Morgunblaðið - 28.10.2020, Qupperneq 10
10 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 28. OKTÓBER 2020FRÉTTIR
Ég á erfitt með að gera upp á milli
þeirra, en hallast samt að því að
rapparinn RM, Kim Namjoon fullu
nafni, sé sætasti liðsmaður kóreska
strákabandsins BTS. Piltarnir sjö
eru allir svakalegir rúsínurassar en
spékopparnir hjá forsprakkanum
RM fara alveg með mig. Er ekki að
furða að BTS skuli vera orðið ein
þekktasta útflutningsvara Suður-
Kóreu og að hljómsveitin eigi skara
af æstum aðdáendum um allan heim.
Heljarinnar iðnaður hefur orðið til
í Suður-Kóreu í kringum stráka- og
stelpubönd en þar starfa voldug
fyrirtæki sem sérhæfa sig í því að
finna efnilega unga söngvara og
dansara, þjálfa þá og móta á alla
mögulega vegu, raða þeim í hljóm-
sveitir og síðan dæla út hverjum
smellinum á fætur öðrum. Lengst af
var kóreska poppið, K-Pop, fyr-
irbæri sem einskorðaðist við Austur-
Asíumarkað en á undanförnum árum
hefur það orðið ljóst að krúttlegir
Kóreubúar sem kunna að dansa og
syngja eru afþreyingarvara sem
selst í öllum heimshornum. Þegar
BTS sendi frá sér smellinn "Dyna-
mite" í sumar – fyrsta lagið sem þeir
syngja alfarið á ensku – sló tónlistar-
myndbandið áhorfsmet strax á
fyrstu mínútunum eftir frumsýningu
á YouTube.
Viðtökurnar voru af svipuðum
toga þegar Big Hit Entertainment,
fyrirtækið á bak við BTS, var skráð í
kauphöllina í Seúl fyrir tveimur vik-
um. Frumútboð Big Hit er það
stærsta í Suður-Kóreu í þrjú ár en á
fyrsta viðskiptadegi hækkaði hluta-
bréfaverð félagsins um 160% þegar
mest lét og endaði daginn 90% yfir
útboðsverði. Munaði þar mest um
hlutabréfakaup eldheitra aðdáenda
sem vilja allt gera til að stjörnunum
þeirra farnist vel en strákarnir sjö í
BTS högnuðust hver um sig um
margar milljónir dala í útboðinu.
Að sögn FT eru markaðs-
greinendur á báðum áttum um fram-
tíð Big Hit enda hlutabréfaverðið
núna um 60-70 sinnum hærra en
væntar tekjur á komandi ári. Er það
langtum hærra hlutfall en hjá öðrum
fyrirtækjum í sama bransa og miðað
við þessi verð má ætla að BTS-
guttarnir verði komnir með hrukkur,
bumbu og grátt hár þegar hluthafar
hafa loksins fengið fjárfestingu sína
til baka. Til samanburðar nemur
hlutabréfaverð Samsung, stærsta
fyrirtækis Suður-Kóreu, aðeins átt-
földum væntum tekjum alþjóðlega
raftækjarisans.
Snúið að erfa margfaldan
milljarðamæring
Talandi um Samsung þá bárust
þær fréttir á sunnudag að Lee Kun-
hee, stjórnarformaður félagsins,
væri látinn. Að vísu má deila um það
hversu mikill lífsþróttur hefur verið í
Lee frá því hann fékk hjartaáfall árið
2014 en hann var eftir það geymdur
og falinn á spítala í eigu Samsung-
veldisins. Er almennt talið að Lee
hafi verið löngu búinn að kveðja en
verið tengdur við vélar sem héldu
honum tæknilega á lífi allan þennan
tíma. Samt var Lee áfram stjórn-
arformaður og valdamesti hluthafi
Samsung og alls ekki að ástæðulausu
að erfingjar hans skyldu ekki fyrir
löngu hafa slökkt á tækjunum. Að
erfa ríkasta mann Suður-Kóreu er
nefnilega ekkert grín og fram undan
er mjög snúið tímabil hjá syninum
Lee Jae-yong sem tók við stjórn-
artaumunum hjá Samsung þegar
faðir hans hvarf af sjónarsviðinu. Er
Jae-yong í þeirri undarlegu stöðu að
því betur sem Samsung vegnar, því
erfiðara reynist honum að taka við
arfinum og halda völdum sínum inn-
an félagsins.
Samsung hefur farnast einkar vel
á undanförnum tveimur árum og hélt
hlutabréfaverðið bara áfram að
hækka á kórónuveiruárinu. Hálfleið-
araframleiðsla fyrirtækisins hefur
eflst, þökk sé erfiðleikum Huawei
sem hefur neyðst til að birgja sig upp
af íhlutum vegna æ harðari þving-
unaraðgerða bandarískra stjórn-
valda og í þeim löndum þar sem Hua-
wei hefur verið skikkað til að hörfa af
mörkuðum hefur Samsung fyllt í
skarðið með símum sínum og raf-
tækjum. Sjónvarpstæki Samsung
rjúka líka út og skýrist kannski af því
að heimsbyggðin hefur þurft að húka
heima í faraldrinum og fátt betra en
sjónvarpsgláp til að stytta sér stund-
ir í einangrun.
Til að bæta gráu ofan á svart snar-
hækkaði hlutabréfaverð Samsung
þegar fréttist af andláti stjórnarfor-
mannsins. Ástæðan er sú að fjár-
festar reikna með að samsteypan
muni núna reyna að hækka arð-
greiðslur eins og frekast er unnt svo
erfingjar Lee Kun-hee eigi auðveld-
ara með að greiða himinháan erfða-
fjárskatt.
Í Suður-Kóreu er skattur á arf
með því hæsta sem þekkist og fer
upp í allt að 65%. Eignarhlutur Lee
heitins er a.m.k. 16 milljarða dala
virði og koma því um og yfir 10,5
milljarðar í hlut ríkisins. Erfingj-
arnir eiga þess kost að dreifa
greiðslum á fimm ár og hentar þeim
miklu betur að borga sem mest af
skattaskuldinni með því að kreista
hámarksarð út úr Samsung frekar
en að selja frá sér hluti og minnka
ítök sín í félaginu sem fjölskyldan
hefur stýrt frá stofnun þess.
Hagkerfi borið uppi af risum
Andlát Lee Kun-hee gefur líka til-
efni til að athuga hvert hagkerfi Suð-
ur-Kóreu stefnir og hvar veik-
leikamerki eru farin að koma í ljós,
nú þegar ný kynslóð er að taka við
völdum í atvinnulífinu.
Er ágætt að rifja það upp með les-
endum hve undraverður viðsnún-
ingur átti sér stað í landinu eftir Kór-
eustríð. Að stríði loknu var Kóreu
skipt í tvennt og við skilnaðinn fékk
norðrið allar bestu eignirnar í búinu:
kol, olíu og ræktarland, og að auki
stuðning kommúnistanna í Kína og
Sovétríkjunum. Þegar hershöfðing-
inn Park Chung-hee hrifsaði til sín
völdin vorið 1961 var Suður-Kórea í
hópi fátækustu ríkja heims og
ástandið þar svo ömurlegt að landið
þurfti að þiggja neyðaraðstoð svo að
íbúarnir syltu ekki.
Það kom efnahagnum á skrið að
Suður-Kóreubúar urðu mikilvægir
bandamenn Bandaríkjanna í þessum
heimshluta og fengu hjá þeim fé sem
nýtt var til að byggja innviði og bæta
menntun í landinu. Mestu skipti þó
að Park markaði þá stefnu að byggja
upp öflugan iðnað í landinu, sem
hann gerði með því að beina alls kon-
ar fríðindum til hóps burðugra fjöl-
skyldufyrirtækja – chaebol eins og
þau eru kölluð í dag. Hagkerfið var
látið vera tiltölulega opið og sköttum
stillt í hóf svo erlendir aðilar gætu átt
auðvelt með að hefja þar rekstur ef
þeir kærðu sig um, en chaebol-
fyrirtækjunum stóð til boða rík-
isábyrgð á lánum, ívilnanir og svig-
rúm svo þau gætu stækkað sem
hraðast. Smám saman fór allt hag-
kerfið að hverfast um nokkrar risa-
stórar samsteypur sem teygðu anga
sína til allra geira atvinnulífsins. Er
nú svo komið að þrjár stærstu chae-
bol-samsteypurnar: Samsung, Hy-
undai og LG, mynda um tvo-þriðju af
hagkerfi landsins.
Gallar í formúlunni
að koma í ljós
Útkoman er mjög óvenjulegt hag-
kerfi: Landið er leiðandi í alls konar
iðnaði og hátækniframleiðslu en aft-
arlega á merinni þegar kemur að
þjónustu og fjármálum; á hálfri öld
komst Suður-Kórea í hóp ríkustu
þjóða en vinnuharkan er svakaleg og
framleiðni vinnuafls undir meðaltali
OECD; margt er bogið við samkrull
stjórnvalda og risafyrirtækjanna og
spillingarmálin bæði mörg og alvar-
leg; skólarnir dæla út framúrskar-
andi námsmönnum sem gætu lagt
heiminn að fótum sér en dreymir um
að komast í gott starf hjá samsteypu
frekar en að láta að sér kveða sem
frumkvöðlar.
Slæmt ár hjá einu af stærstu fyr-
irtækjunum getur veiklað allt hag-
kerfið og þrátt fyrir að selja vörur
sínar um allan heim eru flest þeirra
orðin svo þunglamaleg og ofvaxin að
þau skila sáralitlum hagnaði. Um leið
eru risarnir svo fyrirferðarmiklir og
alltumlykjandi í hagkerfinu að þeir
eru eins og risafurur sem hleypa
engu ljósi niður á skógarbotninn svo
lággróðurinn visnar. Það að kaup-
hallarskráning poppstjörnufyrirtæk-
isins Big Hit skyldi vera sú stærsta í
landinu í þrjú ár sýnir vel hve lítið er
um það að efnileg ný fyrirtæki komi
fram á sjónarsviðið.
Viðvörunarljósin blikka víða og
ekki erfitt að sjá hvernig sú hálf-
miðstýrða stefna sem leiddi til um 7-
10% hagvaxtar árlega undanfarna
hálfa öld muni ekki reynast eins vel á
þessari öld. Formúlan virðist ekki
eiga við lengur og hætt við að liprari
og frjórri keppinautar í öðrum lönd-
um eigi eftir að skjóta þunglamalegu
kóresku samsteypunum ref fyrir
rass.
Að því leyti minnir chaebol-
efnahagsstefnan á formúlutónlist K-
Pop-bandanna. Formúlan virkar eins
og stendur, en frumleikann og fjöl-
breytnina vantar og þó að allt leiki í
lyndi í augnablikinu má þegar greina
merki um að glansinn sé farinn að
minnka og komin þreyta í áheyr-
endur. Svo gerist það einn daginn að
eitthvað allt annað og miklu betra
sprettur upp úr grasrótinni; miklu
áhugaverðara og meira grípandi, svo
hann RM minn með sætu spékopp-
ana sína mun ekki vita hvaðan á sig
stendur veðrið.
Erfa eintóm
vandræði frá
Lee Kun-hee
Ásgeir Ingvarsson
skrifar frá Mexíkóborg
ai@mbl.is
Kóreskt atvinnulíf stendur
frammi fyrir sömu veik-
leikum og kóresku stráka-
böndin: einsleitnin er of
mikil og nýsköpun af
skornum skammti.
AFP
Lee Kun-hee byggði upp Samsung-veldið með harðri hendi á síðustu áratugum. Á myndinni, sem er tekin 2008, er
hann í fullu fjöri en hjartaáfall árið 2014 lagði hann nærri að velli. Hefur hann lítið sem ekkert sést opinberlega síðan.