Tölvumál - 01.01.2017, Blaðsíða 46

Tölvumál - 01.01.2017, Blaðsíða 46
46 Vetrarstarfið er nú komið af stað af fullum krafti og sjá Arnheiður Guðmundsdóttir og Hildur Rut Halblaub um alla þræði starf sem­ innar. Mörg járn eru í eldinum að venju og því nóg af verkefnum framundan hjá Ský. Þar sem félagið verður 50 ára í apríl 2018 ákvað stjórn Ský að fara í stefnumótunarvinnu og skerpa á starfseminni til framtíðar og verður niðurstaða þeirrar vinnu kynnt síðar í vetur. Stefnt er að því að halda upp á afmælið og fagna í leiðinni útkomu bókar um tölvuvæðingu á Íslandi 1964­2014 en söguna er nú þegar hægt að skoða á vefsvæðinu sky.is og óskum við enn og aftur eftir myndum til að skreyta bókina. Myndirnar þurfa að vera í góðri upplausn og leyfi höfundar að fylgja með. Ákveðið var að taka saman söguna þar sem 50 ár voru liðin frá því að fyrsta alvöru tölvan kom til landsins. Reynt er að stikla á stóru um það sem gerðist á þessum árum og er sögunni skipt í fimm 10 ára tímabil. Ekki er ætlunin að telja upp öll verkefni, fyrirtæki eða aðila sem komu að verkinu en hins vegar erum við að safna saman lista yfir þau fyrirtæki sem tengjast tölvugeiranum á þessum árum ásamt 2­3 setningum um fyrirtækið og setjum á vefinn. Allar fyrirspurnir, myndir og annað má senda á sky@sky. is. Ýmis önnur verkefni eru í gangi hjá félaginu fyrir utan að halda viðburði. Tímaritið Tölvumál hefur verið gefið út frá árinu 1976, árlega á prenti en vikulega er birt ný grein í Vefútgáfu Tölvumála á forsíðu www.sky.is. Þar geta allir sent inn greinar og pistla en þeir mega vera um hvaða efni sem er tengdu tölvu­ eða tæknimálum. Árlega veitir félagið Upplýsinga­ tækniverðlaun Ský og á aðalfundum félagsins eru heiðursfélagar tilnefndir þegar tilefni er til. Helstu verkefni innanlands eru að halda fróðlega viðburði fyrir félagsmenn og aðra í tengslaneti Ský og eru 2­3 fræðsluviðburðir í hverjum mánuði yfir vetrartímann. Stærsti viðburðurinn er eins og áður UTmessan sem félagið setti af stað 2011 þar sem vöntun var á stórum óháðum tölvu­ og tækniviðburði sem felur í sér metnaðarfulla ráðstefnu og sýningu á helstu tækni og nýjungum sem fyrirtæki landsins tengdum tölvugeiranum vinna við. Megintilgangur UTmessunnar er að vekja athygli á hve mikil gróska er í tölvu­ og tæknigeiranum með það markmið að hvetja ungt fólk til að velja sér tæknigreinar sem framtíðar starf. UTmessan hefur vakið athygli erlendis þar sem öll Evrópulönd glíma við sama vanda en mikil vöntun er á tölvufólki um allan heim í nánustu framtíð. Óhætt er að segja að UTmessunni hafi verið tekið vel frá upphafi og nú er svo komið að erlendir fyrirlesar sýna frumkvæði að því að senda inn tillögur að fyrirlestrum, erlendir gestir farnir að mæta til landsins á UTmessuna og síðast en ekki síst eru erlend fyrirtæki farin að sækjast eftir að vera á sýningarsvæðinu. Það er kærkomin viðbót við gífurlega góðann og jákvæðan stuðning allra þeirra flottu íslensku fyrirtækja og skóla sem taka þátt í UTmessunni og erum við löngu komin að þeim tímamótum að Harpa okkar glæsilega ráðstefnuhús hefur ekki nóg pláss til að taka á móti öllum þeim sem vilja vera á sýningarsvæði UTmessunnar en erfitt er að finna aðra aðstöðu þar sem ráðstefnusalir og sýningarsvæði eru á sama stað. Við leitumst við að reyna að koma öllum fyrir en því miður hefur selst upp bæði á ráðstefnuna og sýningarsvæðið löngu fyrir UTmessu. Ský er aðili að evrópsku samtökunum CEPIS en það er félag með öllum tölvufélögum í Evrópu. Þar starfa nokkrir faghópar og höfum við verið virk innan Women in ICT, Education in ICT og Ethics in ICT. Þar höfum við lagt fram tillögur og verkefni sem Evrópusambandið hefur oftar en ekki tekið áfram í sitt starf en öll þessi málefni eru heit í fleiri löndum en hér á Íslandi. Forritun sem skyldufag í grunnskólum er t.d. eitt af því sem öll löndin eru að berjast fyrir og því ekki séríslenskt að pressa á menntayfirvöld með það. Eitt af þeim verkefnum sem við tengjumst í gegnum CEPIS er að halda í apríl ár hvert „Girls in ICT Day“ og höfum við verið þátttakendur í því á Íslandi með Háskólanum í Reykjavík og fleiri aðilum síðustu ár. Þar er einn eftirmiðdagur tekinn í að bjóða stelpum í ákveðnum árgangi að mæta á stutt námskeið tengd tölvunarfræðum og svo fara þær í heimsókn og leysa skemmtileg verkefni hjá tölvufyrirtækjum í Reykjavík. Dagurinn í ár tókst vel og vonandi tókst að koma tölvugeiranum á blað hjá stelpunum þegar að því kemur að þær velji sér framtíðarmenntun og starfsvettvang. Síðustu 2 ár höfum við tekið þátt í alþjóðlegu verkefni sem heitir BEBRAS „International Challenge on Informatics and Computational Thinking“ (bebras þýðir bifur, enska heitið beaver) en það miðar að því að árlega keyra öll lönd í heiminum í eina viku verkefni þar sem krakkar á aldrinum 6­18 ára leysa þrautir á vef sem eru uppbyggðar eins og forritun, þ.e. þrautir sem fá krakka til að hugsa eins og þau væru að forrita en þrautirnar eru ekki forritun sem slík. Síðasta ár tóku 18 skólar á Íslandi þátt, 1875 nemendur og gaman að segja frá því að verkefnið tókst vel og stelpurnar sem tóku þátt fleiri en strákarnir enda tölvugeirinn einn af þeim geirum sem hentar báðum kynjum. Vikuna 6. – 10. nóvember verður BEBRAS keyrt og geta allir skólar sem vilja skráð sig í gegnum www.bebras.is. Félagið vinnur náið með ráðuneytum og fyrirtækjum landsins og er Ský með fulltrúa í stjórn Persónuverndar skv. lögum en auk þess eru félagsmenn oft kallaðir til verkefna svo sem vinnuhóp um landsumgjörð og fleira í þeim dúr. Það er mikilvægt að halda fagmennsku félagsins áfram enda er Ský óháð „non­profit“ félag stofnað árið 1968 og hefur síðan þá verið í forsvari og fararbroddi sem málsvari allra þeirra sem vinna að eða hafa áhuga á tölvumálum. Langar mig að þakka sérstaklega þeim sem taka þátt fyrir hönd félagsins í verkefnunum því oftar en ekki er um ólaunað starf að ræða. Að lokum er vert að nefna að stjórnir faghópa, orðanefnd og ritnefnd vinna ötull starf sem heldur félaginu gangandi og mikill hugur í fólki. Allt starf Ský er unnið undir dyggri stjórn félagsins en þar er úrvalslið sem er mjög vel tengt í tölvugeirann og stútfullt af skemmtilegum hugmyndum um félagsstarfið. Hér sjáið þið mynd af þeim sem skipa stjórnina. Ég hvet ykkur til að vera í sambandi ef eitthvað er og einnig að tengjast Ský á Facebook, LinkedIn og Twitter í gegnum forsíðu sky.is og taka þátt í umræðum þar. Sjáumst á viðburðum í vetur. FRÉTTIR AF STARFSEMI SKÝ Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ský Stjórn Ský 2017-2018

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.