergi að vera þar sem skugga bar á,
jafnvel um hádag. … Þætti mér trúlegt að
fólk á mesta drauga- og hjátrúartímabilinu
hefði orðið brjálað beinlínis af áhrifum
þessara sagna.
Já, vart verður um það deilt að
þjóðsögurnar eru mergjaðar, margar
hverjar. Ýmsar eiga rætur sínar í Skagafirði;
aldurtili Reynistaðarbræðra og Mikla-
bæjar-Solveigar, drambsemi Galdra Lofts
á Hólum. Færri sögur tengjast Húna-
vatnssýslum þótt ekki vanti hér sögusvið
og margir á þessum slóðum hafi lagt
drjúgan skerf til íslenskrar menningar í
aldanna rás. En kannski þurfti ekki
skáldskap hér. Kannski var það svo, eins
og einn kunningi drap á við mig, að í
upphafi nítjándu aldar logaði héraðið í
sakamálum sem dugðu til að svala
sagnafýsninni; „Húnvetningar þurftu ekki
ímyndunaraflið til að hræða hver annan.“
Nú er öldin önnur. Fólk er hér friðsamt
og óáleitið, baðstofuloft heyra fortíðinni
til, kvöldvökur sömuleiðis og hvað með
þjóðsögurnar? Man þær nokkur og kann á
okkar dögum? Eiga þær kannski ekki
erindi lengur – á nýrri öld, með nýrri
afþreyingu, nýjum þörfum og nýjum
kröfum?
Þjóðsögurnar lifa ennþá. Á því er enginn vafi:
Tunglið hægt um himin líður,
dauður maður hesti ríður,
Garún.
Í einu besta og vinsælasta popplagi
síðustu áratuga gerði Magnús Eiríksson
sér mat úr þjóðsögunni um djáknann á
Myrká. Í sama forðabúr leitaði Magnús
Þór Sigmundsson: „Í gömlum sögnum
segir svo frá, er álfar bjuggu mönnum
hjá.“ ‒ „Minningar lifa sögunum í,“ söng
hann áfram, og fyrir tæpum tveimur
áratugum stofnuðu fjórar táningsstúlkur
úr Keflavík hljómsveit. Þær vantaði
krassandi nafn og bar þá svo til að systir
einnar kunni sitthvað úr þjóðsagnasafni
Jóns Árnasonar. Til varð bandið Kolrassa
krókríðandi, eftir samnefndri sögu um
hina ráðagóðu Helgu sem lék á risann í
fjöllunum.
Áfram mætti benda á minni og önnur
teikn um það hvernig þjóðsögurnar og
ævintýrin, sem Jón Árnason skráði og gaf
út, lifa enn með fólkinu í landinu, í
málverkum, höggmyndum og annarri list,
í allri okkar menningartengdu ferða-
þjónustu þar sem við viljum gjarnan
hampa sérstöðu og sérstökum þjóðararfi.
Þá eru aðeins nokkur ár síðan þekktustu
þjóðsögurnar voru gefnar út á nýjan leik,
gagngert handa almenningi.
Á sinn hátt birtast sumar þeirra líka utan
landsteinanna; hinn enski J. R. R. Tolkien,
höfundur Hringadróttinssögu og sagn-
anna um hobbitana, heillaðist til dæmis af
norrænum sagnaarfi og kvaðst öfunda
aðrar þjóðir, ekki síst Íslendinga, sem ættu
annað eins ógrynni sagna og ævintýra.
Gott og vel en gleymum þó ekki hinu
alþjóðlega samhengi, að margar okkar
þjóðsagna eiga systur og bræður í öðrum
löndum og við þurftum á sinni tíð dálitla
hvatningu að utan til þess að varðveita
þær, skilja menningargildi þessa alþýðu-
arfs. Að lokum segi ég því þetta um þjóð-
sögur okkar og þá söfnun, sem Jón
Árnason og Magnús Grímsson hófu og
Jón er svo þekktur fyrir: Fátt lýsir eins vel
þeim sterka streng sem þarf til að binda
saman hið þjóðlega og hið alþjóðlega
þannig að úr verði menning, lifandi og
sönn. Á sínum tíma orðaði Sigurður
Nordal það svo að tvennt varðaði öfluga
og sjálfstæða þjóð mestu, „að standa
djúpum rótum í fornum jarðvegi en vera
þó umburðarlynd og næm á nýjar
hugsjónir“.
Þessi orð eru enn í góðu gildi. Við
skulum halda upp á þjóðsögur okkar,
þennan menningararf okkar, efla hann og
styrkja – ekki verja eins og brothættan
ættargrip sem verði að umgangast af
lotningu og nærgætni heldur greiða götur
nýrra kynslóða inn í þessa heillandi veröld
með nýjum og hugmyndaríkum útgáfum
og miðlunarleiðum. Sama gildir um
tungumálið sjálft, það mál sem forfeður
okkar og -mæður mæltu á, það mál sem
Jón Árnason efldi með útgáfu síns
þjóðsagnasafns. Á öðrum vettvangi hef ég
vitnað í lýsingu Málfríðar Einarsdóttur á
rustum á baðstofuloftinu, körlum sem
sproksettu alla sem töluðu ekki kórrétt að
þeirra þröngsýna mati. Þau varnaðarorð
eru kröftug en innilegri og einlægari er
þessi ástarjátning Málfríðar til íslenskrar
tungu: „Það verður lakara að glata þessu
máli, sem mér finnst svo gaman að, að ég
get verið daglangt að virða fyrir mér eina
vísu orta fyrir þúsund árum eða lengri
tíma.“
Ágætu áheyrendur: Ég þakka
forystusveit Landsbókasafns Íslands –
Háskólabókasafns, Skagabyggðar og
Skagastrandar fyrir að standa að þessu
málþingi og heiðra þannig minningu og
lífsstarf Jóns Árnasonar. En nú læt ég
staðar numið.
Áttu börn og buru,
grófu rætur og murur;
smérið rann,
roðið brann,
sagan upp á hvern mann,
sem hlýða kann;
brenni þeim í kolli baun,
sem ekki gjalda mér sögulaun
fyrr í dag en á morgun.
Köttur úti í mýri
setti upp á sér stýri,
úti er ævintýri. /PF
Ávarp forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar
MÁLÞING UM JÓN ÁRNASON ÞJÓÐSAGNASAFNARA 17. ÁGÚST 2019
4 32/2019