Morgunblaðið - 11.11.2020, Side 32
32 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 11. NÓVEMBER 2020
NÁNARI UPPLÝSINGAR GEFUR:
Katrín Theódórsdóttir
Sími: 569 1105 kata@mbl.is
Við komum víða við í ár, heimsækjum
fjölda fólks og verðummeð fullt af
spennandi efni fyrir alla aldurshópa.
Kemur út 26. 11. 2020
Morgunblaðsins
Jólablað
Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
Tónlist Franz Schuberts (1797-1828)
hefur fylgt Eddu Erlendsdóttur pí-
anóleikara síðan hún var barn. Eitt
fyrsta klassíska verkið sem hún
heyrði var af vínilplötu með for-
leiknum Rosamundu og hún segir að
enn í dag hljómi hver nóta verksins
kunnuglega. Píanókennarar hennar,
Hermína S. Kristjánsson og Árni
Kristjánsson, sem bæði höfðu lært
píanóleik í Berlín, áttu síðan mikinn
þátt í því að Edda kynntist píanó-
verkum Schuberts strax í æsku.
Edda hefur haldið sambandinu við
verk tónskálds-
ins og á dög-
unum gaf hún út
geisladisk þar
sem hún leikur
þrjár sónötur
sem Schubert
samdi árið 1817,
þegar hann var tvítugur.
Í skrifum sem fylgja diskinum
segist Edda hafa haldið áfram að
kanna dulmagnað tónmál Schuberts
og að þær þrjár sónötur sem hún
leiki í upptökunum séu henni sér-
staklega hjartfólgnar.
Oft er talað um árið 1817 sem
tímamótaár í lífi Schuberts því þrátt
fyrir ungan aldur var hann þá orðinn
fullþroska listamaður. Með aðstoð
vinar fékk hann leyfi frá starfi sem
barnaskólakennari og gat helgað sig
tónsmíðum. Þetta ár samdi hann
fyrst hvert sönglagið af öðru en síð-
an tóku við nokkrir mánuðir þar sem
hann samdi eingöngu píanóverk. Að
sögn Eddu samdi hann þá meðal
annars rondó, fantasíu, tvö scherzo,
þrettán tilbrigði, átta écossaises og
síðast en ekki síst sex sónötur. Þrjár
af þeim eru á diskinum.
Stutt í 40 ára tónleikaafmæli
Diskurinn með sónötum Schu-
berts er sá áttundi sem Edda sendir
frá sér. Nú styttist í að fjörutíu ár
verði liðin frá fyrstu einleiks-
tónleikum hennar, sem voru á Kjar-
valsstöðum 3. janúar 1981, og þar
voru verk eftir hann áberandi.
„Ég byrjaði ung að spila verk eftir
Schubert í námi hér heima en þau
voru hins vegar ekki áberandi þegar
ég hélt til framhaldsnáms í Frakk-
landi. Engu að síður hélt ég áfram
að leika tónlist Schuberts þar svo
það hlýtur að hafa verið eitthvað við
tónlistina sem talaði sterkt til mín
þá, rétt eins og nú,“ segir Edda.
„Þegar ég fór að undirbúa debút-
tónleikana mína á Kjarvalsstöðum
var Schubert fyrstur á blað. Á þeim
tónleikum tengdi ég verk tónskálda
fyrri Vínarskólans við þann seinni,
með verkum eftir bæði Schubert og
Schönberg. Ég setti saman mjög
langt prógramm og skil enn í dag
ekki hvað ég var að hugsa,“ segir
hún og hlær. „Ég var bara svo
óreynd að ég valdi það sem mig
langaði að spila. Ég var til að mynda
með þrjú Klavierstücke og eina af
sónötum Schuberts. Síðan hefur
hann fylgt mér – þótt ég hafi vita-
skuld líka leikið ótalmargt annað.“
Hljóðritað á heimilinu
Fyrstu plötur og diskar Eddu
voru gefin út af öðrum en um langt
skeið hefur hún nú kosið að gera það
sjálf, til að eiga allan rétt á upptök-
unum og geta séð til þess að þær séu
aðgengilegar. Þessi nýi diskur var
hljóðritaður í París, þar sem Edda
hefur áratugum saman átt sér annað
heimili ásamt eiginmanninum, band-
oneonleikaranum og tónskáldinu
Olivier Manoury. Og diskurinn var
hljóðritaður á heimili þeirra þar úti.
„Fyrir mér er það að gera geisla-
diska yfirleitt langt ferli og afar gef-
andi,“ segir Edda. „Það er mikill
skóli að undirbúa verk fyrir upptöku
og mikilvægt að gefa sér góðan tíma
til að kafa ofan í þau. Ég er síðan
eins og sjálfstæður trillukarl og gef
diskana út sjálf. Enginn skipar mér
fyrir verkum og þegar verkin eru
tilbúin og fullæfð þá tökum við upp.
Verkin eru þá orðin hluti af mér,
túlkunin hefur fengið að gerjast og
þroskast.“
Var það meðvituð ákvörðun Eddu
að velja saman sónötur sem Schu-
bert samdi á sama árinu?
„Nei, það kom bara í ljós eftir á.
Ég ákvað í byrjun að leika ekki þær
síðustu sónötur hans sem oftast hafa
verið fluttar og hljóðritaðar. Það
vildi bara svo til að þetta ár,1817,
samdi Schubert stóran hluta sinna
píanóverka. Þar á meðal sex sónöt-
ur! Ég var svolítið hikandi í byrjun
varðandi hverjar ég ætti að velja en
svo komu þessar þrjár til mín. Þær
eru furðuólíkar, sem er merkilegt,
sinn blærinn á hverri. Samt samdi
Schubert sónöturnar með bara
nokkurra vikna millibili. Á þessu ári
samdi hann gríðarlega mikið af pí-
anótónlist; tónlistin flæddi bara frá
honum, eins og af himnum ofan. Það
er yfirnáttúrulegt hvað hann náði að
semja mikið á sinni stuttu ævi. Þeir
Mozart voru svipaðir hvað það varð-
ar og kannski hafa báðir fundið fyrir
því að þeir ættu ekki eftir að lifa
lengi.“
Leikur á afmæli Schuberts
Veirufaraldurinn hefur haft
gríðarmikil áhrif á starf tónlistar-
fólks úti um heimsbyggðina. Edda
segist nú hafa verið hér á landi síðan
í mars og hefur ekki verið hér svo
lengi samfellt síðan hún hélt til náms
í Frakklandi. Áður en allt lokaðist í
mars náði hún að taka þátt í flutn-
ingi á verki eftir Olivier á Ísafirði en
tónleikum með verkinu sem áttu að
vera á Akureyri, í Skálholti og í
Hörpu var frestað þar til næsta vor.
Einnig var tónleikum sem hún átti
að taka þátt í á Listahátíð frestað og
eiga að vera í apríl. Edda er ánægð
með að hafa náð að koma fram á tón-
leikum Kammermúsíkklúbbsins
seint í september ásamt hópi góðra
tónlistarkvenna áður en samkomu-
bann skall aftur á. „Þetta hefur verið
mjög erfitt fyrir tónlistarfólk víða,“
segir hún. En hún hefur líka verið að
kenna hér við Listaháskólann.
„Eftir að ég fór á eftirlaun sem
kennari í Frakklandi fyrir fjórum
árum bauðst mér staða sem gesta-
kennari hér og hef ég síðan mikið
farið á milli. Ég er svo heppin að
samkennari minn, Peter Maté, er sá
besti sem hægt er að hugsa sér. Það
hefur verið gaman og gefandi að
halda áfram að kenna áhugasömum
nemendum hér. Og sem betur fer
höfum við getað kennt í haust, með
grímu, en það var langt hlé í vor.“
Edda stefnir á útgáfutónleika og
verða þeir í röðinni Sígildum sunnu-
dögum í Norðurljósum í Hörpu 31.
janúar næstkomandi. Og um leið
heldur hún upp á fjögurra áratuga
tónleikaafmælið. „Mig langaði að
hafa tónleikana í janúar og tengja
við debúttónleikana – og svo kom í
ljós að dagurinn sem ég hafði valið
er fæðingardagur Schuberts! Það
fannst mér skemmtileg tilviljun.“
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Píanóleikarinn „Það er mikill skóli að undirbúa verk fyrir upptöku og mikilvægt að gefa sér góðan tíma til að kafa
ofan í þau,“ segir Edda Erlendsdóttir um nýja diskinn. Hún hyggst halda útgáfutónleika í Hörpu í janúar.
„Langt ferli og afar gefandi“
Á nýjum geisladiski leikur Edda Erlendsdóttir píanóleikari þrjár sónötur sem Franz Schubert
samdi árið 1817 „Ég er eins og sjálfstæður trillukarl og gef diskana út sjálf,“ segir hún
Dymbrá kemur fram í Hátíðasal
Aðalbyggingar Háskóla Íslands í
dag kl. 12.15. Í ljósi yfirstandandi
samkomutakmarkana verður tón-
leikunum streymt á vefnum
https://livestream.com/hi/dymbra
þar sem einnig má horfa á upptök-
una síðar.
Dymbrá, sem vakti verðskuldaða
athygli á Músíktilraunum 2018,
skipa þær Nína Solveig Andersen á
fiðlu, Eir Ólafsdóttir á selló og
Eyrún Úa Þorbjörnsdóttir á flautu.
„Meðlimir eru nú, tveimur árum
síðar, ekki nema átján ára en hafa
þegar gefið út burðuga plötu sem
inniheldur dökkleita og draum-
kennda kammertónlist. Falleg,
þjóðlagabundin ára leikur um hana
og lög eru brotin upp óhikað með
rafstemmum og öðru slíku skrauti,
tilraunamennska í hávegum höfð á
sama tíma og byggingu og meló-
díum er haldið. Stemningin er
hreint út sagt ævintýraleg á köfl-
um,“ segir í tilkynningu.
Dymbrá leikur á Háskólatónleikum í dag
Tilraunamennska Ungsveitin Dymbrá.
Nýjasta skáld-
saga Sigríðar
Hagalín Björns-
dóttur, Eldarnir.
Ástin og aðrar
hamfarir, verður
í brennidepli í
Menningu á mið-
vikudögum í dag.
Í streymi sem
hefst kl. 12.15 og
nálgast má á
facebooksíðu Menningarhúsanna í
Kópavogi mun Sigríður Hagalín lesa
úr skáldsögu sinni og m.a. ræða við
Maríönnu Clöru Lúthersdóttur bók-
menntafræðing um sköpunarferlið.
Í skáldsögunni skekja jarð-
skjálftar Reykjanesskaga og eldfjöll
vakna til lífsins eftir 800 ára hlé. Í
forgrunni er eldfjallafræðingurinn
Anna Arnardóttir, forstöðumaður
Jarðvísindastofnunar, sem þarf að
takast á við stærsta verkefni ferils-
ins við stjórn almannavarna. Eld-
arnir eru þriðja skáldsaga Sigríðar
Hagalín, sem áður hefur vakið verð-
skuldaða athygli fyrir Hið heilaga
orð og Eyland, sem þýdd hefur verið
m.a. á frönsku, þýsku og pólsku.
Sigríður Hagalín ræðir um nýjustu bók sína
Sigríður Hagalín
Björnsdóttir