Tölvumál - 01.01.2019, Síða 14
14
Í dag eru breyttir tímar, flest gerist öðruvísi en áður og á það líka við um
rekstur tölvukerfa. Við vinnum til að mynda öðruvísi og erum meira á
ferðinni en áður. Við skynjum hraða öðruvísi en áður, það sem tók nokkra
klukkutíma eða daga fyrir einhverjum misserum síðan viljum við nú að
gerist á augabragði. Við notum tækniþjónustu á annan hátt en áður, núna
getum við pantað og afgreitt okkur sjálf með hjálp skýjalausna. Við hugsum
um samstarf á annan hátt þar sem við þurfum ekki lengur að gera allt
sjálf, heldur gerum það sem við erum best í og njótum samstarfs við aðra
sem kunna og geta betur. Þjónusta er í meira mæli orðin eins og önnur
áskrift, við greiðum fyrir klæðskerasniðna upplýsingatækniþjónustu
mánaðarlega sem þýðir að sá kostnaður verður þekktur og því auðveldara
að gera ráð fyrir honum í kostnaðaráætlunum okkar.
Hraði breytinga er svo mikill að það getur reynst stjórnendum fyrirtækja
erfitt að átta sig á þróuninni og bregðast við breyttum aðstæðum. Gera
má ráð fyrir því að yfir 80% af tíma og kostnaði okkar við rekstur tölvukerfa
fari í daglegan rekstur gömlu kerfanna og passa upp á að grænu
ljósin lýsi meðan tæp 20% fara í nýsköpun og þróun. Þó eru dæmi frá
íslenskum fjármálamarkaði þar sem hlutfallið er 97% á móti 3% sem fer
í nýsköpun og þróun. Það er ljóst að flest fyrirtæki vinna að því að snúa
þessum hlutföllum við, en það getur verið kostnaðarsamt að fjárfesta í
nýjum kerfum og innleiða ný kerfi og hugbúnað. En það er einnig ljóst
að það kostar líka að gera ekki neitt. Það er mjög kostnaðarsamt fyrir
fyrirtæki að halda eldri búnaði og gömlum kerfum gangandi, oft með
tilheyrandi þjónustusamningum, rekstri og viðhaldi. Hér eru atriði sem
hafa þarf í huga:
• Tími og lipurð - Hægt er að mæla allt í tíma, t.d. að reikna það
út hvað það tekur langan tíma að reka núverandi kerfi, hvað það
tekur langan tíma að reka nýja lausn og hver væri tíma- og
útgjaldahagræðing ef miðað er við eitt ár mælt í klukkustundum
á ári. Síðan þarf að gera ráð fyrir þeim tíma sem felst í töfum við
að koma vöru á markað. Ennfremur þarf að reikna út hvað það
kostar að veita ekki réttu þjónustuna. Þá þarf að huga að
samkeppnishæfni fyrirtækis varðandi snjallvæðingu á markaði og
rýna í fórnarkostnaðinn við það að nýta ekki sjálfvirkni og
gervigreind.
• Nýting auðlinda - Hægt er að mæla sparnað og framleiðni
starfsmanna í verkefnum og ferlum. Það leiðir til tímasparnaðar,
kostnaðarlækkunar og betri afkomu til langs tíma litið.
Offjárfesting í búnaði sem ætlað er að vaxa með fyrirtækinu, en
er í upphafi stærri en þörf er á, t.d. netþjónar, hugbúnaðarleyfi
og gagnasvæði á hörðum diskum.
• Fjárbinding - Hægt er að flytja t.d. fjárfestingarkostnað yfir í
rekstrarkostnað (sem má eignfæra að hluta) og láta peningana
sem eftir standa vinna í þágu nýsköpunar og þróunar til að ná
betri samkeppnishæfni. Mikilvægt er að hafa skýra áætlun
varðandi þessi mál.
• Áætlunargerð - Fjárfestingar í nýrri upplýsingatækni færast
iðulega sem rekstrarkostnaður í bókhaldi. Umfangið skalast
meira eftir þörfum fyrirtækisins á hverjum tíma sé rekstri
upplýsingatækni úthýst. Kostnaður á hverju tímabili verður
þekktari og áætlunargerð einfaldari.
• Áhættustýring - Meta þarf til fjár hvaða áhrif t.d. niðri-tími,
gagnatap, stolin gögn, öryggisgloppur o.fl. hafa í för með sér.
Jafnframt þarf að huga að áhættustýringu varðandi ímynd
fyrirtækis. Innleiða þarf verkferla varðandi nýju
persónuverndarlögin. Og ekki síst dýrasti kostnaðarliðurinn sem
er að missa samkeppnisforskot á markaði.
Í stað þess að einbeita sér að skilvirkni gömlu tölvukerfanna, daglegum
rekstri og kostnaðarlegri hagræðingu þá væri nær að fagna umbreytingum,
hafa verðmætasköpun að leiðarljósi við rekstur tölvukerfa og hafa skýra
tæknilega framtíðarsýn. Til þess þarf tæknilega leiðtoga og frumkvöðla.
Gömlu gildin er varða rekstur upplýsingatækni eru að verða úrelt. Ungir
neytendur og starfsmenn sem eru að taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði
eru með breytt viðhorf til neyslu og vörumerkja, einnig hvernig þau nýta
þjónustuna. Þau kjósa frekar nýjungar, sveigjanleika, eiginleika og
virðisauka, og eru óhrædd að leita nýrra leiða.
Umbreyting á gildum og viðhorfum gæti þýtt:
- Stöðugleiki verður sveigjanleiki
- Hágæðaþjónusta verður hraðari breytingar
- Langtímafyrirsjáanleiki verður ófyrirsjáanlegt
- Horft er innávið verður horfum út á við
- Kostnaður og skilvirkni tæknideildar verður aukin
verðmætasköpun
- Víðtækar stórar lausnir verður sérsniðnar einfaldari lausnir
strax
- Aðlögun þar sem þörf er á verður sjálfvirkni og gervigreind
- Hefðbundin forrit, nú þegar til verður nýjar skýjalausnir
Ljóst er að gömlu (e. legacy) kerfin verða notuð áfram um eitthvert skeið
en það sem skiptir megin máli í þeim rekstri er hvernig kerfið er nýtt og
hvernig við látum það vinna fyrir okkur.
Hvað er hægt að gera? Það er ekkert #onesizefitsall
Eitt sem hægt er að gera er að úthýsa öllum rekstri til að lækka kostnað
til að hægt sé að fókusera betur á nýsköpun. En þetta er ekki svo einfalt.
Taka þarf ákvörðun um hvað eigi að gera við gögnin, á að setja þau í
almennt ský (e. public cloud) eða er betra að hafa þau í hýsingu hjá
þjónustuaðila í einkaskýi (e. private cloud). Kosturinn við almennt ský er
m.a. gott aðgengi, það er auðvelt að bæta við eða draga úr þjónustu,
einfalda sjálfsafgreiðslu o.fl. Aftur á móti er líklegt að uppitíminn verði ekki
eins mikill og að öryggismálum sé ábótavant á vissan hátt. Einnig er
hætta á að missa ákveðna stjórn á sínum kerfum. Ef farið er með gögnin
í einkaský má búast við meiri uppitíma, meira öryggi gagna, meiri stjórn
á þínu eigin skýi. Ókosturinn gæti verið sá að það getur verði dýrara og
auk þess er meiri þörf á þekkingu og skalanleikinn verður iðulega minni.
Síðan er þriðji kosturinn sem er ört vaxandi en það er blönduð leið eða
Hybrid IT. Það snýst aðallega um það að nýta það besta úr hvorri lausn
fyrir sig. Til að mynda er hægt að hafa póst og afritun í almennu skýi en
öryggismál, þróun og nýsköpun í einkaskýi hjá þjónustuaðila. Í það
minnsta verðum við að tryggja að skapað sé rými og sveigjanleiki til að
auka nýsköpun í fyrirtækinu.
ÞAÐ ER DÝRKEYPT AÐ
GERA EKKI NEITT?
Tryggvi Þorsteinsson, sölustjóri hýsingar og rekstrar hjá Opnum kerfum