Tölvumál - 01.01.2017, Blaðsíða 34
34
Fyrsta heildarúttektin á gæðum opinberra vefja, Hvað er spunnið í opinbera
vefi, var framkvæmd árið 2005 og hafa slíkar úttektir verið gerðar annað
hvert ár upp frá því. Í tengslum við úttektina árið 2017 var í annað sinn
gerð sérstök úttekt á öryggi opinberra vefja ríkis og sveitarfélaga.
Markmiðið er að stuðla að auknu öryggi á opinberum vefjum og er unnið
að því með því að afla upplýsinga um öryggi þeirra og koma ábendingum
um hvað þurfi að lagfæra til ábyrgðarmanna og vefstjóra einstakra vefja.
Í mörgum tilfellum er um að ræða atriði sem auðvelt er að ráða bót á
þegar vitneskjan um þau liggur fyrir. Upplýsingar um öryggi einstakra
vefja verða ekki birtar opinberlega, þær verða einungis aðgengilegar þeim
sem vinna að úttektinni og forsvarsmanni/vefstjóra viðkomandi ráðuneytis,
stofnunar eða sveitarfélags.
AÐFERÐIN
Vefirnir voru skannaðir með forritum sem leita að öryggisveikleikum. Þeir
vefir sem taldir eru innihalda sérstaklega viðkvæmar upplýsingar voru
skoðaðir ítarlegar, meðal annars með hliðsjón af þekktri aðferðafræði
sem lýst er í Vefhandbókinni á vef stjórnarráðsins (m.t.t Open Web
Application Security Project (OWASP) top 10 öryggisveikleikum) [1].
Ekki voru framkvæmdar innbrotsprófanir heldur einungis leitað eftir
öryggisveikleikum. Sjá útskýringar á framkvæmd öryggisúttektarinnar á
vef stjórnarráðsins [2].
Áður en framkvæmd verkefnisins hófst var sendur út tölvupóstur á
ábyrgðaraðila opinberra vefja þar sem úttektin var útskýrð og óskað eftir
því að ábyrgðaraðilarnir létu þjónustuaðila sína vita af fyrirhugaðri úttekt.
Að auki var haldinn kynningarfundur fyrir ábyrgðaraðila og þjónustuaðila
þar sem farið var yfir fyrirhugaða úttekt og spurningum svarað.
MAT Á VEIKLEIKUM
Mat á veikleikum er byggt á svokölluðum CVSSgildum (e. Common
Vulnerability Scoring System) þegar þau eru til. Ef þau eru ekki til er byggt
á huglægu mati. Heildarmat á veikleikum vefs tekur mið af „veikasta
hlekknum“ sem finnst á vefnum eða með öðrum orðum stærsta
öryggisveikleikanum sem finnst. Flokkunin sem stuðst var við í þeim
skýrslum sem ábyrgðaraðilar fá í hendur fylgdi eftirfarandi viðmiðum:
CVSS-gildi Mat á veikleikum
7 - 10 Alvarlegir veikleikar
0.1 - 6.9 Veikleikar fundust
0 Ekki fundust veikleikar
FYRIRVARI
Hvort sem veikleikar fundust í öryggisúttektinni eða ekki, er alls ekki tryggt
að öryggisveikleikar séu ekki til staðar. Öryggisúttekt sem þessi er bundin
við umfang, tíma, útgáfu viðkomandi vefkerfis, vefmiðlara og stýrikerfi á
þeim tíma og þeim aðgangi sem prófunaraðili hafði að vefnum. Það er
mikilvægt að endurtaka öryggisúttektir reglulega, sérstaklega þegar
meiriháttar breytingar eru gerðar á vefkerfi eða þegar nýrri virkni er bætt
við eða breytt.
HELSTU ÁHÆTTUÞÆTTIR
Það er mikilvægt að taka fram að helstu áhættuþættirnir sem snúa að
opinberum vefjum eru nákvæmlega sömu áhættuþættir og snúa almennt
að vefjum fyrirtækja og einstaklinga. Þó svo að allar tegundir öryggis
veikleika sem taldir eru upp í OWASP top 10 hafi fundist, þá eru samt
sem áður sumir öryggisveikleikar sem eru líklegri til að vera til staðar en
aðrir. Það eru helst tveir áhættuþættir sem þarf að huga að. Annars vegar
er innsetning á öryggisuppfærslum (fyrir stýrikerfi, vefmiðlara,
vefumsjónarkerfi og íhluti vefumsjónarkerfa) og hins vegar að tryggja að
viðkvæmar upplýsingar (eins og t.d. notandanafn + lykilorð) séu send
yfir dulkóðuð samskipti (HTTPS/TLS).
Í mörgum tilfellum eru áhættan fólgin í því að ábyrgðaraðilar vefja gefi sér
rangar forsendur. Ábyrgðaraðilar vefja gætu ranglega gert ráð fyrir
eftirfarandi þáttum án þess að það sé tekið fram í samningum:
• að hýsingaraðili muni sjá um að setja inn öryggisuppfærslur fyrir
stýri kerfi, vefmiðlara, vefumsjónarkerfið og íhluti vefumsjónarkerfis.
• að framleiðandi vefumsjónarkerfis láti vita ef öryggisveikleikar
finnast í viðkomandi útgáfu af vefumsjónarkerfi.
• að framleiðandi bjóða upp á öryggisuppfærslur á vefumsjónar
kerfi kaupanda að kostnaðarlausu.
• að vefkerfi sé sett upp á öruggan hátt án þess að viðskiptavinur
biðji um það sérstaklega.
Eftir að hafa aðstoðað fjölda opinberra aðila við að bregðast við þeim
ábendingum sem komu úr öryggisúttektinni 2015 ákvað samgöngu og
sveitastjórnarráðuneytið (þá innanríkisráðuneytið) að gefa út drög að
samningsviðauka vegna upplýsingaöryggis. Þessi drög er hægt að finna
á vef stjórnarráðsins [3].
Samningsviðaukinn er átta blaðsíðna skjal sem hugsaður er sem
samningsviðauki við núverandi samninga við þjónustuaðila, hýsingaraðila
og hugbúnaðarhús sem opinberir aðilar eru nú þegar í viðskiptum við.
Þar kemur meðal annars fram krafa á hýsingar og þjónustuaðila að setja
reglulega inn öryggisuppfærslur og að notast ekki við upplýsingakerfi þar
sem framleiðandi er hættur að styðja við þau í formi öryggisuppfærslna.
TÆKIFÆRI FRAMUNDAN
Með tilliti til nýrra reglna og reglugerða (GDPR, NIS tilskipun, o.fl.) þar
sem miklar sektir geta legið við broti gegn ákvæðum í nýju löggjöfinni
(t.d. allt að 4% af ársveltu í tilfelli nýju persónuverndarreglugerðarinnar)
eru mikil tækifæri fyrir hýsingaraðila, hugbúnaðarhús, þjónustuaðila,
opinberaaðila og almenn fyrirtæki að huga að rekstraröryggismálum. Allir
geta skoðað samnings viðaukann og tileinkað sér þær stýringar sem
taldar eru upp þar auk þess að nota samningsviðaukann eða þætti úr
honum í samningum sínum við birgja og aðra ytri aðila.
ÚTTEKT Á ÖRYGGI
OPINBERRA VEFJA
2017
Svavar Ingi Hermannsson, sérfræðingur í upplýsingaöryggi
og Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri Samgöngu og
sveitarstjórnarráðuneytinu