Tölvumál - 01.01.2017, Blaðsíða 32

Tölvumál - 01.01.2017, Blaðsíða 32
32 SKÝJAGLEYPIR - FINGRAFÖR Í SKÝINU Theódór Ragnar Gíslason, tæknistjóri hjá Syndis og sérfræðingur í tölvuöryggi Notkun á skýjalausnum (SaaS) fer ört vaxandi[1] og með þeim mikla vexti skapast tækifæri en einnig nýjar áhættur. Undanfarin ár höfum við hjá Syndis unnið að rannsóknarverkefni sem ber heitið Skýjagleypir. Verkefnið snýst um þá staðreynd að fyrirtæki og fólk skilja eftir sig áhugaverð gögn í skýinu án þess að verða þess vör eða átta sig fyllilega á hvaða áhrif það getur haft. Tilgangur verkefnisins er að afla gagna og meta áhrif úr opnum efnisveitum og tengja gögnin saman. Þessi grein fjallar um að vekja upp vitund um þessa hættu og auka meðvitund um mögulegar ógnir í skýinu. Flest fólk er meðvitað um þann fórnarkostnað sem fylgir notkun samfélags­ miðla þar sem við erum í raun að deila viðkvæmum persónuupplýsingum með erlendum stórfyrirtækjum. Við erum söluvaran þar sem okkar áhugamál eða jafnvel skoðanir eru notaðar til að senda okkur “hnitmiðaðar” auglýsingar. Ekki er eingöngu átt við stórfyrirtækin í þessu samhengi því þær viðbætur sem fólk bætir við sitt Facebook svo dæmi sé nefnt, getur verið að safna upplýsingum um þig eða þína vini. Margir eru meðvitaðir um þennan fórnarkostnað en skildi þetta einungis eiga við um hefðbundna samfélagsmiðla eins og Facebook eða Google? SAMFÉLAGSNET FORRITARA Frumgerð Skýjagleypis safnar ítarlegum upplýsingum frá skýjaþjónustu og efnisveitu sem ber nafnið GitHub [2]. GitHub er notað af fyrirtækjum og einstaklingum um allan heim, aðallega forriturum, til að deila frumkóða, upplýsingum og gögnum. Allt er þetta gert í gegnum þessa skýjaþjónustu og að miklu leyti eru þetta opinberar upplýsingar sem allir geta sótt án mikillar fyrirhafnar. Að auki eru allar breytingar vistaðar og aðgengilegar með þægilegu móti. GitHub er jafnframt ört vaxandi [3] þjónusta sem telur nú yfir 20 milljón virkra notenda. Þó GitHub sem slíkt er aðeins kerfi í kringum útgáfustýringu á hugbúnaði, þá hefur þróast samfélagsnet í kringum þessa tilteknu efnisveitu sem forritarar nota fyrir sín verkefni og einnig sem einskonar atvinnuumsókn. Fyrirtæki nota einnig GitHub til að efla þróun á þeirra innri lausnum. Ekki hefur verið birt hversu mikið af gögnum eru geymd á GitHub en ljóst er að um gríðarlegt magn að ræða og þau gögn sem þar má finna skilja eftir sig áhugaverð fingraför. HVAÐA FINGRAFÖR SKILUR ÞÚ EFTIR? Ef skoðað er handahófskennd síða einstaklings á GitHub má lesa ýmislegt um hann eins og mynd 1 sýnir. Sjá má hluti eins og fullt nafn (Nicolas Gallagher), hvar aðilinn býr, hvar hann vinnur (Twitter), hvaða vini hann hefur og hverjum hann fylgist með. Í sjálfu sér er þetta ekkert ólíkt því sem við deilum á hefðbundnum samfélagsmiðlum eins og Facebook og LinkedIn. Ef grannt er skoðað má sjá að þessi aðili er mjög virkur á GitHub og deilir einnig sínum eigin forritum og gögnum í kóðageymslum (e. repositories). Með því að skoða eina slíka geymslu (e. dotfiles) á mynd 2 þá samanstendur hún af skráarsvæði þar sem aðilinn geymir stillingarskrár fyrir það stýrikerfi og hugbúnað sem hann notar. Óháð þessari tilteknu geymslu má einnig lesa ýmislegt eingöngu með því að horfa á innihald geymslunnar. Allar breytingar og viðbætur eru skráðar í atburðaskráningu og með því er hægt að sjá sögu geymslunnar frá því hún var stofnuð sem og innihald hennar frá fyrri tíð. Með því að greina tegundir (e. extensions) skráa á mynd 2 má sjá að um er að ræða aðila sem notar MacOS stýrikerfi. Þetta í sjálfu sér er ekki geimvísindi en ef tekið er tillit til innihalds skráa, þá er fljótlega hægt að átta sig á hvaða hugbúnað aðilinn notar og jafnvel hvaða stillingar eru notaðar í þeim hugbúnaði og á stýrikerfinu. Þessi fingraför safnast svo saman þar til ágætis yfirsýn (e. profile) fæst yfir aðilann þar sem hægt er að segja með ákveðinni vissu ekki bara hvaða stýrikerfi aðilinn notar heldur einnig hvernig aðilinn ber sig að við sín daglegu störf. Það má til dæmis sjá í þessu tilfelli að hann er búinn að deila þeim stillingum sem hann notar á stýrikerfi sínu. Með því að líta í gegnum atburðarskráningu á kóðageymslum þessa einstaklinga á mynd 3 fást enn meiri upplýsingar sem auka innsýn. Með þeim upplýsingum er hægt að átta sig á hegðunarmynstri, tengslaneti, og samhliða því nálgast öll póstföng sem aðilinn hefur notað til að vista breytingar á geymslum í hans eigu. Hægt er að átta sig á tæknilegum áhugamálum forritara (e. technical preferences) og þá til hvaða áhrifavalda aðilinn lítur upp til. Þó þessar upplýsingar virðist ekki mikilvægar við fyrstu sýn þá er slík innsýn gulls ígildi í augum tölvuglæpamanna og mætti jafnvel ætla að slíkar upplýsingar hefðu virði í markaðslegum tilgangi við þá sem vilja höfða til aðila sem hafa tiltekin tæknileg áhugamál.

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.