Morgunblaðið - Sunnudagur - 27.09.2020, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - Sunnudagur - 27.09.2020, Blaðsíða 12
Þ að skiptast á skin og skúrir rétt eins og í lífinu sjálfu daginn sem blaðamaður bankar upp á hjá Karli Sigurbjörnssyni biskupi. Hann býður til stofu, skenkir kaffi í fallegan bolla og opnar lítinn konfektkassa gestinum til heiðurs. Karl hefur yfir sér rólegt yfirbragð, talar á lágu nótunum og það er stutt í brosið. Hann gæðir sögur sínar lífi þannig að manni finnst maður næstum staddur með hon- um langt aftur í fortíðinni. Lífið hefur boðið upp á fjölmargar áskoranir sem Karl hefur tekist á við af æðruleysi og með trúna í farteskinu. Prestur, biskup, eig- inmaður, faðir og afi eru þau hlutverk sem hann hefur sinnt af alúð, en lífsins ævintýri hófst á Skólavörðuholtinu á fimmta áratug síð- ustu aldar þar sem lítill feiminn drengur lék sér frjáls um stræti og torg. Númer sex af átta „Ég bjó við Freyjugötuna fyrstu árin. Ég er sjötti í röðinni af átta systkinum. Það eru ein- hver fræði um það hvernig það mótar persónu fólks hvar maður er í systkinaröðinni. Það er ljóst að númer sex af átta hefur fengið mikla afganga af öllu,“ segir Karl og skellir upp úr. Það var að vonum líf og fjör á stóru heimili og þröngt máttu sáttir sitja. „Ég man ekki eftir að við höfum öll verið heima á sama tíma því þau elstu voru að fara að heiman þegar ég man eftir mér. En ég man að ég öfundaði mikið Jóhann vin minn sem bjó beint á móti; hann var eina barnið á heimilinu. En hann sagði mér einhvern tímann að hann hefði öfundað mig, því það hljóti alltaf að hafa verið líf og fjör á mínu heimili,“ segir hann og brosir. Karl segist eiga góðar minningar úr æsk- unni á Skólavörðuholtinu og kynntist hann þar ýmsu merkilegu fólki sem barn. „Ég var ótrúlega frjáls sem krakki. Ég kalla þetta stundum háskólann á Skólavörðuholtinu því þetta var svo lærdómsríkt umhverfi. Þarna var fólk af öllum gerðum og af öllum stigum samfélagins. Þarna voru gamlar sérkennilegar einsetukonur með hænsn; þarna var stein- smiður; þarna var trésmiður og skósmiðir og myndhöggvarar. Ég var alltaf að sniglast í kringum vinnandi fólk. Þarna voru spekingar, listamenn og fræðingar og kaupmenn á hverju horni. Og ég að valsa inn og út og man ekki eft- ir mér öðruvísi en að vera að flækjast um allt. Ég var nú alltaf afskaplega feiminn krakki en Björn bróðir minn var höfðingjadjarfur ungur maður og spjallaði mikið við fólkið svo mér fannst stundum nóg um, en ég hlustaði.“ Óþægilegt að vera sonur biskups Karl var sendur í sveit á Stokkseyri níu ára gamall. „Það var harður en gríðarlega góður skóli. Ég var settur upp á traktor tíu ára, eins og tíðkaðist á þessum tíma,“ segir hann. „Ég rak kýrnar, gaf hænsnum, mokaði flór- inn og passaði krakka. Ég fann mikið til mín; fannst ég vera mikilvægur. Maður var látinn axla mikla ábyrgð. Og þótt þetta hafi verið ævintýri var maður oft ofboðslega þreyttur; stundum örmagna. En þetta var dýrmætur skóli,“ segir Karl. Á þessum árum var faðir Karls, Sigurbjörn Einarsson, guðfræðiprófessor við Háskóla Ís- lands. Móðir hans, Magnea Þorkelsdóttir, var heimavinnandi og hélt utan um þetta stóra heimili af einstakri umhyggju, að sögn Karls. Sigurbjörn var skipaður biskup árið 1959, þegar Karl var tólf ára, og við það breyttist ýmislegt í lífi hans. „Við fluttum vestur á Tómasarhaga og ég fór í Melaskóla og svo Hagaskóla. Að flytja í Vesturbæinn var eins og að koma í aðra heims- álfu. Við fluttum úr pínulitlu húsi í stórt og ég fékk sérherbergi. Á Freyjugötunni og þar í kring voru malbikaðar götur og hellulagðar gangstéttir og hitaveita. Því var ekki að heilsa í Vesturbænum. Þar var allt í ryki þegar það var þurrt og allt í drullusvaði þegar rigndi og húsin voru með olíukyndingu. Þarna voru miklar andstæður; flottar herskaparvillur ann- ars vegar og Kamp Knox hins vegar,“ segir Karl. „Ég gerðist skeytasendill þrettán ára og fór út um allt á hjóli með símskeyti og símakvaðn- ingar.“ Hvernig var að vera unglingur og eiga föður sem var biskup? „Mér fannst það oft frekar óþægilegt. En auðvitað fannst manni það líka merkilegt. Ég var alltaf stoltur af föður mínum. En ég átti ekki gott með það að vera í sviðsljósinu,“ segir Karl og segist hafa verið strítt vegna stöðu sinnar. „Svo togaði kirkjan í mig“ Karl Sigurbjörnsson valdi snemma að ganga á Guðs vegum. Hann fetaði í fótspor föður síns og gegndi stöðu biskups í fjórtán ár. Karl segir presta oft taka þátt í mestu gleðistundum fólks, en jafnframt mestu sorgum líka. Þá sækir hann styrk í trú, von og kærleika. Karl glímir nú við krabbamein en óttast ekki dauðann, þótt hann segi hann óvelkominn gest. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is Karl glímir við krabbamein sem haldið er niðri með reglulegum lyfjagjöfum. Hann segist hafa það gott í dag og segir hvern dag gjöf sem beri að þakka. Morgunblaðið/Ásdís ’ Við vorum þarna undirrjúkandi eldfjallinu ogbrennisteinsfnykinn lagði yf-ir byggðina. Ef Skólavörðu- holtið var háskólinn þá var þetta doktorsprófið, mikil eldskírn. Þetta var eins og að vera á vígstöðvum. VIÐTAL 12 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 27.9. 2020

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.