Tölvumál - 01.01.2019, Side 12
12
ER FJÓRÐA IÐNBYLTINGIN BYRJUÐ?
Fram eru komin fjöldamörg dæmi þar sem verið er að nýta tæknina til
að einfalda og straumlínulaga ferla. Ávinningurinn felst í samlegðaráhrifum
þar sem nánast öll ferli sem nýta stafræn gögn og geta nýtt sér
gervigreindartækni umbreytast í sjálfvirk ferli. Með aukinni sjálfvirknivæðingu
er hægt að nýta vélar meira í erfiðisvinnu, minnka líkurnar á mannlegum
mistökum og almennt auðvelda hversdagslega hluti. Tölvur vinna hraðar
en manneskjur við úrvinnslu gagna og er tilvalið að nýta slíka tækni þegar
kemur að flóknum útreikningum, greiningu mikils magns af gögnum, leita
eftir mynstrum o.s.frv.
Í tryggingageiranum eru skrifstofuþjarkar (e. Robotic Process Automation,
RPA) nýttir, þ.e. tækni byggð á gervigreind, þar sem hugbúnaðurinn
hermir eftir þeirri vinnu starfsmannsins sem krefst endurtekninga og leysir
þar af leiðandi starfsmanninn af hólmi. Líklegt er að slík notkun á
gervigreind muni verða sú algengasta þegar fram líða stundir. Fyrirtæki
í tryggingatækni (e. InsurTech) ásamt sumum rótgrónum tryggingafélögum
eru farin að bjóða sérsniðin tilboð á einungis 90 sekúndum byggð á
stöðluðum spurningum. Einnig geta tryggingafélög boðið upp á
heimilistryggingu þar sem leka- og hitaskynjarar fylgja með tryggingunni
og tryggingafyrirtækið fær tilkynningar frá skynjaranum þegar tjón á sér
stað. Nýjustu dæmin eru tryggingatilboð byggð á upplýsingum úr
snjallúrum fólks. Fólk sem hreyfir sig meira fer þannig í einn áhættuflokk
en fólk með púls yfir meðallagi fer í annan áhættuflokk. Einnig þekkist að
hegðun á samfélagsmiðlum sé notuð við að útbúa tilboð í tryggingar.
Þannig geti fólk sem notar mikið af upphrópunarmerkjum í færslum verið
líklegra til að vera stressað og þar af leiðandi í hættu á að ávinna sér
tiltekna sjúkdóma. Dæmin eru orðin óteljandi.
Fjölmörg tækifæri eru til tæknivæðingar í fjármálaþjónustu. Þannig hefur
heilmikil breyting orðið á allri virðiskeðju fjármálaþjónustu en sögulega
hafa fjármálafyrirtæki stýrt henni allri. Samkeppnisumhverfi rótgróinna
fjármálafyrirtækja hefur þannig breyst og nú keppa þau við fjártæknifyrirtæki,
fjarskiptafyrirtæki og alþjóðlega tæknirisa sem þjóna mörkuðum sem
fjármálafyrirtækin hafa hingað til ekki þjónað áður eða þjónað á óskilvirkan
hátt. Í þróun þessarar nýju fjármálaþjónustu eru upplýsingar lykilbreytan
og nýju aðilarnir nýta sér upplýsingar, tækni og internetið til að bjóða
notendum upp á nýjungar, sveigjanleika og persónulegri þjónustu.
FJÓRÐA
IÐNBYLTINGIN –
ROBOCALYPSE
EÐA TÆKIFÆRI?
Hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðin stór? Spurning sem við spyrjum
gjarnan, en er þetta spurning sem einhver mun geta svarað? Það eru
miklar líkur á því að börn í dag muni vinna störf sem ekki eru enn orðin
til, og vinnumarkaðurinn eins og við þekkjum hann mun eflaust vera allt
annar í ljósi örra tæknibreytinga. Samkvæmt skýrslunni Ísland og fjórða
iðnbyltingin sem unnin var fyrir Forsætisráðuneytið1 eru um 28% starfa
á íslenskum vinnumarkaði, miðað við árið 2017, sem eru talin vera mjög
líkleg til sjálfvirknivæðingar á næstu tíu til fimmtán árum. Líkt og þessar
tölur gefa til kynna, þá er líklegt að töluverður fjöldi starfa verði fyrir áhrifum
fjórðu iðnbyltingarinnar og því áhugavert að skoða tækifæri og áskoranir
tengdar því. Þó sumir líti á fjórðu iðnbyltinguna sem ógn við ákveðna
tegund starfa og haldi að vélmennin taki hreinlega yfir, eins og hálfgert
Robocalypse, felur hún einnig í sér fjölda tækifæra fyrir einstaklinga,
atvinnulífið og þjóðfélagið í heild.
HVAÐ ER FJÓRÐA IÐNBYLTINGIN?
Þriðja iðnbyltingin gekk út á að tæknivæða störf en á sama tíma þurfti
áfram mannafla til að vinna verkin. Fjórða iðnbyltingin byggir hins vegar
á stafrænum grunni og gengur út á að tengja saman þá tækni sem nú
þegar er til staðar og minnka þar af leiðandi þörfina fyrir inngrip mannsins.
Mannfólkið fer því úr því að stýra tækjunum yfir í að þróa og viðhalda
þeirri tækni sem nú er nýtt í að leysa verkefni. Þar er aðallega átt við
gervigreind, róbótatækni (e. robotics), sjálfkeyrandi bíla, internet hlutanna
(e. internet of Things, IoT), bálkakeðjur (e. blockchain), sjálfvirknivæðingu
og fleira sem mun líklega valda víðtækum samfélagsbreytingum á næstu
árum og áratugum. Breytingarnar þurfa samt ekki allar að verða jafn
róttækar og sjálfkeyrandi bílar. Gervigreind getur t.a.m. bætt ferla í
fyrirtækjum sem nú eru framkvæmdir af fólki. Má þar nefna dæmi líkt og
mynstursgreiningu og áætlanagerð, meðal annars til að greina birgðastöðu,
sem getur verið flókið og tímafrekt ferli. Eitt er víst að ólíkt fyrri iðnbyltingum
gengur sú fjórða mun hraðar yfir en áhrifin verða að öllum líkindum mun
víðtækari.
1 Ísland og fjórða iðnbyltingin, Forsætisráðuneytið, febrúar 2019
Eva M. Kristjánsdóttir, Helena Pálsdóttir, Stella Thors,
sérfræðingar á áhættustýringu upplýsingakerfa hjá KPMG