Sjómannadagsblaðið - 30.05.2008, Page 28
28 SJÓMANNADAGSBLAÐIÐ 30. MAÍ 2008
Skoðaðu úrvalið!
Grillaðu í allt sumar!
Skagamaðurinn Pétur Magnússon tók
nýverið við starfi framkvæmdastjóra
Hrafnistuheimilanna. Með brosi á vör líkir
hann starfinu við stöðu bæjarstjóra í þokkalega
stóru sveitarfélagi. Líkingin er ekki fjarri
lagi því að Pétur segir samfélagið á Hrafnistu
lúta lögmálum bæjarfélaga. „Hér er fengist
við húsnæðismál, heilbrigðismál, félagsleg
málefni, dagvistun, verslunarrekstur og rekstur
sundlauga og félagsmiðstöðva, svo eitthvað sé
nefnt,“ segir Pétur og bætir við að samfélagið
telji um 2.000 manns, um þúsund starfsmenn,
hátt í 800 heimilismenn og um 200 manns til
viðbótar sem nýta sér margvíslega þjónustu
Hrafnistu.
Pétur lauk lyfjafræðinámi með mastersgráðu
frá Háskóla Íslands árið 1998 og MBA námi frá
Háskóla Reykjavíkur með sérstakri áherslu á
mannauðsstjórnun árið 2004. Undanfarin 11 ár
hefur Pétur starfað hér á landi að markaðs- og
kynningarmálum fyrir alþjóðleg lyfjafyrirtæki,
síðustu 3 ár sem æðsti maður lyfjafyrirtækisins
Merck Sharp & Dohme á Íslandi. Hann hefur
alla tíð verið mjög virkur í félagsmálum. Meðal
annars hefur hann gegnt trúnaðarstörfum
fyrir Íþrótta- og ólympíusamband Íslands og
Lyfjafræðingafélag Íslands. Hann er fyrrverandi
formaður Knattspyrnudeildar Aftureldingar í
Mosfellsbæ.
Þótt Pétur hafi kynnt sér starfsemi
Hrafnistuheimilanna áður en hann tók
þar til starfa var ýmislegt sem kom honum
þægilega á óvart. „Fyrir það fyrsta er það
mannauðurinn sem mér finnst vera helsti
kostur Hrafnistuheimilanna. Til þess að
starfsemin blómstri, vaxi og þróist þarf duglegt
og metnaðarfullt starfsfólk eins og hér vinnur.
Vinnan er oft erfið en flest mál eru leyst
farsællega og með brosi á vör.
Annað, sem ég gerði mér ekki grein fyrir,
er hversu vel er hlúð að félagslega þættinum
fyrir heimilisfólk. Á Hrafnistuheimilunum er
dagskrá, bæði til afþreyingar og uppbyggingar,
frá morgni til kvölds og þessi þáttur heimilanna
er mun meiri en ég og flestir, sem ekki þekkja til
Hrafnistu, gera sér grein fyrir.“
Það þriðja, sem Pétur nefnir, er
heimilisbragurinn. „Hér er afskaplega góður
andi og þrátt fyrir að á heimilunum búi fjöldi
fólks tekst að skapa gott og heimilislegt
andrúmsloft og vel er tekið á móti nýju fólki,
bæði heimilisfólki og starfsfólki. Oft þarf
ég að gefa mér tíma til þess að spjalla við
heimilisfólkið um heima og geima. Þegar ég
þarf að sinna erindum á heimilunum eða funda
með starfsfólki deilda þarf ég að ætla mér góðan
tíma því að ég er oft stoppaður á leiðinni til
að ræða málin og það er eitt af því sem gerir
störfin hér á Hrafnistu skemmtileg og gefandi,“
segir Pétur Magnússon, framkvæmdastjóri
Hrafnistuheimilanna.
Eftir Egil Þorgilsson stýrimann
Það mun hafa verið trú margra Íslendinga,
að við gætum ekki rekið stórskipa útgerð, og
sú trú var fast ríkjandi alt fram yfir síðustu
aldamót, og meira að segja munu margir
hafa verið vantrúaðir á framtíðarmöguleika
Eimskipafélagsins, þegar það var stofnað
1914. Hinsvegar var, að minnsta kosti út um
landið, oft litið með auðmýkt og undirgefni
upp til þeirra útlendu manna, sem þá sigldu
stærri skipum hingað til lands. Eg man eftir
því, þegar póstskipin komu hinar svokölluðu
miðsvetrarferðir, hvað dáðst var að dugnaði
hinna útlendu sjómanna. Að vísu skal það
játað, að skilyrði fyrir vetrarferðum hér við
land, voru þá að miklum mun verri en þau
nú eru. En nú heyrist líka lítið um það talað,
þótt íslenzkir sjómenn sigli stærri skipum
inn á hverja vík á landinu, í hverjum mánuði,
árið út og árið inn. Nú á þjóðin lítinn en
fagran verzlunarflota, og sú útgerð borið sig
ágætlega. Hinir framsýnu og góðu menn, sem
áttu frumkvæðið að stofnun Eimskipafélags
Íslands, og sjómennirnir, hafa sannað
þjóðinni, að hún getur átt sín milliferðaskip
sjálf, og þarf ekki að vera upp á aðrar þjóðir
komin með flutninga að og frá landinu.
Þessu marki er þó ekki enn náð svo vel sé.
Við þurfum að eignast fleiri og stærri skip,
og því til sönnunar má benda á, að enn þurfa
landsmenn að leigja útlend skip til flutninga,
og borga þannig stórar upphæðir til erlendra
skipafélaga. Þau eru orðin mörg, skipsverðin,
sem þannig hafa horfið út úr landinu, en það
ætti að fara að minnka, og það getur horfið
með öllu, ef landsmenn standa óskiftir um að
auka verzlunarflota sinn.
Samfara vaxandi framleiðslu landsmanna,
kemur vaxandi þörf fyrir fleiri skip. Sumir
halda því fram, að ekkert sé fyrir skipin að
gera, nema rétt einstöku sinnum, og er það
að nokkru leyti satt. Eins og stendur gerir
þörfin fyrir fleiri skip aðallega vart við sig
vor og haust; þess á milli er ekki svo mikið
að gera, út yfir það sem póstskipin, sem
þegar eru til, komast yfir að flytja. En þetta
er að breytast meir og meir. Útflutningar
og aðflutningar eru að jafnast meira yfir
allt árið, og svo er sá möguleiki fyrir hendi,
jafnt fyrir Íslendinga sem aðrar þjóðir, að
senda þá skipin út í heiminn, og fá verkefni
fyrir þau á hinum frjálsa siglingamarkaði. Ef
skipin okkar eru þannig útbúin, að þau væru
samkeppnisfær við skip annarra þjóða, þá
hefðu þau alveg eins möguleika til að fá farma,
eins og annarra þjóða skip, og sá erlendi
gjaldeyrir, sem þá kæmi inn í landið, væri án
efa velkominn. Eg hygg að slík útgerð væri alls
ekki áhættumeiri en sum önnur útgerð, sem
landsmenn reka, og hún hefir þann stóra kost,
að ef Evrópuþjóðirnar fara í stríð og loka fyrir
viðskipti sín hér við land, með sínum skipum,
að þá hafa landsmenn sín eigin skip, og geta
sótt björg í bú, hvert sem vera skal.
Þegar allar þjóðir Evrópu vígbúast og
kaupa manndrápsvélar fyrir miljarða, þá
ættu Íslendingar að vígbúast með því að
kaupa eða byggja fleiri stór og traust skip.
Þau gleðitíðindi eru nú líka að gerast, að
Eimskipafélag Íslands ætlar að bæta við sig
einu skipi, helmingi stærra og vandaðra en
nokkurt annað íslenskt skip, og er það vel, að
Eimskipafélagið hafi í því forystu. Öll þjóðin
er hluthafi í þeirri útgerð, og það ætti að
vera metnaðarmál allrar þjóðarinnar, að gera
Eimskipafélag Ísland stórt og sterkt.
Í heimstyrjöldinni 1914-18 hefði farið illa
fyrir landi og þjóð, ef fossar Eimskipafélagsins
og skip ríkisins hefðu ekki verið til. Þá voru
skipin aðeins tvö en nú eru þau sex og það
sjöunda á leiðinni; það er því hér um gleðilega
þróun að ræða. Í næsta stríði, hvenær sem það
kemur, hafa Íslendingar brúk fyrir mörg skip,
því þá er hætt við að eitthvert þeirra verði
ófriðarþjóðunum að bráð, og er þá gott að hafa
þau heldur fleiri en færri.
Sérstaklega er mjög áríðandi, að sem
fyrst verði hafist handa að kaupa eða
byggja mótorkæliskip, 3 – 4 þúsund tonn,
til flutninga vestur um haf til Ameríku, því
þangað verða Íslendingar að beina viðskiptum
sínum, ef til ófriðar dregur hér í álfu. En nú er
ekki tími til að bollaleggja þetta mál lengi, nú
er nauðsynlegt að framkvæma þetta sem fyrst,
ásamt ýmsu öðru, sökum hins ótrygga ástands
í heiminum.
Hin nýja ríkisstjórn ætti í þessu máli að
sýna þjóðinni sinn góða vilja, að tryggja
þjóðina, með því að hefja strax framkvæmdir
að því að styrkja ríflega siglingaflota
þjóðarinnar og endurnýja hann og stækka.
En eins og eg tók fram áður, er það sjálfsagt,
að Eimskipafélagið hafi í þessum málum
forystu, og njóti þar til svo mikils stuðnings
frá ríkisstjórninni sem kostur er, svo tryggður
sé framgangur þessa máls. Sjálfsagt er líka
að styðja hin eimskipafélögin, og hvetja þau
til að bæta við sig skipum, ef mögulegt er.
Íslendingar eiga að vera sjálfum sér nógir á
þessu sviði, engu síður en öðrum, og þeir geta
það, ef þeir standa einhuga að því.
Í maí 1939.
Egill Þorgilsson.
Endurskráð af Guðlaugi Gíslasyni stýrimanni
í apríl 2008.
Getum við
Íslendingar
orðið mikil
siglingaþjóð?
Í öðru tölublaði Sjómannsins í júlí 1939 birtist grein eftir Egil Þorgilsson (1895-
1980), stýrimann um margra áratuga skeið hjá Eimskip, síðast á ms. Tröllafossi, eða
þar til hann hætti siglingum fyrir aldurs sakir 1961. Greinin er um margt athyglis-
verð í ljósi umræðunnar nú um stöðu íslenskrar kaupskipaútgerðar og farman-
nastéttar því að Egill fjallar m.a. um öryggi þjóðarinnar sem felst í yfirráðum yfir
eigin millilandaflota. Greinin birtist nokkrum vikum áður en heimsstyrjöldin síðari
hófst með innrás Þjóðverja í Pólland 1. september sama ár.
Bæjarstjóri
Hrafnistu