Tölvumál - 01.01.2019, Blaðsíða 13
13
Rótgrónu fjármálafyrirtækin þurfa að aðlagast þessu nýja vistkerfi sem
samanstendur af gervigreind, bálkakeðjum og fleiru. Eitt er víst að fjórða
iðnbyltingin býður upp á tækifæri til að breyta gögnum í upplýsingar sem
skapa virði fyrir notendur í formi persónulegri og þægilegri þjónustu.
MEÐ TÆKNIBREYTINGUM SKAPAST NÝJAR
ÁSKORANIR
Fjórða iðnbyltingin býður upp á ótalmörg tækifæri en henni fylgja einnig
fjölmargar áskoranir. Þó tækniþróunin sé óhjákvæmileg má ekki vanmeta
mikilvægi mannlega þáttarins, s.s. þegar kemur að gagnaöryggi, netöryggi
og eftirliti. Vélar hafa ekki tilfinningar og taka einungis ákvarðanir
út frá þeim gögnum sem þær hafa aðgang að og lesa ekki í
aðstæður á sama hátt og manneskja gerir. Framkvæmd ýmissa
verkefna er komin yfir á vélar, sem hugsa ekki eins og mannfólk, en þá
vaknar spurningin: hver ber þá ábyrgð á þeim aðgerðum sem þær
framkvæma? Það hefur reynst erfitt að koma sjálfkeyrandi bílum á göturnar
þar sem það hefur verið deilumál hver beri ábyrgðina ef slíkur bíll keyrir
á og jafnvel veldur manntjóni. Er það sá sem sat í bílnum, sá sem framleiddi
hann eða sá sem þróaði og/eða prófaði hugbúnaðinn sem stýrir honum?
Í framhaldi af fyrrnefndu dæmi af tryggingamarkaði getur einnig komið
til þess að verðlagning verði byggð á fáum þáttum eða spurningum sem
leitt gætu til hlutdrægni. Almennar spurningar gætu leitt til að fólk túlki
spurningar með mismunandi hætti. Snjallúrið greinir kannski að notandinn
sé með fínan púls og að hann stundi reglulega hreyfingu, en skynjar hins
vegar ekki óhollt mataræði eða reykingar. Þannig ákvörðunarferli sem
væri einungis í höndum tölvukerfa gætu leitt til flókinna álitamála. Þótt
fjórða iðnbyltingin muni tvímælalaust hafa áhrif á vinnumarkaðinn þá
verður alltaf þörf fyrir mannlega þáttinn. Sem dæmi má nefna að Amazon
notar vélmenni í vöruhúsunum en það er alltaf mannfólk sem hefur umsjón
með þeim.
Í dag nýtum við netið mjög mikið. Ótrúlegustu tæki eru nettengd og
aðgengileg allan sólarhringinn, allan ársins hring. Verslun, afþreying,
samskipti og samgöngur eru aðgengilegar í gegnum farsíma. Mikið af
upplýsingum er því safnað um okkur og þær svo greindar og nýttar til
að veita okkur frekari þjónustu sem er sniðin að okkar þörfum. En hvað
verður um þessi gögn? Það er mikilvægt að huga að öryggi upplýsinganna.
Sem notendur þurfum við að gera okkur grein fyrir því að það sem við
teljum vera frítt á netinu erum við oftast að borga fyrir með aðgengi að
upplýsingum um okkur. Oftast eru þetta miklu meiri upplýsingar en fólk
almennt gerir sér grein fyrir og jafnvel eru þær upplýsingar seldar áfram
til þriðja aðila. Það kannast flestir við það að samþykkja skilmála á
snjallsímaforriti án þess að lesa hvað í þeim stendur. Notendur þurfa að
vera meðvitaðir um hvað þeir eru að láta af hendi þegar skilmálar eru
samþykktir.
Með aukinni tæknivæðingu og gagnaöflun eykst þörfin á skilvirku
öryggiseftirliti. Ný tækni er nýr vettvangur fyrir öryggisbrot og mikið magn
af gögnum í húfi. Með tilkomu internet hlutanna eru fleiri og fleiri heimilistæki
orðin samtengd og nettengd, t.d. snjall-heimilistæki eins og ísskápar,
ryksugur og þvottavélar. Þar með opnast leið fyrir óprúttna aðila inn á
heimili okkar. Það sama á við um fyrirtæki, en örugg innleiðing á
snjalltækjum er enn eitt viðfangsefni fyrir stjórnendur og mikið í húfi og
nauðsynlegt að rétt sé staðið að hlutunum. Fyrir framleiðendur þessara
snjalllausna og þeirra fyrirtækja sem eru að þróa eigin lausnir, er því
mikilvægt að huga vel að öryggismálum snemma í þróunarferlinu og
tryggja viðvarandi eftirlit. Það er einnig mikilvægt að viðhafa virkt og
fyrirbyggjandi eftirlitsumhverfi og viðbúnaðarumgjörð til að lágmarka
líkurnar á að áhættur raungerist. Á sama tíma er mikilvægt fyrir notendur
að vera meðvitaðir um áhættur tengdum þessum tækninýjungum.
LOKAORÐ
Það er ljóst að verkefnin tengd fjórðu iðnbyltingunni eru fjölmörg, krefjast
mikillar vinnu, stefnubreytingar og gífurlegrar þekkingar þeirra aðila sem
eru að innleiða hina nýju tækni. Eins ógnvekjandi og þessi bylting hljómar
þá telja einungis 16% forstjóra að þeir hafi innleitt gervigreind til að
sjálfvirknivæða ferla, samkvæmt Global CEO Outlook KPMG, 20192.
Þróunin samanstendur ekki af vélmennum sem taka yfir öll störf. Vélmenni
munu ekki sjást á hárgreiðslustofunni og mannfólk mun ekki hætta að
keyra bíla. Þróunin sem á sér stað samanstendur einnig af atriðum sem
fólk tekur ekkert endilega eftir. Til dæmis koma forritin Spotify og Netflix
með tillögur að tónlist og sjónvarpsefni byggt á fyrri notkun. Þessi tækni,
eða vélanám (e. machine learning), sem Spotify og Netflix nýta, einfaldar
hlutina og býður upp á virðisaukandi þjónustur. Eins og gerst hefur í fyrri
iðnbyltingum verður alltaf einhver tregða við þróun þeirrar fjórðu, sama
hversu ábatasamar breytingarnar eru. Notendur voru t.d. tregir til að byrja
með við að skrá sig á Netflix og héldu áfram að fara á myndbandaleigur
í ákveðinn tíma. Þegar upp er staðið er þetta spurning um traust og
venjur, að innleiða nýja hluti mun taka tíma og því fleiri sem nýta sér nýja
tækni því meira traust mun skapast. Það þarf ekki að vera slæmt að vélar
leysi af mannshöndina. Því til stuðnings má nefna bankaviðskipti sem í
dag fara að mestu fram á netinu, en áður þurfti fólk að fara í útibúið sitt
til að millifæra og borga reikninga. Nú erum við meira að segja komin
svo langt í þróuninni að viðskiptavinir tala við vélmenni þegar hringt er í
þjónustuborð eða senda skilaboð á bankann. Það sakna líklega fæstir
þess að vera númer 38 í röðinni á þjónustuborðinu eða stressa sig á að
reyna að ná í bankann fyrir fjögur á föstudegi!
Á sama tíma og þessi tæknibylting á sér stað, er ákveðin menningarbylting
í gangi. Það verður alltaf tortryggni í garð breytinga en samhliða þessari
hræðslu venst fólk því að nýta nýja tækni í daglegu lífi og þannig munu
störfin breytast í takt við tækniþróunina. Í dag eru t.d. tífalt fleiri
tölvunarfræðingar en þegar þriðja iðnbyltingin átti sér. Börnin nútímans
munu þurfa að tileinka sér annarskonar færni til að vinna störf framtíðarinnar
og því er mikilvægt að breyta áherslum í kennslu í samræmi við það.
Með breytingum verða til nýjar áherslur og áskoranir, en ekki endalok.
2 https://assets.kpmg/content/dam/kpmg/xx/pdf/2019/05/kpmg-global-ceo-
outlook-2019.pdf