Sjómannadagsblaðið - 30.05.2008, Side 30
30 SJÓMANNADAGSBLAÐIÐ 30. MAÍ 2008
Sendum íslenskum sjómönnum
árnaðaróskir á hátíðisdegi þeirra
Boðaþing í Kópavogi:
Nýstárlegt hjúkrunarheimili
og þjónustuíbúðir
Framkvæmdir við nýstárlegt
hjúkrunarheimili fyrir aldraða eru
hafnar við Boðaþing í Kópavogi, í
grennd við Elliðavatn. Um er að ræða
samstarfsverkefni Kópavogsbæjar og
Hrafnistuheimilanna.
Um er að ræða hjúkrunarheimili
sem samanstendur af fjórum
húsum. Hvert þeirra er með 22
hjúkrunarrými, allt einbýli. Þar er
að auki sameiginleg þvottaaðstaða,
eldhús og borðstofa. Húsin fjögur
tengjast þjónustumiðstöð sem ætluð
er eldri borgurum í Kópavogi auk
heimilisfólks. Þar verður sundlaug,
sjúkraþjálfun, dagvistun, netkaffihúsi
og félagsmiðstöð
Auk hjúkrunarheimilisins mun
Hrafnista reisa 93 þjónustu- og
öryggisíbúðir fyrir aldraða við
Boðaþing. Íbúarnir munu geta nýtt
sér alla þá þjónustu sem er í boði á
svæðinu.
Ný Hrafnista í Reykjavík:
Landnám í Fossvogi
Undirbúningur er hafinn að
heilmiklu landnámi Hrafnistu í
Fossvogshverfinu í Reykjavík. Þar
verða byggðar 100 þjónustuíbúðir og
félagsmiðstöð, einkum ætluð eldri
íbúum í Fossvogs- og Háaleitishverfi
auk þess sem eldri borgarar utan
svæðisins geta nýtt sér aðstöðuna.
Framkvæmdirnar eru í náinni
samvinnu við Reykjavíkurborg..
Þótt þjónustumiðstöðin eigi að
vera í beinum tengslum við nýju
þjónustu- og öryggisíbúðirnar á
vegum Hrafnistu er lagt upp úr góðu
aðgengi íbúa annarra húsa á svæðinu
eins og byggingum SEM samtakanna,
MS félagsins og Félags eldri borgara.
Þegar er búið að leggja
frumdrög að innra skipulagi
þjónustumiðstöðvarinnar
í samstarfi við stjórnendur
velferðasviðs Reykjavíkurborgar. Í
þjónustumiðstöðinni verður almenn
þjónusta, svo sem fót-, hand- og
hársnyrting, sjúkra- og hreyfiþjálfun.
Einnig aðstaða fyrir heimahjúkrun
og heimaþjónustu, skrifstofur
starfsmanna og viðtalsherbergi svo
og búningsaðstaða starfsmanna,
fundarherbergi og önnur aðstaða fyrir
starfsmenn.
Áformað er að kaffihús verði
starfrækt í þjónustumiðstöðinni
og að aðstaða verði fyrir fjölbreytt
félagsstarf. Gert er ráð fyrir
fjölnotasölum sem hægt er að skipta
upp fyrir hópa- og klúbbastarf, auk
þess sem þar verða vinnustofur fyrir
hvers kyns föndur og handavinnu.
Þannig má gera ráð fyrir að opið
félagsstarf gæti nýtt sér aðstöðu
félagsmiðstöðvarinnar samhliða
dagsvistun aldraðra. Ennfremur
er gert ráð fyrir því að hægt verði
að bjóða þar uppá aðstöðu fyrir
sjálfsprottið félagsstarf, jafnvel þótt
þjónustumiðstöðin sjálf sé lokuð um
kvöld og helgar.
Í þjónustumiðstöðinni er gert
ráð fyrir sundlaug sem auk þess að
þjóna eldri borgurum á svæðinu
er ætlað að bæta úr brýnni þörf
fyrir sundkennslu grunnskólanna í
grenndinni.
Upplýsingar um lausar leiguíbúðir
fást hjá Sjómannadagsráði í síma
585-9301 og á vef Sjómannadagsráðs,
www.sjomannadagsrad.is.
Stöðug uppbygging og landnám Hrafnistu
Framsýni og framkvæmdir hafa einkennt starfsemi Hrafnistu allt frá því að
Sjómannadagsráð hóf rekstur Hrafnistu í Reykjavík fyrir réttum 50 árum.
Allt frá upphafi hefur Hrafnista verið leiðandi í þjónustu við aldraða og
innleitt fjölda nýjunga á þessu sviði. Fjöldi sveitarfélaga hefur leitað ráða og
samstarfs við Hrafnistu, enda búa stjórnendur heimilanna yfir rmikilli þekkingu
á þessu sviði.
Auk Hrafnistuheimilanna á Sjómannadagsráð og rekur 88 þjónustuíbúðir
sem eru leigðar fólki sem náð hefur 60 ára aldri. Um er að ræða íbúðir
við Hrafnistuheimilin í Reykjavík og Hafnarfirði. Um þessar mundir vinnur
Hrafnista að uppbyggingu víða á höfuðborgarsvæðinu.
Líkan sem sýnir hvernig byggð
Hrafnistu í Fossvoginum mun líta
út.
Teikningar af þjónustu-
og öryggisíbúðum
Hrafnistu í Fossvogi.
Afstöðumynd sem sýnir væntanlegar byggingar í Boðaþingi í Kópavogi.
Teikningar af hjúkrunarherbergjunum í Boðaþingi.