Morgunblaðið - 22.10.2020, Síða 15
15
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 22. OKTÓBER 2020
Eitt stærsta hagsmunamál ís-
lenskra bænda er stefna stjórn-
valda hverju sinni þegar kemur
að tollamálum. Hvernig alþjóða-
samningar eru gerðir, hvernig út-
hlutun þeirra tollkvóta sem samið
er um fer fram og loks hvernig
eftirliti með innflutningi á land-
búnaðarvörum er háttað. Því mið-
ur hefur þróunin undanfarin ár
komið afar illa við íslenska fram-
leiðslu.
Endurskoðun á tollasamningi við ESB
Í byrjun árs 2018 kváðu tollasamningar við
Evrópusambandið, EFTA og WTO samtals á
um 205 tonna tollkvóta fyrir nautgripakjöt inn
til Íslands. Um mitt sama ár tók nýr samningur
við Evrópusambandið gildi en samkvæmt hon-
um aukast tollkvótar fyrir nautgripakjöt úr 100
tonnum á ári í 696 tonn. Magnið þrepast upp á
hverju ári og um næstu áramót verður loka-
skrefið tekið og magnið verður orðið 696 tonn á
ári frá ESB, en samtals 801 tonn með EFTA- og
WTO-tollkvótunum.
Nú hefur stjórnmálafólk séð það raungerast
sem allur íslenskur landbúnaður varaði við;
samningurinn er að kosta okkur sem samfélag
mun meira en við fáum á móti. Með útgöngu
Bretlands nýtast ekki þeir útflutningskvótar
sem samið var um til ESB þar sem það magn
var fyrst og fremst ætlað á Bretlandsmarkað og
þar með eru hagsmunir íslenskra framleiðenda
af samningnum fyrir bí. Hækkunin á tollkvótum
landbúnaðarvara inn til landsins var gríðarleg,
nam 596% í nautakjöti og 510% í ostum svo
dæmi séu tekin. Markaðurinn hefur ekki vaxið á
sama hátt og gert var ráð fyrir þegar samning-
arnir voru gerðir, ferðamönnum hefur fækkað
og var það orðið áður en Covid skall á. Ljóst er á
orðum stjórnmálafólks undanfarið að það tekur
undir kröfur bænda að þennan samning þarf að
endurskoða hið snarasta, enda allar forsendur
hans brostnar. Nú þarf bara að hætta að vera og
fara að gera.
Umfangsmikið misræmi tollasvindl?
Annað atriði sem vakið hefur mikla athygli
undanfarið er það að innflutningstölur á land-
búnaðarafurðum til Íslands eru ekki í samræmi
við útflutningstölur út úr Evrópusambandinu.
Vörur eru tollaðar á ákveðnum alþjóðlegum toll-
númerum frá ríkjum ESB en koma til landsins á
öðrum. Ekki hefur fengist skýring
á þessu misræmi en því miður
bendir hér allt til þess að um tolla-
svindl sé að ræða. Hið minnsta er
ljóst að miklir vankantar eru á eft-
irliti með þessum málum. Sé það
rétt að þetta sé tollasvindl er það
ekki einungis stórfelld níðsla á ís-
lenskum landbúnaði heldur einnig
á neytendum og innflutnings-
aðilum sem fara eftir settum
reglum sem og ríkissjóði sem
verður af miklum tekjum. Þetta
mál þarf að taka föstum tökum og
kanna ofan í kjöl. Ekki á morgun, heldur í dag.
Magnið sem um ræðir hleypur á hundruðum
tonna. Ótal aðferðum er beitt. Nú er t.a.m. fyrir
dómi fyrirtæki sem grunað er um að hafa rang-
lega skráð innflutt kjöt sem kjöt með beini í
staðinn fyrir beinlaust kjöt við tollskráningu.
Mismunurinn vegna rangrar skráningar í þessu
eina tilviki nemur tæpum tuttugu milljónum
króna. Hvaða upphæðir ætli um sé að ræða
þegar allt er tekið saman?
Strax er ekki teygjanlegt hugtak
Það er ekki lengur hægt að sitja og bíða og
sjá til og skrifa skýrslur. Það þarf að bregðast
við, strax. Bæði hvað varðar tollasamninginn og
misræmið, þótt óskyld mál sé um að ræða. Það
er ekki hægt að krefja bændur endalaust um
aukna hagræðingu án þess að það bitni hrein-
lega á gæðum framleiðslunnar eða eðli hennar,
við erum að hagræða í okkar rekstri alla daga
til að halda sjó nú þegar. Það þarf að tryggja
hér eðlilegt samkeppnisumhverfi og þar vega
tollamálin hvað þyngst. Það er ekki óeðlileg
krafa að ætlast til þess að heildarhagsmunir Ís-
lands séu í huga okkar fólks við gerð alþjóð-
legra samninga. Og það er ekki óeðlileg krafa
að ætlast til þess að farið sé eftir settum leik-
reglum. Nú er tími til að taka til.
Eftir Arnar Árnason
» Ljóst er á orðum stjórn-
málafólks að það tekur
undir kröfur bænda um að
þennan samning þarf að end-
urskoða, enda allar forsendur
hans brostnar.
Arnar Árnason
Höfundur er formaður Landssambands kúabænda.
Tiltekt í tollamálum
Á undanförnum mán-
uðum höfum við verið
rækilega minnt á það
mikilvæga hlutverk sem
hið opinbera gegnir á
mörgum sviðum. Rétt
eins og kórónuveiruf-
araldurinn lenti sem
höggbylgja á atvinnulíf-
inu hefur hann haft í för
með sér gríðarlegar
áskoranir fyrir alla
starfsemi og innviði
hins opinbera. Þetta á ekki síst við
um þá starfsemi sem felst í félagslegu
öryggisneti og mikilvægri grunnþjón-
ustu.
Framleiðni er lykilorðið
Fram undan eru svo fleiri áskor-
anir og það er í þessu ljósi sem Við-
skiptaráð Íslands hefur gefið út ritið
„Hið opinbera: Meira fyrir minna“.
Að mörgu leyti stendur hið opinbera
styrkum fótum, en því má ekki
gleyma að ávallt þarf að leita tæki-
færa til að bæta þá mikilvægu þjón-
ustu sem það veitir. Þetta er ekki síst
mikilvægt þegar illa árar. Í ritinu er
lögð áhersla á það hvernig bæta megi
verklag, nýta tækni og aðlagast
breytingum í samfélaginu hratt og
örugglega.
Framleiðni er þar lykilorðið. Aukin
framleiðni er grunnforsenda allra
framfara, en engu að síður heyrist
það orð of sjaldan þegar rætt er um
hið opinbera. Í samkeppnisrekstri
fyrirtækja er slíkt ekki í boði þar sem
sá sem dregst aftur úr í framleiðni
mun einfaldlega verða
undir í samkeppni,
missa viðskipti og að
endingu leggja upp
laupana. Annað gildir
um hið opinbera sem
býr ekki við sama að-
hald neytenda.
Vandasöm meðferð
skattfjár
Ekki er þar með sagt
að hið opinbera þurfi
ekki að sníða sér stakk
eftir vexti. Jafnvel má
segja að gera ætti ríkari kröfu um
framleiðni til hins opinbera en einka-
fyrirtækja í ljósi þess að starfsemi
þess er fjármögnuð af skattgreið-
endum. Líkt og fram kemur í ritinu
eru merki um að hið opinbera hafi
dregist aftur úr þegar litið er til fram-
leiðni.
Fleira dregur úr hvata til aukinnar
framleiðni hins opinbera, til dæmis sí-
felldur þrýstingur um aukin fjár-
framlög úr ríkissjóði. Þetta bera um-
sagnir um fjárlög glögglega með sér.
Eðlilegt er að reglulega komi aukin
fjárframlög í tiltekna málaflokka til
skoðunar, en hafa ber í huga, líkt og í
öðrum rekstri, að aukin útgjöld jafn-
gilda ekki alltaf auknum árangri og á
sama tíma gæti þurft að draga úr
þeim á öðrum stöðum. Sjaldan heyr-
ast hugmyndir um slíkt og oft er
gengið út frá því að tekjuöflunarleiðir
hins opinbera séu óendanlegar. Á Ís-
landi er skattheimta nú þegar með
mesta móti í alþjóðlegum samanburði
svo lítið svigrúm er fyrir aukna tekju-
öflun ríkis og sveitarfélaga. Við blasir
að eina leiðin til að svara ákalli um
aukin útgjöld er með því að auka skil-
virkni í rekstri hins opinbera.
Leiðarljós hins opinbera
til framtíðar
Til að auka framleiðni hjá hinu
opinbera þarf að ráðast í fjölbreyttar
aðgerðir. Í skýrslu Viðskiptaráðs eru
settar fram margvíslegar tillögur
eins og um hækkun lífeyrisaldurs,
sameiningar og breytt tekjumódel
sveitarfélaga, aukin samvinna einka-
og opinberra aðila, innleiðing staf-
rænna lausna og forgangsröðun í
þágu grunnþjónustu, svo eitthvað sé
nefnt.
Þrátt fyrir að við stöndum frammi
fyrir miklum áhrifum af Covid-19 á
allt samfélagið er um tímabundna
áskorun að ræða og því mikilvægt að
missa ekki sjónar á langtímaviðfangs-
efnum í rekstri hins opinbera. Tíminn
til að ræða og rýna í hlutverk hins op-
inbera er ekki aðeins núna, heldur nú
sem endranær. „Hið opinbera: Meira
fyrir minna“ er innlegg Viðskiptaráðs
Íslands í þá umræðu.
Eftir Ara Fenger » Aukin framleiðni er
grunnforsenda allra
framfara, en engu að síð-
ur heyrist það orð of
sjaldan þegar rætt er um
hið opinbera.
Ari Fenger
Höfundur er formaður
Viðskiptaráðs Íslands.
Meira fyrir minna –
öllum til hagsbóta
Miðflokkurinn er andvígur
frumvarpi dómsmálaráðherra
um mannanöfn. Frumvarpið
vegur að íslenskri nafnahefð og
er íslenskri tungu óþarft og
skaðlegt. Einkum tvennt veldur
áhyggjum. Í fyrsta lagi stendur
til að heimila öllum að taka upp
ættarnafn. Afleiðingin getur
orðið sú að okkar helsta sér-
kenni, föðurnafn og móðurnafn,
muni hverfa smátt og smátt. Í
öðru lagi munu breytingarnar
hafa neikvæð áhrif á íslenskuna. Nöfn og
beyging þeirra eru jafn mikilvæg og annar
íslenskur orðaforði. Riðlist beygingakerfið
fer að hrikta í stoðum íslenskrar tungu. Ís-
lensk mannanöfn eru hluti íslensks máls og
því er það stór þáttur í verndun málsins að
íslensk mannanöfn samræmist íslensku
beygingakerfi. Þetta hefur okkar helsti sér-
fræðingur í mannanöfnum dr. Guðrún Kvar-
an bent á. Miðflokkurinn er ekki á móti því
að mannanafnalögin verði lagfærð og leggur
til að nefnd sérfræðinga verði falið að fara
yfir gildandi lög og laga þau skynsamlega að
breyttum tímum. Þetta þarf að gera með
varðveislu íslenskrar tungu og mannanafna-
hefðar í öndvegi.
Millinöfn og ættarnöfn
Á Alþingi benti ég á tvö atriði sem fóru
fyrir brjóstið á fyrrverandi prófessor í ís-
lensku, Eiríki Rögnvaldssyni. Prófessorinn
fór mikinn og sakaði mig og annan þingmann
til um „fáfræði“, „belging“ og að „vera úti á
túni“ í viðtali á vefsíðunni vísir.is. Fjallaði ég
um millinöfn en millinafn er ekki annað nafn
af tveimur heldur nafn sem líkist ættarnafni.
Millinöfn voru heimiluð árið 1996. Allmörg
hafa verið samþykkt síðan og margir líta á
þau sem ættarnöfn eða kenninöfn, þ.e.
sleppa að nota föður- eða móðurnafnið. Verði
ættarnöfnum sleppt lausum er augljóst hvert
stefnir. Það sýnir reynslan af millinöfnum.
Einnig ræddi ég um stafsetningu og mál-
fræði og sagði að það væri engin ástæða til
þess að undanskilja mannanöfn. Um þetta
sagði prófessorinn: „Það eru til reglur, en
ekki lög, um stafsetningu, en
það eru engar opinberar reglur
um málfræði. Og almenningur
má stafsetja orð eftir eigin
höfði.“ Hér fer íslenskufræðing-
urinn með rangt mál. Um staf-
setningu er fjallað í lögum nr. 61
frá 2011 (Lög um stöðu ís-
lenskra tungu og íslensks tákn-
máls). Í 6. grein er fjallað um Ís-
lenska málnefnd. Þar stendur
um stafsetningu: Íslensk mál-
nefnd semur íslenskar ritreglur
sem gilda m.a. um stafsetning-
arkennslu í skólum og ráðherra
gefur út. Grundvallarbreytingar á ritreglum
eru háðar samþykki ráðherra. Lög standa til
þess að víða skuli nota íslenska tungu sbr. 8
gr. laganna.
Metnaðarleysi íslenskuprófessors
Frumvarp dómsmálaráðherra Sjálfstæðis-
flokksins, sem lítur út eins og því hafi verið
hnuplað úr ranni Viðreisnar, er ekki liður í
að styðja íslenska tungu, sem á undir högg
að sækja eins og margoft hefur verið bent á.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ríkisstjórnin
vegur að íslenskri nafnahefð. Með nýlegri
samþykkt laga um kynrænt sjálfræði var
ákvæðið um að stúlkum skuli gefa kven-
mannsnafn og drengjum karlmannsnafn fellt
úr gildi. Mannanafnanefnd sagði að með því
hafi verið vegið að íslenskri nafnahefð. Nú
megi sem dæmi nefna dreng Þorgerði og
stúlku Sigurð. Íslensk nafnahefð er einstök á
heimsvísu, einkum ef horft til smæðar þjóð-
arinnar, og vekur ávallt jákvæða athygli.
Þetta þekkja þeir sem hafa búið erlendis.
Prófessorinn má hafa uppi hver þau stóryrði
sem hann kýs en hann mætti huga betur að
skyldum sínum við íslenska tungu.
Eftir Birgi Þórarinsson
» Þetta er ekki í fyrsta sinn
sem ríkisstjórnin vegur að
íslenskri nafnahefð.
Birgir Þórarinsson
Höfundur er þingmaður
Miðflokksins í Suðurkjördæmi.
birgirth@althingi.is
Um íslensk mannanöfn
og stóryrtan prófessor
Skuldir Reykjavík-
urborgar hækkuðu
hressilega í góð-
ærinu. Meira en
milljarð á mánuði.
Engu að síður til-
kynnti borgin hagn-
að. Hvernig gat
þetta staðist? Ein
helsta „hagnaðar-
lind“ borgarinnar
síðustu árin hefur
verið endurmat á félagslegu hús-
næði. Endurmatið hefur skilað
borginni pappírshagnaði og
stendur matshækkun félagslegra
íbúða nú í 52 milljörðum króna.
Það er stjarnfræðileg tala. Beitt
er svonefndum IFRS-aðferðum
þar sem íbúðirnar eru metnar á
markaðsvirði þótt þær séu ekki
til sölu. Einar S. Hálfdánarson
hefur sem fulltrúi í endur-
skoðunarnefnd gagnrýnt þetta og
ekki síður það ósamræmi sem er
í samstæðureikningi borgarinnar
þar sem sumt er gert upp með
IFRS-aðferð en annað ekki. Nú
hefur reikningsskila- og upplýs-
inganefnd sveitarfélaga úrskurð-
að um málið. Niðurstaðan er sú
að Reykjavíkurborg ber að gera
upp samstæðureikning sinn þann-
ig að samræmi sé í uppgjörs-
aðferðinni. Það kann að vera
þægilegt að veifa tugmilljarða
hagnaði í fréttatilkynningum, en
raunveruleikinn er sá að borgin
skuldar gríðarlega fjármuni.
Skuldahlutfall sam-
stæðu borgarinnar
er langt umfram ná-
grannasveitarfélögin.
Sú aðferð að flytja
skuldsett verkefni
eins og félagslegt
húsnæði í dóttur-
félag gagnast ekki í
reynd. Reykjavík-
urborg er í ábyrgð
fyrir meira en
hundrað milljarða
skuldum dótt-
urfélaga á borð við Orkuveitu
Reykjavíkur, Félagsbústaði og
SORPU. Það er því engin leið að
horfa eingöngu á borgarsjóð.
Skoða þarf heildarmyndina. Á
síðasta fundi borgarstjórnar ósk-
uðum við borgarfulltrúar
Sjálfstæðisflokksins eftir að Ein-
ar S. Hálfdánarson tæki sæti á
ný í endurskoðunarnefnd, en
hann fór úr nefndinni á meðan
úrskuðað var í málinu. Þá bar svo
við að borgarstjóri beitti sér fyrir
því að ekki yrði kosið í nefndina,
þvert á hefðir og venjur um slíkt.
Það kann aldrei góðri lukku að
stýra að skjóta sendiboðann. Það
er komið að því að borgarstjóri
standi reikningsskil gjörða sinna.
Reikningsskil
gjörðanna
Eftir Eyþór
Arnalds
Eyþór Arnalds
»Raunveruleikinn er
sá að borgin skuldar
gríðarlega fjármuni.
Höfundur er oddviti sjálfstæðis-
manna í borgarstjórn.