Morgunblaðið - 22.12.2020, Blaðsíða 33
ÍÞRÓTTIR 33
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 22. DESEMBER 2020
Manchester United vann
6:2-sigur á gömlu fjendunum í
Leeds í ensku úrvalsdeildinni í
fótbolta á sunnudaginn var í
ótrúlegum leik. Minnti leikurinn
helst á körfubolta þar sem bæði
lið virtust skapa sér góð færi í
hvert skipti sem farið var yfir
miðju.
Manchester-liðið átti 26
skot í leiknum, þar af 14 á ramm-
ann, og Leeds átti 17 skot. Þá
fékk Leeds 13 hornspyrnur og
United 11. Þetta var fjör frá fyrstu
mínútu enda var staðan orðin 2:0
eftir tæpar þrjár mínútur.
Það hefur verið stór-
skemmtilegt að fylgjast með ný-
liðum Leeds á þessari leiktíð
undir stjórn Marcelo Bielsa. Það
er aðeins ein leikaðferð og það er
að sækja og sækja. Ef það geng-
ur ekki, er plan B einfaldlega að
gera plan A betur.
Bielsa tók við liði sem var
meðallið í B-deildinni og var
snöggur að gera það að einu af
skemmtilegustu liðum deild-
arinnar. Hann kom því síðan upp í
úrvalsdeildina á sínu öðru tíma-
bili. Margir leikmenn liðsins voru
meðalmenn í B-deild þegar
Bielsa tók við og flestir þeirra
skipa liðið enn í dag.
Það er því skiljanlegt að liðið
fái stundum skell á móti sterkum
liðum eins og Manchester United
og sérstaklega þegar þrír bestu
miðverðir liðsins eru meiddir. Ég
vil frekar að liðið mitt mæti á Old
Trafford og tapi 2:6 í stór-
skemmtilegum leik, en að það
pakki í vörn og tapi 0:1 í hund-
leiðinlegum leik.
Í leiknum á undan vann Leeds
5:2-sigur á Newcastle og getur
því brugðið til beggja vona. Eitt
er víst, manni leiðist ekki yfir
leikjum Leeds og hinn íhaldssami
Bielsa mun engu breyta, sem
betur fer.
BAKVÖRÐUR
Jóhann Ingi
Hafþórsson
johanningi@mbl.is
HANDBOLTI
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Handknattleiksmaðurinn Ómar Ingi Magnússon
skipti yfir úr danska meistaraliðinu í Álaborg og til
þýska félagsins Magdeburg fyrir leiktíðina.
Landsliðsmaðurinn hefur leikið mjög vel með
Magdeburg og er hann í níunda sæti yfir marka-
hæstu menn í þýsku 1. deildinni, en hún er ein sú
allra sterkasta í heiminum. Liðið hefur unnið sex
síðustu leiki sína í öllum keppnum eftir erfiða byrj-
un.
„Við byrjuðum frekar illa og vorum með fjögur
töp eftir fyrstu átta leikina sem var ekki nógu gott
en síðustu leikir hafa verið öllu betri hjá liðinu. Það
hefur verið ágætisgangur í þessu upp á síðkastið.
Við höfum spilað betur. Það er alltaf endalaust af
atriðum sem er hægt að laga og við erum að tjasla
þeim saman,“ sagði Selfyssingurinn í samtali við
Morgunblaðið.
Ekki mikilvægast að skora mörk
Ómar Ingi var einn besti leikmaður dönsku úr-
valsdeildarinnar og hefur hann haldið uppteknum
hætti með Magdeburg. Ómar hefur skorað 69
mörk í 12 leikjum í deildinni á leiktíðinni og þá hef-
ur hann skorað 23 mörk í fimm leikjum í Evr-
ópudeildinni og er markahæstur í sínu liði í báðum
keppnum. Ómar er skiljanlega ánægður með
markaskorunina, en segir hana ekki endilega aðal-
atriðið.
„Ég hef alltaf spilað vel, sama hvar ég er. Það
eru þær væntingar sem ég geri til sjálfs mín. Að
vera markahæstur er fyrir mér hluti af leiknum en
það er ekki allur leikurinn. Fyrir mér snýst þetta
um að taka réttar ákvarðanir og nýta þær stöður
sem koma upp á vellinum og hvort sem það er að
skora mörk eða gefa boltann á ákveðna staði til að
búa til fyrir aðra þá finnst mér þetta snúast um
það. Auðvitað er gaman að skora mörk og maður
þarf að skora úr sínum skotum en þetta snýst um
meira en bara að skora.“
Ómari hefur gengið vel að fóta sig í þýsku deild-
inni sem er töluvert sterkari en sú danska. „Það er
öðruvísi stíll yfir handboltanum yfir höfuð. Leik-
mennirnir eru stærri og sterkari og það er meiri
taktík hérna og að því leyti er þessi deild betri.
Meðalleikmaðurinn í þessari deild er líka betri en í
Danmörku. Það eru fleiri lið sem geta verið al-
vörumótherjar, en þetta hefur gengið vel.“
Mikil handboltaborg
Alfreð Gíslason var þjálfari Magdeburg frá 1999
til 2006. Undir hans stjórn náði félagið sínum besta
árangri í sögunni og varð m.a. þýskur meistari í
fyrsta og eina skiptið árið 2001 og Evrópumeistari
árið eftir. Um 240.000 manns búa í Magdeburg og
er handknattleikur gríðarlega vinsæll í borginni og
félagið stolt hennar.
„Maður finnur fyrir því að þetta er sögufrægur
klúbbur með flotta sögu. Það er gríðarleg stemn-
ing fyrir handboltanum í borginni og það er mikið
stolt í félaginu. Álaborg er líka mjög flottur klúbb-
ur og að einhverju leyti er þetta svipað, en það er
öðruvísi stemning yfir hlutunum. Það þýðir mikið
fyrir bæinn að handboltaliðinu gengur vel, hann er
rosalega vinsæll og það er gaman. Það er léttara
yfir fólki eftir sigurleiki og á sama tíma eru menn
vel fúlir eftir töp,“ sagði Ómar, en hann hefur ekki
enn fengið að heyra það á götunni frá stuðnings-
manni eftir tapleik, enda heimsfaraldur í gangi.
„Ég hef ekki lent í því og ég hef heldur ekki fengið
að upplifa það að spila fyrir fullri höll. Það er talað
um að þetta sé einn erfiðasti útivöllurinn til að fara
á fyrir hin liðin út af góðri stemningu,“ sagði Ómar.
Ómar er ekki eini Íslendingurinn hjá Magde-
burg því Gísli Þorgeir Kristjánsson kom til félags-
ins frá Kiel á árinu. Þeir félagar hjá landsliðinu
hafa náð vel saman. „Ég næ vel saman við Gísla og
hann er búinn að vera flottur,“ sagði Selfyssing-
urinn, sem er spenntur fyrir HM í Egyptalandi, en
hann var í 21 manns landsliðshópi liðsins fyrir mót-
ið í byrjun næsta árs. „Ég hlakka til, þetta verður
fjör, eins og öll stórmót eru, og ég er mjög spennt-
ur,“ sagði Ómar Ingi Magnússon.
Snýst um meira en að skora
Ómar Ingi hefur farið
vel af stað í Þýskalandi
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Mörk Ómar Ingi Magnússon er markahæstur hjá
Magdeburg á sínu fyrsta tímabili í Þýskalandi.
Sjö smit greindust hjá leikmönnum
og starfsliði félaganna tuttugu í
ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu
í síðustu viku en alls voru 1.569 ein-
staklingar skimaðir fyrir kórónu-
veirunni dagana 14. til 20. desem-
ber.
Í síðustu viku greindust sex ný
smit og aðra vikuna í röð greinast
færri en tíu smit í deildinni, en vik-
urnar á undan voru þau fleiri en
tíu. Í tilkynningu frá úrvalsdeild-
inni segir að viðkomandi sjö aðilar
fari í tíu daga einangrun.
Sjö ný smit í
ensku deildinni
AFP
Smit Newcastle hefur orðið illa
fyrir barðinu á kórónuveirunni.
Þrír leikmenn Evrópumeistara
Noregs eru í úrvalsliði Evrópumóts
kvenna í handbolta sem lauk á
sunnudag með 22:20-sigri Noregs á
Frökkum í úrslitaleik. Þórir Her-
geirsson þjálfar norska liðið. Nora
Mørk, sem varð markahæst á
mótinu með 52 mörk, var á sínum
stað í liðinu og sömuleiðis fyrirlið-
inn Stine Offtedal og Camilla Her-
rem. Þá var Estelle Minko hjá
Frakklandi valin mikilvægasti leik-
maður mótsins þrátt fyrir að hún
væri ekki í úrvalsliðinu.
Þrjár norskar
í úrvalsliði EM
AFP
Markahæst Nora Mørk varð
markahæst á EM með 52 mörk.
Starfshópur sem stjórn KSÍ skipaði
fyrir ári til að meta þá kosti sem
nefndir hafa verið um mögulegar
breytingar á keppnisfyrirkomulagi í
úrvalsdeild karla mælir með því að
leikjum í deildinni verði fjölgað úr 22
í 27 á hvert lið frá og með árinu 2022.
Í skýrslu starfshópsins sem birt
var í gær var farið yfir þá sex kosti
sem helst væru fyrir hendi til leng-
ingar tímabilsins. Þrír þeirra hefðu
síðan verið valdir til ítarlegri um-
fjöllunar og að lokum hefði þessi
staðið eftir sem sá vænlegasti.
Þar er miðað við að áfram verði
tólf lið í deildinni en að loknum hefð-
bundnum tveimur umferðum taki
við úrslitakeppni þar sem sex efri
liðin leiki einfalda umferð innbyrðis,
fimm leiki á lið, og sex neðri liðin á
sama hátt. Þau taki með sér öll stig
úr fyrri hluta mótsins og liðin í
þremur efstu sætum í hvorum hluta
leiki þrjá heimaleiki en hin liðin tvo
heimaleiki.
Tveir möguleikar eru taldir fyrir
hendi með lengingu tímabilsins,
verði leikið samkvæmt þessu fyr-
irkomulagi. Leika frá 15. mars og
fram í byrjun október, eða frá 1. apr-
íl og fram í lok október.
Hinir tveir kostirnir sem „komust
í úrslit“ voru tíu liða deild með þre-
faldri umferð og fjórtán liða deild
með tvöfaldri umferð.
Verður bætt
við úrslita-
umferð?
Chelsea fór upp í fimmta sæti ensku
úrvalsdeildarinnar í fótbolta með
3:0-sigri á West Ham á heimavelli í
Lundúnaslag í gærkvöld. Sigurinn
var kærkominn fyrir lærisveina
Franks Lampards eftir tvö töp í röð.
Chelsea er með 25 stig, sex stigum á
eftir toppliði Liverpool, en West
Ham er í tíunda sæti með 21 stig.
Brasilíski varnarmaðurinn Thiago
Silva, sem kom til Chelsea fyrir leik-
tíðina á frjálsri sölu, kom liðinu yfir á
10. mínútu og enski framherjinn
Tammy Abraham gulltryggði sig-
urinn með tveimur mörkum á tveim-
ur mínútum á lokakaflanum. Næsti
leikur Chelsea er stórleikur annan í
jólum gegn Arsenal.
Þá er Burnley komið upp úr fall-
sæti eftir 2:1-sigur á Wolves. Eftir
erfiða byrjun hefur Burnley unnið
tvo leiki af síðustu þremur og ekki
tapað í fjórum leikjum í röð og að-
eins einum af síðustu sex. Jóhann
Berg Guðmundsson lék ekki með
Burnley vegna meiðsla. Chris Wood
og Ashley Barnes skoruðu mörk
Burnley.
AFP
Mark Tammy Abraham skorar framhjá Lukasz Fabianski í gærkvöldi.
Chelsea fagnaði
sigri í Lundúnaslag
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Norska meistaraliðið Vålerenga
skýrði frá því í gær að það hefði
samið við hina 17 ára gömlu knatt-
spyrnustúlku Amöndu Jacobsen
Andradóttur til þriggja ára en hún
kemur til félagsins frá Nord-
sjælland í Danmörku.
Þar með eru tvær íslenskar
knattspyrnukonur hjá Vålerenga
en Ingibjörg Sigurðardóttir varð
meistari og bikarmeistari með lið-
inu í ár og var kjörin besti leik-
maður úrvalsdeildarinnar.
Amanda er sögð norsk-íslensk á
heimasíðu Vålerenga, enda er hún
fædd í Molde og bjó þar til fimm ára
aldurs en Andri Sigþórsson faðir
hennar var leikmaður með Molde á
árunum 2001 til 2003 og bjó þar
áfram næstu ár á eftir.
Hún lék annars með yngri flokk-
um Vals til ársins 2019 en segir frá
því á heimasíðu Vålerenga að hún
hafi komið til Óslóar þegar hún var
13 og 14 ára gömul og æft um skeið
hjá félaginu. „Það var mjög góð
upplifun og ég fékk góða innsýn í
félagið. Ég hef líka séð marga leiki
með liðinu í haust og veit að það
spilar góðan fótbolta,“ segir Am-
anda á heimasíðunni.
Hún fór til Danmerkur síðasta
vetur og var fyrst í röðum meist-
araliðsins Fortuna Hjörring en
gekk til liðs við Nordsjælland síð-
asta sumar. Þar fékk hún sitt fyrsta
tækifæri í meistaraflokki og lék
átta leiki með liðinu í dönsku úr-
valsdeildinni á fyrri hluta yfir-
standandi tímabils og skoraði eitt
mark.
Amanda hefur leikið 12 leiki með
U16 og U17 ára landsliðum Íslands
og skorað í þeim 10 mörk.
Amanda samdi við
norsku meistarana
Ljósmynd/Vålerenga
Noregur Amanda Andradóttir
skrifaði undir hjá Vålerenga.